„Heldurðu að ég skíti peningum?“ sagði mamma eitt sinn við mig í Hagkaup þegar ég bað hana í fimmta skiptið á jafnmörgum mínútum um pókemonpakka. Glansandi pökkunum var stillt upp í augnhæð við afgreiðslukassana og ég, verandi frekt óbermi, ætlaði að sníkja eitthvað út úr búðarferðinni. Helst pókemonspil en haribohlaup hefði dugað. Mér fannst samningatæknin þróuð, en hún dugði þó skammt því mamma var harðari í horn að taka en þríeykið (troika) við samningaborðið.
Nú eru pókemonspilin einhvers staðar gleymd og grafin en frasinn sem þessi pistill er nefndur eftir hefur skotið föstum rótum í huga mínum af einhverri ástæðu. Þegar umræðan um að reisa léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu hófst þá hreinlega æpti þessi frasi, sem endurspeglar ráðdeild heimilisbókhaldsins, á mig: „Halda þeir að skattgreiðendur skíti peningum?“ velti ég fyrir mér.
Ef allar opinberar áætlanir standast (sem þær gera aldrei) mun léttlestarkerfið kosta 90 milljarða. Að framkvæmdum loknum mun svo þurfa að niðurgreiða rekstur léttlestarkerfisins um ókomna framtíð. Stór hluti af þessum kostnaði mun falla á sveitarfélagið sem ég bý í, Reykjavíkurborg, borg sem skuldar 64,5 milljarða og bætti við sig tæpum þremur milljörðum af skuldum á síðasta ári þrátt fyrir að skattar á íbúa væru í hámarki. Og ég meina þetta ekki í retorískum skilningi. Útsvar í Reykjavík er í lögbundnu hámarki og verður ekki hækkað nema með lagabreytingu á Alþingi.
Ég skil vel af hverju það er áhugi á léttlestum. Léttlestir eru smart, módernískar, umhverfisvænar og hljóðlátar. Svo eru þær léttar, eða allavega segir nafnið það. Ég er samt enginn lestarsérfræðingur. Ég veit ekki hver er munurinn á sporvagni, léttlest og snarlest, en ég veit að það er deginum ljósara að þó lestirnar séu léttar verður bagginn þungur fyrir skattgreiðendur.
Hálf milljón á mann
Ef við gefum okkur að kostnaðurinn fari ekki fram úr áætlunum mun hver íbúi höfuðborgarsvæðisins þurfa að greiða 450.000 þúsund krónur í gegnum skatta til að fjármagna framkvæmdina. Fjögurra manna kjarnafjölskylda mun því þurfa greiða 1,8 milljónir króna. Ofan á þetta má síðan eflaust bæta nokkrum hundrað þúsund köllum, því reynsla Íslendinga af opinberum framkvæmdum er sú að kostnaðurinn fer nær alltaf fram úr áætlunum upp á tugi prósenta.
Ennfremur má velta fyrir sér hvort léttlestarkerfi sé góð fjárfesting miðað við aðra samgöngukosti. Fyrir peninginn væri hægt að kaupa 4.500 strætisvagna ef þeir kosta 20 milljónir króna stykkið. Strætókerfið gæti því loksins orðið sambærilegt í gæðum og í Skandinavíu, þar sem strætisvagnar koma með stuttu millibili og eru áreiðanlegri. Þá má einnig hafa í huga að eftir að léttlestarkerfið er byggt verður nær ómögulegt að endurbæta það ef leiðakerfið þjónar illa þörfum neytenda. Annar valkostur væri að nota peninginn til að greiða niður skuldir borgarsjóðs og gera þannig framtíðarkynslóðum greiða.
Svo kemur óvinsælasti kosturinn hér að lokum. Það væri auðvitað best að leyfa skattgreiðendum að eyða þessum peningum sjálfir í það sem þeir girnast, enda sköpuðu þeir verðmætin en ekki ríkisbáknið sem þeir bera á öxlum sínum. Ef til vill mun síðan markaðurinn leysa samgönguvandamál höfuðborgarsvæðisins með sjálfsakandi bílum sem eru knúnir áfram með rafmagni.
Þá væri frekar súrt að hafa eytt yfir 100 milljörðum í léttlestarkerfi.
Höfundur er formaður Heimdallar.