Stundum finnst mér eins og Ísland sé einskonar Groundhog Day. Sömu atburðir og orðræða endurtekur sig í sífellu, sömu orðin fara hring eftir hring en það er eins og þau hafi engin áhrif, sama fólk og sömu orð dag eftir dag eftir dag. Ég fann grein í gömlu úthólfi í tölvu frá árinu 1998, PowerBook 5300cs nánar tiltekið. Þarna var ég 25 ára gamall að skrifa Söguna af Bláa hnettinum en rétt eins og núna, með litla hugarró út af samfélagsumræðunni. Þarna skrifaði ég það sem átti að verða mín fyrsta aðsenda grein í Morgunblaðið. Hún fjallaði um Landsvirkjun og hvernig Landsvirkjun gæti bjargað Austurlandi. Ég hafði aldrei þorað að birta skoðanir mínar í stórum fjölmiðli svo ég gugnaði og stakk greininni ofan í skúffu. Greinin lá á mér eins og mara og ég dauðsá eftir því að hafa ekki birt hana og ímyndaði mér lengi hvernig hún hefði breytt heiminum. Hérna er greinin frá nóvember 1998. Margt hefur auðvitað breyst í heimunum, þarna er Google til dæmis tveggja mánaða gamalt sprotafyrirtæki:
Thu Nov 12 12:49:06 1998 To: From: andri@isholf.is (Andri Snaer Magnason)
Subject: Landsvirkjun
Sæll Ármann. Ég var að spá í að senda mogganum þessa grein, hvað finnst þér? Bréf er á leiðinni með sniglapósti og svo skal ég koma sögunni af stað. kveðja Andri Snæri
Hvernig getur Landsvirkjun bjargað Austurlandi? Ein allsherjarlausn á byggðarvanda.
Frá unglingsaldri hef ég unnið öll sumur við að sá fræjum og planta hríslum í örfoka land. Ég hef borið skít á sanda og mela og hokrað við þetta í hinum ýmsu veðrum, sól hefur brennt mig og vindur kalið mig en aldrei hefur maður misst sjónar á takmarkinu: Ég ætlaði að skila fegurra og betra landi til næstu kynslóðar. Samtals eru þetta kannski ekki nema nokkrir fermetrar gróðurlendis og fáeinar birkihríslur sem öll mín sumur hafa skilað landinu en mér fannst þetta hafa skipt máli. Það er því ekki laust við að maður fyllist vonleysi þegar manni berast til eyrna áform um að sökkva 27 km2 gróðurlendis í Eyjabökkum sem eru auk þess með rúmlega 300 gróðurtegundum og einstöku fuglalífi. Hvers virði var mitt starf í 10 sumur? Hvers virði er þá starf þeirra þúsunda sem hafa stefnt að sama marki? Í vonleysi mínu lá ég andvaka heila nótt og ég held að ég hafi fundið lausn á vanda Austfirðinga, sem myndi auk þess spara mér mörg þúsund ára sumarvinnu.
Lausnin liggur í sjálfri Landsvirkjun
Lausnin liggur í sjálfri Landsvirkjun, þar býr öll sú orka sem þarf til að bjarga Austurlandi og hvaða landi sem er ef því er að skipta. Hjá Landsvirkjun vinnur mikið af gáfuðu og vel menntuðu fólki sem vinnur við þau undarlegu skilyrði að þessar gáfur beinast allar í einn farveg og þær munu ekki ekki fá notið sín nema náttúruperlum verði fórnað. Vandinn er ekki síst Landsvirkjunar því hún er ekki einu sinni að græða á nýjustu stóriðjunni. Fyrirtækið græðir aðeins um 20 milljónir á ári á samningnum við Norðurál. Varla fara þeir að hagnast meira á Norsk Hydro? En hvernig gæti Landsvirkjun bjargað málunum? Byrjum á markaðsskrifstofu Landsvirkjunar. Allir vita að byggðarvandinn er huglægur. Enginn vill fara á skemmtistað ef allir eru á leiðinni út, en allir vilja bætast aftan við röð sé hún nógu löng. Nú er röðin víst á leiðinni suður. Fólk hefur næga atvinnu en fer samt burt og á meðan það gerist mun atvinnulífið ekki verða fjölbreyttara, svo einfalt er það.
Hvað gæti markaðsskrifstofan gert?
Öflug markaðsskrifstofa sem getur gert Austurland áhugavert fyrir heila verksmiðju hlýtur að geta gert svæðið spennandi fyrir fólk, sérstaklega á tímum þegar vinnustaðir margra eru aðeins bundnir við tölvu en ekki borg eða land. Markaðsskrifstofan gæti höfðað til hins stressaða Grafarvogsbúa sem situr fastur á sinni Gullinbrú og einbeitt sér að því að koma jákvæðum fréttum af Austurlandi í fjölmiðla. Tölvufræðingar Landsvirkjunar gætu aðstoðað stórfyrirtæki við að flytja einn og einn starfsmann austur, helst auðvitað einhvern sem á ættir að rekja þangað. Markaðsskrifstofan gæti fengið fyrirtæki sem aðeins sinna símavinnu til að flytja hluta starfseminnar. Ímyndið ykkur ef allar skoðanakannanir væru gerðar frá Reyðarfirði, ef þar risi félagsvísindagallúp í staðinn fyrir stóriðjugúlag. Stjórnarformaður Landsvirkjunar er bóndi fyrir norðan en fer létt með sinna störfum sínum beint úr sveitinni gegnum tölvu og síma. Ef stjórnarformenn geta búið úti á landi þá ættu lægra settir starfsmenn að fara létt með það.
Norðurál fékk 400 milljónir og lægsta orkuverð í heimi
Norðurál fékk 400 milljónir í beinan ríkisstyrk fyrir utan lægsta orkuverð í heimi, hefði ekki mátt hjálpa nokkrum heim fyrir slíkan pening? Hjá Landsvirkjun vinnur mikið af tæknimenntuðu fólki sem situr með hendur í skauti ef ekki er virkjað. Ímyndið ykkur hvílíkt menntakerfi væri hægt að byggja upp á Austurlandi með þessum mannauði! Þar gæti risið besti tæknimenntaskóli á landinu sem væri jafnvel beintengdur við HÍ og TVÍ. Þarna væri alið upp æskufólk, uppfullt af hugmyndum og eldmóði og ást á sínu Héraði. Fljótsdalurinn gæti orðið vísir að íslenskum sílikondal. Landsvirkjun gæti gegnt lykilhlutverki í ferðaþjónustu. Það er búið að leggja nokkra milljarða í rannsóknir fyrir austan. Það er ekki tapað fé, þetta er uppsöfnuð þekking sem okkur ber skylda til að ávaxta. Fáir þekkja hálendið betur en starfsmenn Landsvirkjunar. Væri ekki flott ef allri þessari þekkingu væri komið til skila í glæsilegu hálendissafni fyrir austan, þar sem maður myndi læra allt um fuglalíf, hreindýr, plöntur og jarðfræði áður en maður legði á hálendið. Þarna mætti lífga við söguna og þjóðsögur. Fljótsdalinn mætti kynna sem heimkynni Grýlu eins og hún kemur fyrir í hryllilegu kvæði austfirðingsins Stefáns Ólafssonar. Grýla með höfuðin þrjú og kafloðinn kvið og eyru sem lafa sex saman sitt ofan á lær. Fyndist börnum ekki spennandi að fara á söguslóðir Grýlu? Væri hún ekki eigulegur minjagripur?
Að nýta þekkingu Landsvirkjunar á náttúru Íslands
Eflaust vita Landvirkjunarmenn af ótal perlum á hálendinu sem þeir þora ekki að sýna neinum af ótta við að missa vinnuna. Of mikil þekking almennings hefur því miður eyðilagt marga góða virkjunarkosti. Landsvirkjun gæti snúið við blaðinu og unnið að því að gera hálendi Austurlands að einum allsherjar Gullfossi. Gætu Dimmugljúfur ekki orðið Grand Canyon Íslands? Það væri jafnvel hægt að láta fólk fljúga beint austur frá útlöndum en þarna stendur alþjóðlegur flugvöllur lítið sem ekkert notaður. Vannýtt auðlind. Ég held að allir Landsvirkjunarmenn gætu unnið Austfirðingum eitthvað gagn ef raunverulegur vilji er fyrir hendi. En menn eru auðvitað óþolinmóðir og vilja vítamínssprautu fyrir atvinnulífið strax en ég er ansi hræddur um að þetta vítamín sé líkara amfetamíni, skammvinn örvun sem kallar á aðra sprautu. Ef árangur af áratuga landgræðslustarfi ungmenna á íslandi verður þurrkaður út á einu bretti með Eyjabakkalóni þá verða stjórnmálamenn að skilja hvaða skilaboð þeir senda æskufólki landsins. Ef verkfræðingar og stjórnmálamenn mega sökkva þjóðargersemum að vild og þykjast gera það fyrir Austfirðinga, þá hlýtur æskan að erfa gildismatið. Hvað ætli gangverðið sé á Konungsbók Eddukvæða? Okkur ber jú skylda til að selja allar auðlindir.
Glaðheimar í Nóvember 1998 - Andri Snær Magnason."
Hvað hefði gerst ef Landsvirkjun hefði bjargað Austurlandi - á forsendum Austurlands?
Svona var semsagt greinin frá árinu 1998. Þetta var áður en allt ruglið byrjaði, já ég segi næstum hreinlega áður en menn byrjuðu að eyðileggja Ísland og þetta brjálaða ,,ástand" sem nú ríkir var orðið til, áður en náttúruverndarfólk var flæmt úr Sjálfstæðis og Framsóknarflokki, áður en póleríseringin sem við upplifum í dag varð til. Þetta var áður en ég varð öfgamaður og þetta var áður en 101 Reykjavík varð níðyrði og fjallagrös urðu skammaryrði um nýsköpun. Þetta var áður en 95% af störfum á Íslandi sem tengjast að engu leyti stóriðjunni voru kölluð ,,eitthvað annað" með ákveðnum hæðnistón. Þetta var áður en þessi mynd var búin til sem margir töldu óhjákvæmilega framtíð Íslands.
Ég ímynda mér hvað hefði gerst ef örfáir milljarðar hefðu verið settir í að láta þetta allt verða að veruleika, auðvitað ekki 100% bókstaflega - en eitthvað í þessum anda. Ef menn hefðu lagt áherslu á markaðsstarf, flugvöll, menntun, nýsköpun, ferðamennsku, menningu og betri nýtingu á fyrirliggjandi auðlindum í landbúnaði og sjávarútvegi - ef Landsvirkjun hefði bjargað Austurlandi á forsendum Austurlands - en ekki á forsendum Alcoa. Ég ímynda mér hliðarheim, annað land þar sem Ísland fór ekki í ruglið. Í þessum heimi voru Seyðisfjarðargöng boruð en ekki aðrennslisgöngin, þarna lifir Lagarfljótið og Rauðaflúð öskrar og fossar falla frjálsir - Töfrafoss, Faxi og Kirkjufoss og selir kæpa upp með Jöklu og Kringilsárrani er örnefni sem enginn þekkir, leynistaður fyrir nokkrar hræður og áhugamenn um hrauka - en aðallega heimkynni gæsa og hreindýra. Þetta er heimur þar sem Austurland óx af sjálfsdáðum vegna þess að fólk vildi búa þar og samgöngubyltingar með millilandaflugi breytti heimsmyndinni og sjálfstraustinu - enda er álíka langt til Edinborgar frá Egilsstöðum eins og til Reykjavíkur.
Þjóðin lagði allt undir og tvöfaldaði orkuframleiðsluna og eyðilagði þjóðmálaumræðuna og vinabönd trosnuðu og í nokkur ár héldu menn að Landsvirkjun hafi bjargað Austurlandi. Að draumar verkfræðinganna hafi alveg óvart farið nákvæmlega saman við þann kraft sem skapar lífvænlegt og gott samfélag. Menn töldu sig sanna að verkfræðileg sóvíet stýring á samfélagi gæti virkað í raun og veru.
En af hverju fækkar Austfirðingum?
En samkvæmt nýjustu mælingum fækkar fólki á Austfjörðum, byggðin rétt heldur í horfinu með c.a 11.000 íbúa. Samt er þarna 1% af álframleiðslu veraldar, 0.2% af öllum fiski sem mannkynið veiðir og orka sem gæti knúið Kaupmannahöfn - samt rétt dugir það til að halda 11.000 manns í járnum með einhverjum hundrað manna sveiflum til eða frá. Íbúar eru 400 fleiri en árið 1998 - er það góður árangur af illvígum deilum, dauða Lagarfljóts og 400 milljarða fjárfestingum? Sjö árum eftir opnun Kárahnjúkavirkjunar - skilar Landsvirkjun þjóðinni engum beinum arði, ekkert frekar en fyrirtækið hefur gert í 50 ár, Alcoa lætur hagnaðinn hverfa í skattaskjóli og álverð í heiminum er að hruni komið enda hafa kínverjar byggt hundrað álver og Kárahnjúkavirkjanir á undanförnum árum en sami hugsunarháttur þar í hamslausri ,,uppbyggingu".
En framtíðin er björt er það ekki?
Því miður virðist það ekki vera. Svona lítur framtíðin út samkvæmt Orkuspárnefnd Orkustofnunar árið 2015:
Og þarna fæ ég deja vu. Þarna er Groundhog Day. Þetta er NÁKVÆMLEGA sama framtíðarspá og var uppi árið 1998 þegar ég skrifaði greinina. Núna árið 2015 spá menn LÍNULEGRI HNIGNUN AUSTURLANDS. Hvers vegna? Jú - af því að ekkert meira er hægt að virkja á Austurlandi og sjálfvirkni mun aukast í álverum og sjávarútvegi - og þá er auðvitað ekkert hægt að gera. Hvernig á að reikna út ,,eitthvað annnað". Má skýrsluhöfundur ímynda sér? Má hann vera skapandi? Má hann hafa sýn?
Það er nákæmlega svona línurit sem knúði mig til að skrifa greinina fyrir 17 árum og það væri auðvitað hægt að uppfæra hana. Það var ekki náttúruverndin eingöngu heldur ósigur sköpunargáfunnar og mannsandans sem mér fannst birtast í svona framsetningu á veruleikanum. Að trúa því að einhver hefði í alvöru svo stórfenglega yfirsýn að hann geti gert svona línurit um þróun á heilum landsfjórðungi til 2050. Línuritin bera þess merki að vera einhverskonar menntun og vísindi en það er augljóst að engin skapandi hugsun hefur fengið að koma þar nærri og ekki er gert ráð fyrir henni. Árið 1998 var höfundur pistilsins heilbrigður ungur maður sem var ágætur í stærðfræði og duglegur að helluleggja en ákvað að fara gegn skynseminni og ykja ljóð í staðinn, hann var nýbúinn að eignast barn og hafði ákveðið að skrifa barnabók og hann var nýbúinn að gefa út rímnadisk. Hvernig hefði línurit fyrir svona mann átt að líta út?
Árið 1998 hélt ég reyndar að hræðsluáróðurinn væri meðvitaður, að hann væri úthugsað plott og línuritin væru sett fram til að hræða Austfirðinga og knýja þá til hlýðni við hina einföldu heildarlausn. En núna sér maður að þetta var bara venjulegt andleysi. Bara hversdagslegt og grátt andleysi.
Hvernig gætu Austfirðingar orðið 20.000 árið 2030?
Ég held samt að Austfirðingar gætu orðið 20.000 eða 30.000 árið 2050 og ég held að þeir hefðu getað það árið 1998 án stórvirkjunar - ef þarfir og kraftur fólksins hefði fengið jafn mikla athygli og draumórar Landsvirkjunar. Ef menn hefðu þurft að horfast í augu við gamaldags viðhorf og kasta þeim út í hafsauga í stað þess að fá 400 milljarða til að styrkja dauða heimsmynd. Og ég held að eitthvað í stíl við þessar hugmyndir frá árinu 1998 séu um það bil það sem Austurland þarf að gera - ef svæðið á að vaxa sem samfélag. En í stað þess að láta drauma sína rætast hefur Austurland orðið fyrirmynd fyrir sambærilega sóvéthugsun um land allt þaðan. Húnavatssýslurnar vilja líka láta bjarga sér og núna á að byggja mikla hryllingsfabrikku við Húsavík - með beinum ríkisstyrk sem nemur um 2 milljónum á hvern Húsvíking - já tvær milljónir á hvern íbúa fyrir 120 ,,störf" - allt á forsendum verktaka og verkfræðinga. Hvað hefði Húsavík getað gert við tvær milljónir á mann - á sínum forsendum?