Með auknu aðgengi að vörum á netinu geta neytendur nálgast upplýsingar um vörur og verð án mikillar fyrirhafnar né tilkostnaðar. Verðmæling á netinu býður enn frekar upp á að borin séu saman verð milli landa. Ein stærsta húsgagnaverslun á landinu er IKEA. Á netinu er hægt að sjá vöruverð á heimasíðum keðjunnar í hinum ýmsu löndum og þannig má bera saman verð t.d. á Íslandi og í Danmörku.
IKEA hér og þar
Höfundur hefur safnað vöruverðum IKEA hér á landi sem og í öðrum löndum í rúmlega fjóra mánuði með það að markmiði að reikna út og fylgjast með verðmuninum. Verðmunurinn er reiknaður út frá þeim vörum sem eru til á hverjum tíma og síðan er heildarverð þessara vara borið saman og mismunurinn reiknaður.
Meðfylgjandi mynd sýnir verðmuninn á milli landa, borið saman við hvert land fyrir sig. Ef línan hækkar þá er verðmunurinn að aukast, hvort svo sem hækkun hérlendis eða lækkun erlendis er um að kenna og öfugt ef línan lækkar. Gengi krónu gagnvart heimamyntum þessara landa hefur líka áhrif; ef krónan styrkist gagnavart annarri mynt þá eykst verðmunurinn og ef hún veikist þá minnkar hann.
Skýr verðmunur
Dæmi þess mátti sjá þegar norska krónan veiktist í lok síðasta árs, sem þýddi að krónan styrktist gagnvart henni, þá jókst verðmunurinn (bláa línan) af því að norska IKEA verslunin náði ekki að hækka verðin í samræmi við veikingu norsku krónunnar. Gögnin sýna, að samanborið við Norðurlöndin þá er verðmunurinn 20-30% þ.e. hér er dýrara en á hinum Norðurlöndunum þremur. Ekki er höfundi kunnugt um ástæður þessa en líklega eru ástæðurnar margar; smærri eining hérlendis, vörugjöld, flutningskostnaður, kostnaður sem hlýst af notkun íslensku krónunnar, minni samkeppni í minna hagkerfi o.s.frv.
Hafa verður í huga að virðisaukaskattur í löndunum þremur er ekki sá sami og hér, mismunurinn er 0,5 - 1,5 % á tímabilinu. Einnig ber að nefna, að þar sem IKEA selur fleira en húsgögn, svo sem sjónvörp og fleiri vörur sem mögulega bera vörugjöld þá er samanburðurinn væntanlega óréttlátur út frá sýn seljandans, auk þess sem samanburðartímabilið er stutt. Virðisaukaskattur hér á landi var, eins og kunnugt er, lækkaður úr 25,5% í 24% um áramótin sem og vörugjöld á raftæki afnumin. Þótti höfundi áhugavert að sjá, að þegar útsölur hófust hér á landi í byrjun ársins, þá minnkaði verðmunur við útlönd um tíu prósentustig.
Meiri útsöluáhrif hér
Þetta sýnir að útsöluáhrif voru meiri hér á landi samanborið við verðþróunina erlendis. Þess má þó geta að þrátt fyrir útsöluna á Íslandi þá var verðið samt sem áður lægra á hinum Norðurlöndunum. Húsgögn og heimilisbúnaður hafa um 4,6% vægi í vísitölu neysluverðs. Tuttugu prósent lækkun á verði þessa flokks myndi þýða lækkun vísitölunnar upp á 0,9% sem aftur myndi lækka verðtryggð lán og auka kaupmátt um sömu upphæð.
Höfundur er hagfræðingur.