Hvert verður svarið?

Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki, sat réttarhöld vinar síns sem hafði mótmælt friðsamlega við Alþingishúsið. Eftir sátu ýmsar spurningar um réttlæti og mannúð.

Auglýsing

I.

Það var kominn mánudagur, 30. ágúst, kennsla að byrja en fyrsti tíminn hjá mér ekki fyrr en í hádeginu. Ég ætlaði að verja morgninum í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem yrði réttað yfir vini mínum. Ég hafði vaknað snemma, fyrirtakan byrjaði ekki fyrr en korter yfir níu og til að drepa tímann ákvað ég að skúra gólfin. Mér fannst þau reyndar ekkert sérlega skítug en þegar ég hellti skolpinu í klósettið sá ég að það hafði sannarlega verið tilefni til að gera hreint og limra eftir Þorstein Valdimarsson rifjaðist upp fyrir mér:

Það er svipað um hernámið hér

og horngrýtis rykið hjá mér.

Það seiglast að falla

og svínar út alla

og það sést ekki fyrr en það fer.

Þegar ég kom inn í dómsalinn var nýbyrjað að spila myndbandsupptöku frá mótmælum við Alþingishúsið þann 19. mars 2019. Ég kom mér fyrir og fylgdist með. Á upptökunni mátti sjá nokkrar manneskjur með límband yfir munninum, með hendurnar á lofti þannig að lófarnir blöstu við í um það bil axlarhæð. Þegar myndavélin staðnæmdist nógu lengi við nokkra mótmælendur sem stóðu fyrir dyrum Alþingishússins mátti lesa skrifað í lófana: „Stop deportations“ – Stöðvið brottvísanir. Eftir að hafa árangurslaust reynt að ná tali af yfirvöldum eftir öðrum leiðum, þá hafði fólkið ákveðið að stilla sér upp við inngang Alþingishússins til að láta í ljós sína einföldu ósk: það vildi ekki að flóttafólki, sem einhvern veginn hafði komist til Íslands, yrði vísað aftur til baka, eflaust til Grikklands eða Ítalíu, þar sem hafði verið fyrsti viðkomustaður þess í Evrópu. Flóttafólkið hafði komist yfir Miðjarðarhafið, en hvíldi ekki í votri gröf þess salta sjávar eins og svo margir sem hafa lagt af stað út í óvissuna af því að heima beið þeirra ekkert annað en ofbeldi eða hungur.

Auglýsing

Á myndbandinu má líka sjá þrjá lögreglumenn sem biðja fólkið að færa sig frá dyrum Alþingis­hússins, það sé ekki í boði að blokkera innganginn eins og einn segir. Þegar fólkið hlýðir ekki, ýtir lögreglan nokkrum mótmælendum frá dyrunum og segir þeim að ef þau hlýði ekki fyrirmælum lög­reglu verði þau mögulega sótt til saka og sektuð. Fljótlega er einn mótmælandi tekinn fastur, hann hafði endurtekið farið aftur upp að dyrunum eftir að lögreglan stuggaði honum burt. Aðrir stóðu til hliðar, og ekki annað að sjá en að aðgangur að húsinu væri óhindraður. En vissulega voru mótmælendurnir sýnilegir hverjum sem þar gekk um – og það mátti hæglega lesa skilaboðin í lófunum: Stöðvið brottvísanir.

Skömmu síðar skipar lögreglan fólkinu að færa sig lengra burt. Þegar ein manneskja biður lög­regluna um að gefa fyrirmæli á ensku, þar sem sumir skilji ekki íslensku, er hún handtekin og lögreglumaður fer með hana í átt að lögreglubílnum. Vinur minn fylgir þeim eftir, með límbandið fyrir munninum og hendurnar á lofti, en er þá gripinn af lögreglumanni sem fer með hann afsíðis. Lögreglumaðurinn veit greinilega ekki hvað hann á að gera við þennan mann, spyr svo þann sem stjórnar aðgerðum og fær skipun um að handtaka hann líka. Þar með höfðu þrjár manneskjur verið handteknar þennan morgun fyrir framan Alþingishúsið.

II.

DV deildi þessu myndbandi á sínum tíma með frétt sem bar fyrirsögnina „Sauð upp úr við Alþingis­húsið í gær“. Á myndbandinu er erfitt að sjá að það hafi soðið upp úr, þvert á móti hafði allt gengið frekar prúðmannlega fyrir sig, helst að lögreglan væri pirruð. Þau sem voru að mótmæla voru ekki með læti, ekki með hróp og köll, voru ekki ógnandi og hindruðu engan í að ganga um dyr Alþingis. Í upphafi myndbandsins, á meðan fólkið stendur beint fyrir framan útidyrnar, má sjá Óla Björn Kárason alþingismann koma út og smeygja sér framhjá fólkinu. Hann virðist ekki eiga í vandræðum með að komast leiðar sinnar.

En þótt ekki syði upp úr, þótt allt virtist með harla kyrrum kjörum, má ímynda sér að undir yfirborðinu hafi kraumað bæði reiði og ótti. Í hópi mótmælenda voru nokkrir einstaklingar sem biðu þess að verða enn eina ferðina sendir eitthvað annað af því að þeim væri ofaukið, þau væru óvelkomin. Þau væru fólk sem ekki ætti heima hérna á Íslandi, ekki frekar en þar sem þau drápu seinast niður fæti, eða þar áður. Flóttafólk er umkomulausasta fólk jarðar því ofan í fátæktina og niðurlæginguna sem fylgir eilífum hreppaflutningum, þar sem hvert landið eftir annað keppist við að koma þeim af höndum sér, þá eiga þau ekki lengur neitt föðurland, nema kannski í minningunni, einhvers staðar djúpt í hjartanu. Börn sem fæðast á flótta eiga ekki einu sinni minningu um föðurland, þau hafa aldrei verið annað en óvelkomin. Árið 2019 fæddust um 300.000 börn á flótta, næstum jafn mörg og allir Íslendingar.

Flóttafólkið sem stóð þarna í hópi nokkurra vina fyrir dyrum Alþingishússins átti það sameigin­legt með milljónum manna á flótta að hafa enga rödd. Þau eru hvergi ríkisborgarar, nema kannski þar sem þau áttu eitt sinn föðurland en er ekki lengur vært. Og því þarf enginn að hlusta. Þegar þau hrópa, þá kalla þau út í tómið. Þannig er flóttafólk ekki bara svipt föðurlandi, það hefur einnig verið svipt tungumálinu. Þess vegna var táknrænt að mótmælendur skyldu hafa límt fyrir munninn á sér þennan morgun. Mótmælin voru þögul en krafan skýr. Ekki senda flóttafólkið enn eina ferðina út á guð og gaddinn.

Þegar ég hugsaði um hlutskipti þessa fólks varð mér hugsað til morgunverkanna. Ég skúraði gólfið, hreinsaði upp horngrýtis rykið og tæmdi fötuna í klósettið. Svo sturtaði ég niður og við mér blasti skínandi hvít klósettskálin. Á einu augabragði var ekkert sem minnti á skolpið. Þannig er farið með flóttafólkið: Við sendum það eitthvað í burtu, langt í burtu, þar sem það hverfur út úr lífi okkar, svo tilveran geti aftur orðið skínandi og fögur. Lengi tekur hafið við, segir máltækið. Lengi taka útlönd við, er viðkvæðið.

III.

Ég veitti því athygli að þessir mótmælendur voru flestir ungt fólk, kannski um tvítugt eða þrítugt. Stundum er sagt að ungt fólk í dag sé svo sjálfhverft – ólíkt minni kynslóð og þeim sem á undan gengu og þurftu að vinna, þræla sér út, hafa fyrir hlutunum. Við heyrum oft sagt að í dag sé unga fólkið vant því að fá allt upp í hendurnar. Það er lítil eftirsjá í þrældómi fyrri kynslóða. Þessi þrældómur skilaði okkur sem nú erum uppi góðu búi, fyrir það getum við verið þakklát, en uppeldisgildi þrældóms er lítið. Mér fannst umhugsunarvert að þarna voru fáar manneskjur á mínum aldri eða eldri (50+). Erum við orðin of gömul til að finna hjá okkur köllun til að leggja flóttafólki lið, erum við orðin of makráð til að ómaka okkur við að hjálpa þeim sem eru hvað umkomulausust í heiminum? Upp í hugann kom vísa sem móðir mín hafði skrifað í minningu um föður sinn:

Auðlegðina ei ég spyr um,

að mér minningarnar streyma.

Þar sem grasið grær að dyrum,

gestrisnin á ekki heima.

Afi minn og amma bjuggu nær allan sinn búskap í lítilli íbúð norður á Akureyri. Þar ólu þau upp sex börn auk þess sem gestagangur var ævinlega mikill. Þar var ekki spurt um auðlegðina þegar einhvern bar að garði, en þar greri grasið heldur ekki að dyrum. Ég velti því fyrir mér hvort við, Íslendingar, séum orðin svo makráð að gestrisnin eigi ekki lengur heima hjá okkur. Kannski segir einhver að þetta sé ekki spurning um gestrisni, heldur séum við svo fá að við getum ekki bjargað heiminum. Árið 2019, þegar mótmælin áttu sér stað sem leiddu til handtöku vinar míns og ákæru á hendur honum, var fjöldi flóttamanna á Íslandi á hverja 10.000 íbúa einungis 16. Í Finnlandi var samsvarandi tala 43, í Danmörku 65, Noregi 101 og í Svíþjóð 248. Við áttum sannarlega ekki Norðurlandametið í gestrisni.

Vikurnar fyrir réttarhöldin höfðu hver ótíðindin fylgt öðrum: birt hafði verið skýrsla um að loftslagsvandinn væri enn alvar­legri en áður var talið, Afganistan hafði hrunið í hendur Talibana og vart við öðru að búast en að við tæki ný harðstjórn sem setti af stað nýjar bylgjur flóttamanna, skógar­eldar loguðu víða um heim, og fleira í líkum dúr. Flest af þessu eru afleiðingar græðgi, valdagræðgi og veraldargræðgi; óseðjandi sókn eftir tækifærum til að kúga aðra og óseðjandi hungri í gæði jarðarinnar. Mótmælendurnir, sem stóðu með hendur á lofti framan við Alþingishúsið til að biðja um áheyrn fyrir fólk á flótta, voru fullkomin andstæða þessa. Frekar en að sækjast eftir því að geta kúgað aðra, stóðu þau þarna með umkomulausasta fólki jarðarinnar til að andæfa kúgun og kúgurum. Þau báru líka með sér, í fasi og klæðnaði, að samband þeirra við heiminn einkenndist ekki af græðgi heldur umhyggju. Hvernig má það þá vera að ríki sem vill kalla sig lýðræðislegt mætir slíku fólki með lögregluvaldi, handtökum, ákærum og réttarhöldum.

Með friðsömum mótmælum sínum framan við Alþingishúsið og ákalli um að veita flóttafólkinu örlitla von, gerðu mótmælendurnir sýnilegt ofbeldið sem íslenska ríkið beitir varnarlaust fólk. Ofbeldið er eins og rykið, það leynist á meðan ekki er hreyft við því. Ef þetta fólk hefði ekki fylkt liði og staðið með hendur á lofti framan við dyr Alþingis, hefði flóttafólkinu verið vísað úr landi án þess að nokkur hefði orðið var við það. Það hefði ekki truflað unaðssemdir okkar huggulega lífs. Við hefðum getað sungið kát og sæl um okkar fagra föðurland, „með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð“, án þess að þessi vígaslóð heimsins ataði okkur minnstu óhreinindum.

Ríkisrekið ofbeldi er eins og rykið í vísu Þorsteins, það svínar alla út, jafnvel þótt við verðum ekki vör við það fyrr en við því er hreyft. Þar sem ég sat í réttinum, horfði á vin minn ýmist fylgjast með myndbandinu, hlusta á vitnaleiðslur eða koma sjálfur fyrir réttinn og svara spurningum, þá fylltist ég þakklæti fyrir að þetta fólk skyldi rísa upp gegn ofbeldinu.

IV.

Áður en réttarhöldunum lauk þurfti ég að drífa mig í vinnuna, fyrsta tíma haustsins í heimspeki og hugmyndasögu menntunar. Umræðuefnið var Sókrates, maðurinn sem var dæmdur til dauða fyrir að spilla æskunni, að því er sagt var. En líklega var hann dæmdur til dauða fyrir að afhjúpa valdið, heimskuna, blinda tryggð – gagnrýnislausa tryggð – við hefð og venjur. Sókrates hafði hvorki stöðu né metorð en hann hafði lag á því að spyrja spurninga og þá breytti engu hver viðmælandinn var. Orðstír eða staða skipti ekki máli, metorð voru einskis nýt; í rökræðunni var það einungis rökvísi og heiðarleg viðleitni til að leita sannleikans sem skipti máli. Sókrates gekk aldrei fram í krafti sannleika, heldur ævinlega í auðmýkt efasemdanna. Frammi fyrir afhjúpandi spurningum hans voru allir jafnir, hann sjálfur þar meðtalinn. Í Aþenu til forna þótti valdamönnum óbærilegt að vera afhjúpaðir, teknir af stallinum og settir til sætis með flækingum á torginu. Þar sem Sókrates hafði engan málstað að verja annan en sannleikann, hver sem hann kynni að vera, fundu valdhafar þess tíma enga leið til að ná tökum á honum. Eina leiðin til að bregðast við þessum uppreisnarmanni var að taka hann af lífi.

Uppákoman við hús Alþingis þann 19. mars 2019 var ekki jafn dramatísk og réttarhöldin yfir Sókratesi, en þau voru afhjúpandi með svipuðum hætti. Af því að mótmælendur sögðu ekkert, voru ekki ógnandi, voru ekki með nein læti – þau bara stóðu þarna með hendurnar á lofti og báðu um að vinir þeirra yrðu ekki sendir í burtu, á vonarvöl – þá virtist lögreglan nánast vera ráðalaus. Á myndbandinu má sjá hvernig hún þjösnast í mótmælendum og þegar einn úr þeirra hópi bendir á að rétt sé að gefa skipanirnar á ensku, því þarna sé fólk sem ekki skilji íslensku, þá er hann tekinn fastur.

Fyrir rétti sögðu lögreglumennirnir að þeir hefðu verið beðnir um að koma mótmælendum frá inngangi Alþingishússins vegna þess að fólki þætti nærvera þeirra óþægileg. Hvað var svona óþægilegt? Eins og ég sagði, það voru engin læti í mótmælendum, þeir voru ekki ógnandi, þeir gerðu ekki annað en að standa þarna með hendur á lofti og skilaboðin í lófunum: Stöðvið brottvísanir. Það er erfitt að ímynda sér að neitt annað en þessi skilaboð, þessi áminning um ómanneskjulega valdbeitingu gagnvart þeim sem minnst mega sín, hafi verið óþægindin sem þurfti að losna við. Með mótmælendur fyrir dyrum Alþingis var ekki hægt að horfa framhjá því að við værum að senda fólk á flótta út í vonlausar aðstæður – við værum að vísa burt fólki sem hefði komist inn úr manndrápshríðinni og í dyragættina hjá okkur. Með þögn sinni og yfirvegun voru mótmælendur afhjúpandi líkt og Sókrates hafði verið forðum daga með spurningum sínum. Þar sem þau stóðu fyrir framan dyr Alþingishússins gátum við ekki vikið okkur undan sann­leikanum um sjálf okkur. Og frekar en að horfast í augu við sannleikann, þá var kallað á lögregluna svo við mættum halda áfram að lifa makindalega í eigin blekkingu.

Þegar ég hjólaði heim, lúinn eftir viðburðaríkan dag, þá komu mér til hugar vísuorðin úr kvæði Heiðreks Guðmundssonar frá Sandi: „Þeim líður best sem lítið veit og sér, og lokast inn í fjalla­hringnum bláa.“ Kannski var það hlutverk lögreglunnar þennan dag að standa vörð um fáviskuna. Og kannski var það þess vegna sem mótmælendur höfðu ekki einungis verið teknir fastir, heldur líka ákærðir og færðir fyrir dóm: Það skyldi enginn komast upp með að leiða í ljós sannleikann um okkur sjálf og spilla þannig þeirri vellíðan sem fáviskan veitir.

V.

Síðastur til að bera vitni var vinur minn, sökudólgurinn í málinu. Mér leið undarlega þegar hann settist í vitnastólinn og hóf mál sitt, ekki til að verja eigin gerðir heldur til að lýsa því sem hann hafði gert og íslenska ríkið leit á sem glæp. Það var ekki nóg með að hann hefði verið handtekinn, fangelsaður og ákærður fyrir að óhlýðnast lögreglunni, heldur hélt ríkisvaldið nú refsivilja sínum til streitu. Ákæran var ekki dregin til baka, hann var ekki beðinn afsökunar á óhóflegri valdbeitingu. Nei, þarna sat hann og andspænis honum sat sjálft ríkisvaldið – dómsvaldið beint á móti honum og ákæruvaldið til vinstri handar. Eftir að hann hafði svarað nokkrum spurningum ákæruvaldsins, spurði verjandi hans hvort hann vildi bæta einhverju við. Vinur minn fékk sér vatnssopa og sagði svo:

„Ég var handtekinn þegar ég tók þátt í friðsamlegum mótmælum. Það voru mótmæli sem snúast um mannúð og samstöðu, að hlusta á fólk og sögur þeirra.“ Hann þagnaði eitt augnablik áður en hann hélt áfram: „Svarið frá yfirvöldum og stjórnvöldum var hins vegar mjög skýrt: mótmælendur voru handteknir og – það sem mér finnst erfiðast í öllu þessu – þeim flóttamönnum sem tóku þátt í þessum mótmælum, þeim var öllum brottvísað, þau eru ekki lengur hér á Íslandi.“ Röddin var mjög blátt áfram, engin reiði en mér fannst ég greina depurð í rómnum. Svo hélt hann áfram: „Ég var farinn að spyrja mig hvort ég byggi í samfélagi sem horfir á og viðheldur rasisma? Samfélagi sem þegir og neitar að hjálpa fólki sem biður um hjálp?“ Hann bar upp þessar spurningar algerlega án ásökunar, nánast eins og hann væri að spyrja um eitthvað sjálfsagt, en þegar ég hlustaði á hann fann ég hvernig þær nístu mína eigin samvisku. Fleiri spurningar vöknuðu í huga mér: Búum við í samfélagi sem neitar að hlusta og hjálpa fólki sem biður um hjálp? Hvar er gestrisnin sem við tölum svo fjálglega um á góðum stundum? Getur verið að grasið sé farið að gróa svo rækilega að okkar dyrum, að við höfum úthýst gestrisninni? Hann fékk sér annan vatnssopa, horfði beint á dómarann og hélt áfram:

„Ég er sjálfur útlendingur, en ég er svo heppinn að ég fékk kennitölu strax þegar ég kom hingað frá Þýskalandi fyrir sex árum. Ég má búa hér, ég má læra tungumálið ykkar, ég má vinna og borga skatt. Ég má líka vera handtekinn og ákærður, en sem útlendingur má ég hins vegar ekki kjósa, sem útlendingur má ég aldrei taka þátt í alþingiskosningum. Það að mótmæla á friðsamlegan hátt er ein leið fyrir mig til að reyna að taka þátt í samfélagi og lýðræði. Saga landsins sem ég ólst upp í kenndi mér mikilvægi þess að spyrja spurninga, að treysta og hlusta á manneskjur, mannúð og samkennd, að vera gagnrýninn á fyrirmæli, lög og valdbeitingu sem vanvirða þessi gildi.“

Hann teygði sig í vatnsflöskuna, fékk sér sopa og hélt svo áfram: „Þið getið handtekið og kært mig á hverjum degi, en þið getið líka spurt ykkur hvernig samfélagi þið viljið búa í. Þegar næsta kynslóð spyr okkur hvað við gerðum til að gera þetta samfélag að fallegri og mannúðlegri stað – hvert verður svarið?“

Þegar hann hafði lokið máli sínu stóð hann upp og settist í sætið sitt. Vitnaleiðslum var lokið og komið að ákæruvaldinu að setja fram mál sitt. Á meðan saksóknarinn kom sér fyrir hugsaði ég sem svo: Mikið væri nú gott ef þessi lögfræðingur segði að auðvitað væri þetta augljóslega misskilningur, að fráleitt væri að stefna lögreglu og dómsvaldi gegn manneskjum sem vilja hlusta á fólk sem biður um hjálp og mótmæla á friðsamlegan hátt þegar þær horfa upp á ofbeldi. En ákæruvaldið sagði ekki að þetta væri misskilningur, heldur að vinur minn hefði óhlýðnast lögreglunni og hindrað hana við handtöku og því bæri að dæma hann sekan samkvæmt einhverjum lagabókstöfum sem ég man ekki hverjir voru.

Þegar ákæruvaldið lauk máli sínu þurfti ég að drífa mig – fara að tala um Sókrates við nemend­ur mína – svo ég náði ekki að heyra hvernig lögfræðingur vinar míns snerist til varnar. En spurningin sem vinur minn endaði mál sitt á hefur ekki horfið úr huga mér: „Þegar næsta kynslóð spyr okkur hvað við gerðum til að gera þetta samfélag að fallegri og mannúðlegri stað – hvert verður svarið?“

Hvert verður svarið?

Höfundur er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar