Húsnæðismál hafa oft verið meira áberandi fyrir alþingiskosningar en þau eru nú. Flestir flokkar sem bjóða sig fram hafa þó sett sér stefnu í húsnæðismálum sem lesa má um á heimasíðum þeirra. Stefnur flokkanna bera keim af klassískri skiptingu í meiri eða minni afskipti ríkisvaldsins af húsnæðismarkaði, eftir staðsetningu flokkanna á vinstri eða hægri væng stjórnmálanna.
Íslenskur húsnæðismarkaður einkennist af mjög háu hlutfalli eignaríbúða, vaxandi fjölda leiguíbúða en litlu framboði af húsnæði sem byggt er og rekið með stuðningi hins opinbera. Félagslegar leiguíbúðir eru fáar og tilraun til að endurreisa verkamannabústaðakerfið frá grunni, sem lagt var niður um aldamótin, er rétt nýhafin með gildistöku laga um almennar íbúðir og reglugerð um stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga árið 2016. Á síðasta ári bættust svo við lög um hlutdeildarlán, þar sem fólki undir tekju og eignamörkum er veitt aðstoð inn á eignamarkaðinn.
Stefna um húsnæðismarkað með stuðningi hins opinbera hefur hingað til einskorðast við áætlanir um skilgreiningar á þjóðfélagshópum þeirra sem fá að leigja eða kaupa innan kerfisins, fjármögnun uppbyggingarinnar, hagkvæmni íbúðanna í stærð og gerð og leiguverð. Lítið hefur farið fyrir markmiðssetningu um æskilega hlutfallslega samsetningu húsnæðismarkaðarins, hvernig gæði húsnæðis sem byggt er fyrir opinbert fé er tryggt, hvernig húsnæðið þjóni hlutverki sínu til lengri tíma og þar með hvort að þróun húsnæðismarkaðarins verði í átt að social sustainability eða félagslegri sjálfbærni.
Hvað vilja flokkarnir gera?
Framsóknarflokkurinn, sem hefur á kjörtímabilinu stýrt húsnæðismálum frá félagsmálaráðuneytinu vill sameina skipulags- og húsnæðismál undir sama ráðuneyti, fái flokkurinn umboð til þess. Framsókn vill enn fremur auka framboð á almennum íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða og útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Flokkur forsætisráðherra, Vinstri græn, vill tryggja öllum aðgang að húsnæði og auka stöðugleika á húsnæðismarkaði með því að auka enn frekar stuðning við félagslegt húsnæði og fjölga íbúðum í almenna íbúðakerfinu. Sjálfstæðisflokkur vill fjarlægja hindranir og auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði en líka stuðla að virkum leigumarkaði eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndum. Ekki er farið nánar út í hvernig þeim markmiðum verður náð.
Af stefnumálum annarra flokka í húsnæðismálum tala Miðflokkur og Flokkur fólksins fyrir eignastefnu. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir fjárfesti í húsnæði fyrir aldraða og Viðreisn vill að öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa.
Píratar, Samfylking og Sósíalistaflokkurinn setja fram ítarlega húsnæðisstefnu m.t.t. aðkomu hins opinbera til stýringar á húsnæðismarkaðinum. Píratar telja að stjórnvöld eigi að beita sér af krafti í húsnæðismálum og vilja þeir tryggja fólki raunverulegt val um búsetu sína; hvort sem það er í gegnum eign, leigu eða úrræði á vegum hins opinbera. Því þarf að stórefla stöðu leigjenda, byggja ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og aðra utan húsnæðismarkaðar og tryggja hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðari byggðum landsins. Píratar ætla m.a. að vinna að því að fjölga búsetuúrræðum sem koma til móts við þarfir mismunandi hópa sem á þurfa að halda og vinna að fjölgun almennra íbúða.
Samfylkingin vill að hið opinbera beiti sér fyrir fjölbreyttu framboði á húsnæðismarkaði til að tempra verð og tryggja húsnæðisöryggi fyrir alla. Flokkurinn vill beina framlögum hins opinbera í auknum mæli til uppbyggingar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og byggingarfélög á vegum stúdenta og eldri borgara, auka stofnframlög til uppbyggingar í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða og hækka tekju- og eignamörk.
Sósíalistar boða Stóru húsnæðisbyltinguna, byggingu 30.000 íbúða á tíu árum. Til þess að hrinda byltingunni í framkvæmd vill flokkurinn stofna Húsnæðissjóð almennings, Byggingafélag ríkisins og stuðla að stofnun byggingafélaga sveitarfélaga og samvinnufélaga byggingaverkafólks. Hlutverk Húsnæðissjóðs almennings verður að afla fjármagns með útgáfu skuldabréfa sem seld verða lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum auk stuðnings frá sveitarfélögum og láni frá ríkissjóði. Fjármögnun verður stillt af miðað við líftíma húsanna, viðhaldi þeirra og rekstrarkostnaði leigufélaganna. Sósíalistar reikna út kostnað hverrar meðalíbúðar í kerfinu og bæta við 20% ofan á fyrir sameign og 10% í hönnun, þar sem markmiðið er að byggja góðar íbúðir sem henta fólki og endast vel.
Stefnuskrár flokkanna sýna að stór hluti þeirra vilja halda áfram uppbyggingu óhagnaðardrifinna leiguíbúða í almenna íbúðakerfinu, í mismiklu miklu mæli þó og fyrir mismunandi þjóðfélagshópa. Sumir boða hækkun eigna- og tekjumarka á meðan aðrir boða lækkaða húsaleigu með lengingu lánstíma. Enginn flokkur setur fram áætlun um endurskoðun viðmiða laga og reglugerða til að tryggja gæði uppbyggingarinnar eða markmið um félagslega sjálfbærni, ef frá er talin stefna sósíalista um að byggja góðar íbúðir sem henta fólki og endast vel.
Evrópskir straumar
Víða í Evrópu er mikil reynsla af rekstri húsnæðis með opinberum stuðningi. Danska ríkið, með Kaupmannahöfn í fararbroddi, stuðlar að byggingu óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis fyrir alla og þess er gætt að ekki séu minni kröfur gerðar til gæða þess konar íbúðarhúsnæðis en annars sem byggt er í borginni. Markmiðið er félagsleg sjálfbærni þar sem fólk með mismunandi bakgrunn og tekjur býr saman og við sams konar íbúðagæði, bæði nú og í framtíðinni.
Mikil vakning hefur orðið í málaflokknum á undanförnum árum og hafa nýlega stærstu alþjóðlegu verðlaun í arkitektúr farið til franskra arkitekta, Lacaton og Vassal, sem vöktu alþjóðlega athygli fyrir umbreytingu á félagslegu leiguhúsnæði í Bordeaux í átt að meiri gæðum fyrir íbúa og sjálfbærni sem og m.t.t. endurnýtingar og efnisnotkunar.
Í upphafi skal endinn skoða
Evrópskir arkitektar hafa sýnt fram á að hægt er ná fram markmiðum um sjálfbærni, jöfnuð og heilbrigðari húsnæðismarkað ef rétt er haldið á spilum. Laga og reglugerðarammi íbúðarhúsnæðis sem byggt er með opinberum stuðningi þarf að undirbyggja þessa nálgun fremur en að vinna á móti henni með þröngsýnum kröfum um hagkvæmni og leiguverð hér og nú, enda er uppbygging húsnæðiskerfis langhlaup.
Afleiðingar ákvarðana dagsins í dag í mannvirkjagerð móta umgjörð um daglegt líf okkar og kynslóðanna sem á eftir koma. Hvað svo sem kemur upp úr kjörkössunum um næstu helgi, eru íslenskir arkitektar tilbúnir að bjóða fram aðstoð við að byggja upp félagslega sjálfbæran húsnæðismarkað til lengri tíma. Meðal annars með því að koma að endurskoðun markmiðssetningar, viðmiða, laga og regluverks, sem mótar forsendur húsnæðisuppbyggingarinnar og hefur bein áhrif á gæði húsnæðisins og þróunar þess til lengri tíma. Þannig þjónum við líka best máli málanna fyrir þessar kosningar, loftslagsmálunum.
Höfundur er arkitekt og situr í laganefnd Arkitektafélags Íslands.