Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, reynir nú að hanna atburðarás til að bjarga pólitísku lífi sínu. Ástæða þess að Illugi er í vanda er sú hann þáði persónulegan fjárstuðning frá Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni fyrirtækisins Orku Energy, á árinu 2014. Sá persónulegi fjárstuðningur fólst í því að Haukur keypti íbúð Illuga af honum í fyrrasumar og leigði honum hana síðan aftur. Illugi var þegar orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina, en það þurfti hann að gera eftir að „nokkur fjárhagsleg áföll“ höfðu dunið á honum. Þetta þykir flestum sýna að Illugi sé fjárhagslega háður Hauki.
Það sem gerir þau tengsl tortryggileg er að Illugi tók umræddan Hauk, núverandi leigusala sinn, með í opinbera heimsókn til Kína í mars 2015, en Orka Energy stundar umfangsmikla jarðvarmastarfsemi þar í landi. Allir sem gert hafa viðskipti í Kína vita hversu margar dyr það getur opnað að sýna fram á tengsl við ráðamenn, á borð við ráðherra landa. Og Illugi, sem hefur ekkert með orkumál að gera í ríkisstjórninni, liggur undir ámæli um að hafa opnað slíkar dyr fyrir Hauk og fyrirtæki hans í Kína.
Illugi hefur reynt að stýra umræðunni um þessi mál, fyrst með því að sýna ætlað frumkvæði að tjá sig um það í hádegisfréttum RÚV 26. apríl síðastliðinn. Mjög skömmu síðar kom reyndar í ljós að fjölmiðillinn Stundin hafði árangurslaust reynt að fá upplýsingar um tengsl hans við Orku Energy í aðdraganda þess frumkvæðis.
Næst reyndi Illugi að þegja af sér óþægindin. Hann svaraði ekki fyrirspurnum fjölda fjölmiðla mánuðum saman og neitaði að mæta í ljósvakaviðtöl nema að þeir sem tóku viðtölin samþykktu að ræða ekki Orku Energy. Því miður urðu einhverjir fjölmiðlamenn við þeirri fráleitu undanþágubeiðni.
Í þessari viku var þó orðið ljóst að Illugi kæmist ekki upp með að þegja málið af sér. Þá valdi hann að fara í einkaviðtal við Fréttablaðið, sem tekið verður af blaðamönnum sem hafa ekkert fjallað um samskipti hans við Orku Energy. Fréttamaður RÚV gerði hins vegar vel í dag og sat fyrir Illuga í þinginu til að spyrja hann út í málið. Í klaufalegum tilsvörum ráðherrans kom skýrt fram hver rauði þráðurinn í nýrri hönnun á atburðarrásinni á að vera.
Þar notaði Illugi það sem rök fyrir fyrirgreiðslu sinni gagnvart Orku Energy að hann hafi ekki gert neitt annað en það sem ráðherrar í síðustu ríkisstjórn hefðu gert. Bæði Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir hefðu verið viðstödd undirritanir samninga á vegum fyrirtækisins. Munurinn er hins vegar augljóslega sá að Illugi er fjárhagslega háður stjórnarformanni viðkomandi fyrirtækis, á meðan að enginn ráðherra fyrri ríkisstjórnar var það.
Illugi ætlar líka að halda sig við að ekkert óeðlilegt hafi verið við það að orkuútrásarfyrirtæki með enga starfsemi á Íslandi hefði verið í föruneyti mennta- og menningarmálaráðherra í Kínaferð hans í mars. Það rökstyður hann meðal annars með því að fulltrúar frá háskólum landsins hefðu verið með í för.
Og rúsínan í pylsuendanum er sú að Illugi ætlar að þræta fyrir að hann sé fjárhagslega háður Hauki Harðarsyni með vísun í reglur GRECO, ríkjahóps geng spillingu sem starfar innan Evrópuráðsins. GRECO hefur reyndar árum saman lagt til að tryggt verði að lagaákvæði um mútur og áhrifakaup í almennum hegningarlögum næðu einnig til þingmanna á Íslandi. Stjórnvöld hér hafa ekki orðið við þessum tilmælum.
Krafl Illuga nú minnir óneitanlega á tilraunir samflokkskonu hans og fyrrum ráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þegar hún reyndi að hanna atburðarás sér í hag í lekamálinu. Sú hönnun Hönnu Birnu fólst í að ákveða skýra útgáfu af sínum sannleik í málinu, velja valda fjölmiðla til að koma honum á framfæri, sýna svo heilaga vandlætingu gagnvart þeim sem dirfðust að efast um hana og djöflaðist loks í öllum málsaðilum bakvið tjöldin til að reyna að fá sínu fram. Strategía Hönnu Birnu gekk hins vegar ekki upp líkt og allir vita og á endanum þurfti hún að segja af sér embætti.
Ólíklegt verður að teljast að Illuga farnist betur í sinni baráttu gegn því sem blasir svo augljóslega við öllum sem vilja sjá. Að það sé fjarri því hafið yfir allan grun að ráðherrann hafi veitt manni, sem bjargaði honum úr mikilli fjárhagslegri klípu, fyrirgreiðslu til að liðka fyrir viðskiptum í Kína.