Í síðustu tveimur greinum fjallaði ég annars vegar um hvernig heimsókn til Auschwitz sannfærir mann um mikilvægi mannréttinda og hve brýnt er að berjast gegn hatursorðræðu hvar sem hún birtist. Hins vegar skrifaði ég um það grundvallaratriði að ekki er nóg að hafa lög, reglur og stofnanir, heldur verður hið samfélagslega andrúmsloft að styðja við hvort tveggja. Við eigum ekki að hamast í eftirlitsstofnunum eða saksóknurum eða lögreglu fyrir að vinna vinnuna sína. En um leið eigum við kröfu á að þessar stofnanir, þar með talið frjáls félagasamtök og fjölmiðlar, vinni vel og vandlega.
Þessi grein er hugleiðing um annað grundvallaratriði – sem er traust.
Færum okkur yfir til Slóveníu, þess frábæra lands. Þar búa ríflega 2 milljónir manna í landi sem er um fimmtungur af stærð Íslands. Slóvenía er rík af auðlindum, ekki síst skóglendi, en meiru skiptir að þar býr vel menntuð þjóð sem byggir efnahag sinn einkum á mannauð og hugviti (kannast ekki allir við Gorenje heimilistækin og Elan skíðin?).
Slóvenum bar gæfa til að slíta sig lausa strax frá júgóslavneska ríkjasambandinu og drógust ekki inn í hið hörmulega stríð á Balkanskaga á sínum tíma. Þess í stað náði landið sterkri fótfestu sem fullvalda ríki með því að gerast aðili að ESB og NATO árið 2004, og tók upp evruna árið 2007. Við tóku uppgangsár og framfarir.
En Slóvenar lentu illa í fjármálakreppunni eins og fleiri. Lengi vel var búist við að þeir myndu fylgja Grikkjum inn í neyðaraðstoð ESB og AGS. Þeim tókst hins vegar sjálfum að afstýra bráðavandanum en langtímavandamálin eru enn til staðar. Bankakerfið er of stórt og of skuldugt, hagvöxtur of lítill og atvinnuleysi of hátt.
Nýr forsætisráðherra landsins heitir Miro Cerar, 54 ára gamall lagaprófessor. Það sem er merkilegt við hann er að nýr flokkur hans vann stórsigur í þingkosningum í júlí síðastliðinn með um 35% atkvæða. Á aðeins þremur mánuðum stofnaði hann stjórnmálaflokk, vann kosningar og varð forsætisráðherra!
Hvað gerðist? Ein skýring er sú að árin á undan höfðu einkennst af hörðum innri átökum og tíðum stjórnarskiptum. Þarsíðasti forsætisráðherra afplánar nú tveggja ára fangelsisdóm sem hann fékk fyrir að hafa tekið við mútum (hann heldur fram sakleysi sínu). Síðasti forsætisráðherra sat aðeins rúmt ár í embætti vegna þess að henni var velt úr sessi sem flokksformanni – af sínu eigin fólki. Hún setti krók á móti bragði, rauf þing og boðaði til kosninga, og bauð sjálf fram undir merkjum annars flokks. Slóvenskir kjósendur virtust hins vegar vera búnir að fá nóg af þessu öllu saman. Þeir kusu splunkunýjan flokk Cerar og treystu honum til að leiða landið.
Þó Cerar sé nýr í stjórnmálunum er hann síður en svo óþekktur. Hann hefur notið virðingar sem stjórnskipunarlögfræðingur sem fjölmiðlar hafa leitað til í umfjöllun um umdeild mál. Þar hefur hann tjáð sig æsingalaust og án hlutdrægni. Raunar eru foreldrar hans líka þjóðþekktir. Pabbi hans er gömul íþróttahetja sem vann til ólympíuverðlauna í fimleikum og mamma hans var fyrsta konan til að vera skipuð ríkissaksóknari. Í því embætti naut hún virðingar fyrir fagmennsku og hugrekki og gera engan greinarmun á háum og lágum.
Fyrstu orð Cerar við embættistökuna í haust voru hófstillt. Hann lofaði fáu fögru, lét digurbarkalegar yfirlýsingar vera og boðaði engin slagsmál við útlönd, ESB eða aðra meinta óvini (eins og kollegar hans í ónefndum nágrannaríkjum hafa haft tilhneigingu til). Þvert á móti sagði hann á lágstemmdum nótum að þó efnahagsmálin væru aðkallandi væri forgangsverkefni að endurreisa traust í samfélaginu. Traust.
Það er mikið til í þessu hjá honum. Traust er nefnilega grundvallaratriði í mannlegum samskiptum. Það er bæði hollt og gott að geta treyst öðru fólki, og það er líka nauðsynlegt þegar nánar er að gáð. Því þegar traust er ekki til staðar, þá verður öll vinna svo miklu erfiðari. Þetta þekkja allir, hvort sem er úr fjölskyldum, húsfélaginu, af vinnustaðnum, úr íþrótta- eða félagsstarfi eða bara hvar sem er. Ef traust er horfið þá skekkjast samskipti og brenglast, andrúmsloftið verður eitrað. Beina brautin breytist í kræklótta fjallabaksleið. Maður verður að geta treyst næsta manni – til að segja satt, standa við það sem ákveðið hefur verið og að fylgja leikreglum hvort sem þær eru skrifaðar eða óskrifaðar.
Að sama skapi elur vantraust á ótta og enn meira vantrausti. Alveg eins og óheiðarleiki kallar fram meiri óheiðarleika. Þegar einn hefur rangt við, og kemst upp með það, þá fylgir næsti maður hratt í kjölfarið. Spilling breiðist hratt út og áður en varir eru leikreglurnar breyttar. Sá sem er ósvífnastur nær undirtökunum. Mönnum er hampað fyrir hegðun sem áður var óþolandi.
En aftur til Slóveníu. Nýja ríkisstjórnin í Slóveníu fékk aðeins örfáa hveitibrauðsdaga því Alenku Bratucek, fyrrum forsætisráðherra, var hafnað af Evrópuþinginu sem fulltrúa Slóveníu í nýrri framkvæmdastjórn ESB aðeins örstuttu eftir að stjórnin tók við. Það tók á að ná samstöðu um nýjan kandidat og fá hann samþykktan, en það tókst. Stuttu seinna sagði viðskiptaráðherra landsins af sér eftir að fjölmiðlar höfðu greint frá að aðild hans að ólöglegu verðsamráði í viðskiptalífinu væri til rannsóknar. Hann sagðist saklaus en sagði embætti sínu lausu með þeim orðum að hann vildi ekki mál hans skaðaði mikilvægt starf ríkisstjórnarinnar.
Vonandi er leiðin nú greið fyrir Slóveníu. Hin nýja ríkisstjórn hefur kynnt efnahagsaðgerðir sem miða að því að draga úr skuldum en jafnframt styðja við efnahagsbatann. Hún vill auka erlenda fjárfestingu og utanríkisviðskipti. Cerar boðar sanngirni og vill standa vörð um velferð almennings. Hann vill minnka umsvif ríkisins í efnahagslífinu, sem flestir eru sammála um að séu of mikil, en telur rétt að ráðast hægt og umfram allt vandlega í einkavæðingu. Hann veit að almenningur óttast að fyrirtækin verði seld vildarvinum á undirverði. Sporin hræða. Traustið er farið.
Vantraust er víða vandamál. Slóvenía er alls ekkert einsdæmi, staðan er líklega verri í ýmsum ríkjum og eflaust eitthvað betri í öðrum hvað varðar traust almennings til stjórnvalda. Þetta er mikið rætt á vettvangi ÖSE þar sem ég starfa. Mannréttindi og lýðræði, löggjöf og stofnanir, andrúmsloft og traust. Grundvallaratriðin þurfa að vera í lagi svo samfélög geti blómstrað. Stjórnvöld í öllum ríkjum þurfa að vinna fyrir trausti almennings. Þannig virkar lýðræðið – og þannig á það að virka. Ég er handviss um að Slóveníu á eftir að vegna vel.