Þegar ég og þú, óbreyttir borgarar, setjum fram okkar persónulegu skoðun á einhverju málefni, þá skiptir innihaldið öllu máli. Það er því rangt að einblína á það hver setur skoðunina fram eða hvernig hún er sett fram.
Þegar almennur borgari setur fram skoðun, þá er hún bara það. Skoðun. Hún er ekki bindandi ákvörðun fyrir fjölda manns eða niðurstaða sem aðrir þurfa að fara eftir.
Við megum hafa rangar skoðanir. Við megum hafa illa ígrundaðar og órökréttar skoðanir. En við megum líka búast við því að aðrir hafi skoðun á okkar skoðun.
Það er ekki skerðing á tjáningarfrelsi þegar annað fólk er ósammála mér. Það er ekki einelti eða þöggun ef margir finna göt í röksemdarfærslu hjá mér eða benda á villuna í mínum þankagangi.
HVERNIG - ekki hvað eða hver
Ráðherra fer með vald fyrir okkar hönd. Þegar ráðherra beitir því valdi er ekki nóg fyrir hann að birta niðurstöðu eða ákvörðun. Það er ekki nóg að skrifa bara að svarið sé 42 eða að Fiskistofa eigi að fara til Akureyrar. Líkt og nemandi í stærðfræðiprófi þarf ráðherra að sýna útreikninga.
Ef útreikningur er skýr og gagnsær, sést í fyrsta lagi hvert upphaflegt reikningsdæmi er. Er yfir höfuð verið að reikna rétt dæmi? Það vill oft gleymast.
Í öðru lagi gefur skýr og gagnsær útreikningur ráðherranum tæki til að leiða aðra í gegnum ferlið við að taka ákvörðun. Hann getur sýnt skref fyrir skref að niðurstaðan var skynsamlegasta útkoman úr þessu tiltekna dæmi.
Að sama skapi mun gagnsær útreikningur leiða í ljós rangan útreikning og rangar forsendur.
HVAÐ og HVERNIG - ekki hver
Þingmaður á einungis að hlíta eigin samvisku, ekki skoðanakönnunum eða flokksaga. Þegar stjórnmálamenn fá í hendur hugmyndir, tillögur eða frumvörp annarra, er frumskylda þeirra EKKI sú að hafa mótaða skoðun eða snjallar lausnir frá eigin brjósti.
Frumskylda stjórnmálamanns er að fylgja skynsamlegu og rökréttu ferli við að forgangsraða verkefnum, skilgreina markmiðið sem unnið er að og hvernig á að ná þeim markmiðum.
Stundum er ekki til neitt ferli. Stundum er enginn rammi til utan um verkefni, vegna þess að verkefnin eru einstök.
Í slíkum tilfellum er verkefni stjórnmálamanna að ræða ferlið og rammann fyrst, áður en farið er að ræða innihaldið. Það er ekki góð stjórnsýsla að hverfa með allt ferlið inn í svartan kassa og skila að lokum frá sér tilkynningunni: „42 er svarið“ - eða hrópa yfir fjöldann: „Fylgið skónum“.
Það er heldur ekki góð stjórnsýsla að hópa sér á bak við manninn með skóinn eða töluna 42, vegna þess eins að hrópandinn er með mér í flokki, er með mér í liði eða á lögheimili í sömu skotgröf og ég.
Skotgrafir eru til að fela sig í. Þær eru ekki gagnsæjar eðli málsins samkvæmt.
Utan skotgrafa spyrja skynsamir menn; HVAÐ?, HVERS VEGNA? og HVERNIG?
Það er aðeins í skotgröfum sem spurningin HVER skiptir máli.