Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var í ágætu viðtali við Eyjuna í dag, þar sem hann sagði meðal annars að Ísland hefði aldrei staðið traustari fótum í efnhagslegu tilliti. Þetta er umdeild greining, mitt í hörðustu kjaradeilum í tvo áratugi hið minnsta, í ljósi þess að brugðið getur til beggja vona. En Bjarni hefur þó nokkuð til síns máls.
Nokkur atriði standa upp úr, þegar hagkerfið er skoðað. Endurreisn fjármálakerfisins hefur gengið í stórum dráttum vel, þó vitaskuld sé það umhugsunarefni hversu stórt það er og að sömu hvatar virðast ráðandi innan bankanna. Það eru bónusakerfi, og allt annar launaveruleiki en hjá öðrum geirum, þrátt fyrir að almenningur fjármagni kerfið að langmestu leyti með innlánum sínum og að ríkið ábyrgist kerfið.
Þrátt fyrir innanmein, stendur fjármálakerfið tiltölulega traustum fótum, enda grunnur þessa alfarið byggður á íslenskum veruleika.
Síðan eru það útflutningsgreinarnar. Ferðaþjónustan blómstrar nú sem aldrei fyrr, og sýna nýjustu tölur að vöxturinn sé meiri en spár gerðu ráð fyrir. Í apríl mánuði eyddu erlendir ferðamenn 9,3 milljörðum króna með kortum sínum, sem er 40 prósent meira en á sama tíma í fyrra. Sumarið lítur vel út, ef ekki skella á verkföll.
Orkugeirinn býr einnig við mikil tækifæri, og fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefur styrkst töluvert að undanförnu, einkum vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins hafa haldið vel á spöðunum. Ljóst er þó, að átök um hvar eigi að draga línuna þegar kemur að virkjun og verndun, verða viðvarandi á meðan stjórnmálamenn ná ekki að koma sér samanum um hana, og semja ágreiningsefnin í burtu. Það má minna þá á það, að víða erlendis eru auðlindastefnur þjóða hafnar yfir pólitíska flokkadrætti, enda langtímastefnumál. Noregur er ágætt dæmi um þetta.
Síðan er það sjávarútvegurinn, en bestu rekstrarár hans í sögunni hafa verið síðustu ár, einkum frá 2010 til 2014. Fátt bendir til annars en að áframhald verið á góðu gengi, en áframhald verður vafalítið á því hvernig ágóðanum skuli deilt. Það er ákveðin synd þegar kemur að íslenskum sjávarútvegi, hversu lítið dreift eignarhaldið er á mörgum stærstu fyrirtækjunum. Lífeyrissjóðirnir eiga lítið í sjávarútvegsfyrirtækjum og almenningur lítið sömuleiðis, enda bara eitt stórt fyrirtæki skráð á markað, HB Grandi. Ef fólk myndi finna fyrir góðum rekstri með beinum hætti, með betri lífeyri og sterkari stöðu, þá væru deilur hugsanlega ekki jafn háværar. En þó veit maður það ekki, enda er eðlilegt að deilt sé um það, hvernig arðinum skuli skipta og einnig hverni kvótasetningum í nýjum tegundum á sér stað.
Samanlagt er útflutningurinn að skila góðum árangri, og mikil tækifæri fyrir hendi þegar kemur að því að efla tæknigeirann, svo eitthvað sé nefnt.
Helst áhygguefnið er hinn ömurlegi haftabúskapur, sem felur í sér hrikalega frelsisskerðingu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og stuðlar að því að erfiðara er að tengjast alþjóðavæddum viðskiptaheimi traustum fótum. Vonandi verður eitthvað gert á þessu ári, sem leysir þessa skelfilegu hlekki, og er nú góð von til þess.
Bjarni þyrfti að leggja öll spilin á borðið, varðandi það, hvernig hann sjái fyrir sér að Ísland geti staðið upprétt í haftalausum heimi í framtíðinni. Svo er ekki að sjá, að stjórnmálamenn hafi neitt sérstakar áhyggjur af því að íslenskt atvinnulíf geti einangrast í framtíðinni, þannig að á Íslandi byggist upp láglaunastöf á meðan sérfræðistörfin verða ekki til, sem svo leiðir til skertrar samkeppnishæfni. Hagtölurnar geta nefnilega litið tímabundið vel út, þrátt fyrir að spekilekinn sé viðvarandi. Hann er lúmskur.
En allt bendir til þess, að við Íslendingar höfum öll spil á hendi til þess að vinna betur úr stöðunni sem við erum í, en við höfum gert til þessa. Stjórnmálamenn munu ekki ráða úrslitum í því, en stefna þeirra til framtíðar, þegar kemur að alþjóðavæddum heimi, mun þó skipta miklu um framhaldið.