Mynd: Pexels

Hvers virði var jólagjöfin sem þú gafst í raun og veru?

Eikonomics segir það að gefa jólagjöf ekki vera ósvipað því þegar mjög þýska tengdamamma hans gefur sér afsláttarmiða. Nema í staðinn fyrir að gefa honum afsláttarmiða þá gæfi hún honum okurmiða sem hækkuðu verð á þeim vörum sem hann keypti.

Árið 2018 skrif­aði ég jólapistil sem fjall­aði um allratap jól­anna. Í honum fjall­aði ég meðal ann­ars um tíma­móta­rann­sókn hag­fræð­ings­ins Jeol Wald­vogel frá árinu 1993. Mark­mið rann­sókn­ar­innar var að svara stóru spurn­ingu hag­fræð­inn­ar: eru vöru­skiptin sem við eigum í um jólin óskil­virk? 

Til þess að svara þess­ari spurn­ingu fann Joel sjálf­boða­liða og spurði þá eft­ir­far­andi spurn­inga: 

 • Hvað hefðir þú verið til í að greiða fyrir jóla­gjöf­ina sem þú fékkst í jóla­gjöf? Og ...
 • Hvað telur þú að jóla­gjöfin sem þú fékkst hafi kostað þann sem gaf þér hana?

Mark­mið Joels var að mæla svo­kallað alltratap sem vöru­skipti af þessu tagi hafa í för með sér. Allratap er orð sem hag­fræð­ingar nota yfir vissa teg­und sóun­ar. Til dæmis skapa tollar á inn­flutta ávexti allratap af því að þeir hækka verð á ávöxtum og ef verðið er hærra en það þarf að vera þá kaupir fólk minna af ávöxt­u­m. 

Með spurn­ing­unum og sjálf­boða­lið­unum gat Joel þannig notað gögnin til að meta hvort jóla­gjafa­vöru­skipti fælu í sér allratap og metið það til fjár. Ekki galið.

Hag­fræð­ingar hata þó ekki að nöldra yfir vinnu hvors ann­ars og grein Joels var tekin í gegn af öðrum pró­fess­or­um. Aðferð­ar­fræðin fékk að finna fyrir því og þyngsta höggið kom í formi gagn­rýni sem benti rétti­lega á það að svar­endur gætu ekki vitað nákvæm­lega hvað gjaf­irnar sem þeir fengu kost­uðu í raun og veru. 

Eiki bjargar Joelnum

Sem miðju­barn er ég ansi lærður í því að miðla málum í ágrein­ingi. Ég var því stað­ráð­inn í því að finna sátt í þessu máli – þó það væri reyndar 28 árum of seint. Ég bætti rann­sókn Joels með því að spyrja 18 pör sem buðu sig fram á Twitter eft­ir­far­andi spurn­inga: 

 • Hvað hvert þeirra hafi fengið og gefið í jóla­gjöf? Og ...
 • Hvað hvert og eitt þeirra borg­aði fyrir jóla­gjöf­ina sem þau gáfu og hvað þau hefðu sjálf borgað fyrir jóla­gjöf­ina sem þau fengu?

Með því að spyrja gef­anda og gjaf­þega gat ég parað saman svörin og gert það sem Joel gerði ekki – ég gat metið raun­veru­legt allratap jól­anna með því að bera saman hvað gjaf­þeg­inn hefði greitt og hvað gef­and­inn hefði gef­ið. 

Rétt eins og við öll er ég ekki laus við hlut­drægni. Þó ég reyni að vera hlut­laus í mínum rann­sóknum þá hef ég skoðun á heim­inum og tel mig vita hvernig hitt og þetta virk­ar. Því er mik­il­vægt að deila með ykkur að ég taldi alltaf að Joel hefði rangt fyrir sér. Jóla­gjafir sem maður fær eru meira virði en maður borgar fyrir þær. Því trúði ég alla­vega, þannig var mín reynsla. Alla­vega und­an­farin ár.

Karlar bæta upp fyrir hug­mynda­leysi og leti með dýrum gjöfum

Áður en lengra er haldið langar mig samt að deila aðeins með ykkur nokkrum stað­reyndum sem komu fram í gögn­un­um. Þetta er pínu taln­arugl, en áhuga­vert taln­arugl.

Þegar ég skoð­aði gögnin sá ég að karlar greiddu tals­vert meira fyrir gjafir til maka sinna en kon­urnar gerðu á móti. Meðal þátt­tak­andi í könn­un­inni greiddi 48 þús­und krónur fyrir gjöf­ina sem hann gaf mak­anum sínum en karlar greiddu almennt 46% meira en konur fyrir gjöf­ina sem þeir gáfu. Grafið hér að neðan sýnir líka að karlar eru mikið lík­legri til að spreða í gjöf: 75% karla eyða á bil­inu 27 til 78 þús­und í gjöf á meðan 75% kvenna eyða á bil­inu 23 til 50 þús­und. 

Þennan mis­mun má að hluta til útskýra með launa­mun kynj­anna. Karlar þéna meira og því geta þeir gefið meira. Launa­mun­ur­inn dugar þó ekki alveg til að útskýra allan mun­inn. Sam­kvæmt annarri rann­sókn sem ég er að vinna með aðstoð sjálf­boða­liða á Twitter er launa­munur Twitter kynj­anna í kringum 13%. 

Ég tel mig ansi góðan að setja mig í fót­spor ann­ara (og sjálfs míns) og var því fljótur að láta mér dett í hug kenn­ingu. Hana kalla ég: „borga meira, hugsa minna.“ Eins og nafnið gefur til kynna gengur kenn­ingin út á það að karlar séu meiri haugar en kon­ur, taka ekki eins vel eftir og hafa minna ímynd­un­ar­afl. Og í stað þess að leggj­ast í rann­sókn­ar­vinnu, hlusta og finna full­komna gjöf þá henda þeir ein­fald­lega pen­ingum í eitt­hvað og vona að ef gjöfin sé nógu dýr þá skipti konan ekki um lás næst þegar þeir fara á Ölver. 

Mynd: Verðmæti gjafa sem gefnar voru um jólin

Hér verð ég að staldra við og biðja les­endur afsök­unar á graf­inu að ofan. Það er ekki beint auð­les­ið. Hér er til­raun til að útskýra það.

 • Á lóð­rétta ásnum er verð­mæti gjaf­anna sem gefnar voru í krón­um.
 • Kass­inn til vinstri inni­heldur ein­ungis verð á gjöfum sem karl­menn gáfu og hægri kass­inn á bara við um kon­ur.
 • Svarta línan sem sker kass­ana er mið­gildi.
 • Kass­inn sjálfur nær yfir 75% af svörum sem næst eru mið­gild­inu. Eins og áður sagði, 75% karla gáfu gjafir á bil­inu 27 til 78 þús­und og 75% kvenna gáfu gjafir á bil­inu 23 til 50 þús­und.
 • Punkt­ur­inn fyrir ofan kassa kvenn­anna er verð­mæti gjafar sem ein kona – sem stóð upp úr –og gaf mann­inum sínum gjöf sem kost­aði um 110 þús­und.

Annað sem vakti athygli mína þegar ég var að grafa í gögn­unum var að það reynd­ist ekk­ert sam­hengi milli verð­mæti gjafa maka. Maður hefði haldið að rík­ari heim­ili væru lík­legri til að skipt­ast á dýr­ari gjöf­um. Svo var ekki. 

Mynd: Makinn sem gaf dýrari gjöf var ekki líklegri til að gefa jafn dýra gjöf til baka.

Hvað er í gangi á graf­inu að ofan?

 • Á lóð­rétta ásnum er verðið sem maki A greiddi fyrir gjöf­ina sem hann gaf maka B (segjum Kasper gaf Soff­íu).
 • Á lárétta ásnum er verðið sem maki B greiddi fyrir gjöf­ina sem hann gaf maka A (segjum Soffía gaf Kasper­i).
 • Hver punktur merkir eitt par. Þ.e. maka A og maka B á hverju heim­ili.
 • Grafið sýnir það að það er mjög tak­markað sam­band á milli verð­mæti gjafa sem makar gefa hvor öðrum, jafn­vel ekki neitt sam­band.

Tími til að rétta af heims­mynd­ina

Í hvert skipti sem ég fer út í búð hoppar sjö­tug (þýsk – mjög þýsk) tengda­móðir mín út úr hús­inu sínu, sem er hliðin á okk­ar, veif­andi afslátt­ar­mið­um, sem hún klippti úr ein­hverju hefti, eins og fugls­ungi að reyna að taka á loft. 10% af osti, 14% af rauðri pylsu og 20% af fiski vik­unn­ar. Ég er of latur fyrir afslátt­ar­veiðar en ef ég fæ miða upp í hend­urn­ar, rétt svona, þá nota ég þá auð­vit­að. Ég þarf ekk­ert að hafa fyrir því en borga minna.

Afslátt­ar­mið­arnir hafa svo gott sem engin áhrif á val mitt í versl­un­inni, flestir eru þó upp á hluti sem ég hefði hvort eð er keypt. Ég hefði verið til í að borga upp­sett verð fyrir allt sem ég not­aði mið­ana í. Afslátt­ur­inn sem ég fæ án fyr­ir­hafnar er því í þessu til­felli minn neyt­enda­á­bati. Ef við leggjum saman alla sem versla í mat­inn og greiða minna en þeir væru til í að borga, þá kall­ast það sam­fé­lags­legur ábat­i.  

Eldri kona sem gæti verið þýsk tengdamóðir. Myndin tengist efni greinarinnar ekki beint.
Mynd: Pexels

Í anda Joel reikn­aði ég mis­mun­inn á verð­inu sem greitt var fyrir gjöf­ina og verð­inu sem gjafa­þeg­inn hefði verið til í að greiða. Joel kallar það allratap en ég ætla að kalla það neyt­enda­á­bata. Það er ein­fald­lega betra orð. Og nákvæm­ari hug­taka­notk­un. Sorrý Joel.

Það sem grein­ingin mín sýndi er þvert á það sem ég hélt. Joel hafðir rétt fyrir sér – jóla­gjafir eru tóm sóun. Aðeins 8 af þeim 36 sem svör­uðu mátu gjöf­ina meira virði en greitt var fyrir hana. Að með­al­tali greiddu gef­endur 9.600 krónum of mikið fyrir gjöf­ina til makans. Ef heildar neyt­enda­tap heim­il­anna er skoðað þá var hvert heim­ili í rann­sókn­inni rúm­lega 19 þús­und krónum fátækara en það hefði verið hefði það bara skipts á pen­ingum eða jafn­vel engu.

Eins og áður sagði greiddu við­fangs­efni könn­un­ar­innar að með­al­tali tæp­lega 48 þús­und fyrir gjöf til maka. Meðal gjafa­þegi mat gjöf­ina sem hann þáði þó aðeins á rétt rúm­lega 38 þús­und. Sem er eig­in­lega alveg magn­að. Sam­kvæmt rann­sókn Joels Wald­vogel voru gjafir sem gefnar voru metnar af gjafa­þega á bil­inu 10-30% undir því sem þeir töldu kostn­að­inn af þeim vera. Í mínu til­felli mæld­ist verð­mæti gjaf­ar­innar um 20% minna í hugum gjafa­þega en greitt var fyrir hana. 

Að gefa jóla­gjöf er því ekki ósvipað því þegar tengda­mamma mín gefur mér afslátt­ar­miða. Nema í stað­inn fyrir að gefa mér afslátt­ar­miða þá gæfi hún mér okur­miða sem hækk­uðu verð á þeim vörum sem ég keypti.

Það kostar auka­lega að gefa dýrar gjafir

Það segir sig sjálft að að með­al­tali meti gjaf­þegar dýr­ari gjafir meira en ódýr­ari gjaf­ir. Rann­sóknin stað­festir það. Ekki krónu fyrir krónu þó. Af­fallið er nefni­lega línu­legt. (Vel útskýrt, eða hitt þó held­ur.) 

Það sem ég á við með því er að fyrir hverja krónu sem greidd er fyrir gjöf eykst gildi gjaf­ar­innar aðeins um 70 aura í huga gjaf­þeg­ans. Gjöf sem kost­aði 10.000 krónur skil­aði því 7.000 krónum af verð­mæti til gjaf­þeg­ans og gjöf sem kost­aði 100.000 krónur skil­aði 70.000. Affallið í þessu dæmi er þá 10 sinnum meira í til­felli dýr­ari gjaf­ar­inn­ar. 

Þetta segir okkur það að ef við ætlum að lág­marka neyt­enda­tap – sóun – þá er gáfu­leg­ast að gefa ódýrar gjaf­ir. 

Mynd: Því meira sem greitt er því meiri er sóunin.

Hvað er í gangi á þessu grafi?

 • Á lóð­rétta ásnum er það verð sem greitt var fyrir gjöf til makans.
 • Á lárétta ásnum er það verð sem mak­inn sem fékk gjöf­ina hefði greitt fyrir gjöf­ina sem hann fékk.
 • Hvert par birt­ist tvisvar á graf­inu sem punktur (maki a og maki b; maki b og maki a). 
 • Halli lín­unnar gefur til kynna að þeim mun dýr­ari sem gjöfin er þeim mun meira væri gjafa­þeg­inn til í að greiða fyrir hana. Halli lín­unnar gefur þó það til kynna að affall­ið, metið í krón­um, vex með dýr­ari gjöf­um.

Eins og áður sagði þá gefa karlar dýr­ari gjaf­ir. Ef þið munið kenn­ing­una sem ég setti fram, að karlar reyna bæti upp leti og hug­mynda­leysi með því að gefa dýr­ari gjafir, þá má segja að þessi gögn styðji þá kenn­ingu. konur eru betri í að gefa gjafir en karl­ar. Konur mátu almennt verð­mæti gjaf­anna sem þær fengu frá mönn­unum sínum í kringum 75% af kostn­að­ar­verði gjaf­anna. Karlar mátu verð­mæti gjaf­anna sem þeir fengu í kringum 83% af verð­mæti gjaf­anna.

Ef ég á að vera heið­ar­legur þá verð ég samt að við­ur­kenna að nið­ur­staðan sem setur kjötið á kenn­ing­una er að mestu leiti drifin af einu pari. Þar sem konan negldi gjöf­ina handa karl­inum og hann stóð sig ágæt­lega en ekki eins vel. 

Er mat gjaf­þega góð námundun á gleði?

Í könn­un­inni bað ég einnig gjaf­þega að meta hversu sáttir þeir voru við gjöf­ina sem þeir fengu. Almennt var fólk mjög sátt. Eng­inn gaf gjöf­inni sem hann fékk minna en sjö í ein­kunn og nán­ast allir gáfu gjöf­inni ein­kunn á bil­inu 8 til 10.

Satt best að segja veit ég ekki alveg sjálfur hvernig ég á að túlka það. Fólk var ótrú­lega sátt við gjöf­ina en hefði samt ekki borgað upp­sett verð. Kannski gefur þetta til kynna ein­fald­lega að þó eng­inn þekki sjálfan sig vel þá þekkjum við okkur sjálf lík­lega betur en sá sem þekkir okkur best.-

Mynd: Gleði sjálfboðaliða og verðmæti gjafa.

Hvað segir þetta graf okk­ur?

 • Á y ásinum er það verð sem greitt var fyrir gjöf til makans.
 • Á x ásinum er sú ein­kunn sem gjaf­þeg­inn gaf gjöf­inni á skal­anum 1 – 10.
 • Kass­inn sjálfur nær yfir 75% af svörum sem næst eru mið­gild­inu. Eins og áður sagði, 75% karla gáfu gjafir á bil­inu 27 til 78 þús­und og 75% kvenna gáfu gjafir á bil­inu 23 til 50 þús­und.
 • Gögnin sýna það að flestir voru mjög ánægðir með gjöf­ina sem þeir fengu og tak­mark­aður munur var á gleð­inni sem skap­að­ist þegar meiri pen­ing var eytt í gjöf­ina.

Eins og áður sagði, konur gáfu gjafir sem voru nær raun­veru­legu verð­mæti gjaf­anna í huga karl­anna. Þetta, tel ég, vera hlut­falls­lega útskýrt af leti karla. En kannski er það allt í lagi. Konur voru almennt ánægð­ari með gjöf­ina sem þær fengu frá körlunum en karl­arnir voru með gjaf­irnar sem þeir fengu frá kon­un­um. Það má því mögu­lega draga þá nið­ur­stöðu að leti okkar karl­anna sé í lagi. Svo lengi sem við bætum upp fyrir það með spreði.

Mynd: Gleðin sem gjöfin gaf skipt eftir kyni.

Hvað segir þetta graf okk­ur?

 • Á lárétta ásnum er sú ein­kunn sem gjaf­þeg­inn gaf gjöf­inni á skal­anum 1 – 10.
 • Á lóð­rétta ásnum er svo kyn svar­enda.
 • Kass­inn sjálfur nær yfir 75% af svörum sem næst eru mið­gild­inu. Eins og áður sagði, 75% karla gáfu gjafir á bil­inu 27 til 78 þús­und og 75% kvenna gáfu gjafir á bil­inu 23 til 50 þús­und.
 • Gögnin sýna það að mögu­lega gleðja karlar kon­urnar sýnar aðeins meira á jól­unum en öfugt, þó mun­ur­inn sé eflaust ekki mark­tæk­ur.

Skil­virk vöru­skipti undir jóla­trénu

Þó svo að rann­sóknin hafi sært kenn­ing­una mína – jóla­gjafir veita meiri gleði en þær kosta – þá ætla ég ekki að segja að hún sé dauð. Aðrir sér­fræð­ingar hafa beðið við­fangs­efnin í sínum rann­sóknum um að setja til­finn­inga­legt gildi á gjöf­ina sem þeir fengu. Og í þeim rann­sóknum kemur það í ljós að fólk leggur hærra mat á gjöf­ina en hún kost­aði. Til­finn­inga­gildi andar lífi í hana.

Sjálfur fékk ég bók frá kon­unni minni. Bókin hefur lík­lega kostað í kringum 5 þús­und krón­ur. Ég hefði eflaust greitt í kringum 100 þús­und krónur fyrir bók­ina hefði ég fundið hana á flóa­mark­aði. Bókin er nefni­lega engin venju­leg bók. Bókin er mynda­albúm. Mynda­albúm af fyrstu ferð okkar til Íslands með son okkar í för. Það eru hátt í 300 myndir af frá­bærri heim­sókn sem ég get skoðað þegar ég er sakna Esj­unnar og Skeif­unn­ar. Konan mín, rétt eins og konur í rann­sókn­inni, greiddi minna fyrir gjöf­ina mína en ég greiddi fyrir henn­ar. En bókin er wund­erschön og ég get aðeins vonað að spreðið mitt tryggi að lyk­ill­inn passi í skrá­ar­gat heim­ilis okkar á nýju ári.

Ég hef enn ekki lokað fyrir svör. Ef þú (og mak­inn þinn) viljið styðja við þá rosa­lega mik­il­vægu vís­inda­vinnu sem Eikonomics GmbH stendur fyrir þá megið þið endi­lega svara spurn­inga­list­anum hér.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiEikonomics