Fyrir nokkru skrifaði ég greinina Færið oss hrunið í nýjum búningi í Kjarnann þar sem greint var frá spurningum sem ég bað tilnefningarnefnd almenningshlutafélagsins Festi h.f. um svör við nokkrum spurningum. Formaður nefndarinnar kvaðst ekki mundu svara spurningum mínum. Meðal þess sem ég vakti máls á var að stjórnarformaður félagsins hefði sagt af sér eftir ósæmandi framkomu við unga konu og að félagið hefði afvegaleitt opinbera aðila til að láta þá færa sér viðskiptavini til að geta okrað á þeim.
Síðan hefur það gerst að félagið hyggst endurgreiða allt það sem þeir okruðu á viðskiptavinum sínum og mér bárust svör frá lögmanni tilnefningarnefndarinnar.
Spurningarnar sem ég spurði og svörin sem ég fékk voru eftirfararandi:
- Hver tilnefndi þá einstaklinga sem nú sitja í tilnefningarnefndinni?
- Svar: Stjórn félagsins tilnefnir öll þrjú sem sitja í tilnefningarnefndinni
- Hvernig er nefndin kjörin/skipuð?
- Svar: Aðalfundur kýs tvo nefndarmenn, stjórnin skipar einn.
- Hvað fá einstakir nefndarmenn greitt fyrir störf sín í nefndinni?
- Svar: Launin nema 135 þús. kr. á mánuði alla 12 mánuði ársins til formanns nefndarinnar og 115 þús. kr. á mánuði til annarra.
- Hver ákveður upphæð greiðslunnar?
- Svar: Aðalfundur ákveður launin [væntanlega að tillögu stjórnar félagsins]
- Flettir tilnefningarnefndin upp í skýrslum rannsóknarnefnda Alþingis um hrunið þegar mat er lagt á hverjir eru tilnefndir til stjórnarsetu og skoðar umfjöllun um viðkomandi þar?
- Svar: Ekki gott að segja.
- Má búast við að nefndin tilnefni til stjórnarsetu einstaklinga sem í fyrri störfum sínum áttu hlut að því að verulegir fjármunir fóru forgörðum þ.á.m. fjármunir lífeyrissjóða þó viðkomandi hafi ekki verið kærður eða hlotið dóm fyrir?
- Svar: Ekki svarað
- Hver er aðkoma forstjóra félagsins og fráfarandi stjórnar að starfi nefndarinnar?
- Svar: Forstjóri hefur enga aðkomu að vinnu tilnefningarnefndarinnar.
- Var það núverandi tilnefningarnefnd sem tilnefndi fráfarandi stjórnarformann til stjórnarsetu?
- Svar: Já.
[Tilnefningarnefndin lét það ekki stöðva sig að stinga upp á sem formanni stjórnar einstaklingi sem nú hefur sagt af sér vegna ósæmilegrar hegðunar þrátt fyrir að viðkomandi hefði fyrir hrun verið í forsvari fyrir gjaldþrota fyrirtæki og gjaldþrotið eitt hið stærsta í Íslandssögunni. Fjárhagstjónið varð verulegt m.a. fyrir lífeyrissjóði sem eru stærstu einstöku eigendur Festi h.f. með tilheyrandi lífeyrisskerðingum sjóðfélaga]
Af svörunum má draga ýmsar ályktanir þ.á.m. að menn hafi dregið lítinn lærdóm af hruninu og áfram skuli haldið eins og ekkert hafi í skorist. Það ber uppástunga tilnefningarnefndarinnar um fráfarandi stjórnarformann félagsins glöggt vitni um. Einnig má álykta að hin svokallaða tilnefningarnefnd hafi þann eina tilgang að slá ryki í augu fólks til að láta líta svo út að eitthvað sem á að heita óháðir aðilar (en sem eru samt tilnefnd af stjórn félagsins sem jafnframt gerir tillögu um laun þeirra!) hafi eitthvað um það að segja hverjir verði tilnefndir til stjórnarsetu. Ástæða er til að endurtaka hvatningu Guðrúnar Johnsen sem sagði í nýlegri grein í Vísbendingu:
„Sem hluthafar í skráðum og óskráðum fyrirtækjum hafa lífeyrissjóðirnir ríka ábyrgð. Í krafti eignarhalds síns hafa þeir slagkraft til að tilnefna stjórnarmenn, kalla til hluthafafundar og krefja stjórnendur svara um hin ýmsu atriði, greiða atkvæði á hluthafafundum, móta samþykktir fyrirtækja og eftir atvikum aga stjórnendur með því að sjá til þess að lög og réttindi hluthafa séu virt.“
Höfundur er hagfræðingur.