Rauði krossinn hefur um áraraðir verið með samning við dómsmálaráðuneytið um að sinna mikilvægu starfi í þágu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Rauði krossinn vildi framlengja samninginn en svar dómsmálaráðherra var nei. Eðlilega hefur sú frétt valdið undrun. En stundum eru hlutirnir ekkert flóknari en þeir virðast. Hvers vegna vill ríkisstjórnin ekki samning við Rauða krossinn um réttaraðstoð við fólk sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi? Hvers vegna tekur dómsmálaráðherra skref sem mun gera þessu fólki erfiðara um vik í nýjum aðstæðum?
Svarið er jafn einfalt og það virðist
Með þessu skrefi er dómsmálaráðherra einfaldlega að vinna eftir hugmyndafræði um að þrengja að því fólki sem sækir um alþjóðlega vernd. Málið varðar fólk sem í mörgum tilvikum hefur lagt á sig langt ferðalag úr ömurlegum aðstæðum. Og rétt þessa fólks á aðstoð frá Rauða krossinum til að átta sig á réttarstöðunni í nýju landi og til að þiggja félagslegan stuðning félagasamtakanna. Það hefur þótt kostur að einmitt Rauði krossinn gegni þessu hlutverki, félagasamtök sem flestir þekkja og bera jafnframt traust til.
Margir Íslendingar hafa reynslu af því að búa einhvern hluta lífsins í öðru landi. Þekkja hvað það getur tekið á að byrja upp á nýtt í nýju landi, læra nýtt tungumál, skilja framandi reglur, aðlaga börn að breyttum aðstæðum. Íslendingar eiga hins vegar blessunarlega ekki þá reynslu að takast á við þetta í kjölfar þess að hafa þurft að flýja sitt heimaland. Það er aftur á móti reynsla margra þeirra sem hingað koma.
Það er tæpur áratugur síðan stjórnvöld ákváðu að fólk sem kæmi hingað í leit að alþjóðlegri vernd skyldi fá lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu. Gerður var samningur við Rauða krossinn árið 2014 með það að markmiði að tryggja faglega og óháða réttargæslu og jafnframt jafnræði fólks í þessum sporum. Síðan þá hefur Rauði krossinn byggt upp mikilvæga fagþekkingu á sviðinu. Samtökin sinna lögfræðiaðstoð og veita félagslegan stuðning; gæta hagsmuna fólks á meðan það bíður niðurstöðu eða bíður flutnings úr landi.
Samhæfð þjónusta stuðlar að styttri málsmeðferð
Frá upphafi var áhersla lögð á mikilvægi þess að þessi talsmannaþjónusta ætti að vera aðgengileg. Í því samhengi er auðvitað mikill kostur að upplýsingar, réttaraðstoð og stuðningur sé á einum stað. Annað grundvallarmarkmið var að stytta málsmeðferðartíma og tryggja sem besta nýtingu fjármagns. Markmiðið um að stytta málsmeðferðartíma og nýtingu fjármagns þótti best náð með því að samhæfa þjónustu og hafa hana alla á einum stað. Þáverandi innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði um samninginn við Rauða krossinn árið 2014 að það væri til til marks um vandaða vinnu ráðuneytisins í málaflokknum að Rauði krossinn yrði helsti samstarfsaðili ráðuneytisins á þessu sviði. Aðkoma Rauða krossins hefði mikla þýðingu „ekki aðeins vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem samtökin hafa af málefnum tengdum innflytjendum, heldur einnig vegna þeirra gilda og fagmennsku sem einkenna störf samtakanna. Hér er um að ræða mikil tímamót í þessum málaflokki“, voru orð ráðherrans. Nú tekur nýr dómsmálaráðherra pólitíska ákvörðun sem fer algjörlega gegn þessu markmiði.
Af hálfu Sjálfstæðisflokksins hafa ráðherrar í gegnum árin talað um kerfið eigi að vera skilvirkt og málsmeðferð hraðari. Það er sannarlega mikilvægt markmið. Það má hins vegar algjörlega gefa sér að málsmeðferðin mun lengjast við þessa ákvörðun dómsmálaráðherra. Þegar aftengja á alla fagþekkingu sem er fyrir hendi innan Rauða krossins og Útlendingastofnun mun standa frammi fyrir því að finna tiltæka lögmenn fyrir hvert einasta viðtal og hvert einasta mál. Og það mun sömuleiðis framkalla tafir þegar fólk í nýju landi þarf eitt síns liðs að afla allra upplýsinga án stuðnings stjórnvalda.
Markmiðið um skilvirkara kerfi og hraðari málsmeðferð er því ekki lengur það sem mestu máli skiptir. En hvað er það þá?
Pólitíkin er skýr
Pólitíkin að baki þessari breytingu er skýr. Það á að veikja stöðu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd með því að draga úr aðgengi að réttaraðstoð og stuðningi. Með því að hverfa frá því að þjónusta í þágu berskjaldaðs fólks verði á einum stað. Hverjar verða til dæmis aðstæður þeirra sem nú þegar er með mál til meðferðar þegar Rauði krossinn hverfur núna frá borði?
Sjálfstæðisflokkurinn var með þennan málaflokk allt síðasta kjörtímabil. Vinstri græn og Framsókn virðast í stjórnarmyndunarviðræðum ekki hafa kallað eftir breytingum á fyrirkomulagi um réttarastoð við þessa umsækjendur. Þrátt fyrir að flokkarnir hafi tekið sér mjög langan tíma í viðræður, gert miklar breytingar á ráðherraembættum og raunar farið í algjöra uppstokkun á stjórnarráðinu, þá virðist ekki hafa þótt ástæða til að endurskoða málin í þessum málaflokki. Að hvorki VG né Framsókn hafi samið um mildari nálgun í þessum málaflokki eru tíðindi út af fyrir sig. Ákvörðun dómsmálaráðherra um að endurnýja ekki samning við Rauða krossinn í þágu fólks í viðkvæmri stöðu hlýtur þó að kalla á svör annarra ráðherra. Styður Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra þessa hugmyndafræði um réttaraðstoð við fólk sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd? Er þetta afstaða sem Ásmundur Einar Daðason sérstakur talsmaður barna í ríkisstjórninni tekur undir? Er Katrín Jakobsdóttir þeirrar skoðunar að fólk eigi ekki lengur að fá réttarstoð og stuðning frá Rauða krossinum?
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.