Fimm karlmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að skipa skuli annan karlmann í stöðu hæstaréttardómara þar sem fyrir eru átta karlmenn og ein kona. Hæstiréttur er æðsti dómstóll þjóðarinnar og hefur m.a. það hlutverk að greiða úr ágreiningi sem kemur upp í samfélaginu um lagasetningu Alþingis. Alþingi náði þeim áfanga á dögunum að vera skipað 49% konum og 51% körlum með innkomu nokkurra varamanna af kvenkyni, þar með talið minnar. Hlutfall kvenna á Íslandi hefur alltaf verið jafnt hlutfalli karla, hins vegar endurspeglaðist þessi staðreynd ekki í fulltrúum kvenna á Alþingi fyrr en 14. september árið 2015.
Alþingi á að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins meðal annars til þess að tryggja að lagasetning sem þar er sett sé í góðu samræmi við þann fjölbreytileika sem hún á að ná utan um. Vald Alþingis til að setja lög sprettur frá valdaframsali borgaranna í hendur þingmanna og -kvenna sem ættu, ef vel á að vera, að endurspegla allavega þessa einföldustu skiptingu mannfólks eftir kyni, fyrir utan allt annað sem upp á vantar ef litið er yfir þingheim í dag eins og samfélagsstöðu, efnahag, fötlun, trúarbrögð, menntun, kynhneigð og húðlit svo fátt eitt sé nefnt.
Ef við gefum okkur að hið fullkomna Alþingi með jafnri dreifingu og óendanlegum fjölbreytileika væri starfandi á Íslandi, yrði lagasetning þess aldrei hafin yfir gagnrýni og hún gæti alltaf komið til með að enda á borði Hæstaréttar, svo að borgarar geti varið sig og fengið úr því skorið hver réttur þeirra er. Hæstiréttur þarf því að vera framlenging á þessari hugsun, að þar sé til staðar ákveðinn lágmarks fjölbreytileiki. Hæstiréttur getur ekki talið okkur trú um að hann starfi í einhvers konar kynlausum hjúp sem er varinn og umvafinn lagabókstöfum, því þeir eiga rætur sínar að rekja til þeirra sem settu lögin á hverjum tíma og eru því jafn ófullkomnir og öll mannanna verk. Trúverðugleiki og sáttmáli okkar allra um að halda úti þessum stofnum, framselja þeim vald og bera virðingu fyrir þeim er undir.
Þau sjónarmið heyrast gjarnan að dómarar við Hæstarétt ættu að vera hæfustu lögfræðingar á hverjum tíma. Vissulega göfugt sjónarmið í sjálfu sér, en það stenst enga skoðun að þeir séu alltaf í yfirgnæfandi meirihluta karlmenn sama hvað ár er.
Eins og áður sagði hefur samsetning Alþingis alltaf verið karlmönnum mjög hagfelld, raunar var það ekki fyrr en með innkomu Kvennalistans árið 1983 að hlutföllin tóku að breytast á Alþingi. Síðan eru liðin 32 ár og staðan er karlmönnum enn hagfelld, líkt og hlutföll karla við Hæstarétt.
Þau sjónarmið heyrast gjarnan að dómarar við Hæstarétt ættu að vera hæfustu lögfræðingar á hverjum tíma. Vissulega göfugt sjónarmið í sjálfu sér, en það stenst enga skoðun að þeir séu alltaf í yfirgnæfandi meirihluta karlmenn sama hvað ár er. Ég kæri mig ekki um að tilheyra samfélagi, þar sem engu máli skiptir hversu mikið við konur menntum okkur, hversu mörgum trúnaðarstörfum við sækjumst eftir eða hversu hratt við hlaupum, alltaf skal eitthvað annað metið mikilvægara og vega þyngra í þetta skiptið en sú hæfni sem við höfum fram að færa. Við erum svo hvattar áfram með þeim skilaboðum að okkur standi allir vegir færir, ef við bara höldum áfram að reyna. Nei takk. Hættið þessum ruglingi, stigið til hliðar og myndið pláss fyrir aðra en ykkur sjálfa í æðstu stöður samfélagsins hvort sem er á Alþingi eða við Hæstarétt, eða í það minnsta gefið fleirum en ykkur sjálfum færi á að að meta hvenær konur eru orðnar samkeppnishæfar við ykkur. Aðeins þannig getum við náð raunverulegum framförum, aukið sátt og virðingu fyrir grunnstofnunum og orðið betra og réttlátara samfélagi.
Ég hvet Ólöfu Nordal innanríkisráðherra til að beita sér í þessu máli.