Ég er fædd árið 1972. Ég man því vel þau átök sem voru hér á 9. áratugnum um hvalveiðar. Við vorum næstum öll í sama liði. Íslendingar voru sjálfstæð þjóð, við höfðum nýlega staðið í svokölluðum þorskastríðum og náð að færa út landhelgina í 200 mílur og við réðum þessu. Ég man meira að segja eftir að hafa farið með pabba að skoða hvalstöðina í Hvalfirði á meðan verið var að gera að skepnunum.
Og hvað var svo sem svona merkilegt við þessa hvali? Við borðuðum öll allskonar dýraafurðir, það var bara órökrétt tilfinningasemi að segja að hvalir væru eitthvað merkilegri en t.d. kindur eða kýr sem voru daglega á diskum landsmanna.
Heima hjá mér var stundum hvalkjöt á borðum en ég held að engum í fjölskyldunni hafi fundist það sérlega gott. Það var hins vegar ódýrt og foreldrar mínir stundum blönk. Ég man eftir að hafa hlustað á mömmu og nágrannakonur ræða það yfir kaffibolla hvernig skást væri að elda hrefnukjöt, það átti að sjóða það í mjólk í minnst klukkutíma til að ná úr því lýsisbragðinu. Þá yrði það næstum ætt.
Þótt ég hafi alist upp við að hvalveiðar hafi verið réttur sjálfstæðrar þjóðar hef ég ekki verið fylgjandi þeim eftir að ég komst til vits og ára. Fyrir því eru svo margar ástæður að ég get varla talið þær. Hvalir voru í útrýmingarhættu, veiðarnar eru ómannúðlegar, hvalkjöt er allt að því óætt, kjöt af tannhvölum er líka svo mengað og stútfullt af þungmálmum að það er ekki talið öruggt til manneldis. Orðspor Íslands hefur beðið hnekki vegna veiðanna og íslenska þjóðin fær sjálf ekki eðlilegt afgjald af þessari auðlind sinni, frekar en öðrum. Veiðigjald á hverja hrefnu rétt ríflega kr. 8.000 en ríflega 50.000 á hverja langreyði. Það sjá allir að þetta er gjöf en ekki gjald.
Sú ástæða sem mér finnst vega þyngst af öllum er þó lofslagsváin og það mikilvæga hlutverk sem hvalir og líffræðilegur fjölbreytileiki sjávar spilar í föngun og förgun kolefnis. Miðað við stóra samhengið og það sem er í húfi, jörðin sjálf hreinlega, finnst mér furðulítið rætt um þau mál. Mér fannst ég verða að gera eitthvað þótt ég sé enginn sérfræðingur og skrifaði litla grein sem birtist í Kjarnanum. Viðbrögðin voru tvennskonar eins og fyrirsjáanlegt var; fólk var ýmist sammála eða ósammála. Þau sem voru ósammála komu með gömlu rökin um að Íslendingar væru sjálfstæð þjóð og að hvalveiðar væru hluti af menningu okkar. Það finnst mér merkilegt og þess virði að skoða nánar. Eru hvalveiðar virkilega órjúfanlegur hluti af íslenskri menningu?
Hvalveiðar hafa sannarlega verið stundaðar í sjónum í kringum landið öldum saman.
En ... ekki af Íslendingum, til þess höfðu þeir enga burði lengst af og áttu hvorki skip né veiðarfæri sem dugðu til. Hvalaafurðir voru hins vegar nýttar – orðið „hvalreki“ er nánast samheiti fyrir happdrættisvinning og lýsir ágætlega hvernig nýtingu hvalaafurða bar yfirleitt að.
Það voru hins vegar útlendingar sem veiddu hvali við Íslandsstrendur öldum saman. Baskar, Hollendingar, Frakkar, Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Danir og Norðmenn veiddu hvali á Íslandsmiðum og þróuðu aðferðir til að drepa sem flest dýr með sem árangursríkustum hætti. Þegar leið á 19. öldina voru settar upp hvalveiðistöðvar á nokkrum stöðum á Íslandi og á síðustu áratugunum voru þær orðnar 14 talsins, allar í eigu og undir stjórn útlendinga. Sóðaskapurinn var mikill og rotnandi hvalaskrokkum hent í fjörur landsins eftir að búið var að hirða allt nýtilegt af þeim. Tækninýjungar, svo sem hraðskreiðari skip og veiðarfæri, ollu ofveiði og þrengdu mjög að hvalastofnunum.
Það var ekki fyrr en 1897 sem íslenskt hvalveiðifyrirtæki var fyrst starfrækt en það var lagt niður nokkrum árum síðar vegna þess að reksturinn bar sig ekki. Íslendingar reyndu ekki hvalveiðar aftur fyrr en tæpum fjörutíu árum síðar.
Íslendingar eru hins vegar frumkvöðlar í hvalveiðibanni. Á meðan útlendingar sópuðu hér upp hvölum reyndu þeir af veikum mætti að hafa stjórn á starfseminni. Strax árið 1886 voru hvalveiðar bannaðar á sumrin innan 3 mílna lögsögunnar en það hafði lítil áhrif enda hægt að veiða utan við mílurnar þrjár og draga aflann í næstu hvalveiðistöð. Íslenskir sjómenn voru almennt á móti hvalveiðum enda trufluðu þær aðrar veiðar. Því var gerð önnur atlaga að hvalveiðibanni 1903 en það náðist ekki í gegn en árið 1913 bannaði Alþingi hvalveiðar í 10 ár frá árinum 1915 og það bann var framlengt til 1928. Það liggur ekki endilega ljóst fyrir hvers vegna bannið var sett. Það kann að vera vegna erlends ágangs, mengunar, neikvæðra áhrifa á fiskveiðar, ofveiði eða einfaldlega vegna þess að Íslendingar vildu sjálfir stunda veiðarnar. Þegar hvalveiðar hófust að nýju árið 1935 máttu bara íslenskir aðilar veiða hvali. Lítið var þó veitt framan af.
Það er svo ekki fyrr en 1948 sem fyrirtækið Hvalur hf. byggir hvalveiðistöð Í Hvalfirði. Veiðar jukust jafnt og þétt og náðu sennilega hámarki á 8. áratugnum. Þá var megnið af kjötinu selt til Bretlands og notað í mjöl til dýraeldis. Þær veiðar stóðu þar til Alþjóðahvalveiðiráðið bannaði hvalveiðar í atvinnuskyni 1986. Í fjögur ár þar á eftir veiddi Hvalur hf. 362 hvali í „vísindaskyni“. Eftir það féllu hvalveiðar niður og engir hvalir voru veiddir í íslenskri 200 mílna landhelgi frá 1990-2003.
Á þessari öld hefur þetta eina íslenska hvalveiðifyrirtæki sem hér hefur þrifist í gjörvallri Íslandssögunni, Hvalur hf., fengið að veiða og veitt hundruð hvala bæði í svokölluðu „vísindaskyni“ og atvinnuskyni og reynt að koma kjötinu í verð, þrátt fyrir litla sem enga eftirspurn og að kannanir sýni að meirihluti landsmanna styður ekki hvalveiðar og sífellt fleiri eru þeim mótfallnar.
Einn auðkýfingur á hvalveiðum
Á Íslandi er einn maður að stunda þessar hvalveiðar. Hann heitir Kristján Loftsson og er auðkýfingur. Til þess að hægt sé að veiða og vinna hvali þarf að gefa undanþágur frá reglugerðum um dýravelferð og hollustuhætti við framleiðslu matvæla. Almennt má t.d. ekki verka kjöt utandyra. Í ár má Kristján Loftsson veiða 161 langreyði og 217 hrefnur en af því að hann veiddi ekki kvóta síðasta árs bætast við 32 langreyðar í viðbót. Samkvæmt reglugerð frá 2019 má þessi maður veiða hvali til ársins 2023 – þrátt fyrir að kvóta sé almennt ekki úthlutað nema eitt ár í senn.
Er þetta íslensk menning? Kannski er léleg stjórnsýsla, sérreglur fyrir útvalda og einkavinavæðing auðlinda hefð hér á landi en ég myndi ekki kalla það menningu.
Og hvalveiðar eða neysla á hvalkjöti getur ekki talist íslensk menning. Ef svo væri gætum við væntanlega farið í hvaða matvörubúð sem er og keypt hvalkjöt eins og hangikjöt eða kæstan hákarl.
Það er ekki svo. Ég veit ekki til þess að hvalkjöt fáist nema á einum veitingastað á Íslandi og hvergi í matvörubúðum. Á allri 20. öldinni – „gullöld“ íslenskra hvalveiða – veiddu Íslendingar bara hvali í 3-4 áratugi. Hvalveiðar voru hreinlega bannaðar framan af og það af Íslendingum sjálfum.
Þegar ég var að alast upp á 8. og 9. áratug síðustu aldar – þeim tíma sem hvalveiðar stóðu sem hæst – viðgekkst ýmislegt sem við skömmumst okkar fyrir núna. Hugtakið lyklabarn var fundið upp um börn sem gengu sjálfala því foreldrar þeirra voru í vinnu og engin var dagvistunin. Börn fátækra, einstæðra mæðra voru tekin af þeim og sett á vöggustofur þar sem komið var í veg fyrir að þau mynduðu eðlileg tilfinningatengsl við aðrar manneskjur eða send út á land þar sem níðst var á þeim. Þeir sem voru öðruvísi voru vistaðir á lokuðum stofnunum. Það var reykt úti um allt, jafnvel í barnaskólum og bílbelti voru talin mannréttindabrot enda heftu þau frelsi fólks til að kasta sér út úr bílum á ögurstundu. Unglingar héngu í sjoppum af því að það var enginn annar staður þar sem þeir gátu verið inni og flestir sem ég þekkti byrjuðu að drekka í síðasta lagi við fermingu.
Ekkert af þessu er „íslensk menning“. Hvalveiðar eru það ekki heldur.
Höfundur er rithöfundur.