„Þunglyndi orsakast af ójafnvægi í boðefnakerfi heilans“, tjáði geðlæknirinn mér árið 2001. „Þunglyndislyfið kemur aftur á jafnvægi“, hélt hann áfram, „og verður þú að taka lyfið það sem eftir er ævinnar“. Ég hafði auðvitað enga ástæðu til annars en að trúa þessu. Jafnvægið lét hins vegar á sér standa því þunglyndið hélt áfram af miklum krafti næstu árin. Ég tók ýmsar gerðir geðlyfja samviskusamlega í þeirri trú að jafnvægi kæmist loks á. Svo kom áfallið. Árið 2006 breytti þunglyndislyf lífi mínu í martröð um margra mánuða skeið. Leikurinn endurtók sig árið 2007, þá með tveimur öðrum gerðum þunglyndislyfja.
Talsverður ótti kviknaði innra með mér þegar ég sá fram á að geta líklega ekki aftur tekið þunglyndislyf. „Hvernig get ég losnað við þunglyndið“, hugsaði ég, „ef líkaminn er búinn að hafna lyfjaflokknum sem ræðst beint á orsökina“? Þá vissi ég auðvitað ekki að bæði ég og geðlæknirinn minn höfðum verið blekktir. Staðreyndin er nefnilega sú að hugmyndin „um ‚efnaójafnvægi‘ í mannsheilanum er ein ótrúlegasta ofureinföldunin í vísindum og ein versta arfleifð lyfjaiðnaðarins“. Hún hefur líka haft skaðlegar afleiðingar. Lítum nánar á málið.
Lyfjaiðnaðurinn og geðlyf
Geðlæknisfræðin er, eins og aðrar sérgreinar læknisfræðinnar, mjög háð lyfjaiðnaðinum. Iðnaðurinn framkvæmir og fjármagnar megnið af þeim lyfjarannsóknum sem gerðar eru. Lyfjaauglýsingar standa að stórum hluta undir útgáfu læknatímarita og styður iðnaðurinn einnig fjárhagslega sjúklinga- og aðstandendafélög í hinum vestræna heimi sem eru höll undir lyfjaáhersluna. Læknafélög eru undir sömu sökina seld. Til að mynda voru fræðslufundir hjá Geðlæknafélagi Íslands, síðast þegar ég vissi, alltaf haldnir í samstarfi við lyfjafyrirtæki og þurftu geðlæknar að tilkynna þátttöku til fulltrúa lyfjafyrirtækisins.
Hér er um varhugavert ástand að ræða enda hafa endurteknar rannsóknir sýnt fram á að samskipti lækna við fulltrúa lyfjaiðnaðarins geta haft neikvæð áhrif á ávísanavenjur þeirra.
Hér er um varhugavert ástand að ræða enda hafa endurteknar rannsóknir sýnt fram á að samskipti lækna við fulltrúa lyfjaiðnaðarins geta haft neikvæð áhrif á ávísanavenjur þeirra. Eins og sagnfræðingurinn Edward Shorter hefur bent á verður þessi mynd enn dekkri þegar horft er til geðlæknisfræðinnar því geðlæknar eru „líklegri til að stjórnast af hjarðhegðun en læknar í öðrum greinum læknisfræðinnar, þar sem raunveruleg þekking á orsökum sjúkdóma auðveldar mönnum að halda meðferðartískubólum í skefjum“. Hneykslin sem fylgt hafa markaðsetningu og gríðarlegri útbreiðslu nýrra gerða þunglyndis- og geðrofslyfja á undanförnum tæpum þremur áratugum, sem ekki hafa skilað tilætluðum árangri, er góð áminning um þessa staðreynd.
Í þessu sambandi er rétt að benda á harðorðan leiðara, sem birtist árið 2011 í The British Journal of Psychiatry. Þar segir þáverandi ritstjóri tímaritsins að tilkoma nýju geðrofslyfjanna (s.s Risperdal, Seroquel og Zyprexa) upp úr 1990 sé „ekki saga klíniskra uppgötvana og framfara, heldur saga falsana, fjármagns og markaðsetningar“. Ritstjórinn segir afleiðinguna þá að það muni þurfa mikið til þess að sannfæra geðlækna um að ný lyf eða lyfjaflokkar séu ekkert annað en kaldhæðisleg leið til þess að búa til gróða. Að baki þessum þungu orðum liggur önnur saga falsana, fjármagns og markaðsetningar.
Lyfjaiðnaðurinn og boðefnaójafnvægi
Lyfjaiðnaðurinn hefur í rúm þrjátíu ár eytt miklu púðri í að sannfæra almenning í hinum vestræna heimi um að andleg og tilfinningaleg vandamál stafi af ójafnvægi í taugaboðefnum í heilanum, s.s. serótónini, noradernalíni eða dópamíni. Ef þú ert dapur eða kvíðinn þá stafar það af taugaboðefnaójafnvægi í heilanum. Hér á landi hefur efnaójafnvægistilgátunni m.a. verði haldið að almenningi í bæklingum sem lyfjafyrirtækin fjármagna.
Besta dæmið um þetta er þunglyndisbæklingur sem GlaxoSmithKline (GSK) dreifði hér á landi á árunum 1999-2009. Þar segir að lyfjagjöf sé „eitt mikilvægasta og langvirkasta meðhöndlunarúrræðið sem til er við þunglyndi“ og að henni sé „ætlað að koma aftur á serótónínjafnvægi í heilanum“. Í bæklingnum segir enn fremur að samtalsmeðferð hafi „lítil áhrif á þá röskun í efnajafnvægi heilans sem orsakar sjúkdóminn“.
Markaðsvél lyfjaiðnaðarins tókst ekki einugis að sannfæra almenning um að efnaójafnvægistilgátan skýri orsakir geðraskana því læknastéttin kokgleypti einnig tilgátuna. Hér var á ferðinni fullkomið markaðstæki því fátt hljómar eins vel og eitt boðefni veldur einum sjúkdómi. Þvílík blekking!
Markaðsvél lyfjaiðnaðarins tókst ekki einugis að sannfæra almenning um að efnaójafnvægistilgátan skýri orsakir geðraskana því læknastéttin kokgleypti einnig tilgátuna. Hér var á ferðinni fullkomið markaðstæki því fátt hljómar eins vel og eitt boðefni veldur einum sjúkdómi. Þvílík blekking! Það vill nefnislega svo til að þessi tilgáta hefur alltaf staðið á algjörum brauðfótum. Það þarf því ekki að koma á óvart að nokkrum mánuðum eftir að ég kærði til landlæknis rangfærslurnar í GSK bæklingnum, þ.e. að þunglyndi orsakist af serótónínójafnvægi í heilanum og að samtalsmeðferð hafi því lítil sem engin áhrif á þunglyndi, var hann tekinn úr dreifingu.
Það sem gerir uppgang efnaójafnvægistilgátunnar sérstaklega merkilegan er að hún byggir í raun á hringrökum: Lyf hefur áhrif á ákveðið taugaboðefni í heilanum og virðist lækna ákveðna geðröskun, því hlýtur skortur eða ofgnógt af þessu boðefni að orsaka geðröskunina. Prófessorarnir Kenneth S. Kendler og Kenneth F. Schaffner ræddu þetta vandamál í grein fyrir fjórum árum. Þar gera þeir að umtalsefni tilgátuna um að ójafnvægi í dópamínbúskap heilans orsaki geðklofa. Hér er um að ræða einn af hornsteinum geðlæknisfræðinnar undanfarna áratugi. Tilgátunni hefur verið hampað af helstu talsmönnum líffræðilegrar geðlæknisfræði og er hún enn fyrirferðarmikil í mörgum kennslubókum. En viti menn, hún virðist eftir allt saman standa á brauðfótum. Kendler og Schaffner eyða nokkru púðri í að ræða hringrökin: Við vitum að geðrofslyf hafa áhrif á dópamínmagn í heilanum og því hlýtur dópamínójafnvægi að orsaka geðklofa.
Kendler og Schaffner rekja þessa stöðu mála til heimspekilegs vanþroska geðlæknisfræðinnar en með auknum þroska verði greinin að tileinka sér meiri sjálfsgagnrýni gagnvart þeim tilgátum sem hún setur fram. Hinn kunni bandaríski geðlæknir Allen Frances, ritstjóri DSM IV, tekur undir þetta sjónarmið í grein frá árinu 2012. Þar segir Frances væntingar geðlæknisfræðinnar um einfaldar gena-, taugaboðefna- og taugatengingaútskýringar á hinum ýmsu geðröskunum hafi reynst barnalegur sýndarheimur.
Líffræðilegar skýringar og fordómar
Lengi vel var gert ráð fyrir að með því að leggja áherslu á mögulegar líffræðilegar orsakir geðraskana, eins og efnaójafnvægistilgátuna, væri hægt að draga úr fordómum almennings gegn geðröskunum. Ef hægt er að leggja geðraskanir að jöfnu við t.d. sykursýki þá var talið að hægt væri að normalisera geðraskanir í hugum almennings. Endurteknar rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að þetta er rangt, enda virðast líffræðilegu skýringarnar frekar auka fordóma. En hvað með sjúklingana, fólk eins og mig, sem sannfært er um að orsakir þunglyndis liggi í boðefnaójafnvægi í heilanum. Eykur tilgátan lífsgæði okkar.
Ný rannsókn, sú fyrsta sinnar tegundar, varpar skýru ljósi þetta. Niðurstöðurnar gefa til kynna að einstaklingur sem sannfærður er um að þunglyndiseinkenni hans orsakist af efnaójafnvægi upplifi í fyrsta lagi ekki minnkaða fordóma gegn eigin veikindum og í öðru lagi virkjast í huga hans ýmsar neikvæðar hugmyndir sem geta mögulega stuðlað að versnun þunglyndisins og dregið úr svörun meðferða, sérstaklega sálfræðimeðferða.
Ný rannsókn, sú fyrsta sinnar tegundar, varpar skýru ljósi þetta. Niðurstöðurnar gefa til kynna að einstaklingur sem sannfærður er um að þunglyndiseinkenni hans orsakist af efnaójafnvægi upplifi í fyrsta lagi ekki minnkaða fordóma gegn eigin veikindum og í öðru lagi virkjast í huga hans ýmsar neikvæðar hugmyndir sem geta mögulega stuðlað að versnun þunglyndisins og dregið úr svörun meðferða, sérstaklega sálfræðimeðferða. Með þetta í huga leggja höfundarnir áherslu á að læknar og aðrir meðferðaraðilar haldi að skjólstæðingum sínum blöndu af líf-, sál- og félagsfræðilegum skýringum á orsök þunglyndis, enda er grunnorsök þess ekki þekkt.
Ekki veit ég hvort geðlæknar og heimilislæknar, sem ávísa bróðurpartinum af þunglyndislyfjum hér á landi, halda efnaójafnvægitilgátunni enn að skjólstæðingum sínum. Ef svo er ættu þeir að hætta því strax!
Höfundur er líffræðingur, með meistara- og doktorsgráður í vísindasagnfræði.