Nú er komið að því, heimilisbíllinn fer að syngja sitt síðasta. Ekki kemur til greina að kaupa bensín-, eða dísilbíl og buddan leyfir ekki rafmagnsbíl. Metanbílar hafa reynst vel og ætlunin er að kaupa einn slíkan. Eftirgrennslan hefur leitt í ljós að lítið sem ekkert framboð er neyslugrönnum metanbílum, svo nú er sniðugt að leita á stærra markaðssvæði, meginlandi Evrópu. Kannski hafa aðrir svipað í deiglunni, eða ekki í svo fjarlægri framtíð og upplýsingarnar hér að neðan gætu komið sér vel.
Hvaða gæði – hvaða þarfir?
Þarfirnar breytast í tímans rás (og veröldin líka). Þegar mesti ungæðishátturinn var runnin af mér, börnin fædd og brjálað að gera, var eina sem skipti máli að komast milli a og b. Eftir að ég fór almennilega að tengja eigið líf við umhverfisáhrif, fékk ég mikinn áhuga á rafbílum. Örsmár rafbíll sem ég sá í Freiburg í Þýskalandi varð draumabíllinn árið 1992. Árið 2005 náði ég loksins að kaupa ásættanlegan bíl (þ.e. m.t.t. umhverfis), keypti metan/bensínbíl af SORPU (Eini bíllinn í boði). Hann var þó óþarflega stór. Næsta og núverandi bíl keyptum við hjónin í Þýskalandi, enda miklu betra úrval þar. Nú þarf að endurnýja. Meira að segja meðan dæturnar tvær voru litlar, var alveg nóg að vera á smábíl. Þessir litlu bílar okkar voru kraftlitlir, en það var akkúrat ekkert vesen og auðvitað er betra m.t.t. umhverfis að vera á litlum bíl. Það er svolítið maus að kaupa bíl erlendis, en ekkert svakalegt, og viti menn, á vegum Evrópusambandsins er til leiðarvísir um þetta .hér, -mæli með honum.
Hann kom að góðu gagni í síðasta innflutningi. Þá er ekki síðra að Neytendasamtökin eru hluti ECC Neytendaverndarnetsins, þannig að væntanlega er hægt að tala um vandamál, ef upp koma við NS á íslensku.
Umhverfishliðin
Grænir (sænskir) mobilistar (gronamobilister.se) telja að ekki sé vænlegt að skipta yfir í aðeins einn orkumiðil. Nauðsynlegt sé að nota ekki eingöngu rafmagn, heldur einnig lífgas, vetni og plöntuolíuafleiður. Metanbílar (breyttur bensínbíll/tvíorkubíll) hafa reynst okkur mjög vel, ekkert öðruvísi en bensínbíll , nema að metantankurinn er lítill, þannig að oftar þarf að fylla á. Fann fyrir svolitlu óöryggi fyrst að dæla, fannst gasið eitthvað ótraust, en skv. fræðunum og reynslu er metanið ekki síðra en bensínið.
Metanið (lífgas) stendur langt framar bensíni og dísli með tilliti til - ja „visthæfni“ (það er skárra en að tala um vistvænt og dapurlegt að tala ávallt um „skárri en“). Ekki er verra að metan er alltaf ódýrara en bensín (síðan 2005 a.m.k.) og verðið tiltölulega stöðugt. Normalrúmmeterinn (Nm3) kostar 156kr (og er á við 1.1L af bensíni). Um þessar mundir eru gerðar kröfur um að álögur á jarðefnaeldsneyti verði lækkaðar, þar sem verðið er orðið svo hátt, yfir 300 kr. lítrinn, en nær væri að nota lífgas í meiri mæli á bíla.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 4 metanstöðvar allar í Reykjavík, þó að úrgangurinn sem metanið kemur úr, sé af öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er einmitt góð tilhugsun og öflug loftslagsaðgerð að nota orku úrgangs okkar, sem annars verður sérlega slæm gróðurhúsalofttegund eða, ef ekki finnast not fyrir hana, brennd og þar með sóað. Metaneldsneytið er ekki algott, en það er því miður enginn orkugjafi sem er langt framar öðrum. Grænu mobilistarnir rökstyðja þetta ágætlega hér.
Hægt er að breyta bensínbíl í metan/bensínbíl og óskandi að það verði greiðfær leið bráðlega, sérstaklega fyrir tekjulága (meira um réttlát umskipti hér).
Umhverfishliðin
Metanið á höfuðborgarsvæðinu er svansmerkt og ekki eru fyrirhugaðar breytingar þar á segir Gunnar Dofri Ólafsson talsmaður SORPU. Svansmerkið er góður vitnisburður um visthæfni. Það inniber jafnframt að varan virkar, semsagt auk umhverfiskrafna er gerð krafa um virkni. Þannig þarf þvottur þveginn með Svansmerktu þvottaefni að vera ásættanlega laus við bletti og óhreinindi og Svansmerkt metan þarf að vera eins orkuríkt og ómerkt metaneldsneyti. Ef ég man rétt er miðað við að Svansmerkt vara sé ávallt meðal 30% visthæfustu vara viðkomandi vöruflokks á markaði, í þessu tilviki, vöruflokknum eldsneyti. Norræna umhverfismerkið hefur löngu sannað gildi sitt. Að baki því er öflugt norrænt samstarf, mikil sérþekking og það nýtur trausts hjá almenningi og í atvinnulífinu. Eitt enn verður að nefna. Þegar mögulegt er að auka visthæfni vöru- eða þjónustuflokks eru kröfurnar til að fá Svansmerkið auknar. Það er því bæði fylgst með vöruþróun og visthæfni kerfisbundið.
Gagnlegar/ítar- upplýsingar
Gagnlegar upplýsingar um bíla ,orku, kostnað og sum umhverfisáhrif má finna á Orkusetri, hér: er t.d. hægt að bera saman orkueyðslu og kostnaði raf- og bensínbíls og hér fyrir metanbíla: , þarna eru líka upplýsingar um hvaða metanbílar fást á Íslandi. Upplýsingar um rafbíla eru líka hér.
Þeir sem tala þýsku, sérstaklega þeir sem hafa mikinn áhuga á flottum tæknitröllabílum hafa áreiðanlega gagn af ADACvefnum, hér um jarðgasbíla (sem taka lífmetan).
Um koldíoxíðhlutleysi lífmetans, hverfandi myndun fínryks og köfnunarefnissambanda við bruna þess o.fl. hér, og ítarleg skýrsla.
Sérlega fróðleg er skýrsla Börjesson og félaga um nýtingu metans á bíla.
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur.