Hvers virði var jólagjöfin sem þú gafst í raun og veru?
Eikonomics segir það að gefa jólagjöf ekki vera ósvipað því þegar mjög þýska tengdamamma hans gefur sér afsláttarmiða. Nema í staðinn fyrir að gefa honum afsláttarmiða þá gæfi hún honum okurmiða sem hækkuðu verð á þeim vörum sem hann keypti.
Árið 2018 skrifaði ég jólapistil sem fjallaði um allratap jólanna. Í honum fjallaði ég meðal annars um tímamótarannsókn hagfræðingsins Jeol Waldvogel frá árinu 1993. Markmið rannsóknarinnar var að svara stóru spurningu hagfræðinnar: eru vöruskiptin sem við eigum í um jólin óskilvirk?
Til þess að svara þessari spurningu fann Joel sjálfboðaliða og spurði þá eftirfarandi spurninga:
- Hvað hefðir þú verið til í að greiða fyrir jólagjöfina sem þú fékkst í jólagjöf? Og ...
- Hvað telur þú að jólagjöfin sem þú fékkst hafi kostað þann sem gaf þér hana?
Markmið Joels var að mæla svokallað alltratap sem vöruskipti af þessu tagi hafa í för með sér. Allratap er orð sem hagfræðingar nota yfir vissa tegund sóunar. Til dæmis skapa tollar á innflutta ávexti allratap af því að þeir hækka verð á ávöxtum og ef verðið er hærra en það þarf að vera þá kaupir fólk minna af ávöxtum.
Með spurningunum og sjálfboðaliðunum gat Joel þannig notað gögnin til að meta hvort jólagjafavöruskipti fælu í sér allratap og metið það til fjár. Ekki galið.
Hagfræðingar hata þó ekki að nöldra yfir vinnu hvors annars og grein Joels var tekin í gegn af öðrum prófessorum. Aðferðarfræðin fékk að finna fyrir því og þyngsta höggið kom í formi gagnrýni sem benti réttilega á það að svarendur gætu ekki vitað nákvæmlega hvað gjafirnar sem þeir fengu kostuðu í raun og veru.
Eiki bjargar Joelnum
Sem miðjubarn er ég ansi lærður í því að miðla málum í ágreiningi. Ég var því staðráðinn í því að finna sátt í þessu máli – þó það væri reyndar 28 árum of seint. Ég bætti rannsókn Joels með því að spyrja 18 pör sem buðu sig fram á Twitter eftirfarandi spurninga:
- Hvað hvert þeirra hafi fengið og gefið í jólagjöf? Og ...
- Hvað hvert og eitt þeirra borgaði fyrir jólagjöfina sem þau gáfu og hvað þau hefðu sjálf borgað fyrir jólagjöfina sem þau fengu?
Með því að spyrja gefanda og gjafþega gat ég parað saman svörin og gert það sem Joel gerði ekki – ég gat metið raunverulegt allratap jólanna með því að bera saman hvað gjafþeginn hefði greitt og hvað gefandinn hefði gefið.
Rétt eins og við öll er ég ekki laus við hlutdrægni. Þó ég reyni að vera hlutlaus í mínum rannsóknum þá hef ég skoðun á heiminum og tel mig vita hvernig hitt og þetta virkar. Því er mikilvægt að deila með ykkur að ég taldi alltaf að Joel hefði rangt fyrir sér. Jólagjafir sem maður fær eru meira virði en maður borgar fyrir þær. Því trúði ég allavega, þannig var mín reynsla. Allavega undanfarin ár.
Karlar bæta upp fyrir hugmyndaleysi og leti með dýrum gjöfum
Áður en lengra er haldið langar mig samt að deila aðeins með ykkur nokkrum staðreyndum sem komu fram í gögnunum. Þetta er pínu talnarugl, en áhugavert talnarugl.
Þegar ég skoðaði gögnin sá ég að karlar greiddu talsvert meira fyrir gjafir til maka sinna en konurnar gerðu á móti. Meðal þátttakandi í könnuninni greiddi 48 þúsund krónur fyrir gjöfina sem hann gaf makanum sínum en karlar greiddu almennt 46% meira en konur fyrir gjöfina sem þeir gáfu. Grafið hér að neðan sýnir líka að karlar eru mikið líklegri til að spreða í gjöf: 75% karla eyða á bilinu 27 til 78 þúsund í gjöf á meðan 75% kvenna eyða á bilinu 23 til 50 þúsund.
Þennan mismun má að hluta til útskýra með launamun kynjanna. Karlar þéna meira og því geta þeir gefið meira. Launamunurinn dugar þó ekki alveg til að útskýra allan muninn. Samkvæmt annarri rannsókn sem ég er að vinna með aðstoð sjálfboðaliða á Twitter er launamunur Twitter kynjanna í kringum 13%.
Ég tel mig ansi góðan að setja mig í fótspor annara (og sjálfs míns) og var því fljótur að láta mér dett í hug kenningu. Hana kalla ég: „borga meira, hugsa minna.“ Eins og nafnið gefur til kynna gengur kenningin út á það að karlar séu meiri haugar en konur, taka ekki eins vel eftir og hafa minna ímyndunarafl. Og í stað þess að leggjast í rannsóknarvinnu, hlusta og finna fullkomna gjöf þá henda þeir einfaldlega peningum í eitthvað og vona að ef gjöfin sé nógu dýr þá skipti konan ekki um lás næst þegar þeir fara á Ölver.
Hér verð ég að staldra við og biðja lesendur afsökunar á grafinu að ofan. Það er ekki beint auðlesið. Hér er tilraun til að útskýra það.
- Á lóðrétta ásnum er verðmæti gjafanna sem gefnar voru í krónum.
- Kassinn til vinstri inniheldur einungis verð á gjöfum sem karlmenn gáfu og hægri kassinn á bara við um konur.
- Svarta línan sem sker kassana er miðgildi.
- Kassinn sjálfur nær yfir 75% af svörum sem næst eru miðgildinu. Eins og áður sagði, 75% karla gáfu gjafir á bilinu 27 til 78 þúsund og 75% kvenna gáfu gjafir á bilinu 23 til 50 þúsund.
- Punkturinn fyrir ofan kassa kvennanna er verðmæti gjafar sem ein kona – sem stóð upp úr –og gaf manninum sínum gjöf sem kostaði um 110 þúsund.
Annað sem vakti athygli mína þegar ég var að grafa í gögnunum var að það reyndist ekkert samhengi milli verðmæti gjafa maka. Maður hefði haldið að ríkari heimili væru líklegri til að skiptast á dýrari gjöfum. Svo var ekki.
Hvað er í gangi á grafinu að ofan?
- Á lóðrétta ásnum er verðið sem maki A greiddi fyrir gjöfina sem hann gaf maka B (segjum Kasper gaf Soffíu).
- Á lárétta ásnum er verðið sem maki B greiddi fyrir gjöfina sem hann gaf maka A (segjum Soffía gaf Kasperi).
- Hver punktur merkir eitt par. Þ.e. maka A og maka B á hverju heimili.
- Grafið sýnir það að það er mjög takmarkað samband á milli verðmæti gjafa sem makar gefa hvor öðrum, jafnvel ekki neitt samband.
Tími til að rétta af heimsmyndina
Í hvert skipti sem ég fer út í búð hoppar sjötug (þýsk – mjög þýsk) tengdamóðir mín út úr húsinu sínu, sem er hliðin á okkar, veifandi afsláttarmiðum, sem hún klippti úr einhverju hefti, eins og fuglsungi að reyna að taka á loft. 10% af osti, 14% af rauðri pylsu og 20% af fiski vikunnar. Ég er of latur fyrir afsláttarveiðar en ef ég fæ miða upp í hendurnar, rétt svona, þá nota ég þá auðvitað. Ég þarf ekkert að hafa fyrir því en borga minna.
Afsláttarmiðarnir hafa svo gott sem engin áhrif á val mitt í versluninni, flestir eru þó upp á hluti sem ég hefði hvort eð er keypt. Ég hefði verið til í að borga uppsett verð fyrir allt sem ég notaði miðana í. Afslátturinn sem ég fæ án fyrirhafnar er því í þessu tilfelli minn neytendaábati. Ef við leggjum saman alla sem versla í matinn og greiða minna en þeir væru til í að borga, þá kallast það samfélagslegur ábati.
Í anda Joel reiknaði ég mismuninn á verðinu sem greitt var fyrir gjöfina og verðinu sem gjafaþeginn hefði verið til í að greiða. Joel kallar það allratap en ég ætla að kalla það neytendaábata. Það er einfaldlega betra orð. Og nákvæmari hugtakanotkun. Sorrý Joel.
Það sem greiningin mín sýndi er þvert á það sem ég hélt. Joel hafðir rétt fyrir sér – jólagjafir eru tóm sóun. Aðeins 8 af þeim 36 sem svöruðu mátu gjöfina meira virði en greitt var fyrir hana. Að meðaltali greiddu gefendur 9.600 krónum of mikið fyrir gjöfina til makans. Ef heildar neytendatap heimilanna er skoðað þá var hvert heimili í rannsókninni rúmlega 19 þúsund krónum fátækara en það hefði verið hefði það bara skipts á peningum eða jafnvel engu.
Eins og áður sagði greiddu viðfangsefni könnunarinnar að meðaltali tæplega 48 þúsund fyrir gjöf til maka. Meðal gjafaþegi mat gjöfina sem hann þáði þó aðeins á rétt rúmlega 38 þúsund. Sem er eiginlega alveg magnað. Samkvæmt rannsókn Joels Waldvogel voru gjafir sem gefnar voru metnar af gjafaþega á bilinu 10-30% undir því sem þeir töldu kostnaðinn af þeim vera. Í mínu tilfelli mældist verðmæti gjafarinnar um 20% minna í hugum gjafaþega en greitt var fyrir hana.
Að gefa jólagjöf er því ekki ósvipað því þegar tengdamamma mín gefur mér afsláttarmiða. Nema í staðinn fyrir að gefa mér afsláttarmiða þá gæfi hún mér okurmiða sem hækkuðu verð á þeim vörum sem ég keypti.
Það kostar aukalega að gefa dýrar gjafir
Það segir sig sjálft að að meðaltali meti gjafþegar dýrari gjafir meira en ódýrari gjafir. Rannsóknin staðfestir það. Ekki krónu fyrir krónu þó. Affallið er nefnilega línulegt. (Vel útskýrt, eða hitt þó heldur.)
Það sem ég á við með því er að fyrir hverja krónu sem greidd er fyrir gjöf eykst gildi gjafarinnar aðeins um 70 aura í huga gjafþegans. Gjöf sem kostaði 10.000 krónur skilaði því 7.000 krónum af verðmæti til gjafþegans og gjöf sem kostaði 100.000 krónur skilaði 70.000. Affallið í þessu dæmi er þá 10 sinnum meira í tilfelli dýrari gjafarinnar.
Þetta segir okkur það að ef við ætlum að lágmarka neytendatap – sóun – þá er gáfulegast að gefa ódýrar gjafir.
Hvað er í gangi á þessu grafi?
- Á lóðrétta ásnum er það verð sem greitt var fyrir gjöf til makans.
- Á lárétta ásnum er það verð sem makinn sem fékk gjöfina hefði greitt fyrir gjöfina sem hann fékk.
- Hvert par birtist tvisvar á grafinu sem punktur (maki a og maki b; maki b og maki a).
- Halli línunnar gefur til kynna að þeim mun dýrari sem gjöfin er þeim mun meira væri gjafaþeginn til í að greiða fyrir hana. Halli línunnar gefur þó það til kynna að affallið, metið í krónum, vex með dýrari gjöfum.
Eins og áður sagði þá gefa karlar dýrari gjafir. Ef þið munið kenninguna sem ég setti fram, að karlar reyna bæti upp leti og hugmyndaleysi með því að gefa dýrari gjafir, þá má segja að þessi gögn styðji þá kenningu. konur eru betri í að gefa gjafir en karlar. Konur mátu almennt verðmæti gjafanna sem þær fengu frá mönnunum sínum í kringum 75% af kostnaðarverði gjafanna. Karlar mátu verðmæti gjafanna sem þeir fengu í kringum 83% af verðmæti gjafanna.
Ef ég á að vera heiðarlegur þá verð ég samt að viðurkenna að niðurstaðan sem setur kjötið á kenninguna er að mestu leiti drifin af einu pari. Þar sem konan negldi gjöfina handa karlinum og hann stóð sig ágætlega en ekki eins vel.
Er mat gjafþega góð námundun á gleði?
Í könnuninni bað ég einnig gjafþega að meta hversu sáttir þeir voru við gjöfina sem þeir fengu. Almennt var fólk mjög sátt. Enginn gaf gjöfinni sem hann fékk minna en sjö í einkunn og nánast allir gáfu gjöfinni einkunn á bilinu 8 til 10.
Satt best að segja veit ég ekki alveg sjálfur hvernig ég á að túlka það. Fólk var ótrúlega sátt við gjöfina en hefði samt ekki borgað uppsett verð. Kannski gefur þetta til kynna einfaldlega að þó enginn þekki sjálfan sig vel þá þekkjum við okkur sjálf líklega betur en sá sem þekkir okkur best.-
Hvað segir þetta graf okkur?
- Á y ásinum er það verð sem greitt var fyrir gjöf til makans.
- Á x ásinum er sú einkunn sem gjafþeginn gaf gjöfinni á skalanum 1 – 10.
- Kassinn sjálfur nær yfir 75% af svörum sem næst eru miðgildinu. Eins og áður sagði, 75% karla gáfu gjafir á bilinu 27 til 78 þúsund og 75% kvenna gáfu gjafir á bilinu 23 til 50 þúsund.
- Gögnin sýna það að flestir voru mjög ánægðir með gjöfina sem þeir fengu og takmarkaður munur var á gleðinni sem skapaðist þegar meiri pening var eytt í gjöfina.
Eins og áður sagði, konur gáfu gjafir sem voru nær raunverulegu verðmæti gjafanna í huga karlanna. Þetta, tel ég, vera hlutfallslega útskýrt af leti karla. En kannski er það allt í lagi. Konur voru almennt ánægðari með gjöfina sem þær fengu frá körlunum en karlarnir voru með gjafirnar sem þeir fengu frá konunum. Það má því mögulega draga þá niðurstöðu að leti okkar karlanna sé í lagi. Svo lengi sem við bætum upp fyrir það með spreði.
Hvað segir þetta graf okkur?
- Á lárétta ásnum er sú einkunn sem gjafþeginn gaf gjöfinni á skalanum 1 – 10.
- Á lóðrétta ásnum er svo kyn svarenda.
- Kassinn sjálfur nær yfir 75% af svörum sem næst eru miðgildinu. Eins og áður sagði, 75% karla gáfu gjafir á bilinu 27 til 78 þúsund og 75% kvenna gáfu gjafir á bilinu 23 til 50 þúsund.
- Gögnin sýna það að mögulega gleðja karlar konurnar sýnar aðeins meira á jólunum en öfugt, þó munurinn sé eflaust ekki marktækur.
Skilvirk vöruskipti undir jólatrénu
Þó svo að rannsóknin hafi sært kenninguna mína – jólagjafir veita meiri gleði en þær kosta – þá ætla ég ekki að segja að hún sé dauð. Aðrir sérfræðingar hafa beðið viðfangsefnin í sínum rannsóknum um að setja tilfinningalegt gildi á gjöfina sem þeir fengu. Og í þeim rannsóknum kemur það í ljós að fólk leggur hærra mat á gjöfina en hún kostaði. Tilfinningagildi andar lífi í hana.
Sjálfur fékk ég bók frá konunni minni. Bókin hefur líklega kostað í kringum 5 þúsund krónur. Ég hefði eflaust greitt í kringum 100 þúsund krónur fyrir bókina hefði ég fundið hana á flóamarkaði. Bókin er nefnilega engin venjuleg bók. Bókin er myndaalbúm. Myndaalbúm af fyrstu ferð okkar til Íslands með son okkar í för. Það eru hátt í 300 myndir af frábærri heimsókn sem ég get skoðað þegar ég er sakna Esjunnar og Skeifunnar. Konan mín, rétt eins og konur í rannsókninni, greiddi minna fyrir gjöfina mína en ég greiddi fyrir hennar. En bókin er wunderschön og ég get aðeins vonað að spreðið mitt tryggi að lykillinn passi í skráargat heimilis okkar á nýju ári.
Ég hef enn ekki lokað fyrir svör. Ef þú (og makinn þinn) viljið styðja við þá rosalega mikilvægu vísindavinnu sem Eikonomics GmbH stendur fyrir þá megið þið endilega svara spurningalistanum hér.