Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor í Háskóla Íslands, hlaut tilnefningu til embættis rektors skólans þann 20. apríl sl.
Það var helst talið Jóni Atla til tekna að hann hefði mikla stjórnunarreynslu innan úr Háskóla Íslands.
Aftur á móti var talið Guðrúnu Nordal, mótframbjóðanda hans, til tekna að hún hefði hana ekki.
Hvorugt hafði þó þekkingu á né reynslu af stjórnun deildar, sviðs eða skóla, hvorki innan Háskóla né utan.
Líklegt er að sá sem vill verða rektor Háskóla Íslands leggi ekki til neinar umtalsverðar breytingar í kosningarbaráttu sinni. Það gæti fælt kjósendur frá en atkvæði starfsmanna vega 70% og nemenda 30% þegar tilnefning rektors, sem ráðherra ber að taka mið af, er annars vegar.
Leiða má líkur að því að valið milli Jóns Atla og Guðrúnar hafi staðið á milli fortíðar og framtíðar, stöðnunar og breytinga og þeir kjósendur orðið ofan á sem sóttust eftir hinu fyrrnefnda í báðum tilfellum.
Þeir sem studdu Jón Atla til rektors héldu því fram að hann hefði sýnt mikla þekkingu á stöðu og þörfum skólans, starfsmanna hans og ekki síst stúdenta.
Þess varð hins vegar ekki vart í kosningabaráttunni að hann hefði mikla þekkingu né skilning á stöðu og þörfum eigenda skólans, þ.e. okkar eyjarskeggja. Sama gilti reyndar um Guðrúnu. Þau ætluðu bæði að berjast fyrir bættum kjörum og aðstöðu fyrir starfsfólk og stúdenta sem hljóta eðli máls að vera í öðru sæti.
Aðaláhersla beggja var á að skólinn fengi meira fé frá okkur eyjarskeggjum. En ekki á nýtingu þess.
Hún var líka á að ná því allsendis óraunhæfa og ótimasetta markmiði að Háskóli Íslands kæmist í hóp 100 bestu háskóla í heiminum í stað þess að sníða honum stakk eftir vexti, þ.e. að fjármögnun hans tæki mið af raunhæfara markmiði sem sett væri í kjölfar alvöru greiningar í stað gorgeirs Hrunsáranna!
Orsök og afleiðingu er því aftur snúið á haus.
En hvaða verkefni bíða svo nýja rektorsins, sem tæpast mun þó gera mikið því hann stefnir að því að sitja tvö kjörtímabil og hefur því varla efni á því að fæla frá sér kjósendur sína.
Í fyrsta lagi þarf að hann að láta fara fram óháða úttekt á kennslu (námi), rannsóknum og stjórnsýslu skólans í ljósi umræðunnar innan hans og utan síðustu daga, vikur og mánuði.
Í öðru lagi þarf hann að láta (endur)skilgreina hlutverk/framtíðarsýn skólans sem þarf fyrst og fremst að verða alþjóðlega samkeppnishæfur kennsluháskóli en ekki rannsóknaháskóli nema á þeim sviðum sem hann hefur sýnt að hann getur aukið samkeppnishæfni íslenskra atvinnugreina á.
Í þriðja lagi þarf að hann svo að láta setja skólanum nýtt mælanlegt, tímasett, raunhæft og krefjandi markmið og láta móta stefnu um það hvernig því verði best náð.
Höfundur er rekstrarhagfræðingur.