Hetjusögurnar sem berast af varðskipum Íslands á Miðjarðarhafi hafa tæplega farið fram hjá mörgum. Landhelgisgæslan lætur enda ekki undir höfuð leggjast að setja af þessu fréttir inn á vef sinn sem fréttamiðlar taka upp með glöðu geði. Tæplega 200 manns var bjargað nú síðast af áhöfninni á Tý, en áður hefur Ægir komið að björgun 130 manns svo dæmi séu tekin.
Áhafnirnar sinna sínu starfi væntanlega af alúð og fagmennsku. Gott starf þeirra varpar hinsvegar ljósi á það hvernig Ísland stendur sig almennt í móttöku og aðstoð við flóttamenn. Íslendingar taka við fáum flóttamönnum. Málsmeðferð hælisleitenda og flóttamanna er hæg. Endurtekið er vísað til Dyflinnarreglugerðarinnar og flóttafólk sent til baka til fyrsta viðkomulands í Evrópu, þrátt fyrir að Ísland geti tekið við fólkinu.
Hetjudáðir fjármagnaðar af öðrum
Til að bíta höfuðið af skömminni eru störf Landhelgisgæslunnar á Miðjarðarhafi ekki fjármögnuð af íslenska ríkinu. Þau eru fjármögnuð af Frontex , landamærastofnun Evrópusambandsins. Verkefnið í heild er svar Gæslunnar við offjárfestingu í búnaði og niðurskurði í fjárframlögum frá íslenska ríkinu. Með því að leigja út búnað og mannafla er hjá því komist að selja búnaðinn áður en betur árar.
Fyrir utan það að bjarga fólki sem ræðst illa búið í siglingu yfir Miðjarðarhafið, sinnir Landhelgisgæslan almennri landamæragæslu á hafinu. Aukið eftirlit eykur áhættuna við að fara yfir hafið; bátar þurfa að vera minni til að komast óséðir. Gæslan heldur landamærum Schengen-svæðisins lokuðum og tryggir að fátækt fólk í þriðja heiminum geti ekki brotist til betra lífs með aðstoð vestrænna velferðarkerfa.
Við eigum að hjálpa fólki áður en það afræður að eyða aleigunni til að fá möguleika á að geta smyglað sér inn í Evrópu.
Flóttafólkið sem bjargað er af skipverjum Gæslunnar er að flýja slæmar aðstæður heima fyrir og freista þess að smygla sér til annarra landa. Hægt væri að minnka vandann á tvennan hátt; annars vegar að bæta aðstæðurnar heima fyrir og hins vegar að veita flóttafólkinu löglegar leiðir til að komast til landa með betri þjóðfélagsaðstæður.
Fréttir Gæslunnar eru eðlilega fáorðar um það hvað tekur við hjá fólkinu sem er bjargað. En dáðir Týs og Ægis minna á hið stærra vandamál. Þar er spurningum ósvarað.
Gætum gert annað og meira
Ísland gæti sýnt mun meiri myndarskap þegar kemur að hinum verr stöddu í heiminum. Þannig er til dæmis auðvelt að auka fjármagn til þróunarsamvinnu, taka við fleiri hælisleitendum og flóttamönnum, eða aðstoða þær stofnanir sem til dæmis berjast gegn sjúkdómum sem auðvelt er að koma í veg fyrir.
Við eigum að hjálpa fólki áður en það afræður að eyða aleigunni til að fá möguleika á að geta smyglað sér inn í Evrópu. Og ef við björgum fólki úr sjávarháska, eigum við að tryggja að lífið sem tekur við sé gott og hamingjuríkt. Fyrir slíkt mannúðarstarf eigum við ekki að taka greiðslu, heldur sinna á okkar eigin kostnað.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.