Metunum rignir á Keflavíkurflugvelli þessa dagana. Í júlí var þar enn eitt metið slegið í fjölda farþega, en þá fóru tæplega 550 þúsund farþegar um flugvöllinn og var það í fyrsta skiptið sem fjöldinn í einum mánuði fer yfir hálfa milljón. Fjölgunin nemur 17,8 prósentum miðað við sama mánuð í fyrra, en það sem af er árinu hafa 2,2 milljónir farþega stungið nefinu inn á Keflavíkurflugvöll. Það er fjölgun upp á ríflega tuttugu prósent á milli ára.
Athygli skal vakin á því að um er að ræða farþega um Keflavíkurflugvöll, bæði þá sem eru að koma og fara, en fjölgunin í júlímánuði rennir óneitanlega stoðum undir spár sérfræðinga sem telja að fjöldi ferðamanna á Íslandi á þessu ári muni fara yfir eina milljón, í fyrsta skipti síðan mælingar hófust.
Þessari miklu farþegafjölgun síðustu ár fylgir aukið álag á innviði flugstöðvarinnar, eð því er fram kom í fréttatilkynningu frá Isavia á dögunum. Til þess að bregðast við sprengingunni hefur Isavia ráðist í ýmsar framkvæmdir undanfarið. Nýverið var lokið við tvöföldun á afkastagetu farangursflokkunarkerfisins og þessi dægrin er unnið að því að steypa sökkul að fimm þúsund fermetra viðbyggingu við suðurhluta flugstöðvarinnar sem gert er ráð fyrir að taka í notkun árið 2016.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_07/4[/embed]
Viðrekstrar og olnbogaskot
Á sama tíma og alþjóðaflugvöllurinn okkar er svo gott sem sprunginn ríkir kraðaksástand á helstu ferðamannastöðum landsins, með tilheyrandi viðrekstrum og olnbogaskotum, samfara ört hækkandi verði á súkkulaðitertusneiðum, vondu kaffi og snakkpokum. Á meðan brugðist er við vegna hriktandi innviða á Keflavíkurflugvelli eru aðrir innviðir látnir reka á reiðanum. Það blasir við að stóraukinn fjöldi ferðamanna hefur sömuleiðis áhrif á aðra innviði samfélagsins, svo sem vegakerfið og heilbrigðiskerfið. Þar hlýtur óneitanlega að hrikta líka í stoðum.
Biðraðir við helstu ferðamannastaði landsins eru orðnar daglegt brauð og á þeim er farið að sjá. Algjört stefnuleysi virðist ríkja varðandi ágang á íslenskar náttúruperlur.
Sprenging í komu ferðamanna til landsins hefur margar afleiðingar, og alls ekki bara slæmar. Verslunarrekstur blómstrar til að mynda við Laugaveginn, litlar búðir með sérhæfðan varning spretta upp eins og gorkúlur og töluvert líf hefur færst í minni bæjarfélög úti á landi, sem áður máttu muna sinn fífil fegurri. Á sama tíma hlaðast ný hótel upp, sem margir efast um að muni nokkurn tímann standa undir sér. Gullæðið er í algleymingi.
Tjaldað til einnar nætur eins og venjulega
Þó svo að ferðaþjónustan sé nú orðin ein helsta tekjustoð þjóðarbúsins má gera miklu betur. Í tengslum við boðaðan náttúrupassa hefur verið um það rætt að koma á sérstöku komugjaldi á alla farþega sem hingað koma. Komugjaldið myndi að sjálfsögðu leggjast á íslenska farþega líka, enda óheimilt að mismuna fólki eftir þjóðerni. Tekjur af náttúrupassanum myndu skila milljörðum króna, en pattstaða passans skýrist að mörgu leyti af því að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustunni geta ekki komið sér saman um tvennt; hver eigi að halda utan um fjármagnið sem safnast og hver og hvernig skuli útdeila því. Þá getur ferðaþjónustugeirinn ekki hugsað sér fyrir sitt litla líf að stjórnvöld fái að festa klær sínar í sjóðinn, enda rökstuddur grunur fyrir hendi að stjórnvöld muni verja fénu í annað en því er ætlað.
Á meðan hópast yfir milljón ferðamenn til landsins með tilheyrandi ágangi og náttúruspjöllum. Á meðan stjórnvöld og hagsmunaaðilar geta ekki komið sér saman um hvert skuli stefna er hætta á að landið glati sérstöðu sinni. Sem fyrr er tjaldað til einnar nætur á Íslandi.
Stórri spurningu er þar að auki ósvarað, varðandi það hvernig við viljum markaðssetja Ísland. Viljum við að Ísland verði eins og heildsöluverslun, með malbikaða vegi fyrir Yaris-bílaleigubíla með ótakmarkað framboð af vörum fyrir alla? Eða viljum við að Ísland verði dýr lúxusverslun, þar sem fjöldi ferðamanna er ef til vill takmarkaður og rómantík landsins felst fyrst og síðast í malarvegasveitarómantíkinni?
Ríkissjóður þarf að fá stærri sneið af kökunni
Fyrir ekki svo löngu eyddu Íslendingar meira af peningum á ferðum sínum erlendis en ferðamenn eyddu hér á landi. Er það ekki hagur okkar allra, fyrst við erum að opna dyr landsins upp á gátt þó að við séum engan veginn í stakk búin að taka við þeim öllum svo gott sé, að við högnumst vel í leiðinni? Gistináttaskatturinn, sem hefði skilað ríkissjóði umtalsverðum fjármunum, var talaður niður og ferðaþjónustuna hryllir við óhjákvæmilegri fargjaldahækkun sem sérstakt komugjald myndi hafa í för með sér.
Væri ekki ráð að við lærðum af reynslunni og krefðumst þess að við græddum svolítið á auðlindum okkar svona til tilbreytingar?