Um helgina rak ég augun í frétt á mbl.is um Hundadag Grafarvogs sem fram fór síðasta laugardag. Með fréttinni fylgdu myndir af fólki og hundum á bílastæði í Hverafold. Ég er sjálfur úr Grafarvoginum, ég þekki þetta bílastæði, kannski var það þess vegna sem ég staldraði við fréttina.
Við nánari eftirgrennslan komst ég að því að það var Félag sjálfstæðismanna í Grafarvogi sem hélt hundadaginn svona hátíðlegan. Í viðburði á Facebook voru þátttakendur minntir á að vera með hunda sína í taumi og mæta í góðum skóm því halda átti í fjögurra kílómetra göngu, en henni stýrði enginn annar en utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson.
Og allt í einu fannst mér erfitt að lesa ekki eitthvað meira í hundadaginn í Grafarvogi, þessa góðu skó, þessa tauma.
*
Því hundadagar eru víða. Það eru hundadagar í Hörpu þessa vikuna. Það sást glögglega á blaðamannafundi Guðlaugs Þórs með utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken. Fyrir utan tónleikahúsið kom fólk saman til að mótmæla hinu langdregna þjóðarmorði Ísraelsmanna á Palestínumönnum. En Blinken var að mér sýndist á góðum skóm og hundurinn í góðum taumi á meðan hann talaði sig lipurlega frá óþægilegum spurningum blaðamanna og leyfði loks Guðlaugi Þór að lýsa því yfir að Bandaríkin væru leiðtogi hins frjálsa heims.
Og það eru allir á góðum skóm í utanríkisnefnd þar sem Vinstri græn treysta sér ekki til að taka undir hvatningu til utanríkisráðherra Norðurlanda um að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi á svæðum Ísraels og Palestínumanna. Munum að hafa hundana í taumi og höldum fast í þann taum. Kannski er afstöðuleysi Vinstri grænna hluti af flókinni pólitískri málamiðlun við Sjálfstæðisflokkinn, skref númer þrjátíuogþrjú í leiðinni að algjöru plastpokabanni. En eru það góð skipti? Í hvaða akur viljum við sá?
Í það minnsta eru allir á góðum skóm og utanríkisráðherra hefur áhyggjur af ástandi mála í Ísrael og Gaza og hvetur báða aðila deilunnar til að sýna hófsemi. Þetta eru skilaboðin sem Ísland sendir umheiminum. Afstaða sem er svo volg að hún er beinlínis köld. Þegar þetta er skrifað hafa Ísraelsmenn drepið meira en 220 Palestínumenn. Á meðan hafa tólf fallið í Ísrael.
*
Þótt ég hafi fyrirfram ekki verið spenntur fyrir stjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks skal ég játa að mig grunaði ekki hvað var í vændum; svo oft hefur stefna ríkisstjórnarinnar í mannúðar- og mannréttindamálum verið í stjarnfræðilegri fjarlægð frá hljómfagurri flokksstefnu Vinstri grænna. En þegar formaður flokksins og forsætisráðherra þjóðarinnar getur ekki einu sinni tekið skýra og afdráttarlausa afstöðu með palestínsku þjóðinni þegar fimmtíu skólar hafa verið sprengdir í loft upp, þegar 60 börn hafa verið myrt, þegar maður les fréttir um að íslensk stjórnvöld hafi valið sér þessa viku til að vísa níu palestínskum flóttamönnum á götuna, þá fallast manni hendur. Þá verður maður dapur.
*
Það eru hundadagar, ég vissi það ekki þá en ég veit það núna: Það eru og verða eflaust áfram hundadagar. Sjálfstæðismenn hafa enda alltaf verið miklir hundamenn og hér í lokin liggur beinast við að nefna til sögunnar sjálfstæðasta manninn í landinu, nefnilega Bjart í Sumarhúsum. Þótt hann hafi sáð í akur óvinar síns allt sitt líf þá átti hann marga ágæta hunda og hann unni sínum hundum og í þessari ágætu bók Nóbelsskáldsins erum við einmitt minnt á að hvernig „sem alt veltist eiga menn þó að minsta kosti minníngarnar um hunda sína, þær getur einginn tekið frá okkur“.
Ég skrifa þetta á fallegu miðvikudagskvöldi. Það hefur rignt. Allt grænkar. Birtan er mjúk og dularfull. Börnin mín eru sofandi. Svartþrastasöngur en svo algjör kyrrð. Kvöld sem kennir manni að lífið er ótrúleg gjöf.
Samt er ekki annað hægt en að vera dapur.