Kennarastofur geta verið undarleg fyrirbæri. Þar gilda gjarnan skrítnar samskiptareglur. Þar finnst oft karlahorn þar sem þeir fáu karlmenn sem kenna við skólann rotta sig saman og tippa eða éta harðfisk. Í hópnum eru gjarnan einn eða tveir alfakarlar, sem kennt hafa lengi og halda utan um hópinn. Alfakarlarnir hrista yfirleitt hausinn kæruleysislega þegar hávaðinn í samræðum kvennanna (sem eru yfirgnæfandi meirihluti) truflar samverustund karlanna. Borðaröð kvennanna getur í meðförum þeirra fengið nafn eins og hænsaprikið eða hávaðakórinn.
Ég var einu sinni ungur kennari á svona kennarastofu. Ég man mér þóttu þessu fyrirsjáanlegu félagslegu hlutverk kjánaleg. Sjálfur sótti ég í það að sitja í einu horninu við gluggann þar sem aðrir starfsmenn en kennarar sátu. Það voru bara konur. Þær sáu m.a. um að koma börnum út úr skólanum, gæta þeirra í frímínútum og skúra og gera hreint. Það var gott að sitja og spjalla við þær. Þarna voru margar eldri konur, fordómalausar og yndislegar, sem sögðu hinum unga kennara ótrúlega margt sem hann ekki vissi. Ein kona sem þá var á sjötugsaldri varð mikill vinur minn og hélst sú vinátta þar til hún dó fyrir örfáum árum.
Ég fékk notið þeirrar gæfu að búa til skiptis í foreldrahúsum og hjá ömmu og afa þegar ég var ungur og í námi. Það var mér afar verðmætt. Ég fékk að upplifa tvö tímaskeið á sama tíma. Á sumrin ræktaði amma garðinn sinn og afi smíðaði bátalíkön og burstabæi í litla, bláa smíðaskúrnum bak við hús. Það var stöðugur gestagangur. Amma steikti lummur úr afgöngum og einn af öðrum birtust gestirnir inni á gólfi. Flestir gengu inn án þess að dingla. Nema einn gamall, staurblindur séntilmaður sem alltaf rambaði þó á réttar dyr. Hann dinglaði. Gekk svo inn og heilsaði fallega á meðan hann tók hatt sinn og staf og lagði frá sér. Nokkrir gestanna voru færeyskir. Þeir voru fjörugastir. Aðrir voru ættingjar eða vinir frá fjarlægum landshornum. Stundum komu fötluð ungmenni í heimsókn. Amma hafði unnið á heimilum fatlaðra eins lengi og ég mundi – síðan fór hún á kvöldin og skúraði banka.
Það var því kannski ekki tilviljun að ég kunni hvorki við mig í tipp(a)horninu né á háværa hænsnaprikinu. Eðlilegasta og þægilegasta samveran var við litlu borðin við gluggann.
Það er almennt reynsla mín af vinnu með öðru fólki að virðing er eitthvað sem þú ávinnur þér. Sumir falla í áliti með tímanum, aðrir vaxa. Persónuleikarnir eru ólíkir. Ég hef hinsvegar aldrei orðið var við það að virðingu sé dreift jafnt yfir stóra hópa fólks. Í öllum stéttum er flekkótt hjörð. Ég held að fullyrða megi með vissu að ekkert samband sé milli virðingar og launa. Ég hef sjaldan hitt manneskju sem stritar á lélegum launum og það skilið. Og ég hef oft hitt hálaunamenn sem hafa lítið sem ekkert til að bera.
Virðing er undirstaða góðrar ímyndar. Maður getur hamast við að búa til glansmyndir hægri vinstri með allnokkrum árangri en sú ímynd getur auðveldlega hrunið til grunna hafi hún ekki fótfestu í raunverulegri virðingu. Í pistli, sem ímyndarsmiður Kennarsambandsins, skrifar mér til höfuðs er honum tíðrætt um mikilvægi ímyndar. Kennarar verði að hafa þá ímynd í þjóðfélaginu sem skili sér í hærri launum. Slíkt sé sívakandi grundvallarmál.
Ég ætla að leyfa mér að fullyrða á móti að engin raunveruleg tengsl séu milli launa og ímyndar (nema ímynd sé skilgreind sem sú hugmynd sem fólk hefur um það hvaða laun tilteknir hópar hafi eða eigi að hafa – en það er ónýt hringskilgreining sem má henda). Ef við röðum starfstéttum eftir þeirri ímynd sem þær hafa í huga almennings eru engar líkur á því að sama röðun lýsi launum. Margir af best launuðu hópunum eru þeir sem hafa versta ímynd – og margir af þeim verst launuðu hafa besta.
Tökum endurskoðendur sem dæmi. Hvaða ímynd hefur endurskoðandi? Er líklegt að mörg íslensk börn sitji á sunnudögum með ímyndaða ársreikninga í endurskoðendaleik? Er líklegt að almenningur telji endurskoðendur svo gríðarlega mikilvægt hjól í vél atvinnulífsins að það réttlæti himinhá laun? Myndi almenningur streyma út á torg í mótmælaskyni og forundran ef lög væru sett á verkföll endurskoðenda?
Varla.
Tökum síðan tónlistarmenn í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hvaða ímynd hafa þeir? Hvað er það við stórkostlega tónlistarmenn sem fær okkur hin til að klæða okkur í okkar besta púss til að eyða kvöldstund með þeim? Þegar ég skrifa þessi orð situr fjögurra ára sonur minn við rauða plasthljómborðið sitt og hamrar á það stórbrotna hljómkviðu. Eftir skóla í dag munu þúsundir barna trítla í píanó- eða ukuleletíma. Í kvöld munu litlir fingur spila skala fram og til baka foreldrum sínum til yndisblandinnar skapraunar. Þau sem ná lengst í þeirri íþrótt að spila á hljóðfæri munu mynda sinfóníuhljómsveit framtíðar. Þar sem þau mega búast við því að vera langt innan við hálfdrættingar í launum á við endurskoðendur.
Sinfóníutónleikar eru raunar frábær birtingarmynd launa og ímyndar í íslensku samfélagi. Fólkið sem situr úti í sal og klappar af hrifningu er upp til hópa metið til miklu hærri launa en þeir sem sitja og standa á sviðinu.
Ætli nokkur hugmynd sé verr ígrunduð en sú að tekjuhópar grundvallist á ímynd?
Almannatengill kennara segir í pistlinum sínum að það sé aldrei lát á ímyndapælingum forystu kennarasambandsins. Í Kennarahúsinu drekki menn í sig ímyndina með kaffinu á hverjum degi. Það sé langhlaup að skapa kennurum ímynd sem skili sér í háum launum. Hann bendir á lækna. Segir að þeir hafi fengið stórkostlegar launahækkanir vegna þess að þeir hafi ráðið almannatengil útrásarvíkinganna sem sannfært hafi þjóðina um að læknar þyrftu há laun.
Útrásaralmannatengillinn, sem reyndi að sannfæra þjóðina um að mjólk væri góð rétt áður en hún hætti að drekka hana og lagði mikið á sig til að gæta þess að allir teldu Kaupþingsmenn væru gúddí gæjar áður en þeir voru lokaðir inni á Kvíabryggju, gerði örugglega eitthvað fyrir lækna í þeirra átökum. Það lýsir samt hyldjúpu skilningsleysi ef fólk heldur í alvöru að munurinn á læknum í verkfalli og láglaunafólki sem búast má við lagasetningu á hverri stundu, sé sú ímynd sem samfélagið hefur um hlutfallslegt virði þeirra í launum.
Almenningur er frá sér numinn af hneykslan yfir kjörum þess fólks sem látið er skúra læknastofurnar eftir að læknarnir ljúka sér af. Í huga okkar flestra virðist einkavæðing á þrifum í heilbrigðiskerfinu hafa búið til einhverskonar nútímalegt þrælahald þar sem ósýnilegir og ímyndarlausir milliliðir draga til sín ágóðann af vinnuhörku annarra. Þá er almennt viðtekin skoðun í samfélaginu að það eigi enginn að vera á launum sem eru umtalsvert lægri en það sem kostar að lifa.
Stærstur hluti þjóðarinnar styður heilshugar kröfur þeirra sem nú berjast fyrir hækkun lágmarkslauna. Og ef hægt væri að hrinda þeim í framkvæmd með þannig hætti að hækkanir væru ekki étnar upp á stuttum tíma væri stuðningurinn næstum algjör.
Það er nefnilega ansi gróið í almenning að tekjum sé ekki réttilega skipt í landinu og að lífskjör séu ekki sanngjörn spegilmynd af auðlegðinni.
Læknaverkfallinu lauk ekki með samningum vegna þess að almenningur knúði á um það. Læknar unnu þessa orrustu (stríðið er enn í fullum gangi) vegna þess að þeir starfa á alþjóðlegum vinnumarkaði og höfðu raunverulegt val um að fara annað. Læknar gátu sagt upp. Margir gerðu það meira að segja. Lagasetning eða önnur ofbeldisfull leið til að ljúka verkfalli þeirra hefði á tiltölulega stuttum tíma rústað heilbrigðiskerfið. Læknar hefðu upp til hópa ekki látið bjóða sér það og farið.
Það er nefnilega svo að það er ekki ímynd sem ræður því hvaða laun stéttir hafa. Það er samningsaðstaða. Kjarabarátta kennara ætti að snúast um að bæta samningsaðstöðuna í stað þess að í alvöru sé daðrað við þá hugmynd að hver einasti kennari borgi rúmlega tíu þúsund kall á ári í að reyna að skapa sér betri ímynd (eins og útrásaralmannatengillinn vill).
Það er ýmislegt við framgang kennaraforystunnar sem bendir til þess að hún sé afar ónæm á það hvernig maður skapar sér sterkari samningsaðstöðu. Verkföll eru vond. Uppsagnir eru verstar.
Almannatengill kennara nefndi í pistlinum sínum nýju kjarasamningana. Hann sagði að þeir hlytu að vera góðir enda hefði „yfirgnæfandi meirihluti kennara“ samþykkt þá. Hlutfall þeirra kennara sem samþykkti samninginn er 42%-65% eftir því hvernig er talið (þetta voru flóknir samningar og þátttaka í kosningu var léleg). Það skiptir í raun ekki máli hvora töluna maður velur, yfirgnæfandi meirihluti er varla réttmæt lýsing. Hvað þá að það sanni nokkuð um það að þetta séu góðir samningar. Þetta er kannski lítið dæmi um muninn á ímynd og verund. Nokkuð sem kennaraforystan hefur verið dugleg að sulla í síðustu misserin. Það skiptir öllu máli að orða hlutina þannig að rétt ímynd verði til. Það getur skilað réttum áhrifum að kalla tæpan meirihluta yfirgnæfandi.
Ég skal nefna eitt lítið dæmi um það hvernig hinir nýju samningar kennara skemmdu samningsstöðu þeirra í stað þess að styrkja hana. Þannig var að í gildi var samningur sem leyfði sveitarfélögum að ná fram nær öllum markmiðum sem þau lögðu á borðið í síðustu samningalotu. Sveitarfélögin glímdu bara við einn vanda. Til þess að auka sveigjanleika og hámarka skilvirkni í nýtingu kennaranna þurftu þau að semja við kennarahóp hvers skóla til árs í einu. Það þurfti að leggja fram hugmyndir að framkvæmd og kennarahópurinn þurfti að samþykkja þær. Þeir kennarar sem vildu standa fyrir utan slíkan samning máttu það. Til þess kom þó sjaldnast. Kennarahópar og stjórnendur náðu yfirleitt samkomulagi. Að ári þurfti að semja aftur.
Í nýja samningnum er þetta breytt. Nú var samið í eitt skipti fyrir öll. Sveigjanleikinn helgast nú af einhverskonar baunatalningu á störfum hvers einasta kennara. Hver kennari þarf að setjast niður með sínum stjórnanda og þar er ákveðið hvað hann eigi að gera.
Mig minnir að það hafi verið Filipus Makedóníukonungur sem fyrstur notaði frasann divide et impera, að deila og drottna. Hugmyndin hefur síðan gengið aftur í margvíslegum myndum í gegnum tíðina. Machiavelli var t.d. aðdáandi hennar. Hugmyndin er í grófum dráttum sú að fátt veiki samningsstöðu andstæðings meira en að hann sé brotinn upp í smærri einingar.
Kennaraforystan hefur í raun þvegið hendur sínar af megninu af hagsmunagæslu kennara næstu misserin. Þeir skulu sjá um það sjálfir. Hver um sig.
Þetta mun ekki aðeins veikja samningsstöðu þeirra heldur hefur sveitarfélögunum hér tekist að koma í framkvæmd kerfi þar sem kennarar munu berjast innbyrðis um gæði. Takist einum að landa góðum samningi er afleiðingin undantekningalítið sú að aðrir fá þyngri byrðar.
Kennarar eru í áberandi verri samningsstöðu nú en þeir voru. Hagsmunagæsla þeirra er nú eins sundruð og hugsast getur.
Sumir fagna reyndar mjög.
Það er nefnilega þannig að lúrði fleira undir yfirborðinu á kennarastofunni gömlu sem ég lýsti í upphafi. Það var ekki bara svo að karlarnir tippuðu og konurnar prjónuði. Karlarnir höfðu líka tilhneigingu til að hafa hærri laun en konurnar.
Miðað við hvað karlar eru fáir í kennarastétt er hlutfall þeirra í hópi stjórnenda, millistjórnenda, verkefnastjóra og öðrum stöðum sem veita hærri laun ótrúlega hátt. Það er ekki vegna þess að þeir séu hæfari en konurnar nema síður sé. Ég held það stafi af tvennu. Annarsvegar eru þeir líklegri til að fara fram á hærri laun og hinsvegar er samningsstaða þeirra sterkari. Þeir eru færri og því fylgir að þeir eru örlítið eftirsóttari að jafnaði.
Það er dálítið sorglegt að kennaraforystan hafi horft á kjarabaráttu lækna og dregið af henni þann lærdóm að málið væri að fá ímyndarráð hjá almannatengli útrásarinnar. Það fer í flokk með pistlinum hans Jóns Kalmanns um að vinstri menn ættu að draga þann lærdóm af slímsetu Sjálfstæðisflokks í Stjórnarráðinu að Davíð Oddsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann vitnaði í góða dátann Svejk og sagði: „Agi verður að vera í herbúðunum.“ Þegar bent er á lausnina og sagt: „sjáið“ munu alltaf einhverjir horfa á puttann.
Hvað geta kennarar þá gert til að bæta stöðu sína?
Þegar horft er til skamms tíma hlýtur slagurinn að snúast um að taktíkin um að deila og drottna gangi ekki upp. Það er forgangsverkefni núna, ekki tal um ímynd eða hundrað manna bloggher.
Til lengri tíma ættu íslenskir kennarar að mínu mati að grípa hið augjósa tækifæri. Hlutverk kennarans er að breytast í stafrænum heimi. Það blasir við okkur ný veröld. Íslenskir kennarar ættu að verða sérfræðingar í að efla þá færni sem nemendur þurfa að hafa til að bera á 21. öldinni. Þeir ættu að koma sér fyrir í broddi skólaþróunar. Og þeir ættu að læra erlend tungumál. Atvinnumarkaður íslenskra kennara þarf að ná út fyrir Ísland. Skólakerfi um allan heim eru svifasein. Við getum verið snögg. Íslenskir kennarar eiga að vera í fremstu röð og svo eiga þeir bara að fara ef kjörin eru ekki sambærileg við kjör annarra þjóða.
Útrásaralmannatengillinn orðaði raunar svipaða hugmynd í erindinu sínu. Hann vill líka að íslenskir kennarar taki sér broddstöðu og verði samkeppnishæfir. Vandinn er að hann horfir til ímyndar þeirra. Og ef kennarar vilja sterka ímynd hér á landi þá er auðveldast að taka sér stöðu með þeim sem telja að mikilvægustu verkefni skólakerfisins séu að efla hefðbundið læsi og ná betri árangri á Pisa.
Það er bara alls ekki málið.
Kennarar þurfa að fara þangað sem fæstir geta ímyndað sér ennþá.