Jörðin okkar er farin að láta á sjá og ef ekkert verður að gert í loftslagsmálum og brugðist við hlýnun, ótæpilegri mengun og gegndarlausri rányrkju á náttúruauðlindum erum við í miklum vanda.
Vísindamenn hafa varað við því að ýmsar öfgar í veðurfari fylgi hlýnun lofthjúpsins og yfirborðs sjávar. Þar má nefna hitabylgjur, þurrka, aukna úrkomu og kröftuga fellibylji.
Vart þarf að tíunda frekar þá undarlegu og óvenjulegu atburði sem eru að gerast í veðurfari jarðarinnar.
Við sem búum á Íslandi trúum því vart að við eigum mikinn þátt í því að menga og hafa áhrif á alla þá þætti sem tengjast loftslasgsvánni og hve mengun á jörðinni er gríðarleg.
En jú, Íslendingar eru sannarlega þátttakendur. Við reiðum okkur á ferðamenn sem stóran hluta afkomu okkar sem þurfa að komast til og frá landinu og flugvélar og farþegaskip menga svo sannarlega. Skipaflotinn okkar er nær allur knúinn eldsneyti úr kolefnissamböndum og við notum meira plast en flestar þjóðir. Næstum allir hlutir sem almenningur á vesturlöndum notar hversdags eru að einhverju leyti gerðir úr plasti.
Í áætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins gegn umhverfisvá af völdum plasts frá árinu 2020 kemur fram að árleg framleiðsla þess nærri tvöfaldaðist á milli áranna 2000 og 2017.
Sem betur fer er raforkan okkar upp að vissu marki vistvæn þó að stórum landsvæðum þurfi að fórna vegna þeirra uppistöðulóna sem nauðsynleg eru til að knýja áfram túrbínurnar sem framleiða rafstrauminn.
Við erum öll orðin svolítið þreytt á því að ræða þessi mál en við megum ekki gefast upp. Margir töldu að loftlagsmál yrðu hitamál nýafstaðinna Alþingiskosninga en svo varð ekki raunin. Íslendingar ákváðu að treysta enn á flokka sem eru lítt eða ekkert til viðtals um þennan málaflokk.
Er önnur pláneta í boði?
„They used to say that if Man was meant to fly, he'd have wings. But he did fly. He discovered he had to.“ James T. Kirk, Return to Tomorrow.
„Fullyrt var að ef manninum væri ætlað að fljúga hefði hann vængi. En hann hóf sig á loft. Maðurinn uppgötvaði að hann varð að fljúga.“ James T. Kirk, Return to Tomorrow.
Þessi tilvitnun hér að ofan er lauslega þýdd og er ein af fjölmörgum fleygum setningum úr sjónvarpsþátta- og kvikmyndaröðinni Star Trek.
Hinn níræði kanadíski leikari William Shatner sem lék kaptein James T. Kirk æðstráðanda á geimskipinu USS Enterprise í Star Trek í mörg ár brá sér af bæ fyrir nokkrum dögum. Með hjálp auðkýfingsins Jeff Bezos, stofnanda og eiganda Amazon og Blue Origin geimflaugafyrirtækisins, fór leikarinn í skreppitúr út í geim. Ferðin tók innan við fimmtán mínútur en Shatner var ekki samur á eftir. Er hann hafði aftur fast land undir fótum á eyðimörk í Texas í Bandaríkjunum sagði hann eitthvað á þessa leið: „Ég vona að ég nái mér aldrei eftir þetta.“ Shatner stóð innan um kampakátt fólk sem hrópaði, kallaði og skálaði í freyðivíni á meðan hinn aldni leikari stóð grátklökkur hjá. Bezos huggaði hann og Shatner hélt áfram og tjáði þessum auðugasta manni heims: „Það sem þú hefur gefið mér er magnaðasta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir.“
Þessi frétt sló mig og var ekki laust við að ég fyndi fyrir depurð þegar ég las hana. Bezos er ekki eini auðmaðurinn sem vinnur að því að fara í reglulegar ferðir út í geim með ærnum tilkostnaði. Kollegar hans þeir Elon Musk, eigandi Tesla og Richard Branson stofnandi Virgin flugfélagsins, eru með svipuð verkefni á prjónunum og hafa verið í nokkur ár. Elon Musk segist ætla að senda mannað far til Mars í þeirri von að hægt verði að nýlenduvæða eða „nýplánetuvæða“ rauðu reikistjörnuna.
Nú velti ég því hreinlega fyrir mér hvort ekki væri heillavænlegra að einbeita sér að því að bjarga málunum hér á okkar bláa hnetti frekar en að storma út í ævintýri sem eru hugsanlega enn um sinn ekki tímabær. Fleiri en ég hallast að þessari skoðun en þegar viðbrögð samtímamanna við tækninýjungum og uppgötvunum í vísindum eru skoðuð þá er það nú svo að þeir sem framsæknir eru eiga erfitt með að sannfæra samtímamenn sína. Þeir Wright bræður sem fyrstir flugu með hjálp vélarafls fengu að finna fyrir háðsglósum efasemdamanna en þær heyrðust aðeins þangað til að uppfinning þeirra var orðin á allra vörum enda getur mannkynið nú vart ímyndað sér veröldina án flugvéla.
Þetta kom upp í hugann en ég tel þó að núna þurfum við að gæta að okkur og lagfæra það sem þarf áður en við neyðumst til að leggja á flótta út í geim. Okkur ber að stöðva þróun sem leiðir af sér brotthvarf frá reikistjörnu þar sem við átum upp auðlindir og þurrkuðum út lífríkið og þar með grunn viðurværis okkar sjálfra.
Vilhjálmur Bretaprins er mér sammála og telur til dæmis að brýnna sé að bjarga jörðinni en að stunda geimferðamennsku. Meira liggi við að „vernda þessa plánetu en að finna næsta stað til að búa á“.
En þeir sem eru í þeim óformlega klúbbi sem á meirihluta eigna og auðæfa heimsins eru ekki alltaf tilbúnir að láta segjast.
Það er alltaf gott að vitna í bækur þó að misgóðar séu
Fyrir nokkrum árum las ég bókina Stark eftir enska grínistann, rithöfundinn, leikarann og leikstjórann Ben Elton. Íslendingar þekkja hann sennilega helst sem annan handritshöfunda sjónvarpsþáttanna um Svörtu nöðruna eða Blackadder þar sem Rowan Atkinson fór á kostum í titilhlutverkinu.
Bók Eltons kom út 1989 og naut töluverða vinsælda í Bretlandi og í Ástralíu þar sem sögusvið hennar er. Aðalsöguhetjan Colin Dobson, kallaður CD lifir frekar leiðinlegu lífi í ekki svo fjarlægri framtíð. Lífríki jarðar er að niðurlotum komið og svokölluð „skriðuföll“ sem fylgja ástandinu gera það að verkum að allt er að fara til andskotans líkt og er raunverulega víða að gerast akkúrat núna.
Stark er leynilegur félagsskapur ríkustu manna veraldar sem hafa lengi vitað að lífríki jarðar nálgast algjört hrun. Í áratugi hafa þeir skotið á loft ómönnuðum geimförum fullum af vistum sem bíða þess á sporbaug um jörð og tungl að not verði fyrir farm þeirra.
Það sem auðmönnunum gengur til er að bjarga eigin skinni og hafa til þess, með mikilli leynd, smíðað geimför sem ætlað er að flytja þá til tunglsins. Þar er ætlunin að 250 manns setjist að og lifi áfram á meðan jörðin ferst. Söguþráðurinn vitnar í söguna um örkina hans Nóa sem, samkvæmt því sem segir í Biblíunni, bjargaði pari af hverri dýrategund jarðarinnar undan syndaflóðinu.
Bók Ben Elton endar hinsvegar á því að upp kemst um fyrirætlanir hinna ofurríku, sem renna þar með út í sandinn. Samfara því sjá íbúar jarðarinnar að sér, lífríkinu er bjargað og allt virðist falla í ljúfa löð.
Þó að langt sé síðan ég las bókina þá gat ég ekki annað en rifjað hana upp nú þegar þrír fulltrúar þeirra sem öllu virðast ráða hér á jörð eru að dunda sér við að komast frá plánetunni í stað þess að hjálpa við að bjarga því sem bjargað verður, eins og Vilhjálmur prins leggur til.
Enn vitna ég í kóngafólkið. Það hlýtur eitthvað mjög undarlegt að vera að gerast þegar Elísabet II Bretadrottning heyrist segja á fundi: „Það er magnað, er það ekki, ég hef fræðst um COP26 ... en veit ekki enn hverjir koma. Ekki hugmynd. Við vitum bara um þá sem koma ekki ... Það er mjög pirrandi þegar þeir tala bara, en gera ekki neitt.“
Þessi orð lét drottningin falla nýverið á undirbúningsfundi sem haldinn var af velska þinginu til undirbúnings COP26, sem er hvorki meira né minna en tuttugasta og sjötta ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Hún verður haldin í Skotlandi nú í nóvember.
Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon sem tók þátt í ráðstefnu um málefni norðurslóða hér í Reykjavík nú fyrir skömmu, gekk svo langt að segja að COP26 væri trúlegast síðasta tækifæri ráðamanna til að stemma stigu við aðsteðjandi vá loftslagsbreytinga.
En stjórnmálamenn og aðrir þeir sem stjórna lífi okkar og tilveru fyrir utan þennan eina dag á um það bil fjögurra ára fresti þegar við fáum að krota X í box á kjörseðli hafa ekki staðið sig í stykkinu. Nú er svo komið að fljótlega verður hugsanlega of seint í rassinn gripið.
Nýleg ræða sænska unglingsins Gretu Thunberg eins einarðasta loftslagsaðgerðasinna okkar tíma er hugsanlega lýsandi fyrir það vonleysi sem nú ríkir.
Undirbúningsfundur fyrir COP26 var haldinn í Doha höfuðborg Persaflóaríkisins Katar fyrir skömmu. Fundurinn var ekki ætlaður kóngafólki og ráðamönnum heldur ungu fólki hvaðanæva að úr veröldinni.
Greta stóð við púltið og varð að beygja hljóðnemana niður á við svo að örugglega heyrðist í henni. Hún þurfti að standa á tám þar sem púltið var of hátt fyrir hana. Þessi fremur lágvaxna unga kona lét það ekki slá sig út af laginu heldur lét stjórnmálamenn og þá sem þykjast ráða svo sannarlega fá það óþvegið.
Þetta er hin svokallaða BLA, BLA ræða Gretu sem óneitanlega hefur samhljóm með orðum Elísabetar II. Greta segir í stuttu máli að nóg sé komið af orðaflaumi sem enga þýðingu hafi meðan ekkert er að gert og tíminn hleypur frá okkur.
Hér verð ég að taka fram að það er fjarri mínum lífsskoðunum að styðja fólk sem hlýtur völd sín að erfðum. Það á jafnt við um konungborið fólk og þá sem fá kvóta í vöggugjöf. Þó ber vitaskuld að viðurkenna það sem vel er gert. Sonur Elísabetar Bretadrottningar, ríkisarfinn Karl og synir hans hafa til að mynda talað kröftuglega með því að aðgerða sé þörf í loftslagsmálum.
Alpha karlarnir sem ráða
Hinsvegar standa valdamiklir menn þéttingsfast á bremsunni, og já þetta eru oftast nær karlmenn á borð við Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, Vladimir Putin forseta Rússlands, Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta og Xi Jinping forseta Kína. Þeir standa í vegi fyrir nauðsynlegum aðgerðum og bera fyrir sig að fjörið verði að halda áfram, „the show must go on“, ella hrynji efnahagskerfi heimsins.
En kerfið okkar, sem krefst endalauss hagvaxtar, byggir á kapítalisma. Það má vel vera að kínverskir ráðamenn viðurkenni ekki beinlínis að þeirra ismi sé kapítalismi en ég fullyrði að svo sé. Við getum skellt þeirri kenningu fram að þar hafi orðið til eitthvað sem kalla mætti alræðiskapítalismi. En við skulum láta það sem Kínverjar segja sem vind um eyru þjóta því nú er komið að endurskoðun. Alræðiskapítalismann þarf að endurskoða rétt eins og hinn rétta og slétta kapítalisma vesturlanda, ekki síður en aðra þá isma og lífsskoðanir sem hafa komið og farið í gegnum tíðina.
Joe Biden núverandi Bandaríkjaforseti virðist hafa áttað sig á hvert stefnir, í átt að hruni lífríkis jarðarinnar verði ekki gripið inn í og spornað við yfirstandandi þróun. Hann virðist vita fullvel að aðgerða er þörf þótt kapitalistarnir vilji og krefjist enn að fá vilja sínum framgengt.
Þó leyfi ég mér að efast stórlega um að aðgerðirnar sem forsetinn vill beita dugi til. Hann stendur nú í þeim sporum að það eru ekki bara Repúblikanar sem standa í vegi fyrir því sem hann ætlar að reyna að koma í framkvæmd heldur einnig Demókratar, samflokksmenn hans.
Hér má til dæmis nefna Joe Manchin þriðja, öldungadeildarþingmann demókrata í Vestur-Virginíu, sem um var skrifað hér í Kjarnanum fyrir skömmu.
Manchin hefur greint Bandaríkjastjórn frá því að hann muni ekki greiða atkvæði með fyrirhuguðum aðgerðum Bidens.
Þetta gerir hann þrátt fyrir að ríkið sem hann er fulltrúi fyrir verði illa úti í flóðum og hugsanlega öðrum náttúruhamförum, ef fram heldur sem horfir. Hamförum sem þegar hér er komið sögu má rekja til mannanna verka. Ástæður skoðana Manchins má líklegast rekja til þess að hvergi í Bandaríkjunum er unnið meira af kolum og jarðgasi en í Vestur-Virginía. Þar að auki á Manchin sjálfur fyrirtæki sem verslar með kol, samkvæmt heimildum frá New York Times.
Svona gerast semsé kaupin á eyrinni. Öll heimsbyggðin er undir og örfáir menn sem eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta geta komið í veg fyrir aðgerðir sem okkur öllum eru nauðsynlegar.
Núvitund kemur að gagni
Aðgerðir þær sem grípa þarf til í loftslagsmálum og afleiðingar þeirra verða að vera til hagsbóta fyrir sem flesta. Við þurfum örugglega öll að færa einhverjar fórnir, mismiklar og miserfiðar. Með hugarfarsbreytingu og kerfisbreytingu ber okkur vonandi gæfa til þess að skila bláa hnettinum okkar í viðunandi ástandi til komandi kynslóða.
Eitt af lykilorðunum er nýtni. Vel getur verið að við þurfum að láta okkur duga að kaupa færri spjarir og láta þær endast lengur. Við þurfum líka örugglega að fara um á tveim jafnfljótum oftar og lengra en hingað til. Almenningssamgöngur eru einn af lyklum þess að okkur takist að draga úr útblæstri og minnka umhverfisvána. Auk þess þarf að herða hraðann í nýorkuvæðingu skipa- og flugvélaflotans að ógleymdu því að láta af öllu hernaðarbrölti sem ásamt því að vera skelfilegt fyrir fórnarlömb þess er óhugnanlega óumhverfisvænt.
Ekki þykir mér mjög líklegt að sólarorka verði virkjuð hér á landi í stórum stíl en beislun vindorku þarf að skoða enn frekar en nú er gert. Ekki getum við fært allt landið undir uppistöðulón og nóg er rokið. En lykilspurningin er auðvitað hvort það sem kemur í staðinn fyrir kolefnaeldneyti sé meiri skaði fyrir umhverfið. Sólarspeglar og rafhlöður kosta umhverfið drjúgt og framleiðsla þeirra er skaðleg. Vindmyllur eru hugsanlega ekki fagrar ásýndum, lífríkinu umhverfis þær getur hugsanlega stafað ógn af þeim og efniviður til smíði þeirra er alls ekki óskaðlegur og umhverfisvænn.
Mér gengur það eitt til að hvetja til umræðu þar sem ekki er gert ráð fyrir því að einhver ein lausn sé galdurinn. Kjarna málsins liggur einfaldlega í að velja ekki aðeins eina lausn til framtíðar.
Jú, Ísland er rokrassgat en það er líka nokkuð víst að fjárfestar henda ekki peningum sínum í byggingu vindmylla ef það er feigðarflan.
Brýnt er að skapa val um hvað tekur við af kolefnaeldsneytinu þannig að allur heimurinn verði ekki upp á einn orkugjafa kominn eins og nú er.
Já, ég stend við það að heilt yfir litið eru jarðefnin kol, olía og gas í rauninni sú eina tegund orkugjafa sem við erum háð.
Brennslu eldsneytis úr kolefnum verður að stöðva og eins ber að draga verulega úr notkun á plasti, sem að stærstum hluta er framleitt úr jarðolíu. Þó hefur notkun sykurreirs og sterkju rutt sér til rúms við framleiðslu plast á undanförnum árum. En skoða þarf hvort ræktun sem þessi sé lausnin þar sem ekki fækkar fólkinu sem býr á plánetunni. Líklegast þarf allt ræktanlegt landsvæði til þess að brauðfæða okkur öll.
Án efa verður snúið að draga úr plastnoktun enda nýtist það til dæmis mjög vel til geymslu á matvælum. Rafmagnstæki sem við notum daglega eru búin til úr plasti. Við reiðum okkur á plast við smíði bygginga og framleiðslu bíla, smíði húsgagna, framleiðslu umbúða, sjóntækja, fatnaðar og svo ótalmargs annars.
Við Íslendingar notum ógrynni af plasti ár hvert. Í sjálfu sér er mikill vandi að draga úr plastnotkun en velta má fyrir sér hvort minnka megi þörfina fyrir plast. Það mætti gera með því að láta tæki, tól og umbúðir endast lengur og sömuleiðis að hvetja framleiðendur til að draga úr öllum þessum umbúðum. Jafnvel umbúðum úr plasti utan um aðrar umbúðir, líka úr plasti, utan um plasthlutinn sem við vorum að kaupa.
Eins þarf að huga enn betur en nú er gert að því að endurvinnsla verði hluti af framleiðsluferlinu, sem drægi þá enn úr þörfinni fyrir framleiðslu nýs plasts og þar með eftirspurn eftir jarðolíu.
Á síðasta ári kynnti umhverfis- og auðlindaráðuneytið áætlun í 18 liðum til að stemma stigu við þeirri umhverfisvá sem plast í umhverfinu veldur.
Framleiðendur vilja almennt ekki að þær vörur sem við kaupum endist of lengi þar sem viðskiptamódelið sem unnið er með krefst þess að meira sé selt í dag en í gær. Hugsanlega verðum við að sætta okkur við að greiða hærra verð fyrir gripina sem við kaupum en á móti kemur að þeir endast okkur lengur.
Hér þarf líka hugarfarsbreytingu neytenda, mikla hugarfarsbreytingu, afgerandi og algera hugarfarsbreytingu í raun. Við þurfum að hætta, eða að minnst kosti minnka það að kaupa nýjustu græjurnar, nýjasta bílinn, nýjustu tískufötin um leið og þau koma á markað þótt okkur kunni að finnast þau flottari og svalari en þau sem við keyptum í síðasta mánuði, í fyrra eða hitteðfyrra.
Ný regla Evrópusambandsins um tæki seld innan landamæra þess snýst um það að framleiðendum er ekki lengur leyfilegt að bræða saman plastið sem notað er við smíði þeirra. Með því á að tryggja að unnt verði að taka tækið í sundur svo að gera megi við það þegar íhlutir þess bila. Einnota vörur eru ekki í boði lengur.
Allt í kringum okkur er fólk að finna lausnir sem vert er að skoða. Lengi hefur verið hægt að leigja brúðarkjóla, smókinga og þessháttar spariföt. Nú hefur fyrirtæki verið sett á fót hér á landi sem leigir allskonar föt, ekki bara spariföt. Sú lausn hentar vitaskuld ekki öllum en ég efast ekki um að mörgum þyki hún aðlaðandi. Önnur vangavelta hvort fólk þurfi að að eiga bíl, þvottavél, ískáp eða síma eða getur sanngjörn leiga verið málið? Endalaus tækifæri skapast til að gera góða hluti í sameiningu þegar loftslagsváin og ástæður hennar eru skoðuð án sleggjudóma.
Til þess að við getum unnið okkur út úr aðsteðjandi vanda er nauðsynlegt fyrir okkur öll að taka saman höndum og reyna að hugsa sem heild. Verkefnið er risastórt því að ég er ekki aðeins að tala um okkur Íslendinga heldur okkur öll, íbúa jarðarinnar.
Höfundurinn er kvikmyndagerðamaður og höfundur skáldsögunnar The Banana Garden.