Á Íslandi býr fólk sem er fátækt, sem á meðal annars í vandræðum með að útvega sér mat og hefur ekki efni á almennilegu húsnæði. Skýrsla eftir skýrslu sýnir fram á að börn þessa hóps líða skort og er vegna fjárhagslegrar stöðu foreldra sinna meinað að taka þátt í samfélaginu. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur geti mótmælt þessari fullyrðingu. Ég held líka að allir séu sammála að þetta þurfi að laga.
Allt of lág laun
Fólk sem fer daglega í vinnu og vinnur mörg af erfiðustu og vanþakklátustu störfunum í samfélaginu er fátækt því lægstu laun eru svo lág að þau duga ekki fyrir lágmarks framfærslu. Öryrkjar og eldri borgarar eru margir í sömu stöðu. Í staðinn fyrir að finna varanlega lausn á vandanum höfum við síðustu áratugi reynt að stoppa upp í kerfi sem ekki virkar. Kerfi tekjutenginga, barnabóta, vaxtabóta, húsaleigubóta, örorkubóta og atvinnuleysisbóta. Allar þessar bætur eiga það sameiginlegt að vera of lágar.
Kerfið treystir nú á að félagasamtök komi þeim verst stöddu til aðstoðar með matargjöfum og annarri ölmusu. Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum stjórnmálamanni finnist í lagi að hópur öryrkja og eldri borgara þurfi reglulega að heimsækja kaffistofu Samhjálpar til að fá að borða því bætur þeirra duga ekki fyrir mat. Ég get heldur ekki ímyndað mér að nokkur vinnuveitandi vilji horfa á eftir starfsmanni sínum í lok vinnudags ganga niður til Fjölskylduhjálpar Íslands til að standa þar í biðröð eftir matargjöfum því launin duga einfaldlega ekki til lágmarks framfærslu.
Engu að síður virðist okkur ómögulegt að koma í veg fyrir að þetta gerist. Þegar kemur að bráðnauðsynlegri hækkun lægstu launa virðist enginn hafa nokkrar hugmyndir eða ráð sem duga. Fullyrt er að allt fari á hliðina ef þeir sem minnst bera úr býtum fái nauðsynlegar kjarabætur. Það ógni stöðugleika, ýfi upp verðbólgubálið og eyðileggi rekstrargrundvöll fyrirtækja. Nú er svo komið að ég hef það sterklega á tilfinningunni að réttur fyrirtækja til að lifa af og skila hagnaði sé sterkari en réttur starfsmanna þeirra til að lifa sómasamlegu lífi. Kerfið hyglir fyrirtækjunum. Til fjandans með fólkið.
Finnum lausnir
En þannig hugsar auðvitað enginn og þannig vill enginn hafa það. Nú þurfum við að finna einhver ráð. Við stöndum á tímamótum þar sem allir kjarasamningar landsins eru lausir, eða við það að losna, á sama tíma og hér er komið efnahagslegt góðæri (allavega í orði). Nú þurfum við að hugsa út fyrir kassann og færa ábyrgðina af verkafólki, öryrkjum og eldri borgurum yfir á stjórnmálamenn og stjórnendur fyrirtækja. Við þurfum að gera nýja þjóðarsátt um að fyrirtæki og stjórnvöld sýni það aðhald sem almenningur hefur þurft að sýna síðustu áratugi. Bindum meðal annars hendur stjórnenda fyrirtækja og stjórnmálamanna svo þeir hækki ekki eigin laun né velti kostnaðarhækkunum hugsunarlaust út í verðlagið. Í svona tvö til fjögur ár.
Nýtum tímann til að átta okkur á hvað það kostar að lifa sómasamlegu lífi á Íslandi, hækkum lægstu laun og allar bætur upp í þá upphæð. Í kjölfarið má sleppa stjórnmálamönnum lausum á ný. Þeir geta þá veitt atkvæði út á að hafa bætt þjóðfélagið í stað þess að veiðarnar snúist um misgáfulegar framkvæmdir á kostnað skattgreiðenda. Leyfum þá stjórnendum fyrirtækja að hámarka arð eigenda og hluthafa vitandi að það er ekki gert á kostnað lífsgæða starfsmanna. Um það held ég að allir geti verið sammála.
Höfundur er félagsfræðingur.