Þann 25. september næstkomandi höfum við kjósendur valdið. Þá er okkar að velja á milli mismunandi valkosta. „Hvað á ég að kjósa?“ Þetta er nokkuð sem hver maður ætti að spyrja sig nú fyrir kosningar. Það er að mörgu að huga; efnahagsmálum, heilbrigðismálum, skólamálum og fleiru. Það er síðan kjósenda að velja á milli.
Umhverfismál verða æ mikilvægari. Flestir stjórnmálaflokkar setja fram sína stefnu í umhverfismálum. Þó eru einhverjir sem skila auðu í þessu samhengi.
Í þessari grein er ætlunin að varpa ljósi á hvaða kröfur ætti að gera til stefnumörkunar stjórnmálaflokka. Greininni verður síðan fylgt eftir með öðrum greinum um stefnu hvers flokks fyrir sig í umhverfismálum. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að reyna að skapa umræðu um umhverfismál.
Það sem við hérlendis köllum stefnu er þýðing á enska orðinu „strategy“ sem þýðir hernaðaráætlun. Það felur í sér að ef stefna á að standa undir nafni verður að gera grein fyrir bæði takmarki og einnig leiðum til að ná því markmiði. Ekki er trúverðugt að setja eitthvað markmið en íhuga ekki hvernig því skuli náð. Sama gildir um að setja fram tillögu að aðgerðum án þess að gera grein fyrir því að hvaða marki er stefnt.
Flokkarnir setja fram sína stefnu í þeim málaflokkum sem þeir telja að skipti máli. Vafalaust eru hugsjónir þar á bak við. Hugsjónirnar beinast í ýmsar áttir. Stjórnmálaflokkarnir eru jú að fiska á ólíkum miðum á sínum atkvæðaveiðum. Það er í þágu lýðræðis að flokkarnir hafi mismunandi stefnu. Þá geta kjósendur valið á grundvelli þess sem þeir vilja hver og einn.
Sumir stjórnmálaflokkar setja fram nokkuð ítarlega lýsingu á því hvað flokkurinn muni gera, komist hann til valda, en hjá öðrum flokkum er eins og gengur bara einhver texti, innihaldslausar klisjur sem settar eru fram til þess að hafa eitthvað í skjalinu.
Þetta er öðrum þræði sölumennska. Þess heldur verða kjósendur að vera í færum með að meta hvað er raunhæft og hvað ekki, og ekki síður; hvað er æskilegt og hvað ekki.
Nokkur líkön eru notuð við stefnumótun, sum henta til að leiða að „réttri“ stefnu en önnur henta til að leggja mat á stefnuna. Eitt líkan fyrir hið síðarnefnda er kallað PEST – skammstöfun fyrir Political, Economical, Social, Technical. Það er möguleiki að meta pólitíska stefnu út frá þessu líkani. Þó hljóta tékklistar að vera ólíkir því sem gerist með stefnu fyrirtækja.
- Fyrir pólitíska þáttinn er rétt að líta til þess hvort líklegt er að hægt sé að afla málum fylgis. En einnig hvort stefnan muni höfða til kjósenda.
- Tékklisti fyrir efnahagslega þáttinn væri hver efnahagsleg áhrif stefnumálin séu og einnig hvernig gert sé grein fyrir fjármögnun einstakra stefnumiða.
- Samfélagsleg áhrif ætti að meta. Hvort það hefði jákvæð eða neikvæð áhrif ef markmiðin nást.
- Tæknilega verður að skoða hvort tækni sé til staðar til að ná fram stefnumiðinu. Einnig hvort ný tækni, ef til er, skili einhverju jákvæðu.
Til dæmis mætti nefna stefnu um að fiskiskipaflotinn skuli nota endurnýjanlega orku. Pólitískt, efnahagslega og samfélagslega er þetta í flestu hið besta mál. En þá kemur að tæknilegu hliðinni. Nothæf tækni er ekki til í dag. Þess vegna ætti stefnan að vera að stuðla að nýsköpun í tækni sem þarf til að raungera þetta atriði.
Ég kem til með að birta greinar um stefnur stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum á næstu dögum. Bæði til að meta hvort markmiðin eru til góðs og einnig hvort yfirhöfuð sé hægt að ná markmiðinu. Stefna flokkanna flestra liggur fyrir á vefsíðum þeirra.
Ég tek það fram að greinar mínar mótast af eigin viðhorfum og skoðunum. Greinunum er ætlað að vekja umræður og ef það tekst er tilganginum náð.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.