Það er gömul og góð klisja að nýta síðustu daga ársins til þess að líta yfir farinn veg og gera upp hvað fór vel á árinu og hvað mátti betur fara. Um þessar mundir höfum við lifað og hrærst í veröld kórónuveirunnar í um tvö ár og öll okkar tilvist verið mörkuð af faraldrinum. Á þessum tveimur árum höfum við lært margt en einnig þurft að venjast fjölmörgum takmörkunum á athafnafrelsi okkar sem okkur hafði ekki áður órað fyrir.
Það er táknrænt að samhliða þessum nýja veruleika hefur eftirlitsiðnaðinn verið í miklum blóma. Hann hefur vaxið ört, reglugerðarferlíkið hefur aukist og ríkisstofnanir hafa jafnt og þétt aukið valdheimildir sínar, bætt við sig starfsfólki og fengið aukin fjárframlög úr ríkissjóði. Þetta hefur ekki gerst í skugga faraldursins heldur ágerst yfir lengri tíma en hefur e.t.v. aldrei verið augljósara en einmitt núna.
Það er af nógu að taka af ágangi eftirlitsstofnana á árinu sem var að líða, bæði af stórum málum og smáum, en öll eru þau mikilvæg. Sem betur fer hafa mörg þeirra fengið umfjöllun í fjölmiðlum. Í ljósi tilefnisins er ágætt að nýta þennan vettvang til að stikla á stóru í málaflokknum.
Stór mál og smá – en öll mikilvæg
Eitt af þeim málum sem fékk minni umfjöllun en það átti skilið var skoðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, eins og þá hétu, með eftirlitskerfi hins opinbera með matvælum, hollustuháttum og mengunarvörnum. Þetta er í daglegu tali nefnt heilbrigðiseftirlitið og er í dag bæði í höndum ríkisstofnana og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga á tíu svokölluðum heilbrigðiseftirlitssvæðum. Eftirlitið hefur í núverandi mynd legið undir mikilli gagnrýni vegna þess að sá fjöldi stjórnvalda sem fer með eftirlitið hafi leitt til þess að kröfum í eftirlitinu sé misjafnlega framfylgt og að gjaldskrár eftirlitsaðila séu mismunandi. Allt eru þetta kunnugleg stef þegar kemur að eftirlitsiðnaðinum.
Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, óskuðu eftir því að KPMG myndi greina framkvæmd þessa eftirlits. Niðurstaða greiningarinnar var sú að endurskoða þurfi núverandi eftirlitskerfi, m.a. þar sem ósamræmis gæti í framkvæmd opinbers eftirlits og skráningum eftirlitsaðila, auk þess sem 39% munur sé á hæsta og lægsta tímagjaldi heilbrigðisnefnda. Ég get ekki sagt að þessi niðurstaða hafi komið stórkostlega á óvart.
Samkvæmt stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar var lögð áhersla á að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings og að stjórnsýsla sé skilvirk og réttlát. Þetta rímar vel við stjórnarsáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar sem segir að marvisst verði „... unnið að því að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs með því að draga úr hindrunum í gildandi regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk.“ Er þá ekki best að gera nákvæmlega það? Það er ekki eftir neinu að bíða.
Sátt Samkeppniseftirlitsins vegna samruna Festi og N1 árið 2018 hefur verið mikið í deiglunni. Í ársskýrslu sinni á árinu 2021 benti stjórn Festi hf. á að þvinganir Samkeppniseftirlitsins hefðu engu skilað, neytendum til hagsbóta. Þannig hafi t.d. eldsneytisstöðvar Dælunnar verið seldar til „nýs aðila á markaði“ en innan fárra missera endað í höndunum á Skeljungi, einum helsta samkeppnisaðila Festar. Þá hafi þvinganir til sölu verslunarinnar á Hellu engu skilað. Í tvígang hafi Festi reynt að selja hana til nýrra aðila, þ.e. Söluskálans Landvegamóta ehf. í janúar 2019 og í ársbyrjun 2020 til Samkaupa. Hins vegar hafi leigusalinn að húsnæði verslunarinnar komið í veg fyrir kaupin í bæði skiptin en þar á í hlut sveitarfélagið Rangárþing eystra. Það sér hver maður að þarna þjónaði öflug hagsmunagæsla fyrir neytendur svo sannarlega hlutverki sínu.
Þrjár milljónir fyrir teppaauglýsingu
Þá kemur upp í hugann mál Alan Talib teppasala. Neytendastofa lagði á hann eina hæstu sekt í sögu stofnunarinnar, alls 3 milljónir króna. Á síðustu tveimur árum má finna tugi mála hjá stofnuninni er varða ólögmætar verðmerkingar, auglýsingar og/eða tilboð. Fyrir liggur að hæsta sektin sem lögð hefur verið á brotlegan aðila á tímabilinu var 150.000 krónur, eða 5% af sektarfjárhæð Alan Talib.
Fram kom í fjölmiðlum að Alan var veittur eins dags frestur til að svara ásökunum Neytendastofu. Almennt er slíkur frestur 14 dagar hið minnsta. Að tveimur dögum liðnum beitti Neytendastofa í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar úrræði sem felur í sér tímabundið bann á viðskiptahætti. Skilyrði fyrir beitingu slíks banns er að hætta sé á að viðskiptaháttsemi „skaði verulega“ heildarhagsmuni neytenda. Um nokkurs konar neyðarúrræði er að ræða sem ber að beita í alvarlegustu tilfellum. Stofnunin taldi verðmerkingar í auglýsingum teppasala falla þar undir. Verðmerkingar annarra fyrirtækja á Íslandi hafa ekki verið þess heiðurs aðnjótandi hingað til.
Þá ber einnig að nefna má Ágústs Beinteins Árnasonar og refsins Gústa jr. MAST fékk veður af því að ungi maðurinn héldi ref sem gæludýr. Stofnunin fékk leitarheimild og fulltingi lögreglu til að leita á heimili hans að refnum og hugðist taka refinn af drengnum. Lögmaður Ágústs hefur í fjölmiðlum bent á að engin lög eða reglur banni að eiga ref sem gæludýr á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd vildi ekki verða eftirbátur Neytendastofu og MAST og úrskurðaði í lok októbermánaðar að hlaðvarpið Dr. Football hafi brotið gegn reglum um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við áfengisauglýsingum. Nefndin lagði sekt á hlaðvarpið upp á 500 þúsund krónur, eða sem nemur 5% af ársveltu hlaðvarpsins. Hver er grundvöllurinn fyrir þessu og hvaða fordæmi er stofnunin að setja? Eiga nú öll hlaðvörp landsins, sem skipta líklega hundruðum, að skrá sig sem fjölmiðil?
Ríkin í ríkinu
Framangreind upptalning sýnir að eftirlitsiðnaðurinn hér á landi hefur blásið langt út fyrir mörk skynseminnar. Við hjá Samtökum atvinnulífsins höfum kallað eftir að sameina þurfi eftirlitsstofnanir, líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, en að auki þarf að huga vel að hlutverki stofnananna. Víða þarf að grípa til vandlegrar endurskoðunar á stjórnsýslu þessara stofnana með hagsmuni almennings og fyrirtækja í landinu fyrir brjósti. Íslensk fyrirtæki þurfa oft á tíðum mörg ólík leyfi frá hinu opinbera fyrir starfsemi sinni og oft eru það sömu eftirlitsaðilarnir sem sinna eftirliti með sömu fyrirtækjunum vegna mismunandi leyfa, án þess að það hafi nokkurt hagræði í för með sér.
Treysta þarf atvinnulífinu til þess að gegna lykilhlutverki við framkvæmd innra eftirlits og umbuna á fyrirtækjum sem tekið hafa upp og starfa eftir slíkum kerfum. Umbunin getur falist í færri heimsóknum utanaðkomandi eftirlitsaðila og niðurfellingu eða lækkun gjaldheimtu af þeirra hálfu.
Hafa verður að leiðarljósi að eftirlit sé ávallt eins einfalt og mögulegt er og samræmt á landinu öllu. Svæðaskipting eftirlits, án samræmdrar túlkunar og beitingar á reglum, er algeng hér á landi. Nefna má sem dæmi áðurnefnt matvælaeftirlit og heilbrigðis- og mengunareftirlit sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga á tíu eftirlitssvæðum um landið sjá um, án fullnægjandi samræmingar þeirra í milli. Þá má nefna starfsemi byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlit, sem ekki lúta neinni samræmingu í túlkun laga og reglna milli umdæma.
Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja þá umgjörð og umhverfi sem gerir atvinnulífinu kleift að blómstra og því skora ég á ráðamenn að setja sér áramótaheit fyrir árið 2022 um að greiða götu ofangreindra hugmynda og koma þessum málum til betri vegar. Það yrði okkur öllum til mikilla hagsbóta.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.