Með þessum skrifum langaði mig að bjóða ráðamönnum með mér í nokkra daga heimsókn til helvítis svona til umhugsunar á meðan blekið er rétt að þorna í ný útprentuðu Excel-skjali. Það lítur allt svo vel út á pappír og glærukynningarnar eru hverri annarri glæsilegri í Hörpu þar sem þau mæra sig í hástert af afrekum sínum korter í kosningar.
Fyrir nokkrum vikum lenti ég í nokkuð alvarlegu slysi, hélt ég. Hver dæmir fyrir sig en eftir fagmannlega aðkomu sjúkraflutningamanna og ferðalag á glerharðri uppblásinni grjónadýnu til að tryggja stabíla og vel skorðaða ferð á bráðamóttöku ligg ég ennþá sjö tímum, nokkrum morfíngjöfum, blóðprufum og myndartökum seinna á sömu dýnu. Fæ ég þær upplýsingar að ég sé með innvortis blæðingar og margbrotinn hrygg, þar af eitt óstabílt brot. Spyr ég hvort það þýði að ég eigi aldrei eftir að ganga framar og var fátt um svör og er mér tjáð að bæklunarlæknar séu að bera saman bækur sínar og aðgerð væntanleg.
Þarna hélt ég að verið væri að kalla út sérfræðinga og undirbúa skurðstofu en svo var ekki. Ég á að bíða hreyfingarlaus í sömu stellingu til að ekki sé áhætta á lömun, eftir skipulögðum aðgerðardegi sérfræðingsins á næstkomandi miðvikudag. Slysið á sér stað á mánudegi og eftir hádegi á miðvikudegi í beinu framhaldi af annarri löngu fyrirfram skipulagðri aðgerð sérfræðingsins um morguninn fer ég í aðgerðina.
Að svo búnu taka við fjórir hjúkrunarfræðingar, setja upp þvaglegg þó ekki án vandkvæða og nokkurra tilrauna, koma mér með tólum og tækjum yfir í rúm með sérstakri dýnu með litlum hreyfanlegum lofthólfum sem gerði lífið örlítið bærilegra. Trúið mér þarna verða sekúndur af klukkustundum, klukkustundir að dögum, dagar að mánuðum í þessum vítiskvölum. Bað ég um svæfingu fram að aðgerð en var svarað neitandi. Nefni þá hvort ekki yrði laumað að mér töflum svo ég fengi hreinlega að sofna svefninum langa, því það væri töluvert mannúðlegra. Það var einfaldlega óyfirstíganlegt verkefni að eiga lifa af tvo daga í helvíti.
Aðfaranótt aðgerðar fæ ég alveg tryllt ofsakvíðakast og áður óþekkta innilokunarkennd. Hef ég þá áður farið nær dauða en lífi í gegnum bráðaaðgerð á Landspítalanum. Þarna þarf ég hins vegar að taka á öllum mínum viljastyrk til að hreyfa mig ekki þar sem ég er með óstabílt brot hársbreidd frá mænuskaða. Kemur starfsmaður og strýkur rólega á mér höndina og talar fallega til mín til að róa mig og verður mér út um róandi lyf. Í kjölfarið á minni dvöl var ljósið kveikt og opinn hurð sem þýddi sársaukafull hróp frá einmana kvöldum manni á c.a. níræðis aldri allar nætur kallandi eftir mömmu sinni. Hann rétt eins og ég og fleiri liggjandi, ósjálfbjarga bíðandi eftir aðgerðartíma. Loksins, eftir lengstu og kvalafyllstu daga í mínu lífi, er mér er rúllað upp á skurðstofu. Þar er klipptur utan af mér fatnaðurinn þar sem sandur, drulla og litlir steinar togast undan mér í leiðinni. Var ég svæfð strax til að frelsa mig úr þessu víti þar sem hver löng sekúnda skiptir öllu máli. Þegar ég vakna eftir spengingu á tveimur stöðum í gegnum 6 hryggjarliði leið mér mun betur þrátt fyrir þetta stóra inngrip.
Þarna var ljóst að ég get staðið í lappirnar og er ég einstaklega þakklát færum skurðlækni ásamt tilheyrandi teymi fyrir það kraftaverk að geta notað tvær jafnfljótar og gengið um með hjálp kærastans (göngugrind með rafmagnspumpu) stútfull af læknastáli. Í kjölfar aðgerðar, þó svo að fagmannlega var gætt að öllum lífsmörkum reglulega með endalausum sprautum, blóðprufum, lyfjagjöfum í æð og tilheyrandi, kemur í ljós að blóðþrýstingurinn er orðinn of lágur þannig ekki verður hjá blóðgjöf komist. Er ég þarna komin með hita og magastarfsemin í lamasessi eins og getur verið algengur fylgikvilli eftir svæfingu og sterkar lyfjagjafir.
Ég verð bara veikari og veikari, æli kröftuglega í tíma og ótíma yfir mig alla og í rúmið. Það þurfti að skipta á rúminu og fatnaði nokkrum sinnum á sólarhring þar sem þræða þurfti nálar og slöngur í gegnum ermar og skálmar með mig skjálfandi eins og hríslu gjörsamlega búin á því. Þetta ástand skildist mér að væri að öllum líkum hægt að skrifa á þessa bið á eftir aðgerðinni þar sem þekkt aukaverkun af svæfingu, morfíns, vöðvaslakandi og róandi er verkfall á meltingarkerfinu. Það kom til tals hvort hugsanlega væri um varanleg lömun í görnunum að ræða. Ég er einnig komin með algjört morfínóþol eða í mínum huga eitrun og harðneita ég að taka inn eða fá í æð þessi efni sem gerðu slæmt ástand verra.
Þá tók við hefðbundin verkjalyf og harkan sex, maginn ennþá lamaður. Lít ég út eins og sex mánaða gengin með tvíbura með tilheyrandi þrýsting á alla áverka og óbærilegum kvölum. Hérna hefst nýtt ferðalag til helvítis sem varir í nokkra daga. Verður mér til happs á sjöunda degi frá slysi að ungur og staðfastur hjúkrunarfræðingur ætlar sér að fara með mér í gegnum þessa erfiðu fæðingu eins og hún kallaði það. Hangandi á kærastanum, skröltandi um ganga deildarinnar öllum tímum sólarhrings í sárum kvölum gjörsamlega útkeyrð og örvæntingarfull að reyna koma kerfinu af stað. Ég spyr hvort maginn gæti hreinlega sprungið. Ég fékk í kjölfarið heimsókn af lækni og var gefin öll þau laxerandi meðul sem til eru í bókinni í alla enda. Tæpum sólarhring seinna, ekki búin að hafa hægðir í 8 daga frá slysi fer loksins eitthvað af stað. Þessir hressilegu magakrampar voru svona rétt til að toppa þetta allt saman á milli salernisheimsókna með félagsskap af ungum sjúkraliða af hinu kyninu til að taka niður um mig buxur og bleyju, tilbúinn að skeina mér eftir þörfum en sú persónulega geta var ekki fyrir hendi. Þó svo þessi barátta hefði átt sér stað á miðjum velli á leik Manchester United og Liverpool með tilheyrandi áhorfendum þá hefði mér ekki getað staðið meira á sama.
Bíð ég nú eftir svörum frá hárbeittum pennum og ráðamönnum sem mæra þetta heilbrigðiskerfi á heimsklassa því aldrei hefur meiru verið varið í málaflokkinn. Ég kalla allavega eftir skýringu hvað þarf til í dag til þess að áverkar kallist bráðaástand og meðhöndlaðir sem slíkir. Eða tilheyrir bara mín upplifum heimsklassa heilbrigðiskerfi? Ég er ekki að hnýta í fagkunnáttu heilbrigðisstarfsfólksins sem ég persónulega tel að flest séu að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum. Eru okkar sérfræðingar daglega að velja á milli pestar og kóleru og því mennskan á algjöru undanhaldi vegna álags og anna? Á meðan COVID-test og hótel eru niðurgreidd fyrir ferðamenn með skattfé landans í heimsfaraldri gekk allt út á það á sama tíma að koma mér stórslasaði og veikri heim sem allra fyrst með kvíðann einn í farteskinu. Ég var ekki sérlega vongóð um að vera sjálfbær þegar sá dagur rynni upp að ég kæmist upp úr rúminu, hvað þá á salernið sjálf. Er ríkið tilbúið að greiða lögfræðing fleiri hundruð þúsunda króna til að verja mín mannréttindi rétt eins og ferðamanna sem ekki vildu á hótel í sóttkví?
Var ég í framhaldi send á Reykjalund, óhagsmunadrifna sjálfseignarstofnun. Þar tóku við mér bæði yndislegt og hlýlegt starfsfólk.
Er ég í dag föst í viðjum martraða og vakna sveitt á næturnar og æði um gólf að reyna ná stjórn á nýtilkominni innilokunarkend og kvíða. Samtryggingin sem tekur við mér þennan mánuðinn þar sem ég að öllu óvinnufær hljómar upp á heilar 57.780 krónur á mánuði það sem eftir er árs frá Tryggingastofnun ríkisins eftir margra áratuga greiðslu í skatta og gjöld. Eftir skerðingu er lífeyrissjóðsgreiðsla rúmlega 160.000 krónur – samtals 220.000 krónur í ráðstöfunarfé. Sem einstæð móðir 18 og 20 ára barna minna verða þau sem ígildi maka í nafni laganna og skerða framfærslu um tæpar 60.000 krónur á mánuði. Norræna velferðarkerfið og jöfnuður sem við þekktum fyrir tíð sjálfakandi ráðamanna sem keppast við að ríkisstyrkja elítu auðróna ofan á arðgreiðslur þeirra er bara gömul staðreynd og löngu liðin tíð.
Vil ég nýta tækifærið að biðja kjósendur um að hafa það hugfast í kjörklefanum í haust að allir geta lent í slysi eða misst heilsuna. Viljum við virkilega svo fjársvelt heilbrigðis- og velferðarkerfi, gjörsamlega holað að innan bara til þess að greiða fyrir einkavæðingu? Á arður fárra útvaldra að skipta öllu máli? Á ríkisstyrkta elítan og auðrónarnir með sínu feitu arðgreiðslur og aflandsreikninga að geta keypt sér forgang í röðinni?
Gengur undirrituð frá og með núna með hálft glas af svefntöflum í vasanum svona ef ske kynni að hún skyldi lenda vel strikamerkt og algjörlega ósjálfbjarga í þriðju heimsókn til helvítis.