Ísland er gott land. Sú setning mætti kannski heyrast oftar, í daglegu þrasi. En samt má ekki gleyma því að gagnrýnin umræða er beinlínis til þess að bæta og styrkja. Gera gott betra.
Innviðirnir á Íslandi eru sterkir, enda eru þeir að miklu leyti bundnir við náttúrunnar gæði. Án þess að eyða fleiri orðum í það, að þessu sinni, þá eru deilur um hvernig eigi að haga auðlindanýtingu á Íslandi, almennt, viðvarandi og langt í að það sjái fyrir endann á þeim. Það skiptir miklu máli, að stjórnmálaflokkar hafa ekki komið sér saman um sameiginlega sýn á þau mál, eins og þekkist víða um lönd, meðal annars í Noregi.
En það sem eðlilegt er að velta fyrir sér, sérstaklega varðandi tímann frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008, er hvernig mannauður íslensku þjóðarinnar er að þróast. Hér býr vel menntað fólk, Íslendingum fjölgar jafnt og þétt og aldurssamsetningin er góð, sé horft til margra annarra þjóða. Frá því árið 2008 hefur Íslendingum fjölgað um tæplega fimmtán þúsund.
En hagvöxtur framtíðarinnar, og atvinnutækifærin, munu ekki byggja á sterkum innviðum auðlindanna nema að litlu leyti. Ástæðan er sú að auðlindirnar eru takmarkaðar, öll eggin geta ekki verið í auðlindakörfunni. Vöxturinn og tækifærin, verða bundin við alþjóðavæddan viðskiptaheim þar sem rannsóknar- og þekkingarstarf, ekki síst í ýmsum tæknigreinum, er grunnurinn.
Því miður hefur ekki verið fylgst náið með því, hvernig mannauður þjóðarinnar hefur þróast frá hruni fjármálakerfisins. Þjóðskrá heldur ekki nákvæmlega utan um þessa þróun, og ekki heldur Hagstofa Íslands. Það er að segja, hvaða menntun og reynslu fólk hefur sem flutt hefur frá landinu, og síðan hvaða menntun og reynslu fólkið hefur sem flutt hefur til landsins. Margt bendir til þess að mörg láglaunastörf, meðal annars tengd ferðaþjónustu, hafi orðið til, á meðan betur borguð sérhæfð störf, til dæmis fyrir iðn- og tæknimenntað fólk, hafa farið úr landi.
Þetta eru ekki góð skipti, en vonandi ber okkur gæfa til þess að leggjast yfir það, hvernig best er að efla þekkingariðnaðinn á Íslandi, svo að hann geti orðið stoðin undir hagkerfinu í framtíðinni, með auðlindadrifinni atvinnustarfsemi. Lítil þjóð, sem aðeins telur 329.740 þarf á því að halda, að móta skýra stefnu um hvernig Ísland getur orðið enn betra. Mannauðsstjórnunin er þar lykilatriði.