Verkfallsaðgerðir lækna og staða heilbrigðiskerfisins almennt, hljóta að leiða huga manna að því að ýmsu þarf að gæta að í heilbrigðiskerfinu og breyta.
Kostnaður við heilbrigðiskerfið er mikill og mun bara aukast á komandi árum. Jafnvel þó að í næstu framtíð verði áframhaldandi hallalaus rekstur ríkissjóðs ásamt niðurgreiðslu skulda verði haldið áfram og að það skapi svigrúm til þess að auka fjárframlög til heilbrigðiskerfisins. Mun það eitt og sér aldrei verða nóg.
Einhver kann að segja að það sé bara hægt að hækka skatta á meðan þessi útgjaldaaukning stendur yfir. En þá hlýt ég að spyrja hvort að það eigi þá að hækka hér skatta árlega næstu 40 -50 árin eða svo? Frekari lántaka ríkissjóðs til þess að standa undir frekari útgjöldum er líka út úr myndinni. Enda mætti líkja slíku við það að ætla að framfleyta sér með lánum frá smálánafyrirtækjum.
Kristinn Karl Brynjarsson, situr í framkvæmdastjórn Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.
Þess vegna þarf að skoða það af fullri alvöru, með hvaða hætti megi reka heilbrigðiskerfið á sem hagkvæmastan hátt. Einkarekstur er ein þeirra leiða sem til greina koma.
Það stendur ekki annað til, en að ríkið greiði hér eftir sem hingað til, að mestu fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem hér er veitt. Menn hafa hins vegar rætt það af fullri alvöru hvort ríkið þurfi endilega að framkvæma alla heilbrigðisþjónustu í landinu.
Það er enginn að tala um að læknar geti sett upp stofur út um allan bæ og ákveðið sjálfir hvað þeir ætli að taka fyrir verkið, heldur mun það alltaf verða þannig að einkareknar læknastofur munu starfa á grundvelli samninga við Sjúkratryggingar Íslands.
Heilbrigðisyfirvöld þurfa því fyrr en seinna að taka ákvörðun um hvaða þætti heilbrigðisþjónustunnar þau telji að hægt sé að koma með útboðum í hendur einkaaðila á grundvelli samninga við SÍ. Engir samningar verði þó gerðir nema að uppfylltum tveim skilyrðum, hið minnsta. Hið fyrra er að sá sem verkefnið fær, treystir sér til þess að framkvæma það fyrir lægri upphæð en ríkið treystir sér að gera. Seinna skilyrðið er svo það, að hlutur sjúklinga í kostnaði má ekki vera meiri en hann er hjá ríkinu.
Gott dæmi um velheppnaðan einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er Heilsugæslustöðin í Salahverfi. Þar starfa læknar á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands, er kveður á um að þeir sinni ákveðnum fjölda sjúklinga fyrir ákveðna upphæð sem er lægri en upphæð fyrir sama fjölda sjúklinga í ríkisrekinni heilsugæslu. Kostnaðarhluti sjúklinga þar er ekki hærri en þeirra er sækja þjónustu á ríkisreknar heilsugæslustöðvar. Auk þess sem að þjónustan í Salahverfi þykir betri, ef eitthvað er, en hjá ríkisreknum heilsugæslum.
Það liggur því beinast við að byrjað yrði á því að leita samninga líka þeim og gerðir voru við stöðina í Salahverfi, um rekstur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og stærri byggðalögum utan þess. Einnig þyrfti að skoða, hvaða aðgerðir eða meðferðir sem ekki krefjast sjúkrahúslegu, væru jafn vel ef ekki betur komið fyrir alla á grundvelli þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands.
Ég er ekki að segja að koma eigi öllu í einkarekstur. En eitt er alveg ljóst, sama hvernig á það er litið, að ríkissjóður mun ekki geta staðið undir óbreyttu rekstrarformi heilbrigðiskerfisins á komandi árum. Það þarf því að skoða þetta allt með opnum huga. Síðan má ekki gleyma því að vandi heilbrigðiskerfisins verður aldrei leystur í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna þarf ætíð að gæta þess að við gerð fjárlaga sé fjármunum forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustu og annarar grunnþjónustu. Auk þess sem menn haldi vöku sinni fyrir frekari breytingum á rekstrarformi heilbrigðisþjónustunnar, eftir því sem efni og aðstæður bjóða upp á.
Enn fremur er það afar mikilvægt að koma hér á fót öflugu allsherjar greiðsluþátttökukerfi sem gengi út á það, að greiðsluþátttaka þeirra sem minnstar tekjur hafa yrði sem allra minnst en ykist eftir því sem tekjur yrðu hærri. Þeir allra tekjuhæstu gætu þurft að greiða nánast allan kostnaðinn. En hægt væri að koma til móts við þá og jafnvel líka þá sem eru ofarlega í miðtekjuþrepinu, með því að bjóða þeim að kaupa tryggingu fyrir þeim kostnaði. Til dæmis í gegnum skattframtalið.