Í síðustu tveimur greinum var fjallað um gjánna milli verkalýðsbaráttunnar eins og ég skil hana og þeirrar hugmyndafræði, vinnubragða og menningar sem ráða ríkjum í Alþýðusambandi Íslands. Mörg dæmi voru rakin um það hvernig hugmyndafræði stéttasamvinnu hefur tekið öll völd innan ASÍ, á kostnað baráttu félagsfólks, sjálfstæðis hreyfingarinnar útávið og lýðræðis í innra starfi. Þessir stjórnarhættir Alþýðusambandsins eru þó ekki afurð af sérstökum áherslubreytingum á þeim tíma sem ég hef starfað innan hreyfingarinnar, þar sem Drífa Snædal var við völd sem forseti, heldur órofa framhald af því hlutverki sem sambandið hefur tekið á sig síðustu 40 árin eða svo. Það er full ástæða til að rekja þessa sögu.
Í hinni miklu sjálfsævisögulegu yfirferð sinni um sögu íslenskra sósíalista og vinstrafólks sem Kjartan Ólafsson fyrrum þingmaður skrifaði og gaf út árið 2020, Draumar og veruleiki, er að finna litla en áhugaverða frásögn. Kjartan segir frá samtali sem hann átti við Eðvarð Sigurðsson, fyrrum formann Dagsbrúnar, árið 1980. Eðvarð var leiðtogi verkafólks í mörgum af hatrömmustu deilum 20. aldarinnar á Íslandi um lífskjör og pólitík, og var kommúnisti eins og flestir sem á þeim tímum sýndu dug og þor. Efni samtalsins milli hans og Kjartans var valið á nýjum forseta Alþýðusambandsins. Eðvarð, sem var þá sjálfur kominn á efri ár, trúði Kjartani fyrir áhyggjum sínum. Eðvarð taldi að sambandið stæði frammi fyrir tveimur valkostum í embætti forsetans. Annars vegar var kom til greina Guðmundur J. Guðmundsson þáverandi formaður Dagsbrúnar. Eðvarð hafði átt mikið og náið samstarf við Guðmund Jaka og raunar stutt hann til að taka við af sér í formannsembætti Dagsbrúnar.
Eðvarð vissi þó sem var, að Guðmundur Jaki var fremur ístöðulaus maður, eins og kom ágætlega í ljós aðeins nokkrum árum seinna þegar upp komst að Guðmundur hafði þegið sólarlandaferð að gjöf frá skipafélögunum Eimskip og Hafskip, tveimur stærstu launagreiðendum Dagsbrúnarfélaga. Um þessar hliðar á persónu Guðmundar hefur Eðvarð án efa vitað allt. Hinn valkosturinn var Ásmundur Stefánsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri ASÍ. Ásmundur var þekktur fyrir vammleysi og dugnað, en Eðvarð – skarpskyggn marxisti og þrautreyndur í stéttabaráttunni – vissi að Ásmundur yrði aldrei fulltrúi verkafólks heldur myndi ganga erinda sinnar eigin stéttar, hinnar vaxandi fagmennta- og stjórnendastéttar.
Bylting menntafólksins
Ásmundur varð ofan á í kjörinu um forseta ASÍ árið 1980, sem markaði vatnaskil í sögu sambandsins. Þetta var í fyrsta skipti sem maður úr röðum starfsfólks og sérfræðinga, en ekki félagsfólks, valdist til æðsta félagslega kjörna embættis í heildarsamtökum íslensks verkafólks. Eftir þetta tók ASÍ að fjarlægjast mjög eiginlega verkalýðsbaráttu. Sambandið tók þess í stað upp hugmyndafræði stéttasamvinnu undir leiðsögn einstaklinga úr röðum fagmennta- og stjórnendastéttanna. Ég kýs að nota hugtakið „fagmennta- og stjórnendastétt” sem þýðing á hugtakinu “professional-managerial class” (PMC) sem John og Barbara Ehrenreich smíðuðu í ritgerð frá árinu 1977, en tilefni ritgerðarinnar voru vangaveltur þeirra yfir vaxandi hlut menntaðs millistéttarfólks innan þeirra hreyfingu sem sögulega hafa skilgreint sig sem málsvara verkafólks. Nýleg bók Catherine Liu, Virtue Hoarders„, hefur fjallað um áframhald þessarar þróunar með gagnrýnum hætti og alþekkt ritgerð Thomasar Piketty Brahmin Left vs. Merchant Right” frá 2018 er í raun um sama viðfangsefni
Vaxandi völd fagmennta- og stjórnendastéttarinnar, þróunin sem Eðvarð Sigurðsson sá fyrir og óttaðist, voru því miður að miklu leyti á kostnað áhrifa hins almenna félagsfólks. Um leið urðu félagslega kjörnu leiðtogarnir atkvæðaminni og veiklundaðri. Trénaðir formenn duttu úr tengslum við baráttu félagsfólks og nutu þess í stað þægindalífs á góðum launum inni á skrifstofum félaganna. Vinnan, sem nú fólst eingöngu í rannsóknum og skýrslugerð en ekki vinnustaðafundum eða undirbúningi verkfallsaðgerða, var unnin af hinum nýju herrum: sérfræðingum úr röðum fagmennta- og stjórnendastéttarinnar sem sjálfir áttu hagsmuni sína ekki undir sigrum í baráttu verkafólks heldur árangri stéttarfélaga menntafólks svo sem BHMR sem síðar fékk heitið BHM..
Hringekjur valdsins
Allan níunda og tíunda áratuginn og fram yfir aldamótin 2000 var vaxandi stéttasamvinna og trú á sérfræðingavald meginstefið í áherslum Alþýðusambandið. Áberandi varð að þeir einstaklingar sem bitust um forystu og ábyrgð innan Alþýðusambandsins ílengdust þar ekki, heldur létu „hringekjuna“ sem lýst var hér að ofan aka sér um brautir framans innan ríkisstofnana og fyrirtækja. Sem dæmi um þetta má nefna Ara Skúlason, framkvæmdastjóra ASÍ á árunum 1994-2001 sem bauð sig fram gegn Grétari Þorsteinssyni sitjandi forseta árið 2000, en endaði svo sem yfirmaður viðskipta og hagrannsókna hjá Landsbankanum. Ólafur Darri Andrason var í 13 ár yfirmaður hagdeildar ASÍ, en gekk síðar í starf framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Landspítalanum.
Aðrir fyrrum hagfræðingar og lögfræðingar ASÍ hafa endað í háttsettum embættum hjá Seðlabankanum, Ríkissáttasemjara og víðar. Raunar hefur ótölulegur fjöldi hagfræðinga starfað í skemmri tíma fyrir Alþýðusambandið á síðustu áratugum og farið með öll völd í stefnumótun sambandsins, en nær allir sem einn síðar horfið til starfa fyrir stofnanir og aðila sem vart geta talist bandamenn íslensks verkafólks. Það væri sannarlega verðugt verkefni fyrir rannsóknarblaðamann að taka saman tölur um það hversu margir af sérfræðingum Alþýðusambandsins á undangengnum áratugum hafa endað í störfum fyrir atvinnurekendur, stjórnvöld og launadeildir hins opinbera.
Sama hefur átt við um sérfræðinga hjá aðildarfélögum sambandsins. Þar má nefna sem dæmi Hörpu Ólafsdóttur sem ráðin var í starf deildarstjóra kjaradeildar Reykjavíkurborg og um leið gerð að formanni samninganefndar borgarinnar, aðeins nokkrum vikum eftir að hún sagði upp störfum hjá Eflingu þegar ég tók við formennsku í félaginu. Hún hafði þá starfað hjá Eflingu í 15 ár, m.a. sem forstöðumaður kjaramálasviðs Eflingar og helsti sérfræðingur félagsins í kjarasamningum á opinbera markaðnum. Ekkert lát er á þessari þróun, sem hefur nú byrjað að gera vart við sig hjá félagslega kjörnum fulltrúum. Dæmi um það er þegar Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands á tímum mikilla átaka við Icelandair flutti sig yfir borðið í júní 2022 og hóf störf sem deildarstjóri launadeildar flugfélagsins.
Hugmyndin sem spilar stórt hlutverk í Salek-hugmyndafræðinni – að horfa á kaupmátt launa fremur en nafnlaunahækkanir einum og sér – er að sjálfsögðu ekki fráleit, en raunveruleikinn styður hins vegar ekki þá fullyrðingu að aðhald í launakröfum verkalýðshreyfingarinnar leiði sjálfkrafa til aukins kaupmáttar. Gögn sem Stefán Ólafsson hefur tekið saman sýna að kaupmáttur launafólks jókst meira fyrir Þjóðarsátt en eftir, en sú staðreynd virðist ekki trufla átrúnað fagmenntastéttanna á þau öfugmæli að veiklun stéttabaráttunnar leiði til betri kjara fyrir almennt launafólk.
Erindislausir Evrópukratar
Salek-hugmyndafræðin rímaði einnig við draumsýn íslenskra hægri-sósíaldemókrata og frjálslyndra miðjumanna, aðallega innan Samfylkingarinnar, um inngöngu landsins í Evrópusambandið og upptöku evru. Hin frjálslynda miðja í íslenskum stjórnmálum trúir því að gjaldmiðils-skipti séu sérstakt galdratæki í baráttunni fyrir samfélagslegu réttlæti jafnvel þótt ekkert bendi til að lífskjör eða skipting gæða sé betri í löndum Evruvæðisins samanborið við Ísland. Efnahagshrunið 2008, sem eins og áður var nefnt hafði mikil áhrif á mig og aðra leiðtoga nýju verkalýðshreyfingarinnar, leiddi ekki til neinnar endurskoðunar á trúnni á Salek-hugmyndafræðina og teknókratískar lausnir á borð við Evru-upptöku innan verkalýðshreyfingarinnar. Forysta ASÍ hélt áfram ótrauð á sinni stéttasamvinnu-braut, jafnvel eftir að löngu varð augljóst að íslenska yfirstéttin virti að engu leyti skilmála Þjóðarsáttarinnar heldur nýtti sér einkavæðingar Davíðs-áranna og óheftan fjármálakapítalisma í kjölfarið til að skammta sér áður óþekkta hlutdeild af auði samfélagsins með hræðilegum afleiðingum. Vinnumarkaðsórói áttunda og níunda áratugarins, sem mikið var gert úr í stéttasamvinnu-málflutningi ASÍ og ávallt sýndur í neikvæðu ljósi, bliknar í þeim samanburði. Eigna- og tekjuójöfnuður meðal Íslendinga jókst verulega á árunum eftir Þjóðarsáttina, og öllum hömlum var á sama tíma hleypt af markaðsvæðingu húsnæðismála sem aftur leiddi til gríðarlegrar lífsgæðaskerðingar launafólks, ekki síst hinna tekjulægstu.
Erindisleysi teknókratans Gylfa í embætti forseta ASÍ varð mörgum ljóst í Hruninu og Búsáhaldabyltingunni 2008-2009. Fjarvera hins nýkjörna forseta ASÍ úr allri gagnrýnni samfélagsumræðu um Hrunið varð strax mjög áberandi og vandræðaleg. Þetta gaf til kynna að forysta verkalýðshreyfingarinnar ofmat traust almennings til stéttasamvinnu og sérfræðingaveldis og vanmat tilvist þeirrar kröfu meðal íslensks almennings að á landinu ætti að vera starfandi verkalýðshreyfingin sem hefði bit, kjark og þor. Engar breytingar voru þó gerðar í áherslum eða hugmyndafræði verkalýðshreyfingarinnar eins og fyrr segir, á meðan eldar loguðu fyrir utan Alþingishúsið og nýjar hræringar og hreyfingar mynduðust í samfélaginu. Smátt og smátt varð Gylfi feiknarlega óvinsæll og traust til Alþýðusambandsins mældist sáralítið í könnunum - sem ASÍ lét gera en passaði að kæmu ekki fyrir almenningssjónir. Jafnvel þótt ástand efnahagsmála skánaði eftir því sem leið frá Hruninu þá var Alþýðusambandið alveg jafn óvinsælt og í reynd æ umboðslausara eftir því sem þátttaka félagsfólks í hreyfingunni varð minni og minni.
Villigötur Salek-hugmyndafræðinnar
Kjör mitt og Ragnars Þórs á árunum 2017-2018 sýndi þó fram á nokkuð sem fáir virtust hafa gert ráð fyrir: að til staðar væri einbeittur vilji félagsmanna í stærstu aðildarfélögum ASÍ til breytinga og uppstokkunar. Salek-verkefnið steytti einnig á skeri á þingi Alþýðusambandsins árið 2016, ekki vegna skorts á vilja hjá fagmennta- og sérfræðingastéttunum sem ráða ríkjum í verkalýðshreyfingunni, heldur vegna skorts á lýðræðislegu umboði. Salek-hugmyndum Gylfa Arnbjörnssonar var hafnað á þinginu í atkvæðagreiðslu.
Eins og hér hefur verið rætt þá er fylgispekt ASÍ við Salek-verkefnið einstaklega djúp. Svo djúp að verkefnið hefur haldið áfram að ráða för þrátt fyrir afgerandi höfnun Salek-hugmyndafræðinni á hverjum einasta félagslega vettvangi innan hreyfingarinnar sem hægt er að ímynda sér. Ótrúlegasta dæmið um það er samþykki Drífu Snædal við hinu svokallaða Grænbókar-verkefni, sem ég rakti í síðustu grein.
En hvaðan sprettur þessi gríðarlega mikli áhugi stjórnvalda og elítu fagmennta- og stjórnunarstéttarinnar innan verkalýðshreyfingarinnar á þessu verkefni? Hvers vegna er áhuginn ekki bundinn við málpípur auðvaldsstéttarinnar eins og Þorstein Víglundsson sem reglulega stígur fram á ritvöllinn til að mæra Salek? Ein ástæða er sú að sumir í forystu hreyfingarinnar trúa því í einlægni að kjaramálum almennings sé best borgið undir slíku kerfi. Rökin fyrir þessu eru að sams konar kerfi virki vel á Norðurlöndunum. Þar séu lífskjör með því besta sem þekkist í heiminum, verðlag nokkuð stöðugt, kaupmáttur bærilegur og velferðarkerfin stöndug. Það sé þess virði að fórna verkfallsvopninu og dreifstýrðu samningsumboði stéttarfélaga til að ná þessu fram. Þetta er rök sem vel er vert að hlusta á, en þau standast samt sem áður ekki skoðun. Aðstæður eru allt aðrar hér á landi en á Norðurlöndunum. Hér eru velferðarkerfin veikari, eins og lesa má um í nýlegri greiningu Stefáns Ólafsson fyrir Kjarafréttir Eflingar. Húsnæðismarkaðurinn er ekki studdur af öflugum leigufélögum sem stjórnað er á félagslegum forsendum. Vaxtastig húsnæðislána er miklu lægra. Fyrir íslenskt launafólk er því miklu erfiðara að treysta á annað en þau laun og kjör sem um semst í kjarasamningum.
Sáttin sem aldrei varð
Þá er það enn fremur augljóst að íslensku þjóðfélagi mistókst algjörlega að framkalla þá „sátt“ sem átti að felast í hinni svokölluðu Þjóðarsátt um 1990. Efri tekjuhópar virtu ekki með nokkru móti það aðhald í launasetningu sem þar átti að nást fram, og ýmist fundu sér eða voru afhentar af stjórnvöldum ýmsar undanbragðaleiðir, til dæmis hið gjöfula kvótakerfi, til þess að auka tekjur sínar og gera það jafnvel framhjá skattkerfinu. Taumlaus græðgis- og fjármálavæðing áranna eftir Þjóðarsáttina endaði með Hruninu og var mjög skýr vitnisburður um þá sjálftöku sem festi sig í sessi meðal hálauna- og valdastéttarinnar. Í ljósi þess að Salek átti að vera náttúrulegt framhald af Þjóðarsáttinni hlýtur þessi lærdómur, varðandi óheilindi auðstéttarinnar gagnvart hvers kyns samkomulagi, að setja stórt strik í reikninginn. Í réttlætingar-orðræðunni í kringum Salek er hins vegar aldrei fjallað um íslenska efnahagshrunið og ábyrgðarleysi yfirstéttarinnar, hvað þá eðlislæga tilhneigingu kapítalismans til ójafnvægis, bólumyndunar og kreppu, heldur er sjónum eingöngu beint að átökum íslensks vinnumarkaðar mörgum áratugum fyrr, líkt og kreppur og óstöðugleiki heimskapítalismans í dag skýrist af verkfallsgleði BSRB-félaga árið 1984.
Áhugavert er að lesa skýrslurnar sem hagfræðingurinn Steinar Holden útbjó fyrir aðila vinnumarkaðarins til stuðnings Salek. Grunnsannindi varðandi íslenskan vinnumarkað, sögu og þjóðfélag eru norska hagfræðingnum algjörlega hulin. Átakanlegast af öllu er þó tengslaleysið við raunveruleika og vilja íslensks almennings í kjölfar efnahagshrunsins 2008, en það virðist sem enginn hafi bent norska hagfræðingnum á að í ástandi djúps vantrausts í garð allra stofnana, bæði á vinnumarkaði og hins opinbera, væri það e.t.v. nokkuð á brattann að sækja að sannfæra alla Íslendinga á vinnumarkaði um ágæti þess að fara í stórkostlega áhættusamt samfélagslegt tilraunaverkefni undir forystu þessara sömu stofnana.
Stéttin sem semur við sjálfa sig
En ástæðurnar fyrir því mikla ástfóstri sem leiðtogar heildarsamtaka launafólks – ASÍ, BSRB, BHM og KÍ – tóku við Salek-verkefnið voru því miður ekki aðeins þær að forystufólk tryði, ranglega en þó ef til vill í einlægni, að slíkt vinnumarkaðslíkan myndi bæta lífskjör allra. Aðrar ástæður spiluðu inn í. Ein skýring er sú að stórir hópar ríkisstarfsmanna, sérstaklega þeirra sem eru með meðaltekjur og yfir, hafa á síðustu áratugum fengið að njóta mikils skilnings og ívilnana í samskiptum við sína viðsemjendur í Fjármálaráðuneytinu. Hefur þetta gefið vel í aðra hönd, en meðallaun ríkisstarfsmanna eru nú komin yfir 900 þúsund krónur á mánuði samkvæmt opinberum launagögnum. Fyrir þessari lausbeisluðu launaþróun hærra settra ríkisstarfsmanna er meðal annars sú ofureinfalda ástæða að viðsemjendur þeirra – samninganefndir Reykjavíkurborgar, Fjármálaráðuneytisins og annarra opinberra stofnana – eru undir forystu einstaklinga sem koma úr þeirra eigin röðum, það er að segja háttsettra, menntaðra sérfræðinga á launum hjá ríkinu – launum sem viðkomandi stéttarfélag semur um! Kemur þar líka oft til sögunar „hringekjan“ sem minnst hefur verið á áður í þessari grein, en sem dæmi má nefna að Halldóra Friðjónsdóttir fyrrum formaður BHM situr í samninganefnd fjármálaráðuneytisins sem fer með alla kjarasamningagerð ríkisins. Einn helsti samningamaður Reykjavíkurborgar er Birgir Björn Sigurjónsson sem gegndi áratugum saman stöðu sérfræðings hjá BHM. Þarna er í raun um að ræða stétt sem semur við sjálfa sig.
Lausbeisluð launakjör
Þá skiptir líka máli að launamyndun hjá ríkinu hefur á síðustu árum orðið miklu dreifstýrðari en áður var. Hefur þetta gerst í gegnum svokallaða stofnanasamninga, þar sem fjárveitingar til einstakra stofnana stýra því í hvaða launaflokka störfin raðast hjá viðkomandi stofnun. Sama starfsheitið getur þannig verið með mismunandi launasetningu eftir því hjá hvaða ríkisstofnun er unnið, og eru áhrifin af þessu aldrei til lækkunar heldur eingöngu til hækkunar. Launasetning ríkisstarfsmanna fer því aðeins að litlu leyti eftir niðurstöðum kjarasamninga, öfugt það sem mætti halda af umræðunni. Þetta er ólíkt sveitarfélögunum þar sem sama launatafla er oftast bæði þakið og gólfið í launasetningu starfsheitis hjá öllum sveitarfélögum og vinnustöðum þeirra landið um kring.
Þessi dreifstýrða launasetning hjá ríkinu, þar sem launatöflur mynda ekki lengur þak heldur aðeins gólf, er staðreynd sem ekki hefur fengið mikla viðurkenningu eða athygli í opinberri umræðu um kjaramál á Íslandi þó svo að ríkisstarfsmenn séu flestir hverjir vel meðvitaðir um þetta. Hefur það svigrúm sem þannig skapast verið nýtt, oft frjálslega og fjarri sviðsljósinu, til að lyfta takmörkunum á launasetningu sérfræðinga og stjórnenda, miklu fremur en að þetta fyrirkomulag nýtist lág- og millitekjufólki eða þeim sem erfiðustu störfin vinna hjá ríkinu.
Leið þægindanna
Í stuttu máli þá hefur þetta fyrirkomulag leitt til þess að stéttarfélög hærra launaðra ríkisstarfsmanna treysta vel sínum viðsemjendum. Enda er auðvelt að viðhalda sátt, samvinnu og sanngirni þegar hagsmunir fara saman - sá sem fer fyrir samninganefnd ríkisins er í reynd að semja um sín eigin kjör! Hvers vegna að stunda baráttu, til að mynda verkföll, þegar kjarabæturnar fást nánast að gjöf? Í þessu samhengi verður svo auðvitað að horfa á þann takmarkaða árangur sem opinberir starfsmenn hafa haft upp úr krafsinu þegar vissir hópar þeirra hafa ákveðið að láta sverfa til stáls með verkfallsaðgerðum. Þar hefur þeim mætt mikil fyrirstaða af hálfu ríkisins, lagasetning og aðrar áskoranir sem félögin hafa verið illa í stakk búin til að mæta. Skýrist það að talsverðu leyti af minnkaðri getu þessara félaga til að virkja félagsmenn sína og treysta á þolgæði þeirra og baráttuhug - stéttabarátta og verkfallsaðgerðir eru enda að verða gleymd þekking hjá velflestum íslenskum stéttarfélögum.
Lærdómur opinberu félaganna er því nokkuð skýr: Hvers vegna ættu þau að standa vörð um verkfallsrétt og sjálfstætt samningsumboð, sem þau kunna ekki lengur að nýta sér og geta ekki virkjað félagsmenn til, þegar miklu auðveldara er að treysta einfaldlega á að stéttarbræður þeirra hinum megin við samningaborðið vinni með þeim í að upphugsa snjallar leiðir til launahækkana framhjá kjarasamningum svo sem með stofnanasamningum, starfsmati o.s.frv.? Þá bætist einnig við að þessar stéttir eiga miklu mun auðveldara með að bera traust til sérfræðinganna sem myndu „útdeila svigrúminu“ samkvæmt Salek-líkani enda tilheyra þessir sérfræðingar sjálfir stétt þeirra. Þessar freistingar eru tælandi, jafnvel fyrir þær stéttir ríkisstarfsmanna sem eru síður líklegar til að njóta skilnings innan samninganefnda ríkisins og myndu svo sannarlega geta nýtt sér verkfallsaðgerðir til hagsbóta, svo sem hjúkrunarfræðinga og ljósmæður.
Stéttastríð BHM við láglaunafólk
Ástfóstur fulltrúa mið- og hátekjuhópa innan heildarsamtaka launafólks á bæði almenna og opinbera markaðinum við Salek stafar því ekki af því að þeir telji að með kerfinu sé hagsmunum allra betur borgið. Ástæðurnar eru miklu fremur þær að þessir fulltrúar hafa áttað sig á því þeirra eigin sérhagsmunagæslu er nú þegar ágætlega borgið utan við miðlæga kjarasamningsgerð – launatöflur kjarasamninga ríkisins eru ekki þakið heldur aðeins gólfið sem stofnanasamningar hlaða svo ofan á eins og hér hefur verið bent á. Auk þess sýnir reynslan að samfélagsumræðan og valdastofnanir samfélagsins hafa fullan skilning á því að hálaunaðir ríkisstarfsmenn taki meira til sín en aðrir með sérstökum ívilnunum. Það vakti þannig enga almenna hneykslan þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM samdi í skjóli nætur við fjármálaráðuneytið um að byggja inn sérstaka sveigju í launatöflur bandalagsins til að tryggja að hækkanir Lífskjarasamningsins myndu umbreytast í prósentuhækkanir hjá hærra launuðum ríkisstarfsmönnum. Var líkt og fjármálaráðuneytið og BHM hefðu skyndilega gleymt því að Lífskjarasamningarnir gerðu ráð fyrir krónutöluhækkunum. Á sama tíma voru láglaunakonur í Eflingu tjargaðar og fiðraðar í opinberri umræðu fyrir þá meintu sök að hlaupast undir merkjum miðlægrar kjarasamningagerðar þegar þær kröfðust þess að Reykjavíkurborg gerði þeim kleift að lifa af launum sínum.
Í íslenskri umræðuhefð tíðkast að draga fjöður yfir ágreining og ólíka hagsmuni. Það kom því hressilega á óvart þegar Friðrik Jónsson núverandi formaður BHM lýsti því yfir óvenju heiðarlega að hann vildi ekki láta „fórna á altari” sínum stéttarhagsmunum fyrir láglaunafólk. Einnig var það óvenjulega hreinskilin tjáning á hugarheimi efristéttar-menntafólks þegar BHM undir forystu Samfylkingarkonunnar Þórunnar Sveinbjörnsdóttur lét gera sérstök kynningarmyndbönd um láglaunakonuna Önnu og menntakonuna Berglindi, þar sem ætlunin var að sýna fram á hversu ósanngjarnt íslenskt samfélag væri í garð menntafólks samanborið við verka- og láglaunafólk. Myndbandið, sem er frá 2017, má enn finna á Youtube-rás BHM og er sjón sögu ríkari.
Eins og hér hefur verið rakið þá er saga Alþýðusambandsins og annarra hreyfinga launafólks síðustu 40 árin saga um jaðarsetningu verkafólks og hagsmuna þeirra innan sinna eigin hreyfinga. Í þessari sögu hefur í hverju skrefi verið hlaðið undir hina ört vaxandi fagmennta- og stjórnendastétt. Ekki aðeins hefur einbeitt og á köflum opinská stéttabarátta gegn hagsmunum verka- og láglaunafólks verið rekin af félögum á borð við BHM, heldur hafa fulltrúar stéttarinnar hreiðrað um sig í valdamestu embættum verkalýðshreyfingarinnar og stjórna henni í raun í dag. Í dag er það nánast regla fremur en undantekning að formenn í stærri félögum og samböndum komi úr röðum háttsettra starfsmanna félaganna. Sem dæmi má nefna að Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB var áður lögfræðingur samtakanna. Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis var áður framkvæmdastjóri sama félags. Dæmin af Ásmundi Stefánssyni og Gylfa Arnbjörnssyni hafa áður verið nefnt – og vert er að minna á að leið Drífu Snædal í forsetaembætti ASÍ var sú hin sama: úr starfi háttsetts starfsmanns, í hennar tilviki starfi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins.
Ég hef í þessum greinaflokki nefnt dæmi um tilvik þar sem menntaðir sérfræðingar og starfsfólk innan Alþýðusambandsins tóku fram fyrir hendurnar á lýðræðislega kjörnum leiðtogum og vilja félagsfólks. Miklu fleiri dæmi um þetta mætti nefna og rýna, svo sem þegar starfsfólk Alþýðusambandsins bjó sér til sérstakan „kvennavettvang” sem hittist á ráðstefnu úti á landi fyrr á þessu ári. Vettvangur þessi tók að senda frá sér ályktanir til miðstjórnar ASÍ um ýmis innri mál hreyfingarinnar og uppnefndi baráttu láglaunakvenna í Eflingu „lágvært tif”. Þegar ASÍ var beðið um að tilnefna fulltrúa í nefnd forsætisráðuneytisins um „sögulega vanmetin kvennastörf” þá var sá fulltrúi ekki úr röðum Eflingarkvenna, sem höfðu þá nýlega rétt lokið við sögulega uppreisn gegn láglaunastefnu Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga, heldur skipaði Drífa Snædal að sjálfsögðu menntakonu úr röðum starfsfólks skrifstofu sambandsins.
Í fyrstu grein minni ræddi ég um það sem ég, Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson eigum sameiginlegt. Við erum ekki aðeins „aðkomufólk” í þeim skilningi að vera ekki alin upp innan hinna mosavöxnu veggja hreyfingarinnar, við erum líka aðkomufólk í þeim að við erum öll óbreytt félagsfólk en ekki menntaðir sérfræðingar eða starfsmenn - við erum aðkomufólk í okkar eigin hreyfingum, sorglegt sem það er. Sú mikla óbeit og vanþóknun innan hreyfingarinnar sem okkur hefur mætt er á endanum m.a. rekjanleg til þess að við höfum leyft okkur að tala skýrt, ákveðið og heiðarlega um þjóðfélagsmál – hvort sem það er lífeyrissjóðakerfið, Salek-hugmyndafræðin, láglaunastefnan eða bankakerfið – án þess að leita fyrst leyfis og blessunar sérfræðinga. Einmitt þess vegna er málflutningur okkur annar en hjá öðrum og íhaldssamari leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar.
Að sjálfsögðu þarf verkalýðshreyfingin á öflugum sérfræðingum að halda og þarf að geta byggt málflutning sinn á þekkingu, greiningu og rannsóknum. En á síðustu fjórum áratugum hafa þessi valdahlutföll hallast um of og í raun snúist algjörlega á hvolf: félagsfólk í stéttarfélögum verkafólks eru orðin að þjónum fagmennta- og stjórnendastéttarinnar, stéttar sem því miður hefur að stórum hluta ánetjast orðræðu forystunnar um að menntun þeirra og önnur forréttindi séu aldrei nægilega „metin til launa”. Eitt af því sem þarf að leysa til að verkalýðshreyfingin losni úr yfirstandandi kreppu er að leiðrétta þennan viðsnúning. Ég ræði í næstu grein um víðara samhengi þessarar kreppu og enda greinina á tillögum um hvernig Alþýðusambandið geti snúið sig út úr henni.
Höfundur er formaður Eflingar.