Fátt hefur verið meira til umræðu síðustu daga en frídreifing DV til landsmanna fyrir skömmu. Hvort það náði til þeirra allra, frá Raufarhöfn til Reykjanestáar, skal hér látið ósagt, en þessi ,,frídreifing“ vekur upp spurningar og vangaveltur.
Í fyrsta lagi þá er frídreifingin ekki ókeypis, það er einhver sem borgar, meðal annars áskrifendur. En greinlegt er að nú eru komnir til valda á DV mun fjársterkari aðilar en áður voru (þið munið lætin um eignarhaldið á DV fyrr í vor!). Þeir hafa efni á að senda okkur ,,ókeypis“ blað með þriggja síðna viðtali við forsætisráðherra, Sigmund Davíð. Einnig er í blaðinu ítarlegt viðtal við einn helsta stuðningsmann kvótakerfisins, Ragnar Árnason hagfræðing undir fyrirsögninni ,,Þessi arður mun sjálfvirkt dreifast um allt hagkerfið,“ rétt eins og ,,brauðmolakenning“ frjálshyggjuhagfræðinnar gerir ráð fyrir (trickle-down-economics).
Í öðru lagi eru athyglisverð ummæli Sigmundar Davíðs í viðtalinu þegar til tals berst að því sem kalla mætti trú hans á stjórnmálum og ,,hagsmunatengsl“ í þeim. Orðrétt segir Sigmundur: ,,Ýmis öfl (án þess að skilgreina það nánar, innskot GH.) halda því stöðugt á lofti núna að stjórnmálamenn séu að ganga erinda annarra en almennings. Miðað við það sem ég þekki til þá er þetta tómt rugl.“
Meini Sigmundur það sem hann er að segja er greinilegt að ummæli frá einum af hans eigin þingmönnum hafa algerlega farið framhjá honum, en Páll Jóhann Pálsson sagði á Alþingi í byrjun júlí 2013: „Varðandi mig og hagsmunatengslin, ég hef bara talið mig vera fulltrúa útgerðarinnar hérna og hef ekkert farið leynt með það." Þessi orð þingmannsins benda varla til þess að þetta sé eins og Sigmundur segir; ,,tómt rugl.“
Annað sem mætti nefna og lyktar af ,,hagsmunatengslum“ er sá gríðarlegi kraftur sem Jón Gunnarsson (formaður Atvinnuveganefndar Alþingis) hefur sett í að færa átta virkjanakosti út biðflokki í nýtingarflokk. Allir sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum vita um tengsl Sjálfstæðisflokksins og hinna ýmissa verktaka hér á landi í gegnum tíðina. Má til dæmis nefna að fyrrum bæjarstjóri Kópavogs, Gunnar Birgisson, var framkvæmdastjóri Klæðningar h/f frá 1986-2003 og var hann einnig formaður Verktakasambandsins í nokkur ár.
Það þriðja sem vekur mann til umhugsunar í kjölfarið á þessari frídreifingu er eðli (eða kannski óeðli?) íslenskrar fjölmiðlunar.
Þeir sem fylgjast með stjórnmálunum vita að Píratar eru komnir með á bilinu 30-40% fylgi. Þetta er fylgi gamla Sjálfstæðisflokksins, en nú er það komið niður í 25% um það bil. Þegar þetta mikla fylgi Pírata kom í ljós, rauk Morgunblaðið til (þar sem annar ritstjórinn er fyrrum formaður gamla Sjálfstæðisflokksins) og dreifði í öll hús (á kostnað útgerðargreifanna sem eiga blaðið) eintaki þar sem ráðist var til atlögu gegn Pírötum (sem hafa þrjá þingmenn) og slegið upp hvað þeir væru latir að mæta á nefndarfundi á Alþingi. Blaðið þurfti reyndar að draga fréttina til baka þegar leið á daginn, enda eðlilegar skýringar á þessari ,,slæmu mætingu.“ En högginu hafði þegar verið útdeilt. Þetta er það sem kalla mætti ,,hið skítlega eðli“ íslenskrar fjölmiðlunar, þar sem fjársterkir aðilar hafa efni á að henda milljónum króna í það að reyna að sverta þá aðila sem þarf að sverta.
Spurningin er hvort DV muni halda áfram eftir þessari braut frídreifingar? Fáum við inn um lúguna eintak, þegar eigendur blaðsins telja þörf á og það þjónar pólitískum markmiðum? Og fá áskrifendur DV afslátt vegna þeirra eintaka sem send eru frítt til allra? Og hvað með áskrifendur Moggans? Fá þeir afslátt líka?
Í bókinni Engan þarf að öfunda eftir bandarísku blaðakonuna Barböru Demick er sagt frá því að blokkum í alræðisríkinu N-Kóreu sem eru hannaðar þannig að í hverri íbúð er hátalari. Í gegnum þennan hátalara var varpað áróðri frá stjórnvöldum. Af hverju skyldi ég vera hugsa um þetta?
Höfundur er stjórnmálafræðingur.