Mikil umfjöllun hefur orðið á opinberum vettvangi um hið svokallaða Landsbankabréf, skuldabréf sem Landsbankinn gaf út til gamla bankans (LBI) til að jafna út mismun á yfirfærðum innstæðum (skuldum) og eignum sem aðallega voru útlán. Sumt í þeirri umfjöllun ber með sér að ekki allir eru upplýstir um tilurð skuldabréfsins og tilgang. Því er rétt að fjalla betur um málið og leggja fram frekari upplýsingar.
Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur.
1. Voru skuldabréfin of stór?
Á grundvelli óháðs mats á eignum yfirfærðum til Landsbankans frá LBI var gert samkomulag um grunnmat eigna að fjárhæð 783 ma.kr. Yfirfærðar skuldir, aðallega innstæður, voru 508 ma.kr þannig að skuld nýja bankans við þann gamla var 275 ma.kr. Auk þess var samið um skilyrtar viðbótargreiðslur ef verðmæti vissra eigna reyndist meira en gert var ráð fyrir í grunnmatinu, þó að hámarki 92 ma.kr. Hluti samkomulagsins var að gamli bankinn tæki við 28 ma.kr. í hlutafé þannig að upprunalega skuldabréfið nam 247 ma.kr. (275-28).
Skilyrta skuldabréfið var síðan gefið út að fullu og fyrir það fékk ríkissjóður hlutabréfin til sín án endurgjalds og gat tekjufært 25 ma.kr. í ríkisreikningi 2013 vegna þessa.
Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður.
Áður hefur komið fram opinberlega að í hinum bönkunum tveimur var minni munur á eignum og skuldum. Íslandsbanki átti þó að gefa út skuldabréf til Glitnis að fjárhæð 52 ma.kr. en á endanum breytti Glitnir þeirri kröfu í hlutafé og ekkert skuldabréf var gefið út.
Velta má fyrir sér hvers vegna svo mikill munur var á Landsbankanum annarsvegar og Arion banka og Íslandsbanka hinsvegar hvað þetta varðar. Skýringin mun vera sú að Landsbankinn var með viðamikla innlánastarsfsemi í útibúum í Bretlandi og Hollandi og hluti þeirrar innlánssöfnunar fjármagnaði útlánastarfsemi á Íslandi. Þannig varð virði innlendu útlánanna miklu meira en virði innlendu innlánanna.
Einn af þeim kostum sem kom til skoðunar var að taka yfir minna af eignum frá gamla bankanum og lækka þar með fjárhæð skuldabréfsins. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að skipting eigna fór eftir ákvörðun FME í október 2008, þannig að tilflutningur eigna til Landsbankans tók til allra innlendra eigna. Sjónarmið stjórnvalda var hinsvegar að ekki væri vænlegt að skilja íslenskar eignir eftir í þrotabúinu. Það væri ekki heppilegt að þrotabú sæi um fjárhagslega endurskipulagningu íslenskra fyrirtækja, eingöngu yrði um innheimtu að ræða, og endurskipulagningin ætti frekar að eiga sér stað í viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækja. Því var ekki leitað til FME um að breyta skilgreiningu sinni á eignaskiptingunni þannig að góðar íslenskar eignir yrðu skildar eftir í þrotabúinu. Reynslan með skiptingu SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans hefur sýnt að þetta sjónarmið var rétt. Rétt er að hafa í huga að 275 ma.kr er meira en þriðjungur þeirra eigna sem voru færðar yfir.
Lauslega var talið að eignir nýju bankanna þriggja í erlendum myntum væri um 800 ma.kr. og að helmingur þess væri lán til aðila sem hefðu tekjur í erlendum myntum og þyrftu því á erlendri fjármögnun að halda. Við skiptingu bankanna voru allar erlendar skuldir skildar eftir í gömlu bönkunum og voru nýju bankarnir því nánast án fjármögnunar í erlendum myntum. Í gegnum árin hefur það ávallt verið þannig að íslensku bankarnir hafa aflað sér lánsfjár erlends til að endurlána til fyrirtækja sem eru með tekjur í erlendum myntum og er sjávarútvegurinn þar langmikilvægastur.
Skuldabréf Landsbankans varð þannig nánast eina erlenda fjármögnunin sem íslenska bankakerfið hafði á þessum tíma, en heildarþörf bankakerfisins fyrir erlenda fjármögnun var áætluð um 400 ma.kr.
Skuldabréf Landsbankans varð þannig nánast eina erlenda fjármögnunin sem íslenska bankakerfið hafði á þessum tíma, en heildarþörf bankakerfisins fyrir erlenda fjármögnun var áætluð um 400 ma.kr., en til að bæta stöðuna hjá Arion banka og Íslandsbanka var að lokum ákveðið að ríkissjóður veitti þeim víkjandi lán í evrum að fjárhæð um 55 ma.kr. samtals.
Niðurstaða:
Útgefin skuldabréf Landsbankans námu samtals 339 ma.kr. (247+92) og er það mjög há fjárhæð. Helsta orsökin var að innlán sem safnað var erlendis voru notuð til útlána á Íslandi. Ekki var talið ráðlegt að endursenda íslensk útlán aftur til þrotabúsins og því ekki hægt um vik að lækka fjárhæðina. Með víkjandi lánum ríkissjóðs til hinna bankanna var heildarfjármögnun bankakerfisins í erlendum myntum nálægt því sem þörf var fyrir eða um 400 ma.kr. Um einhverja yfirfjármögnun var að ræða hjá Landsbankanum en undirfjármögnun hjá hinum bönkunum. Milliganga Seðlabankans var síðan nauðsynleg til að jafna mismuninn út á milli banka.
2. Hvers vegna er skuldabréfið í erlendum myntum?
Til að fá skýringu á því þurfum að grípa aðeins ofan í Skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna á bl. 25:
„Með bréfi til forsætisráðherra frá bankastjórn Seðlabanka Íslands dagsettu 11. desember 2008 er vakin athygli á því að nýju bankarnir eiga mun meira af gengisbundnum eignum en skuldum. Sú staða felur í sér áhættu þar sem efnahagur og afkoma bankanna eru við þessar aðstæður mjög næm fyrir breytingum á gengi krónunnar. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra nefnd með fulltrúum forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytis auk Seðlabanka Íslands og FME. Skilaði nefndin áliti sínu í maí 2009. Þar segir um misvægið:
„Misvægi af þessu tagi hefur mikil áhrif á rekstrargrundvöll viðskiptabankanna og gerir rekstur þeirra mjög viðkvæman fyrir breytingum á gengi krónunnar. Í grundvallaratriðum má skipta þessum áhrifum í þrennt:
- Með opið gjaldeyrismisvægi af þessu tagi leiðir styrking á gengi krónunnar til þess að virði eigna bankanna lækkar og neikvæður gengismunur myndast. Miðað við heildarupphæð á gjaldeyrismisvægi stóru viðskiptabankanna þriggja myndi 10% styrking á gengi krónunnar leiða til þess að tæplega 30% af áætluðu eigin fé bankanna upp á 385 milljarða tapast. Ef styrkingin yrði 35% myndi allt áætlað eigið fé bankanna hverfa.
- Veiking krónunnar hefur öfug áhrif, þ.e. skapar gengishagnað fyrir bankana þar sem virði bókfærðra eigna hækkar umfram virði bókfærðra skulda. Hins vegar leiðir lækkun á gengi krónunnar til þess að staða þeirra viðskiptavina bankans sem tekið hafa gengistryggð lán versnar. Eignagæði bankans rýrna af þeim sökum og því má búast við neikvæðum áhrifum á reksturinn.
- Þar sem vextir af gengistryggðum lánum eru að jafnaði lægri en vextir af lánum í íslenskum krónum myndar gjaldeyrismisvægið neikvæðan vaxtamun fyrir bankana.
Af ofangreindu má ráða að grípa verður til aðgerða hið fyrsta til þess að leiðrétta gjaldeyrismisvægið áður en fyrirhuguð endurfjármögnun bankakerfisins á sér stað. Meðal annars verður gjaldeyrisjöfnuður nýju bankanna að uppfylla reglur Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð til að FME geti veitt þeim starfsleyfi. Nefndin telur nauðsynlegt að ráðast nú þegar að rótum vandans með samræmdum aðgerðum. Gera verður ráð fyrir að bankarnir hafi ekki aðgang að fjármögnun í erlendum gjaldmiðlum í náinni framtíð og verði því ekki í aðstöðu til að veita gengisbundin útlán. Þorri innlendra fyrirtækja hefur að auki ekki tekjur í erlendum gjaldmiðlum og ætti því ekki að taka á sig umtalsverða gjaldmiðlaáhættu. Möguleikar fyrirtækjanna til að verja sig gegn gjaldmiðlaáhættu eru litlir sem engir við núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum. Því er nauðsynlegt að leysa þann kerfisvanda sem gjaldmiðlaójafnvægi bankanna skapar sem fyrst, einnig með tilliti til gjaldeyrisáhættu fyrirtækja og einstaklinga.”
Nefndin skoðaði vandlega hugsanlegar leiðir til að bregðast við þessu ójafnvægi en þær voru að hennar mati fjórar:
- Skuldbreyting gengistryggðra lána yfir í lán í íslenskum krónum.
- Uppgjör milli nýju og gömlu bankanna í erlendri mynt.
- Nýju bankarnir kaupi minna af gengisbundnum lánum frá gömlu bönkunum en reiknað hefur verið með.
- Gjaldeyrisskiptasamningur milli Seðlabankans fyrir hönd ríkissjóðs og bankanna.
Mat nefndarinnar var að eðlilegt væri að uppgjör milli nýju og gömlu bankanna færi fram í erlendri mynt, til að draga úr misvæginu, en augljóslega væri vandamálið miklu stærra en væntanlegir fjármálagerningar milli bankanna. Breyting á millifærslu eigna milli bankanna með því að skila aftur gengistryggðum eignum kæmi til greina en sem slík myndi hún einungis minnka og þá draga úr áhrifum fjármálagerningsins milli bankanna. Ekki var talið raunhæft að jafna út misvægið með skiptasamningi við Seðlabanka Íslands. Meðal annars var talið að slíkur samningur væri allt of áhættusamur fyrir ríkið.“
Niðurstaða:
Niðurstaðan er að vegna hins mikla gjaldeyrismisvægis sem var í efnahagsreikningum nýju bankanna urðu skuldabréf útgefin til gömlu bankanna að vera í erlendum myntum. Gengislánadómarnir flýttu svo fyrir skuldbreytingu gengistryggðra lána yfir í lán í íslenskum krónum.
Reyndar hefði staðan hvað varðar greiðslujöfnuð við útlönd varla verið betri með því að gefa umrætt skuldabréf út í íslenskum krónum. Krónurnar myndu safnast upp í slitabúinu og biðu þar útgöngu, misvægi í gjaldeyrisjöfnuði hefði verið viðvarandi í efnahagsreikningi Landsbankans og bankinn væri án erlendrar fjármögnunar. Hann hefði því ekki átt annars úrkosta en innheimta erlendu lánin eða skuldbreyta þeim í lán í íslenskum krónum.
3. Voru skuldabréfin til of skamms tíma?
Í lok september 2014 voru útlán bankanna þriggja til viðskiptavina í erlendum myntum samtals 422 ma.kr. Lán til annarra fjármálafyrirtækja námu 184 ma.kr. þannig að heildarútlán bankanna í erlendum myntum voru um 600 ma. kr. og þörfin fyrir erlenda fjármögnun í bankakerfinu því töluverð.
Eftirstöðvar skuldabréfs Landsbankans eru á sama tíma 238 ma.kr. og víkjandi lán ríkissjóðs til Arion banka og Íslandsbanka 52 ma.kr. eða samtals 290 ma.kr. Innlán í erlendum myntum eru einnig mikilvæg fjármögnun og verður að ætla að eigendur tveggja bankanna eigi þar einhvern hlut að máli og sú fjármögnun því ef til ekki að öllu leyti varanleg. Væntanlega eru innlánin á hagstæðum kjörum fyrir bankana.
Upprunalega var samið um að skuldabréfin væru afborgunarlaus fyrstu fimm árin (frá 2008) en greiddust síðan upp á fimm árum. Því er ekki að leyna að samningsaðilar höfðu væntingar um að áður en sá tími væri liðinn væru íslenskir bankar komnir með eðlilegan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og gætu fjármagnað á markaði þörf sína fyrir erlent lánsfé. Þær væntingar hafa reynst óraunhæfar til þessa.
Upprunalega var samið um að skuldabréfin væru afborgunarlaus fyrstu fimm árin (frá 2008) en greiddust síðan upp á fimm árum. Því er ekki að leyna að samningsaðilar höfðu væntingar um að áður en sá tími væri liðinn væru íslenskir bankar komnir með eðlilegan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og gætu fjármagnað á markaði þörf sína fyrir erlent lánsfé. Þær væntingar hafa reynst óraunhæfar til þessa. Íslenska bankakerfið og þar með íslenskt atvinnulíf er því enn háð slitabúi Landsbankans (LBI) um erlenda lánsfjármögnun.
Nýju bankarnir tveir (Íslandsbanki og Arion) sem ekki gáfu út skuldabréf við stofnun hafa reynt fyrir sér á erlendum lánsfjármarkaði en fjárhæðir hafa verið takmarkaðar og vextir háir. Svo virðist sem bankarnir hafi þurft að greiða um eða yfir 4% yfir millibankavöxtum fyrir það fé sem þeir hafa náð í. Þetta ástand getur haft mikil áhrif á þau kjör sem íslenskum fyrirtækjum mun bjóðast á erlendu lánsfé þegar til lengdar lætur, en ekki verður nánar farið út í það hér.
Niðurstaða:
Framlenging skuldabréfs Landsbankans er því ekki sjúkdómurinn heldur sjúkdómseinkennið. Sjúkdómurinn er að íslenska bankakerfinu hefur ekki tekist að endurvekja traust það sem það hafði á erlendum lánsfjármörkuðum hér á árum áður. Bæði staðan hér heima og ástandið á alþjóðlegum mörkuðum hafa hér áhrif. Horfurnar varðandi samkeppnishæfa fjármögnun íslensks atvinnulífs í erlendum myntum er því töluverðri óvissu háð.