Upplýsingarnar sem nú liggja fyrir um stöðu flóttamanna frá Sýrlandi og stríðshrjáðum svæðum í nágrenni eru sláandi. Vandinn er yfirþyrmandi og óhjákvæmilegt að öll þróuð ríki heimsins, ekki síst þau sem búa við velmegun, endurmeti stöðu sína og leggi fram hjálparhönd.
Sænski prófessorinn Hans Rosling, sem kom til Íslands fyrr á árinu, fjallar um stöðu mála með áhrifamiklu myndbandi sem nálgast má á internetinu. Þar staðan útskýrð, og í því sést meðal annars að aðeins lítið brot vandans er sýnilegt í Evrópuríkjum, meðal annars með miklum straumi fólks yfir Miðjarðarhafið.
https://www.youtube.com/watch?v=0_QrIapiNOw
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er í hópi þeirra stjórnmálamanna sem hefur sagt að vandinn sem snýr að þessu fólki sem nú flýr hörmungar í milljónatali sé langsamlega stærsta mál sem hún hefur staðið frammi fyrir sem þjóðarleiðtogi í Evrópu. Öll önnur vandamál eru smánarvandamál sem varla tekur því að eyða orku í.
Eftir að hafa lesið nýjustu skýrslu frá teymi Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með gangi mála í Sýrlandi, þá getur maður ekki annað en þrýst á yfirvöld um að bregðast tafarlaust við stöðu mála og hjálpa til.
Milljónir manna þjást nú alla daga, meðal annars vegna þess að stjórnmálamenn og alþjóðastofnanir hafa ekki komið upp nægilega skilvirkri keðju neyðar- og hjálparstarfs. Í henni skiptir mestu að allir séu tilbúnir að leggja eitthvað af mörkum, eins hratt og kostur er. Í þessu tilviki, þurfa allir að leggja mjög mikið af mörkum, annars munu milljónir manna drepast.
Eins og oft þegar að kemur að svona stórum vandamálum, þá er oft erfitt að koma fram með lausnir eða mæla með réttu hversu stór hjálparhöndin getur verið hjá hverri þjóð.
Það ætti að gefa einhverja vísbendingu um hvernig þetta mál horfir við alþjóðasamfélaginuu í augnablikinu að þjóðir heimsins, meðal annars í Evrópu, hafa verið hvattar til þess að setja upp flóttamannabúðir vítt og breitt til þess að koma fólki í skjól. Þetta er ekki aðeins við landamæri, heldur einnig á opnum svæðum inn í borgum og bæjum.
Spurningin er; Hvað getur smáríki eins og Íslands gert? Það er vissulega til eftirbreytni að taka móti 50 flóttamönnum, eins og til stendur, en í ljósi umfangs vandans ætti talan að vera margfalt hærri. Líklega væri fimm þúsund ágætis byrjun. Nóg er til af peningum, svo mikið er víst (og meira á leiðinni), og aðstaðan er líka fyrir hendi. Það þarf bara að forgangsraða rétt að þessu sinni, og láta öll léttvæg dægurmál liggja óhreyfð um stund.
Í þessu vandamáli verður að hugsa út fyrir boxið, og það er vel hægt. Reykjavíkurborg gæti til dæmis lagt fram meira og minna öll íþróttahús borgarinnar, umbreytt þeim í flóttamannabúðir, með sturtu- og hreinlætisaðstöðu. Skólabörn þyrftu að finna sér annað svæði á meðan og íþróttafélögin sömuleiðis. Það eru ekki nein vandamál og alls ekki afsökun fyrir því að grípa ekki til aðgerða sem þessara. Þetta er einnig í takt við það sem þjóðir í Evrópu eru hvattar til að gera; nýta pláss sem er til staðar og koma upp lágmarksaðstöðu og skjóli.
Viðlíka hugmyndir mætti nefna, þar sem einkafyrirtæki, sem eru í aðstöðu til, geta lagt sitt af mörkum með aðstöðu, atvinnu eða peningaframlagi. Sértækar lausnir þar sem frumkvæði þeirra sem geta lagt til hjálparhönd er alltaf ómetanlegt á svona stundum. Þetta gæti verið tímabundin aðstoð, neyðaraðstoð.
Hvernig sem á málið er litið er mikilvægt að strax verði horfið frá því að hjálpa einungis örfáum tugum og framlag Íslands verði endurhugsað frá grunni, og margfaldað að umfangi.