Náttúran geymir lausnir við flestum vandamálum, líka loftslagsvánni. Sumar þeirra reynum við að nota til að vega upp á móti eigin sóðaskap – olíubruna, óumhverfisvæna ferðamáta og neysluvenjur. Mannkyninu, og Íslendingum sérstaklega, gengur illa að hemja neyslu og leiðir til kolefnisförgunar hafa verið ræddar og reyndar. Carbfix er t.a.m. frábært fyrirbrigði. Þar er aldeilis hugsað í lausnum og þótt ólíklegt sé að þetta íslenska fyrirtæki í eigu OR geti leyst stærsta vandamál okkar tíma vona ég að það sé sannarlega hluti af lausninni.
Hugmynd Carbfix gengur einmitt út á að hraða náttúrulegum ferlum og breyta CO2 í stein á mun skemmri tíma en það tæki í náttúrunni. Frá stofnun hefur Carbfix bundið 70.000 tonn af CO2.
Mörg hafa einnig reynt að kolefnisjafna sitt brölt með því að planta trjám eða fá aðra til þess, t.d. fyrirtæki eins og Kolvið. Á vef þess segir að ræktaðir skógar á Íslandi bindi nú um 330.000 tonn af CO2 og að árlega meðalbinding ræktaðra skóga á Íslandi sé 7,2 tonn af CO2 á hektara.
Síðustu ár hefur enn ein lausn opinberast okkur en einhverra hluta vegna hefur hún ekki verið mikið í umræðunni. Nú er ljóst að stærstu skepnur jarðar eru líka öflugastar allra lífvera er kemur að kolefnisförgun. Samkvæmt nýlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fangar meðal stórhveli 33 tonn af CO2 á líftíma sínum. Deyi hvalurinn náttúrulegum dauðdaga sekkur hann niður á hafsbotn og kolefnið með. Þannig bindur hann kolefnið öldum saman. Sé hvalurinn hins vegar veiddur og dreginn á land, t.d. í Hvalfirði, skorinn og étinn (eða geymdur í frysti því kaupendur eru ekki á hverju strái) fer kolefnið út í andrúmsloftið.
Og ekki nóg með það. Stærstu lífverur jarðar og sumar þær minnstu geta ekki án hvorrar annarar verið. Skíðishvalir lifa ekki bara á svifi heldur nærir úrgangur þeirra svifið. Því fleiri hvalir, því meira svif og öfugt. Og svif framleiðir ekki einungis um 50% af öllu súrefni jarðar, það er einnig öflugt í að fanga og farga kolefni. Samkvæmt fyrrnefndri úttekt AGS fangar svifið, þessar örsmáu lífverur, 1,7 billjón tonn af CO2, eða álíka og fjórir Amazon regnskógar. Það er um 40% CO2 framleiðslu heimsins. Svifið er ekki einungis nauðsynleg fæða fyrir hvali heldur ein af undirstöðum alls lífs í hafinu.
En uppi á Íslandi finnst einum frekum karli góð hugmynd að veiða hvali þrátt fyrir allt það tjón sem því hefur fylgt síðustu áratugi. Skaðinn fyrir orðspor þjóðarinnar og íslenskrar ferðaþjónustu sem hér er burðaratvinnugrein er gríðarlegur en þó léttvægur í stóra samhenginu.
Dýravelferðarsjónarmið er auk þess augljóslega ekki virt. Ég læt mér nægja að vitna til þess sem Jóhannes Kjarval sagði um smáhvalaveiðar:
„Hvers vegna öll þessi grimmd gegn smáhvölum sem af einhverri fýsiskri nauðsyn þurfa að komast á grynnra vatn? Þeir koma og heimsækja okkur og við tökum á móti þeim eins og það hafi aldrei verið til nein menning. Það kalla ég að tapa skóla, þegar menn sjá ekki í gegnum fingur sér við aðrar tegundir í dýraríkinu.“
Veiðar á langreyðum, öðru stærsta dýri jarðar, eru augljóslega ekki menningar- eða mannúðlegri.
Við þurfum sem sagt að vernda hvali, ekki bara til að vera ekki menningarsnauð svín heldur til að bjarga jörðinni. Samt leyfir ríkisstjórn Íslands Kristjáni Loftssyni að veiða 193 langreyðar. Það gerir hún þrátt fyrir stórkostlegan skaða á orðspori Íslands, ómannúðlegar veiðiaðferðir og þá staðreynd að jafnvel peningapúkarnir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum bendi á að bann við hvalveiðum og verndun hvalastofna sé að öllum líkindum árangursríkasta þekkta leiðin til að fanga CO2 úr andrúmsloftinu.
Við sem þjóð erum fífl að láta það viðgangast og ættum að skammast okkar.
Höfundur er rithöfundur.