Í stuttu máli: Þróunaraðstoð Íslands gegnum ríkissjóð kostar rétt rúma fjóra milljarða króna á þessu ári. Í því felst stuðningur Utanríkisráðuneytis við alþjóðlegar stofnanir, borgarasamtök og háskóla S.Þ. á Íslandi (60%) og stuðningur við fátæk ríki í Afríku gegnum Þróunarsamvinnustofnun (40%).
Þetta er talsvert fé.
Það jafngildir um það bil 1000 krónum á hvern Íslending á mánuði.
Er það mikið eða lítið?
Það er mikið – ef maður miðar við að stór hluti jarðarbúa þarf að draga fram lífið á 100 krónum á dag. Þá er þúsundkall dágóð summa.
En þúsundkall er lítið ef miðað er við framlög annarra þjóða á hvern einstakling til þróunarsamvinnu. Þar erum við í neðsta sæti á löngum lista ,,velmegunarþjóða“. Langneðst.
Þjóðverjar eru næst neðstir og gefa tvöfalt meira en við á hvern einstakling, eða næstum 2000 krónur á mánuði. Danir og Svíar eru með kringum 5000-6000 á mann, og Norðmenn sem eru efstir allra, eru með kringum 10.000 krónur á mann á mánuði þróunaraðstoð.
Þúsundkall á mánuði setur okkur sem sagt í lang neðsta sæti. Þúsundkall jafngildir um það bil tveimur kaffibollum á veitingastað í miðborg Reykjavíkur svo maður setji framlagið í kunnuglegt samhengi.
En hlutfall af þjóðarframleiðslu?
Stefán Jón Hafstein.
En hvernig stendur Ísland ef við notum þessa hefðbundnu tölu sem alltaf er vitnað í: Hlutfall af þjóðarframleiðslu?
Þá erum við með 0,21% af þjóðarframleiðslu. Meðaltal OECD ríkja er kringum 0.30% svo við erum talsvert fyrir neðan það. Og þau lönd sem standa okkur næst menningarlega og efnahagslega eru satt að segja öll vel fyrir ofan meðaltalið. Allt frá því að vera með rúmlega tvisvar sinnum hærra hlutfall en við og upp í fimmfalt hærra hlutfall.
Hvert er markmiðið?
Hvert hefur verið markmið Íslands í þróunarsamvinnu áratugum saman hvað varðar framlög sem hlutfall af þjóðarframleiðslu? Við erum mjög langt frá því yfirlýsta markmiðið að verja 0,7% af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar (Norðmenn, Svíar og Lúxemborg eru nálægt einu prósenti). Og nú stefnir í að við lækkum enn á þessum lista því á næsta ári verðum við með 0,2% af þjóðarframleiðslu til þróunarmála.
Það er hins vegar athyglisvert að Ísland er mjög ofarlega á tveimur listum sem skipta máli í þessu samhengi. Á velferðarlista Sameinuðu þjóðanna mælist velsæld svo mikil á Íslandi að við erum í 13. sæti af öllum ríkjum jarðar (Human development index). Og á lista yfir gjafmildi til góðgerðarmála eru Íslendingar í 14. sæti (World giving index).
Ef fólk hefur áhyggjur af vilja Alþingis þá er það óþarft. Fyrir aðeins einu og hálfu ári var samþykkt með 62 atkvæðum af 63 að framlög Íslands sem hlutfall af þjóðarframleiðslu myndu hækka hratt og fara upp í 0,7% (í stað 0.21% núna) árið 2019. Það eru samt allar líkur á því að við förum í öfuga átt á næsta ári og hlutfallið verði 0.20%.