Þótt tvö og hálft ár sé liðið frá því að EFTA dómstóllinn hafnaði öllum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesave-málinu svokallaða, að morgni dags þann 28. janúar 2013, er málið fjarri því gleymt.
Á vorþingi Alþingis, sem hófst í janúar og lauk í síðustu viku, kom Icesave til að mynda fyrir í 38 ræðum þingmanna. Tilefnið var allskonar. Stundum var það í umræðum um störf þingsins, stundum í umræðum um Evrópumál, stundum í umræðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Icesave kom meira að segja fram í umræðum um rammaáætlun og makrílfrumvarpið.
Það kemur kannski ekki að öllu leyti á óvart en Framsóknarmenn eru þeir sem tala mest allra um Icesave. Orðið kom fyrir í alls ellefu ræðum þeirra á þinginu sem var að ljúka. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður flokksins, notaði til dæmis tækifærið þegar nákvæmlega tvö ár voru liðin frá niðurstöðu EFTA dómstólsins og lét eftirfarandi orð falla: „Virðulegi forseti. Hér fer kurr um stjórnarandstöðuna. Ég vil byrja á því að óska þjóðinni til hamingju með það að í dag eru tvö ár síðan íslenska þjóðin sigraði Icesave-málið og sigraði ESA og Evrópusambandið fyrir dómstólum, þvert á það sem allir héldu fram að væri mögulegt.“
Þorsteinn Sæmundsson, flokksbróðir Ásmundar Einars, sagði sama dag: „Já, það er full ástæða til að taka undir hamingjuóskir til Íslendinga með þennan bjarta og fallega dag sem markar tveggja ára afmæli fullnaðarsigurs í Icesave-málinu. Ég veit ekki af hverju menn eru svona „sart“ yfir þessu, það er eins og hér sé einhver undirliggjandi óánægja með þetta sem ég trúi ekki að sé til.“
Eftirminnilegasta Icesave-ræðan kom hins vegar undir lok þingsins, þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra þrumaði eftirfarandi yfir þingheimi: „Það skiptir greinilega máli hver það er og hverjir eru við borðið. Það er alveg augljóst. Og svo tala menn um kjarkleysi hér. Hver er það sem þorði að standa uppi í hárinu á kröfuhöfum? Ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hver er það sem þorði að taka á Icesave. Ekki hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og hver þorði að lækka lán heimilanna? Ekki Samfylkingin og ekki Vinstri græn. Hvar er kjarkurinn? Hræsni stjórnarandstöðunnar er það sem stendur upp úr og hefur alltaf gert“.
Sá sem minntist oftast allra á Icesave í ræðum sínum á yfirstandandi þingi var hins vegar Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, eða alls sex sinnum.
Þá kom Icesave fyrir í alls þremur umsögnum umsögnun til þingnefnda. Í öllum tilvikunum komu umsagnirnar þar sem rætt var um Icesave frá InDefence-hópnum.
Og frá áramótum hefur Icesave komið 168 sinnum fyrir í íslenskum fjölmiðlum.
Í bakherberginu hefur því verið bent á að þótt langt sé um liðið frá því að lokaniðurstaða fékkst í Icesave-málið þá lifir það samt sem áður enn góðu lífi sem pólitísk vopn í íslenskri stjórnmálaumræðu.