Það hefur komið í ljós að Internetið er ekki öruggasti staðurinn til þess að eiga samskipti. Svo mikið er víst, eins og dæmin sanna.
Netárásin á Vodafone, 30. nóvember 2013, dró mikinn dilk á eftir sér og hafa mörg mál sem rekja má til hennar ekki enn verið til lykta leidd fyrir dómstólum. Í því tilfelli urðu persónuleg gögn opinber öllum, sem enginn bjóst við að gætu komist upp á yfirborðið.
Síðustu vikur og mánuði hefur persónulegt líf gríðarlegs fjölda fólks um allan heim komist upp á yfirborðið eftir að tölvuhakkarar gerðu gögn af Ashley Madison vefnum umdeilda opinber. Umræða dagsins hér á landi, eftir að Þóra Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, gerði innskráningu á vefinn að umtalsefni á Facebook síðu sinni í dag, gefur tilefni til þess að hugsa um þessi mál í örlítið víðara samhengi, óháð því hvaða skoðun fólk kann að hafa á síðum sem þessum.
Á örskömmum tíma, aðeins sjö árum eða svo, hefur veröld fólks breyst mikið með breyttum samskiptamáta, í gegnum samfélagsmiðla. Mikið magn persónulegra gagna má nú finna á samfélagsmiðlum. Þeir gleyma engu, er sagt, og internetið ekki heldur.
Hvað ætli myndi gerast ef Facebook yrði hakkað og lokaðar síður vinahópa og saumaklúbba yrðu opnaðar, og samtöl fólks sömuleiðis? Það er ekki gott að segja, en það er ekki víst að allar þær upplýsingar þoli dagsljósið, svo ekki sé nú dýpra í árina tekið...