Stefán Jón Hafstein
85 einstaklingar eiga helming allra eigna í heiminum. Hvernig gerðist þetta, hvers vegna og hverjar eru afleiðingarnar? Þeir sem eru almennt talsmenn ójöfnuðar virðast undarlega hljóðir um þessa stöðu. Þá virðast fáir útskýra og verja þá staðreynd að 1% íbúa jarðar á meira en 50% mannkyns.
Fyrir skömmu var haldin alþjóðlegur bloggdagur gegn ójöfnuði. Hér er minn skerfur:
Það má alveg færa rök fyrir ójöfnuði. Það gerði leiðarahöfundur Fréttablaðsins þegar hún talaði gegn auðlegðarskatti á Íslandi því hann refsaði fólki fyrir ráðeild og eljusemi. Þeir sem eru duglegir, frjóir, taka áhættu með eigið fé og skapa auð með því að vinna sjálfum sér og samfélaginu gagn mega alveg bera meira úr býtum en við hin sem erum bara réttir og sléttir verkamenn í aldingarði drottins. Eða hreinræktaðir letingjar. En hvar eru endamörk þess ójöfnuðar sem er æskilegur eða verjanlegur?
Við erum komin langt út fyrir þau mörk.
En hvar eru endamörk þess ójöfnuðar sem er æskilegur eða verjanlegur?Við erum komin langt út fyrir þau mörk.
Um það eru lang flestir sammála sem teljast marktækir á alþjóðlegum ræðupöllum: Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn, allir helstu leiðtogar Vestrænna ríkja með sjálfan höfuðpaur heimskapítalismans í broddi: Obama Bandaríkjaforseta; fjáraflamenn eins og Bill Gates, Warren Buffet, hagfræðingar eins og Joseph Stigliz og löng röð af minni spámönnum allt til nýjasta tískugúrúsins í hagfræðinni: Thomasar Picketty sem selur 700 blaðsíðna doðrant gegn ójöfnuði í tonnatali.
Sjálfur varði ég sumrinu í að skrifa um líf og störf fátæka fólksins og hef ekki komist í að lesa Capital in the 21. Century, eftir Picketty, en um hana hef ég lesið. Eflaust ágæt bók þótt það sé ekki frumleg niðurstaða að vítisvél fjármálakapítalismans feli í sér tortímingarhvata.
Nýjasta heimskreppan sýnir eftirminnilega hve hættulegur óheftur kapítalismi er. Látum liggja milli hluta óréttláta og ósanngjarna niðurstöðu, en hún er hættuleg. Þessi frumstæða vél sem á sér afar stutta sögu í stærra samhengi mannlegrar tilveru er blátt áfram lífshættuleg.
Ég skal taka nokkur dæmi.
Ójöfnuður vinnur gegn almannahagsmunum: Ebóla-veiran sem nú gæti lagt af velli 1-2 milljónir manna áður en yfir lýkur er fyrst og fremst fátæktarsjúkdómur. Hún verður aldrei að faraldri á Vesturlöndum segja menn þótt einn og einn lendi í sóttkví. Hvers vegna? Vegna þess að við eigum sjúkrahús, lækna og hjúkrunarfólk og innviði sem standast svona áhlaup, við erum hraust af góðu atlæti og búum að þekkingu. Við erum örugg í skjóli af því sem skattarnir okkar hafa borgað. Í fátæku löndunum hefur ebóla grasserað með upphlaupum hér og þar áratugum saman, stráfellt fólk á einangruðum svæðum og hjaðnað svo. Nú vakna menn upp við það (þegar ríka fólkið byrjar að deyja) að lyfjaiðnaðurinn í heiminum hefur ekki framleitt lyf eða bóluefni þótt það sé hægt. Hvers vegna? Vegna þess að það borgar sig ekki. Ójöfnuður og fátækt hafa skapað forsendur fyrir því að nú er öllum ógnað, líka okkur. Það sem ,,borgar sig“ er fráleit skilgreining á því hvar velsæld fólks byrjar. Það sem ,,borgar sig ekki“ samkvæmt bókhaldi stórfyrirtækja má ekki ákvarða hver má lifa og hver deyja. Það hefði verið samfélagslega skynsamleg ákvörðun að þróa lyf við ebólu fyrir löngu, óháð gróðavon lyfjafyrirtækja. (Og þá ótalin siðferðislegu rökin gegn því að láta fólk hrynja niður unnvörpum).
Frá sjónarhóli fátæka meirihlutans í heiminum eru hinar einu sönnu öfgar sá lífsstíll og græðgi sem auðræði elur af sér. Og blasir við á öllum fréttarásum heimsins allar stundir.
Ofurfátækt er ógn við frið: Rúmlega milljarður manna er hreinlega á vonarvöl og helmingur mannkyns á nokkurn veginn ekki neitt. Nú vita allir allt um alla – líka þeir fátæku sem horfa á vellystingar auðklíkunnar í heiminum sem fóðrar fjármálafursta og mokar peningum í hernaðarmaskínur sem þurfa endalaus stríð til að viðhalda sjálfum sér. Fréttaspuninn kallar þá ,,öfgamenn“ sem grípa til vopna en hvað kallast öfgarnar sem þeir berjast gegn? Frá sjónarhóli fátæka meirihlutans í heiminum eru hinar einu sönnu öfgar sá lífsstíll og græðgi sem auðræði elur af sér. Og blasir við á öllum fréttarásum heimsins allar stundir.
Auðræði er ógn við lýðræði: Nýjasta fjármálakreppan hefur ekki bara afhúpað miskunnarleysi hins óhefta kapítalisma, heldur botnlausa spillingu og eitraða blöndu stjórnmála, hermála og fjármála. Í stóru og smáu blasir við hreinræktað siðleysi sem þekkir engin takmörk frekar en græðgin sem lætur greipar sópa um heimili vestrænna skattborgara til að kynda undir bálinu. Bankahrunið kostaði hverja fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi 15 milljónir króna, hvers konar ok er það sem fjármálaelítan velti á vinnandi fólk um allan hinn vestræna heim? Það er ok atvinnuleysis, verri heilsu, minna öryggis og samfélagslegrar sundrungar. Fulltrúi valdsstjórnar Kína í Hong Kong komst einkar vel að orði fyrir hönd yfirstétta allra landa: ,,Fátæki meirihlutinn má ekki ráða hverjir fara í framboð“ ...því það ógnar ,,viðskiptahagsmunum“. Gæti hafa verið Born in the USA.
Ójöfnuður elur á spillingu: Græðgi kann sér engin mörk, hvorki lagaleg né siðleg. Valdahlutföll raskast, valdmörk færast til, aðhaldið sem auðkýfingar þurfa og erftirlitið með fjármálavítisvélinni hverfur inn í spillingargímald. Sá siðferðislegi hástallur sem Vesturlönd hreyktu sér á, að mörgu leyfi með réttu, er hruninn. Hvernig halda menn að það sé að tala fyrir gagnsæi, eftirliti og lögum í þróunarlöndum þegar okkar eigin elítur vaða á skítugum skónum yfir allt það sem okkur var kennt að virða? Ójöfnuður er ekki bara aðför að lífskjörum heldur atlaga að lífshugsjón sem er undirstaða þess besta sem Vesturlönd geta státað af.
Innviðir hrynja, sjúkrahús, skólar, samgöngukerfi...undirstaða þessa alls voru þær pólitísku og efnahagslegu forsendur sem breyttu valdahlutföllum á 20. öld alþýðu í hag
Ójöfnuður ógnar velsæld: Í sögulegu samhengi er vestræna velferðarkerfið nú á brauðfótum. Millistéttinn hélt að loforðið um æ stærri hlut af kökunni myndi halda. Svo er ekki. Þvert á móti - og hún er örvæntingarfull. Við sjáum það á Íslandi og alls staðar annars staðar: Innviðir hrynja, sjúkrahús, skólar, samgöngukerfi...undirstaða þessa alls voru þær pólitísku og efnahagslegu forsendur sem breyttu valdahlutföllum á 20. öld alþýðu í hag: Það hlutfall af þjóðarframleiðslu sem fór til velferðarmála óx úr því að vera innan við 10% í að verða 25-30% í það minnsta. Þannig urðu velferðarríkin til, þannig fékk millistéttin draum og þannig breyttust lífsskilyrði alþýðu á Íslandi úr því að vera lífið sem Tryggvi Emilsson lýsti í Fátæku fólki í það að landið varð eitt af toppríkjum á velsældarvísitölu Sameinuðu þjóðanna. Aukinn jöfnuður bjó til velsæld.
Þessi formúla gildir fyrir heiminn allan alveg eins og hún gildir ennþá fyrir Ísland og þau lönd sem við berum okkur saman við og hafa náð lengst í velsæld. Það er í hrópandi andstöðu við þessa sögulegu reynslu að ójöfnuður vex, ekki aðeins innan vel stæðu ríkjanna heldur einnig milli ríkja; auðræðið er alþjóðlegt og afleiðingarnar snerta alla.
Ójöfnuður er ógn við allt sem okkur er kærast í samfélagi manna.
Stefán Jón Hafstein er höfundur nýútkominnar bókar sem heitir Afríka – ást við aðra sýn, og býður lesendum Kjarnans að grípa hér niður í einn kafla sem fjallar um sama efni og að ofan.