Virkir ferðamátar, sem svo eru kallaðir, ryðja sér mjög til rúms þessi misserin. Fleiri og fleiri velja að ganga eða hjóla í vinnuna eða skóla.
Fram eftir síðustu öld og nokkuð inn á þessa voru fáir sem töldu það raunhæfan valkost að hjóla í vinnuna, nema þá helst á blíðviðrisdögum á sumrin. Fólki fannst að það væri bæði erfitt og jafnvel hættulegt á veturna. En undanfarna tvo áratugi hafa mörg sveitarfélög lagt í mikla vinnu og lagt til fjármuni til að auðvelda fólki að komast frá A til B hjólandi. Hjólastígar hafa stórbatnað, og tengingar hjólastíga inn í hverfin einnig. Hjólin sjálf og öryggisbúnaður hefur líka breyst mikið til batnaðar sem gerir fólki auðveldara fyrir. Þá hafa töskur fyrir hjólara og hlífðarföt gert að verkum að æ auðveldara er að taka ákvörðun um að hjóla. Ekki má heldur gleyma því að mörg fyrirtæki og stofnanir hafa komið upp góðri aðstöðu til að geyma hjól, þurrka búnað, og aðstöðu til að skipta og hafa sig til fyrir vinnudaginn.
Leiðin sem ég hjóla í vinnuna er um 7 km. Ef ég flýti mér og vindar eru hagstæðir get ég verið 15 mínútur á leiðinni. Ef ég dóla eða veður eru leiðinleg get ég verið 25 mínútur (ef ég væri á rafmagnshjóli væru mínúturnar færri). Stundum lendi ég í því að þurfa að keyra í vinnuna. Ef ég fer á milli á háannatíma get ég verið allt frá 20 og upp í 40 mínútur (eftir magni umferðarsultu) að komast á leiðarenda og er miklu stressaðri þegar þangað kemur.
Þar komum við að tveir fyrir einn. Hreyfingin sem ég fæ við að hjóla í vinnuna jafnast á við helminginn af þeirri hreyfingu sem ég þarf á viku samkvæmt lýðheilsu vísum, og streita minnkar. Ég fer frá A til B, hreyfi mig og hleð batteríin í einu vetfangi. Tíminn sem ég myndi eyða einn í bíl er stórt séð tapaður tími og streitan eykst.
Því má segja að hjólað í vinnuna sé klassískur „tveir fyrir einn díll“.
Höfundur er hjólari, þingmaður VG og frambjóðandi í 3ja sæti VG í Suðvestur kjördæmi.