Á aðeins ellefu árum hefur íbúðalánakerfi Íslendinga tekið stakkaskiptum. Í ágúst 2004 hófu viðskiptabankar að bjóða húsnæðislán, í samkeppni við Íbúðalánasjóð, og hefur markaðurinn frá þeim tíma umbreyst hratt.
Snemma í ferlinu á þessum breytingum, eða rúmum fjórum árum eftir fyrrnefnda breytingu, varð kerfishrun á fjármálamarkaði. Bankakerfið var endurreist, en íbúðalánamarkaðurinn hefur að grunni til lítið sem ekkert breyst nema hvað hlutverk Íbúðalánasjóðs á markaðnum er nú hverfandi og ekki liggur fyrir ennþá hvernig það á að vera til framtíðar litið.
Kúvending á skömmum tíma
Um 95 prósent af íbúðalánum eru nú veitt af viðskiptabönkunum og því sem eftir stendur af sparisjóðakerfinu, sem er reyndar líka að minnka hratt og renna inn í bankakerfið. Um 5 prósent eru hjá Íbúðalánasjóði, sé miðað við ný útlán. Smátt og smátt er hlutverk Íbúðalánasjóðs því að hverfa næstum alveg, hvað sem líður ætluðu hlutverki hans lögum samkvæmt. Fólk velur einfaldlega að skipta ekki við Íbúðalánasjóð, enda eru aðrar lánastofnanir að bjóða betri vaxtakjör, fjölbreyttari lánamöguleika (verðtryggð, óverðtryggð og blönduð) og hærri upphæðir eru einnig í boði.
Þetta færir hugann að því, hvert hlutverk Íbúðalánasjóðs á vegum hins opinbera á að vera.
Eitt vandamál hefur blasað við í nokkurn tíma. Það eru erfiðleikar ungs fólks við að fjármagna fyrstu íbúðarkaup, t.d. að loknu háskóla- eða iðnnámi. Það tekur fólk langan tíma að safna nægilega miklu eigin fé til þess að geta fengið lánafyrirgreiðslu, sé miðað við hefðbundin neysluviðmið og meðaltekjur. Í mörgum tilfellum er fólk að fá peninga frá fólki sem það þekkir eða tengist til þess að geta fengið lán frá bankanum fyrir íbúðarkaupum. Sumir geta það hins vegar ekki. Það fólk lendir í vandræðum.
Vandinn snýr að eiginfjárframlagi
Dæmi: Ungt par sem kemur úr háskóla- eða iðnnámi, með eitt barn, á erfitt með að safna fyrir útborgun í húsnæði, og á einnig í erfiðleikum með að koma sér með góðu móti fyrir á leigumarkaði. Framboð á honum er takmarkað, ekki síst á ákveðnum svæðum á höfuðborgarsvæðinu, og erfitt að finna stöðuga langtímaleigu. Innviðir leigumarkaðar á Íslandi eru verri en víða annars staðar. Fyrir íbúð sem kostar 25 milljónir þarf unga parið að leggja fram 3,75 milljónir í eigið fé til þessa að geta fengið lán, standist það greiðslumat. Þetta fé eiga margir ekki til, nema þeir sem geta fengið fé frá fólki sem það þekkir eða tengist.
Þessi staða býður upp á stéttaskipt þjóðfélag. Fátt leiðist mér meira en slíkt, og finnst mér það líka draga úr þeim góðu gildum í samfélögum, að hver sé sinnar gæfu smiður og eigi að komast áfram á eigin verðleikum, með stuðningi velferðarkerfis sem er opið öllum. Þessi staða á íbúðalánamarkaði, gerir fólki erfitt um vik í að koma stöðugleika undir heimilislífið, sem síðan gerir framgang á öðrum vígstöðum, svo sem í námi og starfi, erfiðari.
Einangra hlutverkið við raunverulegt félagslegt hlutverk
Ég hef velt fyrir mér hver gæti verið lausnin á þessari stöðu, og legg hér fram hugmynd sem mætti ræða eins og aðrar. Við á Kjarnanum höfum skrifað mikið um fasteignamarkaðinn alveg frá því að Kjarninn varð til, fyrir tæpum tveimur árum, og þá ekki síst um þetta ójafnvægi sem er á markaðnum, þegar kemur að innkomu ungs fólks á hann. Við höfum heyrt þessar óvissuraddir um erfiðleika við að fjármagna kaup víða, og fólk stendur einfaldlega frammi fyrir næstum óviðráðanlegum vanda, í mörgum tilvikum. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi eftir hrun fjármálakerfisins, en í stuðningsaðgerðum stjórnvalda hefur verið einblínt öðru fremur á þá sem eru með lán áhvílandi á fasteignum sínum.
Nokkur atriði eru nefnd hér til lausnar á þessu vandamáli sem að framan er rakið:
- Íbúðalánasjóður hefur í dag ekkert hlutverk sem aðrar lánastofnanir eru ekki að leysa. Raunar hafa Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn gefið sterklega til kynna, að ekkert annað sé í stöðunni en að leggja hann niður í núverandi mynd eða gjörbreyta hlutverki hans. Lánin yrðu þá færð annað, til dæmis með því að bjóða bönkunum eignasafnið. Það yrði jafnvel selt hæstbjóðanda. Hvernig sem það verður gert, þá er aðkallandi að leysa úr stöðunni sem upp er komin. Íbúðalánasjóður býður mun verri þjónustu en bankarnir þegar kemur að íbúðalánum. Þeir bjóða lægri vexti, fjölbreyttari vörur (verðtryggð, óverðtryggð og blönduð lán) og neytendur velja ekki Íbúðalánasjóð til að fá fjármagn til að kaupa húsnæði, nema í algjörum undantekningatilvikum.
- Í staðinn kæmi nýr lánasjóður, sem ég kalla Íbúðalánasjóð 2.0. Hann hefði það hlutverk eitt, að lána stuðningslán til kaupa á fyrstu eign, brúa bilið á fasteignamarkaði sem mörgum reynist ómögulegt að brúa. Lán sjóðsins yrðu semsagt viðbótarlán, ofan á lán bankanna.
- Reglur sjóðsins yrðu þær, að hann mætti aðeins lána með forgangsveði (svipað og hússjóðsskuldir eru. Þessi lán yrðu á undan húsnæðislánum bankanna í veðröðinni) og hámarkslán, samtals með bankaláni, yrði 25 milljónir. Lánað yrði að hámarki upp að 93 prósent veðhlutfalli (samanlagt lán banka og Íbúðalánasjóðs 2.0). Stuðningslánið yrði til 10 ára, verðtryggt eða óverðtryggt (val), standist lántakendur strangt greiðslumat. Kaupendur fyrstu eignar þyrftu að koma fram með sjö prósent af kaupverði (Gæti verið 10 prósent, eða fimm prósent, en er sjö prósent í þessu dæmi).
- Sjóðurinn yrðu fjármagnaður á markaði, þar sem einkafjárfestar legðu sjóðnum til fé, t.d. lífeyrissjóðir, fagfjárfestar og eftir atvikum aðrir fjárfestar. Ávöxtunin yrði fremur lág (Það er, vextir á lánunum yrðu eins lágir og hægt er að komast upp með), en traust, í ljósi forgangsveðsins. Það yrði sem sagt forgangsveð að eign sem yrði margfalt verðhærri en lánið. Til dæmis forgangsveð upp á tvær milljónir þar sem eignin er 25 milljóna virði, og áhvílandi lán banka 20 milljónir. Helsta „söluvaran“ fyrir fjárfesta sem legðu sjóðnum til fé; langtímaeign, með traust veð að baki, en hófstillta eða lága ávöxtun. Ríkisábyrgð yrði ekki nauðsynleg á sjóðnum, heldur yrði þetta fyrirkomulag látið duga (nema að annað yrði ákveðið sérstaklega). Sjóðurinn væri þannig vettvangur, þar sem fé er fært frá þeim sem þurfa að ávaxta fé sitt, til heiðarlegs fólks sem stendur í skilum og ræður við að greiða af lánum.
- Með þessu væri Íbúðalánasjóður kominn alveg út úr samkeppnisumhverfinu sem hann er í í dag, og með skýrt afmarkað félagslegt hlutverk við að styðja ungt fólk til kaupa á fyrstu eign. Annað hlutverk hefði Íbúðalánasjóður 2.0 á vegum ríkisins ekki.
- Ef við tökum aftur dæmið af unga parinu sem vill kaupa fasteign á 25 milljónir, þá liti dæmið svona út:
Banki lánar 21,25 milljón að hámarki (85 prósent) og síðan Íbúðalánasjóður 2.0 tvær milljónir. Útaf stendur 1,75 milljónir sem unga parið þarf að reiða fram, svo það geti fengið lánafyrirgreiðslu. Það er mun skaplegra heldur en 3,75 milljónir. Leiga á markaði er oft mun hærri en sem nemur greiðslubyrði lána sem hvíla á fasteign. Því er sparnaðarsöfnun erfið á leigumarkaðnum, og tekur langan tíma, eða er í versta falli engin. Greiðslubyrðin miðað við þetta dæmi, er líklega töluvert undir leiguverði sambærilegrar eignar, þó vitaskuld fari það eftir vöxtum og verðbólgu á hverjum tíma og umsaminni leigu. Stjórnmálamenn geta svo tekið ákvörðun um það hvort þessi sjóður væri að styðja beint við þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign, t.d. með niðurgreiddum vaxtakjörum. Slíkt fyrirkomulag þekkist með aðrar tegundir lána, t.d. námslán. - Spurningin sem vaknar hjá einhverjum, er kannski; geta bankarnir ekki haft þetta hlutverk? Ég held að það geti verið skynsamlegt að hafa þetta lánahlutverk, það er stuðningslán til kaupa á fyrstu eign, aðskilið frá hefðbundnum fasteignalánum bankanna. Með því að setja stuðningslán til fyrstu íbúðarkaupenda undir hatt ríkisrekins Íbúðalánasjóðs, á þessum forsendum sem að framan er lýst (forgangsveð og strangt greiðslumat, samkomulag við bankanna?) væri verið að skilgreina skýrt hvert hlutverk ríkisins gæti verið á íbúðalánamarkaði. Það er hjálpa þeim hópi, sem ekki getur uppfyllt eiginfjárkröfu bankanna með hjálp fólks sem hann þekkir eða tengist en er með greiðslugetu til að ráða við afborgarnir lána, til þess að stíga inn á fasteignamarkað.
Margt bendir til þess að ójafnvægi sé á fasteignamarkaðnum, sem ýtir undir stéttaskiptingu, eins og að undan er rakið. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri, því fer raunar fjarri. Sambærileg vandamál hafa verið rædd mikið í kjölfar fjármálakreppunnar, ekki síst í Evrópu og Bandaríkjunum. Meðalaldur fyrstu íbúðarkaupenda hefur farið hratt hækkandi og er kominn upp undir þrítugt hér á landi, eins og þekkist í Bretlandi, samkvæmt úttekt Magnúsar Árna Skúlasonar á fasteignamarkaðnum. Í ljósi þess að innviðir leigumarkaðarins eru um margt óþroskaðir hér á landi, gæti þurft að gefa stuðningi við fyrstu íbúðarkaupendur meiri gaum en gert hefur verið.