Í magnaðri bók Edward Robb Ellis um sögu New York borgar (The Epic of New York City: A Narrative History) er rakin saga fórna og áreksturs menningarstrauma, sem á sér ekki margar fyrirmyndr annars staðar. Hver dramatíski atburðurinn á fætur öðrum saumar saman ótrúlega sögu borgarsamfélags, þar sem mestu öfgar stéttaskiptingar rúmast á pínulitlu útnesi, Manhattan. Þaðan flæða straumur og stefnur um allan heim, og hafa gert allt frá því að borgin varð til.
Eitt atriði sem lesa má um í bókinni hefur skipt mestu máli í hagsögu borgarinnar. Það eru innviðafjárfestingar. Í nær öllum tilfellum þegar halla tekur undan fæti í New York bregðast stjórnvöld við með innviðafjárfestingum. Þær eru sífellt í undirbúningi, og þannig hefur það alltaf verið. Þegar réttur tími þykir til eru sameiginlegir sjóðir borgarbúa notaðir til þess að styrkja innviði borgarinnar.
Saga innviðafjárfestinga
Þannig var það með bæði Brooklyn brúna (1883) og Manhattan brúna (1901). Þetta voru umdeildar framkvæmdir sem kostuðu gríðarlega fjármuni og mannslíf sömuleiðis. Uppbygging neðanjarðarlestarkerfisins, sem tekið var í notkun 1904, þótti verkfræðilegt afrek og þykir raunar enn. Yfir þúsund kílómetrar af lestarteinum eru skipulagðir í þaula og kerfið mörgum öðrum borgum heimsins fyrirmynd. Gríðarlega umfangsmiklar innviðafjárfestingar borgaryfirvalda og stjórnvalda í Bandaríkjunum, í Kreppunni miklu, eftir 1930, má einnig nefna í þessu samhengi.
Það sama má segja um uppbyggingu almenningsgarða og skipulagsheildir í hverfum. Repúblikaninn Rudy Guiliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, beitti sér fyrir betri verndun og uppbyggingu almenningsgarða í borginni, meðal annars með afþreyingarátaki um gjörvalla borg á árunum 1994 til 1997, sem í dag þykir einkar vel heppnað. Leikvellir, íþróttamannvirki, tengingar með hlaupa- og hjólastígum. Fyrir öllu þessu var hugsað og voru aðgerðirnar hluti af átaksverkefni sem miðaði að því að gera borgina öruggari fyrir allar stéttir og skemmtilegri. Eftir að hafa lesið um sögu Giuliani (The Prince of the City: Giuliani, New York and Genius of American Life) þá sér maður vel, hversu magnaður stjórnandi hann var, og þrátt fyrir oft umdeilda framkomu þá hlustaði hann á ólík sjónarmið og reyndi að finna skynsama lausn. Þegar að þeim kom var hann ekki fastur í kreddu-trú eða frösum, heldur horfði á praktískar lausnir.
Á innan við 25 árum hefur borgin umturnast, hvað glæpi varðar, og öruggi borgarbúa aukist. Árið 1991 voru framin 2.245 morð í New York, en í fyrra voru þau innan við tíu prósent af þeim fjölda, svo dæmi sé nefnt. Heildrænt skipulag innviðafjárfestinga borgarinnar, yfir langt tímabil, á sinn þátt í þessu.
Samkeppnishæfni og innviðir
Þrátt fyrir að hafa farið upp með hægri vængnum á sínum pólitíska ferli, þá festist Giuliani ekki í kreddum og einfaldri lífssýn. Hann hikaði ekki við að nýta sameiginlega sjóði, þegar þess þurfti, og beitti sér oft fyrir frumlegum lausnum á flóknum vandamálum. Uppbyggingin á opinberum svæðum, almenningsgörðum og afþreyingarsvæðum, til þess að vinna gegn hárri glæpatíðni og félagslegum erfiðleikum, er dæmi um þetta.
Innviðafjárfestingar sem styrkja til framtíðar
Á Íslandi eru innviðafjárfestingar oft ræddar með undarlegum formerkjum, að því er mér finnst.
Fámenn þjóð í stóru landi, sem á mikið undir nýtingu náttúruauðlinda (sjávarútvegi, ferðaþjónustu, orkugeira), hlýtur að þurfa að þaulhugsa innviðafjárfestingar sínar ofan í minnstu smáatriði og hvernig þær geta styrkt hagkerfið og mannlífið til lengdar. Alveg eins og 110 ára gamalt lestarkerfi New York borgar gerir enn í dag.
Í ljósi þess hvernig íslenska hagkerfið hefur breyst á undanförnum 10 árum, með gríðarlegri uppbyggingu ferðaþjónustu, þá virðist hrópandi þörf fyrir ítarlega langtímasýn í innviðafjárfestingum. Það á við um hið óhagkvæma höfuðborgarsvæði ekki síst, þar sem bílaborgarbragur er á mikilvægasta þjónustusvæði landsins og útþenslustefna hefur einkennt skipulagsákvarðanir um lengi.
Mannbætandi skipulag á því svæði, sem ýtir betur undir nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, gæti skipt meira máli fyrir landið en virðist í fyrstu, enda hefur sýnt sig að blómstrandi borgarsamfélög leysa ósýnilega krafta úr læðingi og styrkja heildina. Efling fjórðu stoðarinnar undir hagkerfið, alþjóða- og nýsköpunargeirans, hefur verið mikið rædd á Íslandi á undanförnum árum, en of lítið hefur verið gert af því að setja það í samhengi við innviðafjárfestingar hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Til lengdar mun hagkerfið ekki geta vaxið á grundvelli auðlindanna og því skiptir miklu máli að hugsa um þessi mál með framsýnum hætti.
Reynslan sýnir að hjá hinu opinbera geta áhrifamestu ákvarðanirnir verið teknar og full ástæða til þess að velta þar við öllum steinum. Ekki vantar að hugmyndir hafi komið fram um meiri samvinnu, eins og skýrsla breskra sérfræðinga frá árinu 1997, um mikilvægi þess að vera með eina skipulagsheild á höfuðborgarsvæðinu, er til vitnis um. Meira og nánara samstarf háskóla, atvinnulífs og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu virðist aðkallandi þegar kemur að því að örva alþjóða- og nýsköpunargeirann. Eflaust mætti skoða sviðsmyndir erlendis frá, eins og New York, sem dæmi um áhrifamiklar jákvæðar fyrirmyndar.
Þörf fyri stórauknar innviðafjárfestingar?
Innviðafjárfestingar á landinu öllu hafa til þessa oft miðast við forgangsröðun í vegaáætlun, sé mið tekið af opinberri umræðu. Hröð uppbygging ferðaþjónustunnar kallar á gjörbreytta sýn á verkefnið, og ekki ólíklegt að fimmföldun á fjölda erlendra ferðamanna á einungis rúmlega áratug, ætti að vera nægileg forsenda til þess að endurhugsa innviðafjárfestingar og stórauka þær. Jarðagangagerð er einn hluti af þessari heildarmynd en mun víðtækari fjárfestingar í þjóðgörðum landsins en hafa tíðkast til þessa virðast óhjákvæmilegar. Erfitt er að áætla upphæðir, án þess að skoða frumgögn, en það ætti samt að gefa vísbendingu um mikilvægi ferðaþjónustunnar að erlendir ferðamenn skilja eftir mörg hundruð milljarða í landinu á hverju ári og samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal þeirra, er það íslensk náttúra sem kveikir áhuga þeirra á landinu. Eins og staðan er núna eru þjóðgarðarnir á Íslandi órafjarri því sem þekkist víða erlendis, þegar kemur að því að vernda umhverfið, tryggja öryggi og auka tekjur af ferðaþjónustu.
Styðst við staf
Hin ósýnlega hönd markaðarins mun ekki koma að uppbyggingu þjóðgarða eða taka ákvörðun um innviðafjárfestingar, nema þá sem hrein viðbót. Margt í sögunni sýnir einnig að ósýnilega höndin styðst oft við staf sameiginlegra sjóða, eins og borgarstjóratíð hægri mannsins Giuliani er til vitnis um, og forsetatíð fyrrum yfirmanns hans, Ronalds Reagans, sömuleiðis. Í mögnuðum mikilvægum ræðum sínum, ekki síst á erlendum vettvangi, talaði sá síðarnefndi ekki síst um mikilvægi frelsis og síðan einnig um að ríkið væri „vandamálið“. Samt hefur enginn forseti í sögu Bandaríkjanna beðið þingið oftar um að hækka skuldaþak hins sameiginlega sjóðs landsmanna, en það var gert sautján sinnum í hans tíð.
Hin heilbrigða skynsemi er oft vandstillt á pólitíska mælikvarða til hægri og vinstri og það sama á við um innviðafjárfestingarnar. Ef þær eru vel undirbúnar og hugsaðar geta þær verið mikilvægt skref fram á við, óháð því hvernig þær eru mældar pólitískt eða úr hvaða flokki sá leiðtogi er sem markar stefnuna.