Kristján Hrannar Pálsson.
Ég var nýorðinn 27 ára þegar ég loksins fór að taka ábyrgð á sjálfum mér. Ég var fárveikur af alkóhólisma og meðvirkni og var nokkurn veginn sama um allt nema sjálfan mig og hvernig ég gæti deyft sársaukann og vanlíðanina sem heltók mig á hverjum degi. Ég laug þegar nauðsyn bar til, skellti skuldinni á aðra, vorkenndi sjálfum mér óskaplega fyrir að vera næstum því kominn á götuna og lék fórnarlamb af stakri snilld. Þegar ég hafði stungið af og drukkið mig blindfullan kom ég með skottið milli lappanna heim aftur. Annað hvort kenndi ég öllu öðru um en sjálfum mér, eða þóttist hafa breyst og lofaði öllu fögru. Alltaf fékk ég annan séns. Síðan endurtók ég rússíbanann nokkrum dögum eða vikum seinna með óheyrilegri þjáningu fyrir mig og mína nánustu.
En leikritið sem okkur almenningi hefur verið boðið upp á síðasta árið er helsjúkt og þar þekki ég persónur og leikendur ansi vel.
Hvað kemur þetta pólitík við? Nýjustu embættisafglöp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Gísla Freys Valdórssonar voru áreiðanlega ekki framin undir áhrifum, og ekki eru þau veikir alkóhólistar. En leikritið sem okkur almenningi hefur verið boðið upp á síðasta árið er helsjúkt og þar þekki ég persónur og leikendur ansi vel. Sjálfur hafði ég sett mína uppfærslu á svið við lítinn fögnuð gagnrýnenda. Og eins og alltaf þá falla tjöldin ekki fyrr en einhver afhjúpar farsann.
Ábyrgð ráðherra á Íslandi er mikil. Þeir eru með puttana í öllum þremur greinum ríkisvaldsins, nokkuð sem þætti óhugsandi t.d. í Bandaríkjunum. Sjálfsagt hafa allir ráðherrar á Íslandi gert mistök, misalvarleg, en ekki nærri því öll komist upp. Hanna Birna er vandvirk kona, en þegar upp kemst um alvarleg mistök sem hún þverneitar fyrir þrátt fyrir hið augljósa, skín óttinn í gegn. Óttinn við að gera mistök. Ég þekki þennan ótta vel, allt frá smávægilegum hlutum eins og hvort kjötið í ofninum sé á of háum hita, yfir í sjúklegan kvíða sem gegnsýrir stærstu þætti lífsins.
Langræknin nær í báðar áttir - Sjálfstæðisflokkurinn man alltaf eftir að verðlauna þá sem hafa þjónað honum dyggilega, en fyrirgefur aldrei þeim sem hafa svikið hann.
Þessi ótti birtist oft í afneitun á eigin mistökum. Selji maður sér þá hugmynd að þetta hafi verið öðrum að kenna þá gerir maður aldrei mistök! Hanna Birna er í stjórnmálaflokki sem á erfitt með að fyrirgefa. Langræknin nær í báðar áttir - Sjálfstæðisflokkurinn man alltaf eftir að verðlauna þá sem hafa þjónað honum dyggilega, en fyrirgefur aldrei þeim sem hafa svikið hann.
Ég átti mjög erfitt með að fyrirgefa öðrum - og ekki síst sjálfum mér. Þess vegna var svo miklu þægilegra að kenna öðrum um og neita alltaf sök. Hvers vegna drakkstu þig svona fullan Kristján og öskraðir á vin þinn og stakkst svo af? Vá úff, þetta gerist bara þegar ég drekk tequila maður! Það má bara ekki bjóða mér sterkt áfengi, þá fer allt í rugl. Hann hellti mig fullan maður, sástu það ekki?
Afneitunin er svo sterk að þau sem ásökuð eru eiga það síst skilið - vinurinn sem ætlaði að bjóða gestunum tequila, ræstingafólk í ráðuneytinu, hælisleitendur eða blaðamenn sem afhjúpa ógeðið.
Hanna Birna gerir ráð fyrir að þjóðfélagið sé jafn miskunnarlaust við hana og hún sjálf, eða flokkurinn. Að henni verði ekki fyrirgefið þótt hún játi mistök sín einlæglega. En við erum ekki þannig.
Hanna Birna gerir ráð fyrir að þjóðfélagið sé jafn miskunnarlaust við hana og hún sjálf, eða flokkurinn. Að henni verði ekki fyrirgefið þótt hún játi mistök sín einlæglega. En við erum ekki þannig. Við sjáum muninn á fölskum játningum og þegar fólk meinar það í alvöru og sýnir það með breytni sinni. Ég var búinn að segjast ætla að hætta að drekka milljón sinnum, en enginn trúði mér fyrr en ég fór að sýna árangur og breytti hegðun minni.
Hvers vegna breyttist ég? Ég vaknaði ekki einn góðan veðurdag og ákvað af einskæru göfuglyndi að hætta að vera lúsablesi sem notfærði fólk til að viðhalda eigin fíkn. Nei, það var ekki fyrr en allir voru búnir að loka á mig og ég kominn á götuna. Fólk var komið með nóg af farsanum. Ég hafði alltaf getað komið vælandi aftur og fengið að gista einhvers staðar. Ég þráði ekkert heitar en að geta hætt, þráði að breytast, en eftir nokkra daga voru ranghugmyndirnar komnar á flug og ég farinn að plana næsta fyllerí.
Og á meðan það fyrirfinnast Gíslar sem eru tilbúnir að láta fórna sér í helsjúkri meðvirkni þá breytist ekkert þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Og nákvæmlega þannig er hinn fársjúki farsi innanríkisráðuneytisins. Og hann mun verða sýndur áfram og áfram og áfram þangað til fólk hættir að kaupa miða. Hönnu Birnu er skítsama þótt langflestir vilji hana burt úr ráðuneytinu, það er nóg að einhverjir, bara einhverjir vilji hlusta. Þetta leikhús þarf bara örfáa miða til að reksturinn gangi. Allir hinir sem mættu ekki eru bara fífl og vita ekki hverju þau missa af. Og á meðan það fyrirfinnast Gíslar sem eru tilbúnir að láta fórna sér í helsjúkri meðvirkni þá breytist ekkert þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Hættum að kaupa miða. Við höfum beðið nógu lengi í góðri trú eftir að eitthvað göfuglyndi muni spretta fram af sjálfu sér, en það er naívismi af verstu sort. Það mun ekkert breytast nema við lokum á Hönnu Birnu. Munum að við almenningur erum yfirmenn hennar en ekki öfugt. Sýningin er búin!