Mér skilst að það sé allt að fara til fjandans heima. Almenningur alveg búinn að tapað sér og segi bara nei. Nei, við ætlum sko ekki að borga launin okkar sjálf. Nei, við ætlum sko ekki verja stöðugleikann. Nei, við ætlum sko ekki að vinna í verkfallinu. Það er annað en hér eystra í Kína. Hér er verkalýðsbaráttunni lokið. Henni lauk formlega 1. október 1949 þegar Kínverska alþýðulýðveldið var stofnað og Flokkurinn tók við.
Og eins og allir vita er hann eina von verkalýðsins og þjóðarinnar allrar. Í Kína er því hægt að nota baráttudag verkalýðsins í eitthvað annað en verkalýðsmál. Millistéttin fær pottþétt frí 1. maí. Er hún leyst út með gjöfum frá stéttarfélaginu sínu síðasta dag aprílmánaðar. Þar er m.a. um að ræða eldhúsrúllur, matarolíu, egg, innflutta danska mjólk og annan varning sem verkalýðshreyfingin sér um að skaffa sínu fólki. Mun þetta vera hefð frá þeim tímum er slík gæði voru af skornum skammti og verkafólk og aðrir borgarbúar fámennur forréttindahópur. Mér sýnist hins vegar allur gangur vera á því hvort farandverkafólkið leggi niður vinnu, hin eiginlega verkalýðsstétt í landinu. Víst er að ekkert stéttarfélag berst fyrir þeirra réttindum eða deilir út gæðum til þeirra. Og til hvers eiginlega? -- sigurinn er jú unninn. Flokkurinn mun hækka launin ef þess er nokkur kostur og segja atvinnurekendum að borga út á réttum tíma ef það er ekki þeim mun erfiðara. „Áfram hinn sósíalíska veg,“ segir í stjórnarskrá bæði Flokksins og Kínverska alþýðulýðveldisins „áfram lýðræðislegt alræði fólksins, áfram handleiðsla Kommúnistaflokksins, áfram marx-lenínismi og hugsun Maos Zedongs.“ Árans yfirdrepsskapur.
Að upplagi er ég ekki fótbolta-öfgamaður. Ég hef alltaf haldið með ÍBK og West Ham (og svo Peking-varðliðunum síðustu árin). Les annað slagið um gengi þeirra í blöðunum. Horfi á einn og einn leik í sjónvarpinu. Það hefur ekki áhrif á jafnaðargeð mitt þegar þau tapa þó svo ég gleðjist yfir hverjum sigri. Í Kína hefur knattspyrnan hins vegar komið inn í líf mitt sem frelsandi engill.
Að upplagi er ég ekki fótbolta-öfgamaður. Ég hef alltaf haldið með ÍBK og West Ham (og svo Peking-varðliðunum síðustu árin). Les annað slagið um gengi þeirra í blöðunum. Horfi á einn og einn leik í sjónvarpinu. Það hefur ekki áhrif á jafnaðargeð mitt þegar þau tapa þó svo ég gleðjist yfir hverjum sigri. Í Kína hefur knattspyrnan hins vegar komið inn í líf mitt sem frelsandi engill. Hún er í mínum augum það sem kemst næst því að kallast „borgaralegt samfélag“ hér í landi. Þú mátt fara á leik. Blanda þér í hóp stuðningsmanna. Hrópa eins og hálfviti: „Koma svo,“ „útaf með dómarann,“ „hverjir eru bestir“ o.s.frv. Hefur það og löngum tíðkast að vera hreinskilinn og jafnvel kaldhæðinn er kemur að því að gera upp árangur kínverska karlalandsliðsins. Fræg eru orð Deng Xiaopings: „Ég elska fótbolta en þegar ég horfi á Kína spila tek ég andköf.“ Í mikilvægum leik á móti Belgíu á Ólympíuleikunum í Pekíng 2008 hitti einn kínverskur landsliðsmaður ekki boltann og sparkaði af alefli í legg mótherja síns er lá óvígur á vellinum á eftir. Fyrirliði Kínverja fylgdi þessu eftir með föstu ölnbogaskoti í magann á öðrum mótherja. Á örfáum mínútum hafði Kína misst tvo lykilmenn út af og tapaði svo auðvitað viðureigninni 2-0. Að leik loknum fóru hressilegar glósur sem eldur í sinu um fjölmiðla og internetið: „Liðið okkar hefur uppskorið tvö rauð viðurkenningarskjöl.“ „Við unnum gull í kung-fu.“ O. s. frv. Í landi innihaldslausra frasa og upphafningar valdhafanna er svona galsi sannarlega kærkominn.
Boltinn er ekki bara saklaus leikur. Hann er í vissum skilningi einnig atvinnugrein. Sem slíkur nærist hann á fjárfestingum og samkeppni. Þetta afl var leyst úr læðingi í Kína á níunda og tíunda áratug síðustu aldar þegar efnahagslífið í heild var markaðsvætt. Stórir fjárfestar gerðust bakhjarlar liðanna. Þeir dældu inn peningum, byggðu upp velli og keyptu leikmenn frá öðrum löndum. En boltinn er meira en bara sport og bissniss. Hann er einnig félagsleg hreyfing. Þú velur ekki framtíðarheimsmeistarana út frá líkamsvexti þeirra í æsku (eins og hægt er upp að vissu marki í mörgum greinum sem Kína hefur náð langt í, t.d. fimleikum, lyftingum, sundi, körfubolta o. s. frv.). Góðir knattspyrnuleikmenn og tryggir aðdáendur verða fyrst og fremst til í öflugu grasrótarstarfi. Hér hefur hnífurinn staðið í kúnni því kínversk stjórnvöld líta á það nánast sem kennisetningu að frjáls félagasamtök séu ógn við valdaeinokun Flokksins, stuðli að ólgu og samfélagsupplausn. Þrátt fyrir þann anda frjálslyndis er svífur yfir vötnum í kínverska boltanum hafa yfirvöld því gætt þess vandlega að knattspyrnuhreyfingin lúti stífum aga Flokksins og njörvað hana kyrfilega við flokksapparatið. Sumir segja að þetta sé ein helsta ástæðan fyrir því að kínverski boltinn er þekktari fyrir fyrir svindl og svínarí en gæði.
Þangað til núna, því hið valdamikla Umbótaráð sem Xi Jinping forseti setti á laggirnar 2013 til að dýpka umbæturnar í landinu, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta gangi ekki lengur. Í lok febrúar sl. kynnti ráðið nýja áætlun fyrir boltann. Skammtímamarkmiðið er að fá hundrað milljónir stráka og stelpur til að sparka og leika sér, eða tvö hundruð. Langtímamarkmiðið er að eignast lið á HM, halda HM og vinna HM. -- Og nú, loksins, er stigið það skref að skilja í sundur knattspyrnusambandið og stjórnsýslu Flokksins. Helstu hagsmunaaðilarnir í úrvalsdeildinni, klúbbarnir, eiga að fá að ráða sínum málum í friði fyrir afskiptum pólitíkusanna. Sjálfur forsetinn er heils hugar á bak við planið. Það er rækilega undirstrikað í teiknimyndaseríu sem hann hefur látið dreifa á netinu og kallast
Xi dada og boltinn eða Xi frændi og boltinn. Hvað svo ef tilraunin heppnast? Hvað ef grasrótarstarf frjálsra fótboltaliða fær að blómstra? Hvað ef Kína verður heimsmeistari í Peking 2626? Verða þá þessar umbætur yfirfærðar á önnur félagasamtök? Maður getur spurt sig. Trúfélögin? Kvennréttindahópana? Stéttarfélögin? Þetta er spennandi. Þetta er súrefni.