Í fangi fagmenntastéttanna: Kreppa íslensku verkalýðshreyfingarinnar III

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar rekur sögu ágreinings innan Alþýðusambands Íslands síðustu fjögur ár, greinir frá sinni hlið mála og setur ágreininginn í pólitískt og sögulegt samhengi. Þetta er þriðja grein af fjórum.

Auglýsing

Í síð­ustu tveimur greinum var fjallað um gjánna milli verka­lýðs­bar­átt­unnar eins og ég skil hana og þeirrar hug­mynda­fræði, vinnu­bragða og menn­ingar sem ráða ríkjum í Alþýðu­sam­bandi Íslands. Mörg dæmi voru rakin um það hvernig hug­mynda­fræði stétta­sam­vinnu hefur tekið öll völd innan ASÍ, á kostnað bar­áttu félags­fólks, sjálf­stæðis hreyf­ing­ar­innar útá­við og lýð­ræðis í innra starfi. Þessir stjórn­ar­hættir Alþýðu­sam­bands­ins eru þó ekki afurð af sér­stökum áherslu­breyt­ingum á þeim tíma sem ég hef starfað innan hreyf­ing­ar­inn­ar, þar sem Drífa Snæ­dal var við völd sem for­seti, heldur órofa fram­hald af því hlut­verki sem sam­bandið hefur tekið á sig síð­ustu 40 árin eða svo. Það er full ástæða til að rekja þessa sögu.

Í hinni miklu sjálfsævi­sögu­legu yfir­ferð sinni um sögu íslenskra sós­í­alista og vinstra­fólks sem Kjartan Ólafs­son fyrrum þing­maður skrif­aði og gaf út árið 2020, Draumar og veru­leiki, er að finna litla en áhuga­verða frá­sögn. Kjartan segir frá sam­tali sem hann átti við Eðvarð Sig­urðs­son, fyrrum for­mann Dags­brún­ar, árið 1980. Eðvarð var leið­togi verka­fólks í mörgum af hatrömm­ustu deilum 20. ald­ar­innar á Íslandi um lífs­kjör og póli­tík, og var komm­ún­isti eins og flestir sem á þeim tímum sýndu dug og þor. Efni sam­tals­ins milli hans og Kjart­ans var valið á nýjum for­seta Alþýðu­sam­bands­ins. Eðvarð, sem var þá sjálfur kom­inn á efri ár, trúði Kjart­ani fyrir áhyggjum sín­um. Eðvarð taldi að sam­bandið stæði frammi fyrir tveimur val­kostum í emb­ætti for­set­ans. Ann­ars vegar var kom til greina Guð­mundur J. Guð­munds­son þáver­andi for­maður Dags­brún­ar. Eðvarð hafði átt mikið og náið sam­starf við Guð­mund Jaka og raunar stutt hann til að taka við af sér í for­manns­emb­ætti Dags­brún­ar. 

Eðvarð vissi þó sem var, að Guð­mundur Jaki var fremur ístöðu­laus mað­ur, eins og kom ágæt­lega í ljós aðeins nokkrum árum seinna þegar upp komst að Guð­mundur hafði þegið sól­ar­landa­ferð að gjöf frá skipa­fé­lög­unum Eim­skip og Haf­skip, tveimur stærstu launa­greið­endum Dags­brún­ar­fé­laga. Um þessar hliðar á per­sónu Guð­mundar hefur Eðvarð án efa vitað allt. Hinn val­kost­ur­inn var Ásmundur Stef­áns­son, hag­fræð­ingur og fram­kvæmda­stjóri ASÍ. Ásmundur var þekktur fyrir vamm­leysi og dugn­að, en Eðvarð – skarp­skyggn marx­isti og þraut­reyndur í stétta­bar­átt­unni – vissi að Ásmundur yrði aldrei full­trúi verka­fólks heldur myndi ganga erinda sinnar eigin stétt­ar, hinnar vax­andi fag­mennta- og stjórn­enda­stétt­ar.

Bylt­ing mennta­fólks­ins

Ásmundur varð ofan á í kjör­inu um for­seta ASÍ árið 1980, sem mark­aði vatna­skil í sögu sam­bands­ins. Þetta var í fyrsta skipti sem maður úr röðum starfs­fólks og sér­fræð­inga, en ekki félags­fólks, vald­ist til æðsta félags­lega kjörna emb­ættis í heild­ar­sam­tökum íslensks verka­fólks. Eftir þetta tók ASÍ að fjar­lægj­ast mjög eig­in­lega verka­lýðs­bar­áttu. Sam­bandið tók þess í stað upp hug­mynda­fræði stétta­sam­vinnu undir leið­sögn ein­stak­linga úr röðum fag­mennta- og stjórn­enda­stétt­anna. Ég kýs að nota hug­takið „fag­mennta- og stjórn­enda­stétt” sem þýð­ing á hug­tak­inu “pro­fessiona­l-manager­ial class” (PMC) sem John og Bar­bara Ehren­reich smíð­uðu í rit­gerð frá árinu 1977, en til­efni rit­gerð­ar­innar voru vanga­veltur þeirra yfir vax­andi hlut mennt­aðs milli­stétt­ar­fólks innan þeirra hreyf­ingu sem sögu­lega hafa skil­greint sig sem málsvara verka­fólks. Nýleg bók Catherine Liu, Virtue Hoarders„, hefur fjallað um áfram­hald þess­arar þró­unar með gagn­rýnum hætti og alþekkt rit­gerð Thom­asar Piketty Brahmin Left vs. Merchant Right” frá 2018 er í raun um sama við­fangs­efni

Auglýsing
Ég full­yrði að betra dæmi í íslensku sam­hengi um yfir­töku mennta­stétt­ar­innar á stofn­unum verka­fólks er ekki hægt að finna heldur en í Alþýðu­sam­bandi Íslands. Sú þróun varð mjög hröð og náði eins konar full­komnun aðeins tíu árum eftir spjall Eðvarðs og Kjart­ans með Þjóð­ar­sátt­ar-­samn­ing­unum árið 1990. Hag­fræði­mennt­aðir sér­fræð­ingar eins og Ásmundur og Þröstur Ólafs­son urðu hinir raun­veru­legu stjórn­endur íslensku verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. Það breytti engu þó svo að í emb­ætti for­seta ASÍ ættu næstu ára­tug­ina eftir að velj­ast í tvígang menn úr röðum félags­lega kjör­inna full­trúa, tré­smið­irnir Bene­dikt Dav­íðs­son og Grétar Þor­steins­son. Þeir réðu ekki, og það vissu all­ir. Mesta lífið í kjara­bar­áttu á íslenskum vinnu­mark­aði eftir 1980 var vel að merkja ekki hjá aðild­ar­fé­lögum ASÍ, heldur hjá BSRB og kenn­ur­um.

Vax­andi völd fag­mennta- og stjórn­enda­stétt­ar­inn­ar, þró­unin sem Eðvarð Sig­urðs­son sá fyrir og ótt­að­ist, voru því miður að miklu leyti á kostnað áhrifa hins almenna félags­fólks. Um leið urðu félags­lega kjörnu leið­tog­arnir atkvæða­minni og veik­lund­aðri. Trén­aðir for­menn duttu úr tengslum við bar­áttu félags­fólks og nutu þess í stað þæg­inda­lífs á góðum launum inni á skrif­stofum félag­anna. Vinn­an, sem nú fólst ein­göngu í rann­sóknum og skýrslu­gerð en ekki vinnu­staða­fundum eða und­ir­bún­ingi verk­falls­að­gerða, var unnin af hinum nýju herrum: sér­fræð­ingum úr röðum fag­mennta- og stjórn­enda­stétt­ar­innar sem sjálfir áttu hags­muni sína ekki undir sigrum í bar­áttu verka­fólks heldur árangri stétt­ar­fé­laga mennta­fólks svo sem BHMR sem síðar fékk heitið BHM..

Hringekjur valds­ins

Allan níunda og tíunda ára­tug­inn og fram yfir alda­mótin 2000 var vax­andi stétta­sam­vinna og trú á sér­fræð­inga­vald meg­in­stefið í áherslum Alþýðu­sam­band­ið. Áber­andi varð að þeir ein­stak­lingar sem bit­ust um for­ystu og ábyrgð innan Alþýðu­sam­bands­ins ílengd­ust þar ekki, heldur létu „hringekj­una“ sem lýst var hér að ofan aka sér um brautir fram­ans innan rík­is­stofn­ana og fyr­ir­tækja. Sem dæmi um þetta má nefna Ara Skúla­son, fram­kvæmda­stjóra ASÍ á árunum 1994-2001 sem bauð sig fram gegn Grét­ari Þor­steins­syni sitj­andi for­seta árið 2000, en end­aði svo sem yfir­maður við­skipta og hag­rann­sókna hjá Lands­bank­an­um. Ólafur Darri Andra­son var í 13 ár yfir­maður hag­deildar ASÍ, en gekk síðar í starf fram­kvæmda­stjóra fjár­mála­sviðs hjá Land­spít­al­an­um.

Aðrir fyrrum hag­fræð­ingar og lög­fræð­ingar ASÍ hafa endað í hátt­settum emb­ættum hjá Seðla­bank­an­um, Rík­is­sátta­semj­ara og víð­ar. Raunar hefur ótölu­legur fjöldi hag­fræð­inga starfað í skemmri tíma fyrir Alþýðu­sam­bandið á síð­ustu ára­tugum og farið með öll völd í stefnu­mótun sam­bands­ins, en nær allir sem einn síðar horfið til starfa fyrir stofn­anir og aðila sem vart geta talist banda­menn íslensks verka­fólks. Það væri sann­ar­lega verð­ugt verk­efni fyrir rann­sókn­ar­blaða­mann að taka saman tölur um það hversu margir af sér­fræð­ingum Alþýðu­sam­bands­ins á und­an­gengnum ára­tugum hafa endað í störfum fyrir atvinnu­rek­end­ur, stjórn­völd og launa­deildir hins opin­bera.

Sama hefur átt við um sér­fræð­inga hjá aðild­ar­fé­lögum sam­bands­ins. Þar má nefna sem dæmi Hörpu Ólafs­dóttur sem ráðin var í starf deild­ar­stjóra kjara­deildar Reykja­vík­ur­borg og um leið gerð að for­manni samn­inga­nefndar borg­ar­inn­ar, aðeins nokkrum vikum eftir að hún sagði upp störfum hjá Efl­ingu þegar ég tók við for­mennsku í félag­inu. Hún hafði þá starfað hjá Efl­ingu í 15 ár, m.a. sem for­stöðu­maður kjara­mála­sviðs Efl­ingar og helsti sér­fræð­ingur félags­ins í kjara­samn­ingum á opin­bera mark­aðn­um. Ekk­ert lát er á þess­ari þró­un, sem hefur nú byrjað að gera vart við sig hjá félags­lega kjörnum full­trú­um. Dæmi um það er þegar Guð­laug Líney Jóhanns­dóttir for­maður Flug­freyju­fé­lags Íslands á tímum mik­illa átaka við Icelandair flutti sig yfir borðið í júní 2022 og hóf störf sem deild­ar­stjóri launa­deildar flug­fé­lags­ins. 

Auglýsing
Þegar Gylfi Arn­björns­son tók við emb­ætti for­seta ASÍ árið 2008 hafði hann áður gegnt stöðu hag­fræð­ings og fram­kvæmda­stjóra sam­bands­ins, rétt eins og Ásmundur Stef­áns­son. Upp­runi Gylfa í röðum fag­mennta- og stjórn­un­ar­stétt­ar­innar var því algjör­lega hrein­rækt­að­ur. Helsta keppi­kefli Gylfa í emb­ætti var að inn­leiða „nor­rænt vinnu­mark­aðs­mód­el“, öðru nafni Salek, sem ég hef komið inn á fyrri grein­um. Til upp­rifj­unar þá þýðir Salek-­mód­elið afnám verk­falls­réttar og sjálf­stæðs samn­ings­réttar stétt­ar­fé­laga og að launa­setn­ing allra hópa sem taka laun eftir kjara­samn­ingum er sett í hendur á mið­stýrðri nefnd sér­fræð­inga sem ákveður hvert  „svig­rúm­ið“ er til hækk­ana sem að sjálf­sögðu eru ávallt pró­sentu­hækk­anir sem við­halda ójöfn­uði. Salek-hug­mynda­fræðin er beint fram­hald af Þjóð­ar­sátt­ar-lík­an­inu, þar sem öll áhersla er á halda niðri launa­hækk­unum almenns launa­fólks í þeirri von að hærra laun­aðar stéttir sýni sama sjálf­saga og fórn­fýsi, þannig að hafa megi upp úr krafs­inu meiri stöð­ug­leika og aukn­ingu kaup­mátt­ar. 

Hug­myndin sem spilar stórt hlut­verk í Salek-hug­mynda­fræð­inni – að horfa á kaup­mátt launa fremur en nafn­launa­hækk­anir einum og sér – er að sjálf­sögðu ekki frá­leit, en raun­veru­leik­inn styður hins vegar ekki þá full­yrð­ingu að aðhald í launa­kröfum verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar leiði sjálf­krafa til auk­ins kaup­mátt­ar. Gögn sem Stefán Ólafs­son hefur tekið saman sýna að kaup­máttur launa­fólks jókst meira fyrir Þjóð­ar­sátt en eft­ir, en sú stað­reynd virð­ist ekki trufla átrúnað fag­mennta­stétt­anna á þau öfug­mæli að veiklun stétta­bar­átt­unnar leiði til betri kjara fyrir almennt launa­fólk.

Erind­is­lausir Evr­ópu­kratar

Salek-hug­mynda­fræðin rím­aði einnig við draum­sýn íslenskra hægri-sós­í­alde­mókrata og frjáls­lyndra miðju­manna, aðal­lega innan Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, um inn­göngu lands­ins í Evr­ópu­sam­bandið og upp­töku evru. Hin frjáls­lynda miðja í íslenskum stjórn­málum trúir því að gjald­mið­ils-­skipti séu sér­stakt galdra­tæki í bar­átt­unni fyrir sam­fé­lags­legu rétt­læti jafn­vel þótt ekk­ert bendi til að lífs­kjör eða skipt­ing gæða sé betri í löndum Evru­væð­is­ins sam­an­borið við Ísland. Efna­hags­hrunið 2008, sem eins og áður var nefnt hafði mikil áhrif á mig og aðra leið­toga nýju verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar, leiddi ekki til neinnar end­ur­skoð­unar á trúnni á Salek-hug­mynda­fræð­ina og teknókrat­ískar lausnir á borð við Evr­u-­upp­töku innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. For­ysta ASÍ hélt áfram ótrauð á sinni stétta­sam­vinn­u-braut, jafn­vel eftir að löngu varð aug­ljóst að íslenska yfir­stéttin virti að engu leyti skil­mála Þjóð­ar­sátt­ar­innar heldur nýtti sér einka­væð­ingar Dav­íðs-ár­anna og óheftan fjár­málakap­ít­al­isma í kjöl­farið til að skammta sér áður óþekkta hlut­deild af auði sam­fé­lags­ins með hræði­legum afleið­ing­um. Vinnu­mark­aðsórói átt­unda og níunda ára­tug­ar­ins, sem mikið var gert úr í stétta­sam­vinn­u-­mál­flutn­ingi ASÍ og ávallt sýndur í nei­kvæðu ljósi, bliknar í þeim sam­an­burði. Eigna- og tekju­ó­jöfn­uður meðal Íslend­inga jókst veru­lega á árunum eftir Þjóð­ar­sátt­ina, og öllum hömlum var á sama tíma hleypt af mark­aðsvæð­ingu hús­næð­is­mála sem aftur leiddi til gríð­ar­legrar lífs­gæða­skerð­ingar launa­fólks, ekki síst hinna tekju­lægstu.

Erind­is­leysi teknókratans Gylfa í emb­ætti for­seta ASÍ varð mörgum ljóst í Hrun­inu og Bús­á­halda­bylt­ing­unni 2008-2009. Fjar­vera hins nýkjörna for­seta ASÍ úr allri gagn­rýnni sam­fé­lags­um­ræðu um Hrunið varð strax mjög áber­andi og vand­ræða­leg. Þetta gaf til kynna að for­ysta verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar ofmat traust almenn­ings til stétta­sam­vinnu og sér­fræð­inga­veldis og van­mat til­vist þeirrar kröfu meðal íslensks almenn­ings að á land­inu ætti að vera starf­andi verka­lýðs­hreyf­ingin sem hefði bit, kjark og þor. Engar breyt­ingar voru þó gerðar í áherslum eða hug­mynda­fræði verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar eins og fyrr seg­ir, á meðan eldar log­uðu fyrir utan Alþing­is­húsið og nýjar hrær­ingar og hreyf­ingar mynd­uð­ust í sam­fé­lag­inu. Smátt og smátt varð Gylfi feikn­ar­lega óvin­sæll og traust til Alþýðu­sam­bands­ins mæld­ist sára­lítið í könn­unum - sem ASÍ lét gera en pass­aði að kæmu ekki fyrir almenn­ings­sjón­ir. Jafn­vel þótt ástand efnahagsmála skán­aði eftir því sem leið frá Hrun­inu þá var Alþýðu­sam­bandið alveg jafn óvin­sælt og í reynd æ umboðs­laus­ara eftir því sem þátt­taka félags­fólks í hreyf­ing­unni varð minni og minni.

Villi­götur Salek-hug­mynda­fræð­innar

Kjör mitt og Ragn­ars Þórs á árunum 2017-2018 sýndi þó fram á nokkuð sem fáir virt­ust hafa gert ráð fyr­ir: að til staðar væri ein­beittur vilji félags­manna í stærstu aðild­ar­fé­lögum ASÍ til breyt­inga og upp­stokk­un­ar. Salek-verk­efnið steytti einnig á skeri á þingi Alþýðu­sam­bands­ins árið 2016, ekki vegna skorts á vilja hjá fag­mennta- og sér­fræð­inga­stétt­unum sem ráða ríkjum í verka­lýðs­hreyf­ing­unni, heldur vegna skorts á lýð­ræð­is­legu umboði. Salek-hug­myndum Gylfa Arn­björns­sonar var hafnað á þing­inu í atkvæða­greiðslu.

Eins og hér hefur verið rætt þá er fylgi­spekt ASÍ við Salek-verk­efnið ein­stak­lega djúp. Svo djúp að verk­efnið hefur haldið áfram að ráða för þrátt fyrir afger­andi höfnun Salek-hug­mynda­fræð­inni á hverjum ein­asta félags­lega vett­vangi innan hreyf­ing­ar­innar sem hægt er að ímynda sér. Ótrú­leg­asta dæmið um það er sam­þykki Drífu Snæ­dal við hinu svo­kall­aða Græn­bók­ar-verk­efni, sem ég rakti í síð­ustu grein. 

En hvaðan sprettur þessi gríð­ar­lega mikli áhugi stjórn­valda og elítu fag­mennta- og stjórn­un­ar­stétt­ar­innar innan verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar á þessu verk­efni? Hvers vegna er áhug­inn ekki bund­inn við mál­pípur auð­valds­stétt­ar­innar eins og Þor­stein Víglunds­son sem reglu­lega stígur fram á rit­völl­inn til að mæra Salek? Ein ástæða er sú að sumir í for­ystu hreyf­ing­ar­innar trúa því í ein­lægni að kjara­málum almenn­ings sé best borgið undir slíku kerfi. Rökin fyrir þessu eru að sams konar kerfi virki vel á Norð­ur­lönd­un­um. Þar séu lífs­kjör með því besta sem þekk­ist í heim­in­um, verð­lag nokkuð stöðugt, kaup­máttur bæri­legur og vel­ferð­ar­kerfin stöndug. Það sé þess virði að fórna verk­falls­vopn­inu og dreif­stýrðu samn­ings­um­boði stétt­ar­fé­laga til að ná þessu fram. Þetta er rök sem vel er vert að hlusta á, en þau stand­ast samt sem áður ekki skoð­un. Aðstæður eru allt aðrar hér á landi en á Norð­ur­lönd­un­um. Hér eru vel­ferð­ar­kerfin veik­ari, eins og lesa má um í nýlegri grein­ingu Stef­áns Ólafs­son fyrir Kjara­f­réttir Efl­ingar. Hús­næð­is­mark­að­ur­inn er ekki studdur af öfl­ugum leigu­fé­lögum sem stjórnað er á félags­legum for­send­um. Vaxta­stig hús­næð­is­lána er miklu lægra. Fyrir íslenskt launa­fólk er því miklu erf­ið­ara að treysta á annað en þau laun og kjör sem um semst í kjara­samn­ing­um.

Sáttin sem aldrei varð

Þá er það enn fremur aug­ljóst að íslensku þjóð­fé­lagi mistókst algjör­lega að fram­kalla þá „sátt“ sem átti að fel­ast í hinni svoköll­uðu Þjóð­ar­sátt um 1990. Efri tekju­hópar virtu ekki með nokkru móti það aðhald í launa­setn­ingu sem þar átti að nást fram, og ýmist fundu sér eða voru afhentar af stjórn­völdum ýmsar und­an­bragða­leið­ir, til dæmis hið gjöf­ula kvóta­kerfi, til þess að auka tekjur sínar og gera það jafn­vel fram­hjá skatt­kerf­inu. Taum­laus græðg­is- og fjár­mála­væð­ing áranna eftir Þjóð­ar­sátt­ina end­aði með Hrun­inu og var mjög skýr vitn­is­burður um þá sjálftöku sem festi sig í sessi meðal hálauna- og valda­stétt­ar­inn­ar. Í ljósi þess að Salek átti að vera nátt­úru­legt fram­hald af Þjóð­ar­sátt­inni hlýtur þessi lær­dóm­ur, varð­andi óheil­indi auð­stétt­ar­innar gagn­vart hvers kyns sam­komu­lagi, að setja stórt strik í reikn­ing­inn. Í rétt­læt­ing­ar-orð­ræð­unni í kringum Salek er hins vegar aldrei fjallað um íslenska efna­hags­hrunið og ábyrgð­ar­leysi yfir­stétt­ar­inn­ar, hvað þá eðl­is­læga til­hneig­ingu kap­ít­al­ism­ans til ójafn­væg­is, bólu­mynd­unar og kreppu, heldur er sjónum ein­göngu beint að átökum íslensks vinnu­mark­aðar mörgum ára­tugum fyrr, líkt og kreppur og óstöð­ug­leiki heim­skap­ít­al­ism­ans í dag skýrist af verk­falls­gleði BSR­B-­fé­laga árið 1984.

Áhuga­vert er að lesa skýrsl­urnar sem hag­fræð­ing­ur­inn Steinar Holden útbjó fyrir aðila vinnu­mark­að­ar­ins til stuðn­ings Salek. Grunn­sann­indi varð­andi íslenskan vinnu­mark­að, sögu og þjóð­fé­lag eru norska hag­fræð­ingnum algjör­lega hul­in. Átak­an­leg­ast af öllu er þó tengsla­leysið við raun­veru­leika og vilja íslensks almenn­ings í kjöl­far efna­hags­hruns­ins 2008, en það virð­ist sem eng­inn hafi bent norska hag­fræð­ingnum á að í ástandi djúps van­trausts í garð allra stofn­ana, bæði á vinnu­mark­aði og hins opin­bera, væri það e.t.v. nokkuð á bratt­ann að sækja að sann­færa alla Íslend­inga á vinnu­mark­aði um ágæti þess að fara í stór­kost­lega áhættu­samt sam­fé­lags­legt til­rauna­verk­efni undir for­ystu þess­ara sömu stofn­ana.

Stéttin sem semur við sjálfa sig

En ástæð­urnar fyrir því mikla ást­fóstri sem leið­togar heild­ar­sam­taka launa­fólks – ASÍ, BSRB, BHM og KÍ – tóku við Salek-verk­efnið voru því miður ekki aðeins þær að for­ystu­fólk tryði, rang­lega en þó ef til vill í ein­lægni, að slíkt vinnu­mark­aðslíkan myndi bæta lífs­kjör allra. Aðrar ástæður spil­uðu inn í. Ein skýr­ing er sú að stórir hópar rík­is­starfs­manna, sér­stak­lega þeirra sem eru með með­al­tekjur og yfir, hafa á síð­ustu ára­tugum fengið að njóta mik­ils skiln­ings og íviln­ana í sam­skiptum við sína við­semj­endur í Fjár­mála­ráðu­neyt­inu. Hefur þetta gefið vel í aðra hönd, en með­al­laun rík­is­starfs­manna eru nú komin yfir 900 þús­und krónur á mán­uði sam­kvæmt opin­berum launa­gögn­um. Fyrir þess­ari laus­beisl­uðu launa­þróun hærra settra rík­is­starfs­manna er meðal ann­ars sú ofurein­falda ástæða að við­semj­endur þeirra – samn­inga­nefndir Reykja­vík­ur­borg­ar, Fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins og ann­arra opin­berra stofn­ana – eru undir for­ystu ein­stak­linga sem koma úr þeirra eigin röð­um, það er að segja hátt­settra, mennt­aðra sér­fræð­inga á launum hjá rík­inu – launum sem við­kom­andi stétt­ar­fé­lag semur um! Kemur þar líka oft til sög­unar „hringekj­an“ sem minnst hefur verið á áður í þess­ari grein, en sem dæmi má nefna að Hall­dóra Frið­jóns­dóttir fyrrum for­maður BHM situr í samn­inga­nefnd fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins sem fer með alla kjara­samn­inga­gerð rík­is­ins. Einn helsti samn­inga­maður Reykja­vík­ur­borgar er Birgir Björn Sig­ur­jóns­son sem gegndi ára­tugum saman stöðu sér­fræð­ings hjá BHM. Þarna er í raun um að ræða stétt sem semur við sjálfa sig.

Auglýsing
Mikilvægt er að taka fram að ég er hér ekki að tala um rík­is­starfs­menn sem vinna í erf­iðum fram­línu­störfum og beinni snert­ingu við skjól­stæð­inga, sumir í slít­andi vakta­vinnu og aðrir við óboð­legt álag og und­ir­mönn­un, hvort sem þeir eru sér­fræði­mennt­aðir eða ekki. En það er líka mik­il­vægt að átta sig á því að ég er heldur ekki að tala um þá allra hæst laun­uðu rík­is­starfs­menn sem mikið hafa verið í umræð­unni. Kast­ljósi hefur sann­ar­lega oft verið beint að sjálftöku og launa­skriði hálaun­aðra emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem áður heyrðu undir Kjara­ráð – alþing­is­manna, dóm­ara, for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana o.s.frv. – en minna hefur farið fyrir þeim fjöl­breyttu leiðum til kjara­bóta sem ákveðnir hópar rík­is­starfs­manna hafa getað tryggt sér á síð­ustu árum fram­hjá mið­lægri kjara­samn­inga­gerð.

Laus­beisluð launa­kjör

Þá skiptir líka máli að launa­myndun hjá rík­inu hefur á síð­ustu árum orðið miklu dreif­stýrð­ari en áður var. Hefur þetta gerst í gegnum svo­kall­aða stofn­ana­samn­inga, þar sem fjár­veit­ingar til ein­stakra stofn­ana stýra því í hvaða launa­flokka störfin rað­ast hjá við­kom­andi stofn­un. Sama starfs­heitið getur þannig verið með mis­mun­andi launa­setn­ingu eftir því hjá hvaða rík­is­stofnun er unn­ið, og eru áhrifin af þessu aldrei til lækk­unar heldur ein­göngu til hækk­un­ar. Launa­setn­ing rík­is­starfs­manna fer því aðeins að litlu leyti eftir nið­ur­stöðum kjara­samn­inga, öfugt það sem mætti halda af umræð­unni. Þetta er ólíkt sveit­ar­fé­lög­unum þar sem sama launa­tafla er oft­ast bæði þakið og gólfið í launa­setn­ingu starfs­heitis hjá öllum sveit­ar­fé­lögum og vinnu­stöðum þeirra landið um kring. 

Þessi dreif­stýrða launa­setn­ing hjá rík­inu, þar sem launa­töflur mynda ekki lengur þak heldur aðeins gólf, er stað­reynd sem ekki hefur fengið mikla við­ur­kenn­ingu eða athygli í opin­berri umræðu um kjara­mál á Íslandi þó svo að rík­is­starfs­menn séu flestir hverjir vel með­vit­aðir um þetta. Hefur það svig­rúm sem þannig skap­ast verið nýtt, oft frjáls­lega og fjarri sviðs­ljós­inu, til að lyfta tak­mörk­unum á launa­setn­ingu sér­fræð­inga og stjórn­enda, miklu fremur en að þetta fyr­ir­komu­lag nýt­ist lág- og milli­tekju­fólki eða þeim sem erf­ið­ustu störfin vinna hjá rík­inu.

Leið þæg­ind­anna

Í stuttu máli þá hefur þetta fyr­ir­komu­lag leitt til þess að stétt­ar­fé­lög hærra laun­aðra rík­is­starfs­manna treysta vel sínum við­semj­end­um. Enda er auð­velt að við­halda sátt, sam­vinnu og sann­girni þegar hags­munir fara saman - sá sem fer fyrir samn­inga­nefnd rík­is­ins er í reynd að semja um sín eigin kjör! Hvers vegna að stunda bar­áttu, til að mynda verk­föll, þegar kjara­bæt­urnar fást nán­ast að gjöf? Í þessu sam­hengi verður svo auð­vitað að horfa á þann tak­mark­aða árangur sem opin­berir starfs­menn hafa haft upp úr krafs­inu þegar vissir hópar þeirra hafa ákveðið að láta sverfa til stáls með verk­falls­að­gerð­um. Þar hefur þeim mætt mikil fyr­ir­staða af hálfu rík­is­ins, laga­setn­ing og aðrar áskor­anir sem félögin hafa verið illa í stakk búin til að mæta. Skýrist það að tals­verðu leyti af minnk­aðri getu þess­ara félaga til að virkja félags­menn sína og treysta á þol­gæði þeirra og bar­áttu­hug - stétta­bar­átta og verkfalls­að­gerðir eru enda að verða gleymd þekk­ing hjá vel­flestum íslenskum stétt­ar­fé­lög­um. 

Lær­dómur opin­beru félag­anna er því nokkuð skýr: Hvers vegna ættu þau að standa vörð um verk­falls­rétt og sjálf­stætt samn­ings­um­boð, sem þau kunna ekki lengur að nýta sér og geta ekki virkjað félags­menn til, þegar miklu auð­veld­ara er að treysta ein­fald­lega á að stétt­ar­bræður þeirra hinum megin við samn­inga­borðið vinni með þeim í að upp­hugsa snjallar leiðir til launa­hækk­ana fram­hjá kjara­samn­ingum svo sem með stofn­ana­samn­ing­um, starfs­mati o.s.frv.? Þá bæt­ist einnig við að þessar stéttir eiga miklu mun auð­veld­ara með að bera traust til sér­fræð­ing­anna sem myndu „út­deila svig­rúm­inu“ sam­kvæmt Salek-lík­ani enda til­heyra þessir sér­fræð­ingar sjálfir stétt þeirra. Þessar freist­ingar eru tælandi, jafn­vel fyrir þær stéttir rík­is­starfs­manna sem eru síður lík­legar til að njóta skiln­ings innan samn­inga­nefnda rík­is­ins og myndu svo sann­ar­lega geta nýtt sér verk­falls­að­gerðir til hags­bóta, svo sem hjúkr­un­ar­fræð­inga og ljós­mæð­ur.

Auglýsing
Fleiri ástæður eru fyrir því að ákveðnir hópar á vinnu­mark­aði og stétt­ar­fé­lög þeirra hafa orðið afhuga kjara­bar­áttu. Iðn­að­ar­menn og skrif­stofu­fólk af milli­stétt eru til dæmis í þeirri stöðu að launa­kjör þeirra taka ekki mikið mið að kjara­samn­ing­um. Þessir hópar eru á mark­aðs­launum sem mót­ast af fram­boði og eft­ir­spurn og hafa í gegnum árin getað treyst á að þensla í íslensku efna­hags­lífi tryggi stöðuga eft­ir­spurn eftir starfs­kröftum þeirra sem þau hafa getað nýtt til að ýta launum upp án þess að slíkt krefj­ist bind­ingar í kjara­samn­inga. Stétt­ar­fé­lög þess­ara hópa, líkt og félög rík­is­starfs­manna, hafa auk þess látið þá félags­legu vöðva visna sem gætu knúið fram kjara­bætur með rót­tæk­ari aðgerð­um, svo sem verk­föll­um. Hví ekki að gera það þegar leið þæg­ind­anna er greið­fær?

Stétta­stríð BHM við lág­launa­fólk

Ást­fóstur full­trúa mið- og hátekju­hópa innan heild­ar­sam­taka launa­fólks á bæði almenna og opin­bera mark­að­inum við Salek stafar því ekki af því að þeir telji að með kerf­inu sé hags­munum allra betur borg­ið. Ástæð­urnar eru miklu fremur þær að þessir full­trúar hafa áttað sig á því þeirra eigin sér­hags­muna­gæslu er nú þegar ágæt­lega borgið utan við mið­læga kjara­samn­ings­gerð – launa­töflur kjara­samn­inga rík­is­ins eru ekki þakið heldur aðeins gólfið sem stofn­ana­samn­ingar hlaða svo ofan á eins og hér hefur verið bent á. Auk þess sýnir reynslan að sam­fé­lags­um­ræðan og valda­stofn­anir sam­fé­lags­ins hafa fullan skiln­ing á því að hálaun­aðir rík­is­starfs­menn taki meira til sín en aðrir með sér­stökum íviln­un­um. Það vakti þannig enga almenna hneykslan þegar Þór­unn Svein­bjarn­ar­dóttir for­maður BHM samdi í skjóli nætur við fjár­mála­ráðu­neytið um að byggja inn sér­staka sveigju í launa­töflur banda­lags­ins til að tryggja að hækk­anir Lífs­kjara­samn­ings­ins myndu umbreyt­ast í pró­sentu­hækk­anir hjá hærra laun­uðum rík­is­starfs­mönn­um. Var líkt og fjár­mála­ráðu­neytið og BHM hefðu skyndi­lega gleymt því að Lífs­kjara­samn­ing­arnir gerðu ráð fyrir krónu­tölu­hækk­un­um. Á sama tíma voru lág­launa­konur í Efl­ingu tjarg­aðar og fiðr­aðar í opin­berri umræðu fyrir þá meintu sök að hlaup­ast undir merkjum mið­lægrar kjara­samn­inga­gerðar þegar þær kröfð­ust þess að Reykja­vík­ur­borg gerði þeim kleift að lifa af launum sín­um.

Í íslenskri umræðu­hefð tíðkast að draga fjöður yfir ágrein­ing og ólíka hags­muni. Það kom því hressi­lega á óvart þegar Frið­rik Jóns­son núver­andi for­maður BHM lýsti því yfir óvenju heið­ar­lega að hann vildi ekki láta „fórna á alt­ari” sínum stétt­ar­hags­munum fyrir lág­launa­fólk. Einnig var það óvenju­lega hrein­skilin tján­ing á hug­ar­heimi efri­stétt­ar-­mennta­fólks þegar BHM undir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­kon­unnar Þór­unnar Svein­björns­dóttur lét gera sér­stök kynn­ing­ar­mynd­bönd um lág­launa­kon­una Önnu og mennta­kon­una Berg­lindi, þar sem ætl­unin var að sýna fram á hversu ósann­gjarnt íslenskt sam­fé­lag væri í garð mennta­fólks sam­an­borið við verka- og lág­launa­fólk. Mynd­band­ið, sem er frá 2017, má enn finna á Youtu­be-rás BHM og er sjón sögu rík­ari.

Eins og hér hefur verið rakið þá er saga Alþýðu­sam­bands­ins og ann­arra hreyf­inga launa­fólks síð­ustu 40 árin saga um jað­ar­setn­ingu verka­fólks og hags­muna þeirra innan sinna eigin hreyf­inga. Í þess­ari sögu hefur í hverju skrefi verið hlaðið undir hina ört vax­andi fag­mennta- og stjórn­enda­stétt. Ekki aðeins hefur ein­beitt og á köflum opin­ská stétta­bar­átta gegn hags­munum verka- og lág­launa­fólks verið rekin af félögum á borð við BHM, heldur hafa full­trúar stétt­ar­innar hreiðrað um sig í valda­mestu emb­ættum verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og stjórna henni í raun í dag. Í dag er það nán­ast regla fremur en und­an­tekn­ing að for­menn í stærri félögum og sam­böndum komi úr röðum hátt­settra starfs­manna félag­anna. Sem dæmi má nefna að Sonja Ýr Þor­bergs­dóttir for­maður BSRB var áður lög­fræð­ingur sam­tak­anna. Þór­ar­inn Eyfjörð for­maður Sam­eykis var áður fram­kvæmda­stjóri sama félags. Dæmin af Ásmundi Stef­áns­syni og Gylfa Arn­björns­syni hafa áður verið nefnt – og vert er að minna á að leið Drífu Snæ­dal í for­seta­emb­ætti ASÍ var sú hin sama: úr starfi hátt­setts starfs­manns, í hennar til­viki starfi fram­kvæmda­stjóra Starfs­greina­sam­bands­ins. 

Ég hef í þessum greina­flokki nefnt dæmi um til­vik þar sem mennt­aðir sér­fræð­ingar og starfs­fólk innan Alþýðu­sam­bands­ins tóku fram fyrir hend­urnar á lýð­ræð­is­lega kjörnum leið­togum og vilja félags­fólks. Miklu fleiri dæmi um þetta mætti nefna og rýna, svo sem þegar starfs­fólk Alþýðu­sam­bands­ins bjó sér til sér­stakan „kvenna­vett­vang” sem hitt­ist á ráð­stefnu úti á landi fyrr á þessu ári. Vett­vangur þessi tók að senda frá sér álykt­anir til mið­stjórnar ASÍ um ýmis innri mál hreyf­ing­ar­innar og upp­nefndi bar­áttu lág­launa­kvenna í Efl­ingu „lág­vært tif”. Þegar ASÍ var beðið um að til­nefna full­trúa í nefnd for­sæt­is­ráðu­neyt­is­ins um „sögu­lega van­metin kvenna­störf” þá var sá full­trúi ekki úr röðum Efl­ing­ar­kvenna, sem höfðu þá nýlega rétt lokið við sögu­lega upp­reisn gegn lág­launa­stefnu Reykja­vík­ur­borgar og sveit­ar­fé­laga, heldur skip­aði Drífa Snæ­dal að sjálf­sögðu mennta­konu úr röðum starfs­fólks skrif­stofu sam­bands­ins.

Í fyrstu grein minni ræddi ég um það sem ég, Ragnar Þór Ing­ólfs­son og Vil­hjálmur Birg­is­son eigum sam­eig­in­legt. Við erum ekki aðeins „að­komu­fólk” í þeim skiln­ingi að vera ekki alin upp innan hinna mosa­vöxnu veggja hreyf­ing­ar­inn­ar, við erum líka aðkomu­fólk í þeim að við erum öll óbreytt félags­fólk en ekki mennt­aðir sér­fræð­ingar eða starfs­menn - við erum aðkomu­fólk í okkar eigin hreyf­ing­um, sorg­legt sem það er. Sú mikla óbeit og van­þóknun innan hreyf­ing­ar­innar sem okkur hefur mætt er á end­anum m.a. rekj­an­leg til þess að við höfum leyft okkur að tala skýrt, ákveðið og heið­ar­lega um þjóð­fé­lags­mál – hvort sem það er líf­eyr­is­sjóða­kerf­ið, Salek-hug­mynda­fræð­in, lág­launa­stefnan eða banka­kerfið – án þess að leita fyrst leyfis og bless­unar sér­fræð­inga. Einmitt þess vegna er mál­flutn­ingur okkur annar en hjá öðrum og íhalds­sam­ari leið­togum verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar.

Að sjálf­sögðu þarf verka­lýðs­hreyf­ingin á öfl­ugum sér­fræð­ingum að halda og þarf að geta byggt mál­flutn­ing sinn á þekk­ingu, grein­ingu og rann­sókn­um. En á síð­ustu fjórum ára­tugum hafa þessi valda­hlut­föll hall­ast um of og í raun snú­ist algjör­lega á hvolf: félags­fólk í stétt­ar­fé­lögum verka­fólks eru orðin að þjónum fag­mennta- og stjórn­enda­stétt­ar­inn­ar, stéttar sem því miður hefur að stórum hluta ánetj­ast orð­ræðu for­yst­unnar um að menntun þeirra og önnur for­rétt­indi séu aldrei nægi­lega „metin til launa”. Eitt af því sem þarf að leysa til að verka­lýðs­hreyf­ingin losni úr yfir­stand­andi kreppu er að leið­rétta þennan við­snún­ing. Ég ræði í næstu grein um víð­ara sam­hengi þess­arar kreppu og enda grein­ina á til­lögum um hvernig Alþýðu­sam­bandið geti snúið sig út úr henni.

Höf­undur er for­maður Efl­ing­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar