Margir virðast telja að það séu alltaf vitni að misnotkun og nauðgunum, en stór hluti slíkra atvika gerist án vitna. Þær mismeðferðir gerast oft á heimilum þegar vansælir foreldrar fá útrás fyrir vonbrigðum sínum um eitthvað í lífi sínu á börnum sínum. Hegðun sem er ekki leiðbeinandi heldur rífur niður.
En hér fer ég ekki í tjáningu um nauðgun sem slíka, þó að hugtakið nauðgun sé hugsanlega teygjanlegt yfir önnur atvik sem neyða fólk til að lifa það sem þau kusu ekki sjálf.
Mismeðferðir til dæmis gerast annað hvort í barsmíðum á líkamanum, eða ósýnilegu leiðinni með munnlegum árásum. Orðum sem hellt er að barni í svekkelsi og hatri. Hatri sem stundum er meira sjálfshatur sem barnið skilur auðvitað ekki og tekur inn sem hatur foreldris á sér. Orka sem tætir niður allt sjálfvirði þeirra. Um aldir var afneitun um þann veruleika að orð gætu sært en það er sem betur fer að enda.
Þegar ég heyrði orð manns sem kom fram í þættinum „Voice“ hér í Ástralíu þann 23. ágúst 2021 um mikilvægi þess að einstaklingar ættu rétt á að fá að upplifa hverjir þeir væru. Þá kallaði það á upplifun þeirra sem hafa farið rækilega á mis við það að fá að ákveða mikilvægustu atriði lífs síns.
Ég var svo sannarlega ein af þeim sem varð að finna það út sem ég gerði eftir að yfirgefa kringumstæðurnar.
Prestar héldu oft fram afar barnalegum hugmyndum um hvernig fólk laðaðist að hvert öðru, og sumir foreldrar hafa talið sig eiga að ráðstafa börnum sínum í hjónabönd. Hlutir sem eru því miður enn að gerast hér og þar í heiminum bæði í þeim svokallaða þriðja heimi, sem og í hinum vestræna þegar foreldrar trúa að slíkt sé í lagi, og telja að þau eigi rétt á að ráðstafa lífi barna sinna út líf sitt og þeirra.
Það hefur verið vegna þess að samfélög sáu börn og unglinga og aðra meira sem þjóna sem ættu að gera það sem aðrir vildu og ætluðu að væri rétt.
Það sem lét og lætur foreldra komast upp með slíkt er goðsögnin sem trúarbrögð héldu að fólki. Það að foreldrar væru eins konar ósnertanlegar og allt að því guðlegar verur og ættu að vera settir á guðastall fyrir að hafa fært þau í heiminn.
Skortur á leyfi til að hafa mikilvæga gagnrýna hugsun á þeim tímum árið 1930 hafði því þær afleiðingar að þau innri sár voru færð yfir á mig áratugum síðar af því að slík reynsla situr í kerfum fólks. Og sat og situr í þeim sem voru mótaðir af því viðhorfi og vanþekkingu á tilfinningum
Spurningin er af hverju hafa þessar stofnanir haldið þessu að þjóðum?
Móðir mín sagði þessi orð við mig. Að það ætti ekki að gagnrýna foreldra af því að það hafði verið sagt við hana sem unga stelpu. Svo varð hún gáttuð þegar ég opnaði mig um viðhorf hennar til mín áratugum eftir að þær árásir áttu sér stað.
Ég var nær fimmtugu þegar ég að lokum hafði þann persónulega styrk til að tjá henni áhrifin á mig sem pirringur hennar yfir tilveru minni hafði gert mér. En ég hafði auðvitað ekki getað opnað munninn um það fyrr en ég var búin að vinna mig frá því að sjá mig frá sýn hennar um mig, og skilja að ég var ekki það sem hún upplifði mig sem.
Sú upplifun hennar var því miður sú sorglega mynd sem varð til af því að tilkoma mín í líf hennar eyðilagði draum hennar um starfsframa. Hún hafði ekki heldur viðurkennt að það mætti gagnrýna foreldra hennar fyrir að losa sig við hana og senda í burtu fimm ára gamla. Svo að eitthvað hið innra hafði skollið í lás við þá reynslu. Og bolti sársaukans varð að rúlla yfir á aðra af því að hún stoppaði aldrei til að athuga það að hún gæti snúið því dæmi við.
Sú hegðun hennar var auðvitað frá erfiðri reynslu hennar sjálfrar sem barns sem hún gat ekki tjáð sig um á þeim tímum og lét sér aldrei detta í hug að gera það seinna.
Fræðingar sjá og gefa innsýn inn í dýpri hliðar mannvera
Reynsla sem Deb Dana talar um í bók sinni „The Polyvagal Theory in Therapy“ myndi ég segja að hafi sett vissa fleti taugakerfis og tilfinninga móður minnar í lás á tímum þegar enginn mátti né átti að tjá sig um upplifun á höfnun né neinni annarri tegund mismeðferðar. Og ég þá auðvitað ekki heldur.
Nú á tímum skilja allavega sumir sálfræðingar og aðrir sem kafa inn í vandamál einstaklinga hvað slíkt gerir við taugakerfi. Og það ekki bara í börnum heldur líka unglingum og þeim sem teljast fullorðnir af því að afleiðingar sitja í líkömum fólks þó að reynslan færist til hið innra. Orðið að teljast fullorðinn er ályktun um eins konar fullkomnun sem er ansi afstæð og vafasöm fullyrðing.
Ég segi það af því að líf mitt hefur sýnt mér að það er enginn í raun það fullkomlega fullorðinn á öllum sviðum tilveru, röklega, andlega, (og þá meina ég „spiritually“ sem er orð sem vantar í málið, því að orðið andlega á oft tengt við rökhyggjuna eina saman) svo einnig tilfinningalega. Það sem þroskast í mannverum – eða ekki fer – eftir því hvernig atlæti, áhuga og nánd viðkomandi einstaklingur hefur fengið.
Ef þeir sem verða foreldrar fengu aldrei þá uppbyggingu á sjálfvirði sínu frá foreldrum sínum, þá eru þeir ekki líklegir til að veita börnum sínum það nema ef þeir vakna til meðvitundar um að sjá að það sem þá skorti sé nokkuð sem þeir ætla ekki að láta færast yfir á börnin sín en þurfa trúlega hjálp til að vinna sig út úr slíku og yfir í betra ástand og viðhorf.
Feður sem lúskruðu á sonum sínum í hádegishléinu, af því að þeir voru vansælir með það hvar þeir voru staddir með líf sitt, eru líka í liðinu með þeim sem hafa skilið börn sín eftir án þess sjálfsöryggis sem við öll þurfum að fá sem börn með því að skilja líka vankanta okkar.
Það eru milljónir einstaklinga í heiminum sem hafa lifað við slíkt og alls konar aðra slæma mismeðferð sem aldrei var talað um fyrir nokkrum áratugum. Og þöggunin er þá um leið hluti af innri óunnu sárum sem myndu vera á við ótal háa pönnukökustafla sem tákn um langtímabælingar heilu þjóðanna. Afleiðingar slíks eru líklegar til að verða sendar niður næstu kynslóðið á einhvern hátt nema fólkið fái hjálp sem virki.
Grein á Stundinni í vikunni var sú fyrsta sem ég hef séð um tjón vegna slæmra orða frá fólki, og það segir þá líka söguna um skort á tilfinningalegum þroska.
Ég hafði aldrei heyrt orðið „tilfinningalegur þroski“ fyrr en að eftir að ég kom til Ástralíu og heyrði um bók sem hafði verið skrifuð um hvað það væri. En þegar ég sá Bob Hawk sem var forsætisráðherra þegar ég kom hingað árið 1987 tárast í sjónvarpi yfir eiturlyfjaneyslu dóttur sinnar, þá var það svo mikill léttir að vera komin þangað sem fólk mátti vera það sjálft, og sýna tilfinningar í sjónvarpinu.
Tárin og tilfinningar eru mál sálarinnar
Það sem ég heyrði á mínum tímum var að rökhyggjan væri allt sem þyrfti í lífinu en tilfinningar áttu að vera eitthvað spari sem væri ekki veifað, né átti fólk að sýna tár í fjölmenni né á fjölmiðli. Mér var bannað að sýna tár.
Við það að hafa alist upp innan um þó nokkuð af háskólamenntuðu fólki, fékk ég oft þá tilfinningu að þegar fólk færi í háskóla, yrði það að leggja tilfinningasemina í box á tröppunum, og að of margir gleymdu að hirða þær upp við útskrift.
Það að geta sett heilan helling af fróðleik í heilabúið á sér fyrir þá stöðu sem verið er að vinna að fyrir það fag sem valið er, er samt ekki alltaf nóg. Allavega ekki í mannlegum samskiptum. Kennsla í háskólum er greinilega ekki endilega með neina tengingu við að leggja áherslu á að nemendur hafi tilfinningalegan þroska. Og án slíks þroska eru meiri líkur á óæskilegri tjáningu.
Það hefur orðið mikið tjón af því að það hefur ekki verið nærri nógu mikil kennsla og leiðbeiningar um uppeldi. Það eru ekki allir einstaklingar fæddir foreldrar si svona.
Ég vitnaði ömmu vinkonu minnar í æsku sem hafði fengið barnabarn sitt í hendur og heilaþvegið hana á slæman hátt. Meðferð ömmunnar og viðhorf til lífsins og hlutverks kvenna var afar undarlegt, og innihélt slæmt andlegt ofbeldi. Á þeim árum var þögnin alger um allt hið leynda munnlega ofbeldi og ofstjórn sem foreldrar og aðrir eldri fjölskyldumeðlimir beittu.