Undanfarna mánuði hef ég velt því fyrir mér hvert íslenska þjóðin stefni. Venjulegur starfsvettvangur minn er að leita að lausnum fyrir hnattræna sjálfbærni. Á þeim vettvangi er lögð mikið áhersla á að það þurfi að gefa hnattrænum vandamálum gaum en leita lausna í grenndinni (think global, act local).
Það er sama hvert er litið t.d. í blöðum, vefmiðlum, ljósvökum, samfélagsmiðlum – spilling og græðgi í íslenskum stjórnmálum er augljós. Og ekki má gagnýna. Verið er að yfirtaka gagnrýna fjölmiðla hvern á eftir öðrum: DV, Reykjavíkurblað, Akureyrarblað - og Mogganum er stýrt af útgerðarmafíunni.
Birtingarmynd spillingar á Íslandi er úthlutun kvóta til vina og vandamanna ráðherra og alþingismanna, áforma brask um orkufrekan iðnað í héraði ráðamanna, sala á ríkiseignum til vandamanna ráðherra og svo frv. Birtingarmynd græðginnar er að stefnt virðist vera í að hundsa náttúruverndarlög, virkja hverja einustu sprænu og hvert einasta jarðhitakerfi til að finna til orku fyrir ofannefndan orkufrekan iðnað ef ekki líka sæstreng til Evrópu. Fæstir virðast velta fyrir sér hvaða áhrif þessar framkvæmdir muni hafa á náttúru Íslands og möguleika komandi kynslóða til að búa á þessu kalda skeri í Norður-Atlantshafi.
Ein af lausnunum sem ég sé er að stofna til nýrrar gagnrýnnar stjórnmálahugsunar. Fylgni Pírata í skoðanakönnunum bendir til þess að ég sé ekki sú eina að hugsa um þessi mál. Píratar legga mikla áherslu á að hafa allt upp á borðunum og að umræðan sé skýr og gagnsæ auk þess sem málin séu rædd á forsendum rökhyggju. En er það nóg? Mér hefur dottið í hug að e.t.v. sé tími kvennaframboðs aftur kominn á Íslandi. Enn eru alþingiskonur ekki 50% af þingmönnum. Kvenlæg og græn gildi virðast ekki vera ofan á í stjórnmálaumræðunni.
Þurfum við konur að stíga fram líkt og Kvennaflokkurinn forðum daga og taka ábyrgð? Til að ná lengra í þessum bollaleggingum fór ég á stúfana og spjallaði við fjórar virtar konur í samfélaginu yfir kaffibolla. Þær eru allar þekktar fyrir að vera bæði listakonur og samfélags- og/eða umhverfisaktívistar auk þess sem þrjár þeirra hafa tekið þátt í stjórnmálum. Ég spurði konurnar hvort tími væri kominn á annað kvennaframboð. Hér er það sem ég tók frá þessum samræðum:
Fyrrverandi stjórnmálamaðurinn
Fyrrverandi stjórnmálamaðurinn var á því að það ætti alls ekki að stofna annan kvennaflokk. Nú væru tímar samvinnu kynjanna. Ég vísa til hennar hér sem Bjargar. Björg lagði áherslu á að nýja stjórnarskráin yrði samþykkt til þess að auðlindir yrðu í almannaeign. Áhugavert var að heyra frá Björgu að hún taldi innviði fjórflokkanna ónýta. Ekki sé lagt fé í sameiginlega stefnumótun og þar sem enginn verkefnastjóri sé til að halda sýnum höfuðborgarsvæðis og landshluta saman, er stefna flokkanna óljós. Björg lagði áherslu á að landsfundir væru ekki nóg til að ná heildrænni stefnumótun sem sátt sé um. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn næði ekki utan um þessi mál. Og vitanlega Framsóknarflokkurinn ekki heldur, vegna þess að honum hefði verið stolið – og gamlir framsóknarmenn hefðu lítið sem ekkert sameiginlegt með núverandi ráðamönnum flokksins. Samfylkingin er ósamstæð eins og kom fram á síðasta landsfundi og formaðurinn hefur ekki traust helmings flokksmanna.
Björg taldi að best væri að að byggja á þeirri sýn sem 2020 áætlun fyrrverandi ríkisstjórnar náði saman með merkum og fjölmennum landshlutastefnumótunarfundum í anda Þjóðfundar. Þar eru að finna margar og mismunandi lausnahugmyndir, byggða á þekkingu og vilja fólksins. Loks taldi Björg að það vantaði sárlega flokk sem vinnur að náttúruvernd. Vinstri grænir væru frekar að vinna í í samfélagsmálum en náttúrverndarmálum. Þar væru engir raunverulegir náttúruverndunarmenn.
Björg taldi að tími væri til kominn að stona flokk sem ynni samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar: Náttúruvernd, sjálfbær nýting auðlinda og uppbygging sanngjarns þjóðfélags til að leiða til vellíðan allra þjóðfélagsþegna.
Leikkonan
Leikkonan, sem ég nefni hér Báru, taldi að það væri svo sannarlega tími kominn til að stofna nýjan kvennaflokk. Hún starfar í samtökum kvenna þar sem hún heyrir af ótrúlegri framkomu karlmanna gegn konum á öllum stigum þjóðfélagsins. Þannig er jafnréttið sem við ættum að hafa unnið okkur til á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna alls ekki í höfn. Bára lagði til að nýi kvennaflokkurinn ynni að því að konur nái fullu jafnrétti. Þessi nýi kvennaflokkur ætti að hafa innanborðs konur sem þekktar eru fyrir að styðja alla flóru stjórnmálaflokka á Íslandi og að kalla þyrfti til karla sem styðja konur sem bakhjarla flokksins. Okkur kom saman um að það væri ekki nóg að ná jafnrétti í þjóðfélaginu, heldur þyrfti einnig að vinna að jafnrétti fyrir náttúruna. Að byggja upp þjóðfélag á Íslandi þar sem jafnrétti ríki á milli kynjanna og náttúran hafi rétt, líkt og einstaklingar og fyrirtæki. Slíkan rétt hefur náttúran nú þegar fengið í löndum frá Nýja Sjálandi til Kosta Ríka. Bára lagði líka áherslu á að nýja stjórnarskráin yrði samþykkt.
Bára var því mjög áköf í að stofna nýjan kvennaflokk með breitt bakland sem ynni að jafnrétti allra þjóðfélagsþegna og fyrir náttúruna.
Stjórnmálamaðurinn
Stjórnmálamaðurinn taldi að það væri alls ekki tími til kominn að stofna kvennaflokk. Ég kalla hana hér Brynju. Að mati Brynju eiga á okkar tímum kvenmenn og karlar að vinna saman. Hún lagði áherslu á að vinna þyrfti að því að þjálfa alþingismenn í rökræðu til að koma í veg fyrir endalaust karp í þinginu. Brynju var mjög umhugað um að endurskipuleggja og byggja upp virka og gagnsæja stjórnsýslu. Hún sér stjórnsýsluna í tætlum og það komi í veg fyrir framfarir og framkvæmdir. Aðaláhugamál Brynju var að nýja stjórnarskráin yrði samþykkt. Þannig yrðu auðlindir í almannaeign. Hún hafði ýmsar hugmyndir um hvernig það áform gæti náðst. Einnig var Brynju umhugað um að konur á Alþingi og í þjóðfélaginu sýndu fjármálum og alþjóðamálum meiri áhuga. Henni finnst áberandi, að bæði á Íslandi og erlendis þar sem hún fer á fundi, eru fáar þingkonur að vinna í þessum málaflokkum.
Brynja er að vinna að því að nýja stjórnarskráin verði að veruleika með samræðum innan eigin flokks og í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka. Hún telur ekki brýnt að stofna til nýs flokks.
Rithöfundurinn
Rithöfundurinn taldi að nýr kvennaflokkur væri mjög mikilvægur. Ég vísa í hana hér sem Bryndísi. Bryndís taldi að við værum nú á þeim tímum að konur þyrftu að stíga fram og taka ábyrgð. 21. öldin væri öld kvenna með kvenlægar lausnir. Hún var viss um að ef kvenlæg gildi hefðu meiri áhrif, næðum við betri árangri í náttúruverndunarmálum bæði hérlendis sem erlendis. Bryndís taldi líka brýnt að samþykkja nýja stjórnarskrá.
Bryndís lagði því áherslu á að stofna kvennaflokk sem ynni að náttúruverndunarmálum.
Niðurstöður
Þó ekki séu allir fjórir viðmælendur mínir á því að stofna til nýs kvennaflokks, eru þær allar sammála um að koma þurfi nýju stjórnarskránni á og að vinna þurfi að náttúruvernd. Nú er ég að velta fyrir mér hvaða skref við þurfum að taka í Íslandi til að nýja stjórnarskráin verði samþykkt, náttúran og konur nái fullu jafnrétti, og sjálfbær þróun verði að leiðarljósi. Ég tel þetta brýnt fyrir framtíð Íslands. Við sem þjóð þurfum að vera tilbúin með framboð – fyrst fyrir forsetakosningar 2016 og síðan fyrir Alþingiskosningarnar 2017. Landið þarf forseta og stjórnmálamenn sem vinna að mikilvægum málum fyrir samfélagið og náttúruna.
Til að efla umræðuna þurfum við að taka höndum saman og styrkja Kjarnann og Stundina með okkar áskriftum til þess að gagnýnin og uppbyggileg samræða geti átt sér stað í landinu. Ég kalla fram á völlinn allar konur (og karla) með kvenlæg og græn gildi sem vilja vinna að þessum mikilvægu málum.