Heilbrigðiskerfi Íslendinga er að niðurlotum komið. Það er ekki pláss fyrir sjúklinga á spítölum. Tæknibúnaður er annars flokks og af skornum skammti. Það eru maurabú farin að hreiðra um sig innan veggja Borgarspítalans. Læknar, hjúkrunarkonur og ljósmæður fá hlægileg laun. Á heildina litið er staðan vægast sagt tragedísk. Og hér um bil allir eru sammála um það.
Frá unga aldri hef ég tamið mér að reyna mitt besta að hugsa í lausnum. Það er skjótasta og skilvirkasta leiðin til betrumbóta, og ég tel það eiga vel við í tilfelli heilbrigðiskerfisins. Þegar maður hefur útlistað vandamálin liggur það eitt eftir að finna lausnir við þeim.
Húsnæðisvandkvæði
Veltum fyrir okkur hvaða lausnir eru við plássleysi á spítölum. Það væri mögulegt að byggja við spítalana og stækka þá. Líkast til er ekki hægt að fækka sjúklingum - í öllu falli er það hægara sagt en gert. Svo væri einnig hægt að einfaldlega byggja nýjan spítala.
Áform um nýjan spítala hafa verið til umræðu í mjög langan tíma. Engin ákvörðun hefur verið tekin enn, en byggingartími nýs spítala er áætlaður um 6-7 ár eftir að framkvæmdir hefjast. Svo jafnvel ef Kristján Þór Júlíusson heilbrigðismálaráðherra renndi frumvarpi í gegnum þingið á morgun - ansi ólíkleg þróun mála, held ég að sé öruggt að fullyrða - yrði spítalinn þó ekki tilbúinn fyrr en í fyrsta lagi um 2021. Þolum við þessa bið? Er hún ásættanleg? Getum við afborið í besta falli 6-7 ár til viðbótar af óviðunandi þjónustu sökum aðgerðarleysis?
Þolum við þessa bið? Er hún ásættanleg? Getum við afborið í besta falli 6-7 ár til viðbótar af óviðunandi þjónustu sökum aðgerðarleysis?
Kostnaður við bygginguna er áætlaður rúmir 50 milljarðar króna. Með nýjum tækjum bætast 15 milljarðar króna við og heildarupphæðin komin upp í heila 65 milljarða króna. Þetta er ekkert klink. En ekki var upphæðin sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks lagði í niðurgreiðslu húsnæðislána millistéttarinnar nýverið neitt klink heldur. Hún var rúmum fimmtán milljörðum hærri. Og ég vil að við spyrjum okkur öll hvort sé þarfari fjárfesting, nýr spítali í stað þess niðurgrotna sem blasir við okkur í dag eða niðurgreiðsla lána sem tekin voru af frjálsum einstaklingum sem ættu að standa við skuldbindingar sínar. Hvað er svona flókið við þetta?
Landflótti lækna
En hvers virði er nýr spítali ef engir eru læknarnir? Læknar, eins og allir aðrir sem selja vinnuafl sitt í skiptum fyrir fé, eru hagsmunaaðilar á vinnumarkaði. Á heildina litið leitast þeir, rétt eins og tölvunarverkfræðingar eða garðsláttumenn, eftir því að selja vinnuafl sitt fyrir sem mestan pening. Þegar staðan er eins og hún er í dag verður mjög óaðlaðandi fyrir lækni að selja vinnuafl sitt hér - einfaldlega vegna þess að vinna hans er mun minna virði hér en annars staðar. Læknirinn hefur þann kost að flytja til útlanda þar sem honum eru greidd mikið hærri laun. Og hann hefur fulla ástæðu til. Þetta er eðlilegt. Læknar eru menn líka. Þeir eru ekki bundnir neinni skyldu til að þjóna landi og þjóð.
Allflestir læknanemar fara til útlanda í sérfræðinám eftir að hafa öðlast almennt læknaleyfi. Vandamálið er að þeir eiga það til að koma ekki aftur heim til Íslands. Það er ekkert í boði fyrir þá hérlendis. Lúsarlaun og ömurleg vinnuaðstaða bíða þeirra. Hver leggur á sig fjórtán ára strembið læknanám til að fá helmingi lægri laun en kollegarnir í útlöndum?
Hver leggur á sig fjórtán ára strembið læknanám til að fá helmingi lægri laun en kollegarnir í útlöndum?
Á vefsíðu Læknafélags Íslands má finna launaskrá lækna eftir námsþrepum. Laun kandídats sem hefur stundað 6 ára nám eru 340 þúsund krónur á mánuði. Læknir með lækningaleyfi er með 360 þúsund krónur, og læknir með sérfræðileyfi með 535 þúsund krónur. Þá er auðveldara að flytja til útlanda. Í útlöndum (Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Noregi, Bandaríkjunum) eru læknar með sérfræðileyfi með á bilinu 1.000.000-1.200.000 krónur. Grasið er raunverulega grænna hinum megin. Hér megin er það fölt, dautt og bragðlaust.
Hver er lausnin? Er hún að skuldbinda alla læknanema til að vinna 5 ár á Íslandi eftir útskrift? Er hún að stytta læknanámið? Er hún að gefa öllum læknum frítt í bíó einu sinni á ári? Nei, lausnin er, þótt fáránlegt megi virðast, að hækka laun lækna. Það virðist fáránlegt vegna þess að þetta er það fyrsta sem öllum ætti að koma til hugar - þetta er óendanlega einföld lausn, en þó hefur þetta ekki verið gert. Hvað er eiginlega svona flókið við þetta?
Viðbrögð og breytingar
Þegar allt er á hvolfi þarf að rétta það við. Þegar brothættir hlutir brotna þarf að púsla þeim aftur saman. Þegar heilt þjónustukerfi byggt á skattfé landsmanna er orðið svo vanhæft sökum fjársveltis að hvert einasta mannsbarn hrópar, æpir, gólar á breytingar, þá þarf að laga það. Það þarf að laga heilbrigðiskerfið. Og fljótlegasta og skilvirkasta leiðin til þess er að hætta að setja fjármagn í heimskulega hluti og byrja að setja það í gáfulega hluti. Gótt dæmi eru launahækkanir lækna. Fjárfesting í nýjum spítala með öllum græjum sem til þarf til að halda uppi mannsæmandi heilbrigðisþjónustu.
Og fljótlegasta og skilvirkasta leiðin til þess er að hætta að setja fjármagn í heimskulega hluti og byrja að setja það í gáfulega hluti. Gótt dæmi eru launahækkanir lækna
Það er undir stjórnmálamönnum komið að leiðrétta það sem brotið er innan kerfisins. Lýðurinn getur hrópað eins og hann vill, en hann fer ekki með framkvæmdavald. Framkvæmdavaldið er hjá ráðherrum og þingmönnum. Og það er ykkar, kæru ráðherrar og þingmenn, að hafa eyrun og augun opin, hreinsa merginn burt og þerra tárin, hætta að röfla um hrunið, bretta upp ermar og ganga til framkvæmda. Til hvers eruð þið þá annars? Er þetta svona flókið?