Mikil vinna hefur verið lögð í nýtt skipulag fyrir höfuðborgarsvæðið er ber yfirskriftina Höfuðborgarsvæðið 2040. Sjö sveitarfélög mynda höfuðborgarsvæðið samkvæmt skipulaginu og er eitt þeirra Kjósarhreppur.
Lykilatriði í stefnunni er að vöxtur svæðisins verði hagkvæmur og ekki verði gengið á umhverfisgæði þeirra sem þar búa fyrir.
Í skýrslunni er talað um að gera umhverfið þannig úr garði að það auki vellíðan, bæti andlega heilsu og hvetji til hreyfingar. Umhverfi er talið heilsuvænt ef það t.d. tryggir hreint vatn og loft, er almennt ómengað og kveiki jákvæðar hugsanir og tilfinningar. Talað er um gott ræktarland sem verðmæti og að mikilvægt sé að öflugur landbúnaður sé innan 50 km frá markaði.
Stefna Reykjavíkurborgar í uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga brýtur öll þessi fögru fyrirheit. Þaðan berst nú þegar mikil mengun, allt í senn loft,- sjón- og hljóðmengun, og svæðið hefur mjög neikvæð áhrif á andlega heilsu margra Kjósverja.
Risavaxin kísilverksmiðja
Reykjavíkurborg, í gegnum eignararhald sitt í Faxaflóahöfnum, keppist nú við að bæta við allskyns mengandi iðnaðarstarfsemi á Grundartanga, meðal annars risavaxinni kísilverksmiðju. Kappsemin er slík að tvö fyrirtæki sem komu fyrir skömmu á svæðið fengu að starfa án starfsleyfis í drjúgan tíma og ýmsar ívilnanir eru í boði fyrir fyrirhugaða kísilverksmiðju. Firðinum er gjörsamlega fórnað fyrir iðnað og það í boði Reykvíkinga, þó mig gruni að fæstir Reykvíkingar viti að ábyrgðin er á þeirra herðum.
Landbúnaður í Hvalfirði á einnig undir högg að sækja. Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað bændur hér eru orðnir þreyttir á spurningunni „Er ekki örugglega í lagi með þetta kjöt? - nær mengunin nokkuð hingað?“
Íbúar í Kjósinni eru líka orðnir vanir spurningum á borð við „Sjást verksmiðjurnar frá þér?“ og „Heyrir þú niðinn frá svæðinu?“ Því jú, niðurinn, ljósadýrðin og mengunarskýin eru orðin hluti af lífinu hér í Kjósinni. Þessu er best lýst sem einu stóru fokkmerki yfir fjörðinn.
Jarðir næst verksmiðjunum eru óbyggilegar og verðlitlar. Örlög þeirra er að Faxaflóahafnir (Reykvíkingar) kaupa löndin fyrir slikk og nota þau undir meiri iðnað, stækka iðnaðarsvæðið. Þannig er svæðið sem fer undir nýja kísilverksmiðju tilkomið. Og sá nýi iðnaður nær þannig með tíð og tíma að gera næstu landareignir í kringum sig verðlausar, og svo koll af kolli þar til iðnaðurinn stendur uppi sem algjör sigurvegari í firðinum og einhver frekur kall verður voða montinn.
Hvað er verið að fela?
Mengunarmælingar sem stóriðjan sjálf sér um að framkvæma eru svo takmarkaðar og tilgangslausar að maður getur ekki orðið annað en tortrygginn. Af hverju má ekki setja upp fleiri mæla? Af hverju má ekki mæla mengun yfir vetrartímann? Hvað er verið að fela? Ef fyrirtækin hafa góða samvisku ætti það að vera kappsmál fyrir þau að hafa góðar og nákvæmar mælingar, þannig ynnu þau traust nágranna sinna. En nei, það ku vera svo dýrt og flókið. Svo kemur eldgos á Íslandi og svona mælar spretta upp um allar sveitir, meira að segja hægt að fylgjast með þeim í rauntíma á netinu. Af hverju er ekki svona mælanet í kringum stóriðjuna þar sem hægt er að sjá niðurstöður í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar eða Veðurstofunnar?
Það er ekki einu sinni til viðbragðsáætlun ef mengunarslys á sér stað á Grundartanga. En þetta eru víst allt svo fín fyrirtæki að það verður ekkert slys. Ég meina, Norðurál sponserar jú yngri flokka Skagamanna í knattspyrnu. Þau börn fá að hlaupa sem auglýsing fyrir þetta góða fyrirtæki. Nema hvað, það verða slys, alvarleg slys. Nú síðast árið 2006 og í kjölfarið veiktust grasbítar á svæðinu. Slysið var tilkynnt Umhverfisstofnun en íbúar fengu ekkert að vita fyrr en löngu seinna. Á meðan smjöttuðu leikskólabörn í Hvalfjarðarsveit á sandi úr sandkassanum.
Uppbyggingu ferðamannaiðnaðs fórnað
Ferðamannaiðnaðurinn er sú atvinnugrein sem er í mestum vexti á Íslandi. Það er mikil fjölgun á ferðamönnum á hverju ári sem leggja leið sína til Íslands. Ferðamannaiðnaðurinn er börnum okkar miklu verðmætari en stóriðja og sala á ódýrri orku til mengandi verksmiðja. Fólk kemur hingað meira að segja til þess að upplifa ósnortna náttúru. Uppbygging Reykjavíkurborgar á mengandi iðnaði á Grundartanga drepur öll sóknarfæri á ferðamannaiðnaði við Hvalfjörð. Hvað ætti slagorðið fyrir svæðið að vera? „Mengun í fallegri náttúru“? Þó að Faxaflóahöfnum þyki Grundartangi eitt besta hafnarsvæðið á Stór-Reykjavíkursvæðinu myndi þeim aldrei detta í hug að bjóða skemmtiferðaskipum að leggjast til hafnar þar.
Til að kóróna allt þá þarf að leggja nýjar háspennulínur í Kjós til að þjónusta orkuþörf Grundartangasvæðisins. Ha? Nei, sko, þetta er undir því yfirskini að auka þurfi afhendingaröryggi á raforku fyrir landsmenn, en allir vita að þetta er bara til að tryggja stóriðjunni djúsinn sinn. Kjósin verður bara að þola það að vera ekki bara með mengandi iðnaðarpoll hinum megin við fjörðinn heldur líka möstur sem bera ódýra orku til svæðisins. Kjósverjar mega svo tilbiðja möstrin án endurgjalds.
Ég hvet Kjósarhrepp til að samþykkja ekki svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Það er í hrópandi ósamræmi við uppbyggingu Reykjavíkurborgar á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Kjósverjar eiga sama rétt á mengunarlausu umhverfi og aðrir á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
Höfundur er tónlistarmaður og jarðfræðingur.