Bólusetningar hafa skilað gríðarlegum ávinningi fyrir lýðheilsu í heiminum. Þær fela almennt í sér litla áhættu og efasemdir um gildi þeirra byggja oftast á rangfærslum og misskilningi. Hérlendis hefur þátttaka í bólusetningum við alvarlegum sjúkdómum á borð við mislinga, kíghósta, barnaveiki og stífkrampa verið nægilega mikil til að halda þeim í skefjum. Það er því skiljanlegt að slíkar bólusetningar hafi orðið „norm“ í heilbrigðisþjónustu og ungbarnaeftirliti. Segja má að þetta fyrirkomulag feli í sér eins konar „ýtni“ (e. nudging) sem er réttlætanleg vegna þess hve örugg og virk heilsuvernd slíkar bólusetningar eru. Þá er einfaldlega gert ráð fyrir samþykki einstaklinga, eða foreldra þegar börn eiga í hlut, en ákvörðun þeirra virt í þeim undantekningartilvikum þegar velgjörðin er afþökkuð. Það er athyglisvert að þau sem afþakka bólusetningar fyrir börnin sín eru oft fólk með tiltölulega hátt menntunarstig sem hefur lesið sér meira til um efnið en gerist og gengur. Ein ástæðan er sú að efasemdarfólk sem leitar upplýsinga er líklegt til að rekast á mikið magn áróðurs gegn bólusetningum sem oft er settur fram í vísindalegum búningi. Upplýsingaóreiðan í netheimum og bergmálshellar samskiptamiðla kynda síðan undir og hindra að fólk fylgi lögmálum gagnrýninnar hugsunar í gagnrýni sinni. Bólusetningar liggja vel við höggi, meðal annars vegna tengsla við lyfjaiðnaðinn sem er auðvelt skotmark.
Bólusetningar við kórónuveirunni hafa sannarlega ekki farið varhluta af slíkri gagnrýni og samsæriskenningar um hana hafa líklega náð áður ómældum hæðum. Það er fjarri mér að taka undir slíkt, en mér finnst skiljanlegt að bólusetning sem viðleitni til að stemma stigu við heimsfaraldri mæti meiri efasemdum en viðurkenndar og þaulreyndar bólusetningar gegn alvarlegum sjúkdómum á borð við þá sem ég nefndi að ofan. Allt hefur gerst mjög hratt, faraldurinn er á ferð og er stöðugum breytingum undirorpinn. Þrátt fyrir mjög hátt bólusetningarhlutfall (yfir 90% 12 ára og eldri hérlendis) erum við ekki laus undan faraldrinum og búum enn við miklar takmarkanir. Fólk fær traustvekjandi tölfræði um óverulegar aukaverkanir, en það skiptist á sögum úr raunheimum sem vekja efasemdir. Auk þess blasir það við af fréttum að bólusettir veikjast en margir óbólusettir veikjast ekki. Margir eru taldir hafa smitast án þess að vita af því! Af þessu má sjá að almenn rök fyrir bólusetningum sem áratuga reynsla er af verða ekki fyrirvaralaust yfirfærð á bólusetningar við Covid-19.
Samt sem áður er skiljanlegt að sú hugsun sé áleitin að fólki beri skylda til að láta bólusetja sig í viðleitni til að takast á við þennan vágest. Þótt bólusetning við Covid-19 hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir hefur hún átt stóran þátt í því að draga úr alvarlegum veikindum margra sem hafa smitast og þar með komið í veg fyrir að sjúkrahúsin hafi þurft að sinna þeim. Mikið hefur verið höfðað til samstöðu okkar og spyrja má hvort það sé ekki sjálfsagður liður í henni að láta bólusetja sig. Sjálfur hef ég svarað þeirri spurningu játandi fyrir mig en ég tel að ekki séu nægilega sterk rök fyrir því að skylda fólk til bólusetninga, líkt og við erum skylduð til að fara í einangrun og sóttkví, bera grímur eða halda fjarlægð. Bólusetning er eðlisólík öðrum sóttvarnarráðstöfunum því að hún beinist ekki að hegðun heldur er efni dælt inn í líkama fólks. Þess vegna missa marks samlíkingar við skyldur sem takmarka frelsi við ýmsar aðstæður þar sem hætta er á að hegðun manns geti valdið samborgurunum skaða.
Ein slík samlíking er lögbundin notkun bílbelta sem vernda einstaklinga og aðra gegn skaða sem og almannahagsmuni tengdum álagi á heilbrigðiskerfið. En mikill munur er vitaskuld á framkvæmdinni, auk þess sem bólusetning er óafturkræf læknisaðgerð en ekki val um breytni. Notkun bílbelta er bundin tiltekinni hegðun, þ.e. akstri sem felur í sér hættu á að valda skaða, en það að vera óbólusettur er ekki ávísun á tiltekna hegðun þótt orðræðan bendi oft til þess. Til dæmis segir í fyrirsögn Fréttablaðsins 23. desember s.l.: „Óbólusett fólk ber faraldurinn uppi“. Slíkar staðhæfingar um óbólusetta virðast ganga út frá óábyrgri hegðun. Þeir geisli frá sér smiti, óháð breytni. Þetta er ósanngjörn stimplun á hópi einstaklinga sem eflaust haga sér á margbreytilegan hátt. Alhæfingar út frá hegðun tengdri smitum væru t.d.: „Fólk sem sækir öldurhús knýr áfram faraldurinn“ eða: „Fólk sem ferðast milli landa knýr áfram faraldurinn“. Lítið gagn er í slíkum staðhæfingum. Nærtækara væri að hugleiða staðhæfingar á borð við: „Vanræksla okkar gagnvart þjóðum, sem hafa ekki aðgang að bóluefnum, viðheldur faraldrinum.“ En það er einfaldara að staðsetja vandann í líkömum einstaklinga og einskorða ábyrgðina við þá en að horfast í augu við alvarleg siðferðileg úrlausnarefni sem krefjast þess að við fórnum einhverju sjálf.
Önnur rök fyrir því að taka upp bólusetningarskyldu mætti kenna við gagnkvæmni. Óbólusettir stuðla ekki að almannagæðum sem þeir njóta þó góðs af. Þeir eru eins konar „laumufarþegar” sem njóta ávinnings af fórnum eða framlagi annarra. Þótt þessi rök séu áleitin, t.d í tilviki mislinga sem haldið er í skefjum með hjarðónæmi, eru þau ekki eins augljós í tímabundnu ástandi Covid-19 þar sem hjarðónæmið virðist ekki nást nema með útbreiddu smiti. Auk þess er það skammsýni að sjá almannagæði þröngt út frá velferðar- eða heilsufarssjónarmiði. Þýðingarmikil almannagæði eru tengd virðingu fyrir réttindum og mannhelgi sem tilhneiging er til að veikja í faraldri.
Gagnkvæmnisrökin minna á samfélagsskyldur okkar sem þröng einstaklingshyggja er blind á. Skyldan í þessu tilviki er fólgin í því að gæta þess að smita ekki aðra með ábyrgum smitvörnum. Útfærslan á þessari skyldu er aðstæðubundin og getur verið hlutverkabundin, t.d. geta verið þungvæg rök fyrir að krefjast bólusetningar þeirra sem annast umönnun fólks sem er veikt fyrir. Að gangast undir bólusetningu er ein útfærsla á smitvarnaskyldunni sem ástæða er til að mæla með af hófsemi. Það er viðurkennd viðmiðun í siðfræði sóttvarna að gætt sé meðalhófs og skerða frelsi borgaranna ekki meira en nauðsyn ber til í því skyni að hefta útbreiðslu smita. Jafnframt skuli leitast við að laða borgarana til samþykkis og samstöðu fremur en beita þvingandi aðgerðum. Traust vísindaleg rök fyrir bólusetningum eru nauðsynleg ástæða til að hvetja til bólusetninga, en þau nægja ekki til að ganga harðar fram. Siðfræðileg umræða þarf bæði að taka mið af því sem er réttmætt með almennum rökum og er gagnlegt til lengri tíma litið. Taka þarf mið af aðstæðum hér og nú, en hefja sig jafnframt yfir þær með langtímahagsmuni í huga.
Ætla má að andstaða við bólusetningar og vantraust tengt þeim byggi á a.m.k. tveimur ólíkum ástæðum. Ég hef þegar nefnt upplýsingaóreiðu, rangfærslur og orðróm sem felur í sér villandi alhæfingar út frá dæmum. Til viðbótar því er rétt að nefna að jaðarhópar, svo sem innflytjendur, geta haft góðar ástæður til að vantreysta stjórnvöldum. Ákvarðanir um að þrengja að þeim geta aukið á ranglæti. Mikilvægt er að spyrja um réttmætar ástæður vantraustsins og vinna út frá því. Báðum þessum ástæðum fyrir andstöðu við bólusetningar er gagnlegt að mæta af skilningi. Það stuðlar að trausti, bæði á vísindum og stjórnvöldum. En það er gagnslaust að mæta fólki með stimplun, ögrunum eða sleggjudómum eins og nokkuð hefur borið á í umræðu síðustu vikna. Það er ámælisverð pólitísk hentisemi að ala á reiði gagnvart meðborgurum, líkt og forseti Frakklands gerði nýlega. Orðræðan hérlendis hefur líka sýnt óþol gagnvart gagnrýnendum, en málefnalegur ágreiningur er lýðræðislega mikilvægur. Efasemdir um stjórnvaldsaðgerðir styrkja röksemdir og treysta grunn ákvarðana sé þeim mætt með réttum hætti. Það er því ánægjulegt að heyra að íslensk sóttvarnaryfirvöld hafa ekki tekið undir áskoranir um að þrengja að óbólusettu fólki.
Höfundur er prófessor í heimspeki
Heimildir
Ásgrímur Fannar Ásgrímsson (2018). Börn eiga að njóta vafans. Siðferðilegar röksemdir um bólusetningar barna. MA-ritgerð í hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands.
Childress, J., Faden, R. o.fl. (2002). Public Health Ethics: Mapping the Terrain. J. Law, Medicine & Ethics 30: 170–178.
Lisa Eckenwiler (2020). Vaccines and the crisis in public trust. New York Daily News, 8. desember.
Giubilini A. & Savlescu, J. (2019). Vaccination, Risks, and Freedom: The Seat Belt Analogy. Public Health Ethics 12:3, 237–249.
Henry Alexander Henrysson (2021). Ár vonbrigða. Kjarninn 8. desember 2021.
Kowalik M. (2021). Ethics of Vaccine Refusal. J Med Ethics febrúar, 1–4.