Við hjónin erum orðin öldruð. Munum tíma tvenna. Vegna Covid-faraldursins höfum við s.l. tvö sumur einungis ferðast um landið okkar. Frá suðri til austurs, frá austri til norðurs, frá norðri til vesturs og frá vestri aftur heim. Margt hefur breyst á tiltölulega fáum árum. Þeim fáu árum, sem liðið hafa frá því að slík ferðalög voru óaðskiljanlegur hluti af ævistarfi stjórnmálamanns. Þá fór ég mikið um alla landshluta í þeim erindum að hitta fólk, kynnast atvinnulífi, skoða aðstæður og ræða við fólk í öllum atvinnustéttum, við misjöfn starfsskilyrði, með ólíka starfsgetu og við ólíka afkomu.
Gerólíkt umhverfi
Núna þótti mér ég ekki kannast við umhverfi það, sem ég þóttist áður þekkja. Öflugir og fjölmennir vinnustaðir þar sem ég og félagar mínir störfuðum ötult á æskuárum innan um fjölmarga samtímamenn eldri og yngri eru ekki lengur til. Á öðrum slíkum vinnustöðum var orðin mikil fólksfækkun vegna tækniframfara – en stór hluti vinnuaflsins var ekki lengur íslenskur.
Gott fólk
Til þess að forða öllum misskilningi viljum við hjónin taka sérstaklega fram, að allt þetta útlenskumælandi fólk, sem veitti okkur viðtöku á veitingahúsum, á gististöðum, í söfnum, á vinnustöðum og við hittum á vegferð okkar var hið ánægjulegasta í samskiptum. Sinnti sínum störfum vel og var þægilegt og hlýlegt í öllu viðmóti. Samskipti við það var hins vegar erfitt að hafa nema á erlendum tungumáli. Söm var reyndar reynslan okkar hér í Reykjavík þegar við, sem sjaldan gerist, þurftum að nýta okkur almenningssamgöngur. Urðum þar áþreifanlega vör við að þegar eldra fólk af íslenskum uppruna þurfti að leita til strætóbílstjóra um leiðarupplýsingar reyndist erfitt fyrir það bæði að bera fram spurningarnar og að skilja svörin.
Hvar eru þeir?
Sú spurning, sem í mínum huga vaknar eftir þessa reynslu er ekki sú, hvað allt þetta útlenda fólk er hér að gera. Svarið við þeirri spurningu er augljóst sem og að þetta fólk stendur vel fyrir sínu. Spurningin sem í mínum huga vaknar er: Hvar eru allir Íslendingarnir? Allir, sem þessum ívitnuðu störfum sinntu áður? Ég leitaði svara við þeirri spurningu. Fékk þau mörg. „Íslendingar vilja ekki vinna þessi störf“ var eitt þeirra. „Við viljum heldur útlendan vinnukraft en íslenskan“ er annað svar, sem ég heyrði – sem og útskýringu á af hverju. „Þetta fólk sættir sig við lægri laun en Íslendingar“ var enn annað. Ég spurði suma erlendu starfsmennina um hvort svo væri en fékk algera neitun. Þeir sögðust margir gegna störfum við hlið þeirra Íslendinga, sem störfunum gegna enn og vera á sömu launakjörum og þeir.
Spurningin stendur
Hið rétta svar þekki ég sem sé ekki. Spurningin stendur hins vegar óhögguð. Hvað er orðið af þeim Íslendingum, sem þessum störfum sinntu áður? Vissulega hefur sumum störfunum fjölgað – m.a. með öflugri ferðaþjónustu. En hvað er orðið af þeim Íslendingum, sem áður sinntu verulegum hluta þeirra starfa. Og þeim, sem áður óku strætó? Og þeim, sem áður báru uppi mannaflafrekan fiskiðnað? Og þeim, sem sintu öllum verkefnum við húsbyggingar, garðyrkju, þjónustu og aðbúnað aldraðra? Og þeim, sem áður kynntu fyrir okkur menningarsöfn um þjóðþekkta Íslendinga og sögu þessarar þjóðar?
Einföld spurning
Þessarar einföldu spurningar er hægt að spyrja á svo mörgum öðrum sviðum. Hvað um grunnþjónustu við okkar eldri borgara sem þurfa að geta leitað svara þeirra sem þeim sinna á eigin tungumáli? Hvað um grunnþjónustu við þá landsmenn, sem þurfa á heilsufarshjálp að halda? Er komið að því að til þess að leysa vandamál heilbrigðisþjónustunnar neyðumst við til þess að hugleiða að flytja inn sérmenntað fólk á heilbrigðissviði, sem ekki getur tjáð sig á tungumáli þjóðarinnar við þá, sem þurfa á hjálp að halda? Og ef svo verður – þá hvers vegna?
Flókið svar
Einföld er spurningin – en svarið virðist vera næsta flókið. En er ekki tími kominn til þess að svars sé leitað? Við horfumst í augu við það, sem er. Það er svona. Hvers vegna? Hver er ástæðan? Hvað er orðið af öllum þeim Íslendingum, sem áður gegndu þessum störfum?
Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins.