Áður en aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum var kynntur höfðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra viðrað hugmyndir um fækkun skattþrepa og hækkun persónuafsláttar. Um það var rætt í bakherberginu þegar þeir ræddu þetta á fundi með forsvarsmönnum ASÍ og þá var reiknað út hversu mikið hækkun persónuafsláttar hefði kostað ríkissjóð. Það hefði kostað tæpa 30 milljarða á ári.
Ekki var á endanum ráðist í að hækka persónuafsláttinn svona verulega, heldur á hann að fylgja verðlagsbreytingum. Hins vegar var tilkynnt um aðgerðir sem munu kosta ríkissjóð enn meira, um 34 milljarða króna samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins í dag. Þeir útreikningar taka þó ekki til kostnaðar sem mun verða af byggingu 2.300 félagslegra íbúða, en sá kostnaður verður líklega önnur eins upphæð hið minnsta.
Þegar til stóð að verja 30 milljörðum í hækkun persónuafsláttar var spurt í bakherberginu hvernig ríkið ætlaði að ná sér í þennan pening. Nú þegar búið er að tilkynna um ennþá meiri fjárútlát, en enginn hefur greint frá því hvaðan peningarnir í þetta allt saman eiga að koma, er spurningin orðin enn háværari í bakherberginu. Hvaðan eiga þessir peningar að koma?